Norrænt menningarsamstarf og mikilvægi tungumála
Á fundinum var einnig rætt um málskilning á Norðurlöndum og Volt menningar- og tungumálaáætlun ráðherranefndarinnar fyrir börn og ungmenni. Volt-áætlunin styrkir verkefni þar sem listræn sköpun og þátttaka ungs fólks er í fyrirrúmi en markmið þess er að auka skilning ungmenna á tungumálum og menningu Norðurlanda.
„Mikilvægi tungumála er rauður þráður í formennskuáætlun okkar og það sköpuðust góðar umræður á fundinum. Við vinnum að því nú að efla íslenskuna og það var fróðlegt að heyra um viðhorf, áskoranir og áherslur hinna ráðherranna þegar kemur að móðurmálum og gagnkvæmum málskilningi á Norðurlöndunum. Ég tel mikilvægt að við vinnum vel saman að þeim málum og fundir sem þessir eru kærkomið tækifæri til þess,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.
Umræða um alþjóðlegt menningarsamstarf og sameiginlega menningarkynningu landanna, Nordic Bridges, sem fara mun fram í Kanada árið 2021 var einnig fyrirferðamikil á fundinum. Markmiðið með sameiginlegri menningarkynningu Norðurlandanna er meðal annars að efla samskipti norrænna listamanna, kynna norræna menningu og skapa aukin tækifæri fyrir þátttakendur vestanhafs.
Ráðherrarnir sammæltust einnig um yfirlýsingu vegna samnings Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (e. UNESCO) frá árinu 1970 um ólöglega verslun með menningarverðmæti. Í yfirlýsingunni er vísað til hlutverks menningararfs í þróun öruggra og friðsælla samfélaga í heiminum og mikilvægi þess að koma í veg fyrir ólöglega verslun með menningarverðmæti.
Norræna ráðherranefndin og Norðurlandaráð eru farvegur opinbers samstarfs Norðurlandanna. Ráðherrar Norðurlandanna funda reglulega á vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar en aðild að samstarfinu eiga Danmörk, Finnland, Ísland, Noregur og Svíþjóð auk Álandseyja, Færeyja og Grænlands.
Á mynd: Jenis av Rana frá Færeyjum, Trine Skei Grande frá Noregi, Ane Lone Bagger frá Grænlandi, Rasmus Prehn frá Danmörku, Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra, Hanne Kosonen frá Finnlandi, Tony Asumaa frá Álandseyjum og Helene Öberg frá Svíþjóð skipa norræna ráðherranefnd um menningarmál.