Hoppa yfir valmynd
8. júní 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 147/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 147/2017

Fimmtudaginn 8. júní 2017

A
gegn
Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 30. mars 2017, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála afgreiðslu Vinnumálastofnunar vegna umsóknar um húsnæðisbætur.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi sótti um húsnæðisbætur hjá Vinnumálastofnun með umsókn, dags. 19. janúar 2017. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 20. janúar 2017, var kæranda tilkynnt að umsókn hans hefði verið samþykkt og að greiðsla húsnæðisbóta næmi 32.427 kr. á mánuði að teknu tilliti til tekna og eigna heimilismanna í leiguhúsnæði. Við greiðslu húsnæðisbóta 1. mars 2017 hafði sú fjárhæð verið lækkuð í 10.858 kr.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 6. apríl 2017 og óskaði eftir upplýsingum um framangreinda lækkun húsnæðisbóta. Með bréfi, dags. 12. apríl 2017, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 26. apríl 2017, þar sem fram kemur að húsnæðisbætur kæranda hafi verið endurreiknaðar á grundvelli nýrra upplýsinga, sbr. 25. gr. laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 27. apríl 2017, var greinargerðin send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að lækka greiðslu húsnæðisbóta til kæranda.

Í 20. gr. laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur er kveðið á um útreikning húsnæðisbóta. Þar segir að til grundvallar útreikningi húsnæðisbóta hvers mánaðar skuli Vinnumálastofnun leggja 1/12 af áætluðum tekjum og eignum heimilismanna, 18 ára og eldri, á því almanaksári þegar húsnæðisbætur eru greiddar ásamt fjölda heimilismanna og húsnæðiskostnaði, sbr. einnig 16. – 19. gr. Í 2. mgr. 20. gr. kemur fram að Vinnumálastofnun skuli byggja áætlanir sínar samkvæmt 1. mgr. á nýjustu upplýsingum á hverjum tíma, sbr. 14. og 15. gr. laganna. Þá segir í 25. gr. laganna að rétt til húsnæðisbóta megi endurskoða hvenær sem er og endurreikna fjárhæð húsnæðisbóta þannig að húsnæðisbætur verði í samræmi við þær breytingar sem orðið hafa á aðstæðum umsækjanda eða annarra heimilismanna.

Líkt og fram kemur í greinargerð Vinnumálastofnunar voru húsnæðisbætur kæranda endurreiknaðar eftir að kærandi lagði inn kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála. Samkvæmt bréfi til kæranda, dags. 19. apríl 2017, myndaðist inneign að fjárhæð 29.197 kr. eftir endurreikninginn og átti sú fjárhæð að koma til greiðslu 1. maí 2017. Úrskurðarnefndin lítur því svo á að Vinnumálastofnun hafi afturkallað fyrri ákvörðun sína á grundvelli 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í 1. tölul. 25. gr. stjórnsýslulaga er stjórnvaldi veitt heimild til að afturkalla ákvörðun sem tilkynnt hefur verið aðila máls þegar það er ekki til tjóns fyrir aðila. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að lögvarðir hagsmunir kæranda af efnislegri úrlausn málsins séu ekki lengur til staðar. Af þeim sökum verður kærunni vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta