Hoppa yfir valmynd
10. október 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Foreldrar sem deila ekki lögheimili með barni sínu upplifa mismunun

Ari Klængur Jónsson, nýdoktor við Félagsvísindasvið Háskóla Íslands, kynnir helstu niðurstöður rannsóknar á stöðu og aðstæðum foreldra sem deila ekki lögheimili með barni. - mynd

Á opnum morgunverðarfundi Velferðarvaktarinnar í gær kom fram að samkvæmt nýrri rannsókn upplifði stór hluti þátttakenda, eða 59%, mismunun vegna þess að þeir áttu barn sem ekki deildu með þeim lögheimili. Mikið var um að foreldrar upplifðu mismunun vegna þess að bætur og greiðslur sem fylgja barninu færu til lögheimilisforeldris og sömuleiðis nefndi stór hluti svarenda að öllum upplýsingum um barnið væri beint til lögheimilisforeldris. 

Þá kom fram að hvað löggjöf varðar þá erum við Íslendingar eftirbátar annarra Norðurlanda og þá sérlega hvað varðar fyrirkomulag meðlagsgreiðslna.

Endurskoðun barnalaga

Á fundinum kom Guðrún Hafsteinsdóttir, dómsmálaráðherra, því á framfæri að nú stæði yfir heildarendurskoðun barnalaga. Rannsóknin og upplýsingar sem fram komu á fundinum myndu nýtast vel í þeirri vinnu.

Þá kom fram hjá Guðmundi Inga Guðbrandssyni, félags- og vinnumarkaðsráðherra, að mikilvægt væri að lög og regluverk endurspeglaði þá þróun sem hefur orðið þar sem foreldrar deila umgengni við börn sín og forsjá sín á milli í meiri mæli nú en nokkurn tímann fyrr.

Málefni hópsins lítið rannsökuð hingað til

Á morgunverðarfundinum var kynnt rannsókn á stöðu og aðstæðum foreldra sem deila ekki lögheimili með barni. Málefni þessa hóps hafa lítið verið könnuð og rannsökuð hér á landi. Velferðarvaktin og félags- og vinnumarkaðsráðuneytið fólu Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands að vinna rannsóknina en markmið hennar var að kortleggja og meta aðstæður foreldra með tilliti til fjárhags, líðanar, umgengi við barn og fleiri þátta.

Rannsóknin var unnin í samstarfi við Foreldrajafnrétti, sem veitti aðstoð við undirbúning og vinnslu rannsóknarinnar. Í undirbúningsferlinu var einnig leitað til embættis umboðsmanns barna, PEPP-Samtaka fólks í fátækt, Félagsráðgjafafélags Íslands og fleiri sérfræðinga. 

Frekari upplýsingar um frummælendur og þátttakendur í pallborði fundarins má finna hér.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, Guðrún Hafsteinsdóttir, Brjánn Jónsson, Gyða Hjartardóttir og Margrét Steinarsdóttir í pallborði.

Steinunn Bergmann, félagsráðgjafi og formaður Félagsráðgjafafélags Íslands, fjallaði á morgunverðarfundinum um megineinkenni íslenska kerfisins í sögulegu og alþjóðlegu samhengi.

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta