Mikilvægur hvati fyrir nýsköpun og þróun í mannvirkjagerð
- Askur er nýr styrktarsjóður fyrir rannsóknir í mannvirkjagerð
- Sjóðurinn mun ýta undir nýsköpun og þróun innan byggingargeirans
- Opnað var í fyrsta sinn fyrir umsóknir í vikunni
- Umsóknarfrestur er til 9. desember
Stofnaður hefur verið nýr sjóður til að efla rannsóknir og nýsköpun í mannvirkjagerð á Íslandi. Opnað var fyrir umsóknir í fyrsta sinn í vikunni og hægt er að sækja um styrki fyrir rannsóknar- eða þróunarverkefni á sviði mannvirkjamála. Sjóðurinn, sem hefur fengið nafnið Askur, er fjármagnaður sameiginlega af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og félagsmálaráðuneytinu en Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) annast stjórn og daglega umsýslu sjóðsins.
Hlutverk Asks er að veita styrki til mannvirkjarannsókna með áherslu á aukna þekkingu, umbætur og nýsköpun til að mæta samfélagslegum áskorunum á sviði mannvirkjagerðar. Við úthlutun sjóðsins fyrir árið 2021 er lögð áhersla á: raka- og mygluskemmdir, byggingarefni, orkunýtingu og losun gróðurhúsalofttegunda, tækninýjungar í mannvirkjagerð sem auka framleiðni og draga úr umhverfisáhrifum og gæði og ólík form íbúðarhúsnæðis .
Með starfsemi sjóðsins fær HMS mikilvæga yfirsýn yfir rannsóknarumhverfi iðnaðarins hverju sinni. Á sama tíma er hægt að beina rannsóknum að þeim þáttum sem nauðsynlegt er að þróa betur eins og t.d. raka- og mygluskemmdum eða vistvænni mannvirkjagerð. Í framhaldinu stefnir HMS að því að mynda vísindaráð í samstarfi við háskólasamfélagið og iðnaðinn, sem mun marka stefnu fyrir mannvirkjarannsóknir til næstu ára.
„Með stofnun sjóðsins hvetjum við til rannsókna á þessu sviði, meðal annars þeirra rannsókna sem hafa samfélagslega skírskotun. Málefnið er mikilvægt og því þurfum við að sameina krafta ólíkra aðila, svo sem háskóla, stofnana, fyrirtækja og félagasamtaka til að ná árangri í rannsóknum og nýsköpun á sviði mannvirkja,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
„Ég er mjög ánægður með að Askur styrktarsjóður sé nú orðinn að veruleika. Það er mikil þörf á því að efla rannsóknir og nýsköpun í mannvirkjagerð hér á landi og þar mun Askur koma sterkur inn og leika lykilhlutverk,“ segir Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.
„Með starfsemi Asks fáum við enn fremur gullið tækifæri til að byggja miðlægan grunn þaðan sem þeirri þekkingu sem ávinnst með verkefnunum er miðlað. Það yrði gert í samhengi við útgáfu Rb-blaða, sem nú er í höndum HMS, ásamt öðru fræðsluefni stofnunarinnar á sviði mannvirkjagerðar. Með þessu móti náum við að stuðla að betri, öruggari og vistvænum byggingum til framtíðar,“ segir Hermann Jónasson, forstjóri HMS um verkefnið.
------
Skila þarf inn rafrænum umsóknum í gegnum http://www.hms.is/askur en á þeirri vefsíðu má jafnframt finna nánari upplýsingar um úthlutunina og starfsemi Asks. Umsóknarfrestur er til og með 9. desember 2021.