Tillögur um eflingu fjarheilbrigðisþjónustu
Starfshópur sem Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra fól að gera tillögu að stefnu og aðgerðaáætlun um fjarheilbrigðisþjónustu telur að með eflingu hennar geti orðið varanleg breyting á heilbrigðiskerfinu þar sem aðgengi, öryggi og skilvirkni heilbrigðisþjónustunnar verður bætt.
Heilbrigðisráðherra skipaði starfshópinn í nóvember 2015 í samræmi við ályktun Alþingis þess efnis og fól Eyjólfi Guðmundsyndi, rektor Háskólans á Akureyri, að vera formaður hópsins.
Í skýrslu hópsins til ráðherra segir meðal annars:
„Starfshópur um eflingu fjarheilbrigðisþjónustu á Íslandi sér það sem meginmarkmið að jafna aðgengi almennings að almennri og sérhæfðri heilbrigðisþjónustu með innleiðingu fjarheilbrigðisþjónustu og síðar rafrænni miðlun heilbrigðisþjónustu, samkvæmt heildstæðri stefnu. Jafnframt því mun rafræn miðlun heilbrigðisþjónustu auka aðgengi heilbrigðisstarfsfólks að sérfræðiþekkingu og þar með gagnkvæmri faglegri ráðgjöf, samráði og samstarfi og með þeim hætti auðvelda teymisvinnu innan heilbrigðisþjónustunnar. Með því er unnt að veita bestu mögulegu þjónustu á skilvirkari hátt til þeirra sem ekki búa nærri stærri þjónustukjörnum og jafnframt nýta upplýsingatæknina og stafræna miðlun fyrir heilbrigðisþjónustu í heild sinni. Fjarheilbrigðisþjónusta nýtist vel til þess að koma almennri og sérhæfðri þjónustu til sjúklinga sem búa í dreifðari byggðum, en sama tækni og verkferlar myndu nýtast til að miðla heilbrigðisþjónustu á hagkvæman hátt, án tillits til eiginlegra fjarlægða, á milli heilbrigðisþjónustunnar og sjúklinga.“
Auk Eyjólfs áttu sæti í starfshópnum Guðbjartur Ólafsson heimilislæknir, tilnefndur af Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Auðbjörg Brynja Bjarnadóttir, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir, tilnefnd af Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Sigurður E. Sigurðsson, framkvæmdastjóri lækninga á Sjúkrahúsinu á Akureyri, tilnefndur af Embætti landlæknis, og Helga Bragadóttir, dósent við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, tilnefnd af Embætti landlæknis. Starfsmaður hópsins var Guðlaug Þóra Stefánsdóttir, verkefnastjóri hjá Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri.
Eftir að ráðherra var skilað skýrslunni hefur verið unnið að því í velferðarráðuneytinu að vinna aðgerðaáætlun ásamt kostnaðarmati um framkvæmd tillagna starfshópsins. Í aðgerðaáætluninni er áhersla einkum lögð á verkefni sem varða auknar samtengingar sjúkraskrárkerfa milli þjónustustiga og stofnana, til dæmis milli sjúkrahúsa, heimahjúkrunar og hjúkrunarheimila og eins er tillaga um tilraunaverkefni um notkun búnaðar við fjarheilbrigðisþjónustu. Áætlaður kostnaður við aðgerðaáætlunina er tæpar 250 milljónir króna á árunum 2017-2020.