Fleiri konur en karlar kusu í síðustu sveitarstjórnarkosningum og alþingiskosningum
Í nýjum Hagtíðindum sem Hagstofa Íslands gefur út er yfirlit yfir kosningaþátttöku kvenna en ritið er tekið saman í tilefni af því að 100 ár eru liðin frá því að konur fengu kosningarétt og kjörgengi til Alþingis.
Fram kemur á vef Hagstofunnar að þátttaka kvenna í kosningum hafi verið lítil í byrjun en breyst fljótt og hafi konur tekið virkan þátt í almennum kosningum hér á landi í gegnum tíðina. Lengi hafi kosningaþátttaka þeirra verið minni en karla en jafnast smám saman og verið ívið meiri en þátttaka karla síðustu áratugina. Í síðustu alþingiskosningum árið 2013 var kosningaþátttaka kvenna 81,9% og karla 81,1%.
Sé litið á kosningaþátttöku í sveitarstjórnarkosningum 2014 (sjá vef Hagstofunnar) má sjá að fleiri konur en karlar nýttu kosningarétt sinn.