Hoppa yfir valmynd
8. júní 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 130/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 130/2017

Fimmtudaginn 8. júní 2017

A
gegn
Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Með kæru, dags. 22. mars 2017, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 13. janúar 2017, um synjun á umsókn hennar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

I. Málavextir og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 28. nóvember 2016, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í sex mánuði vegna barnsfæðingar þann X 2017. Meðfylgjandi umsókninni var læknisvottorð, dags. 7. nóvember 2016, þar sem kærandi sótti um lengingu fæðingarorlofs vegna veikinda á meðgöngu. Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 12. desember 2016, var kærandi upplýst um að ráða mætti af upplýsingum úr staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra að hún uppfyllti ekki skilyrði 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof þess efnis að hafa verið í minnst 25% starfshlutfalli, samkvæmt 1. mgr. 13. gr. a laganna, síðustu sex mánuði fyrir fæðingardag barns þar sem engar/lágar tekjur væru skráðar á hana í maí, júlí og ágúst 2016. Kæranda var í framhaldinu leiðbeint um hvað teldist til þátttöku á vinnumarkaði samkvæmt 2. mgr. 13. gr. a. laganna og gefinn kostur á að leggja fram gögn því til staðfestingar. Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 13. janúar 2017, var umsókn kæranda synjað.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 28. mars 2017. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð sjóðsins barst með bréfi, dags. 10. apríl 2017, og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 12. apríl 2017, var greinargerðin send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi fer fram á að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Fæðingarorlofssjóði verði gert að taka nýja ákvörðun í málinu á grundvelli laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof og reglugerðar nr. 1218/2008 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Kærandi telur ljóst að sex mánaða tímabil fyrir fæðingardag barns hefjist X 2016 og því beri einungis að líta til tímabilsins frá og með þeim degi til X 2017.

Kærandi tekur fram að hún hafi hætt að vinna í september 2016 samkvæmt læknisráði og fengið greiðslur úr sjúkrasjóði stéttarfélags síns. Fæðingarorlofssjóður hafi þá átt að taka við, eða tveimur mánuðum fyrir áætlaðan fæðingardag. Kærandi bendir á að jafnvel þótt hún hafi haft lágar/engar tekjur á tímabilinu 23. júlí til 1. september 2016 sé skýrt að hún hafi verið launþegi í launalausu leyfi samkvæmt ráðningarsamningi. Slíkt sé fullnægjandi með tilliti til 2. mgr. 13. gr. a laga nr. 95/2000 en í ráðningarsamningi hennar sé sérstaklega kveðið á um möguleg launalaus leyfi vegna erfiðra fjölskylduaðstæðna. Þá bendir kærandi á að með vísan til orðskýringa 7. gr. laganna sé ljóst að hún teljist starfsmaður í skilningi ákvæðisins. Það leiði af ráðningarsamningnum og því að kærandi hafi verið launþegi en hún hafi ekki staðið skil á tryggingagjaldi af reiknuðu endurgjaldi. Af hálfu kæranda sé gagnstæðri túlkun Fæðingarorlofssjóðs á ofangreindum atriðum mótmælt sem rangri.

III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs er vísað til 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof þar sem kveðið sé á um að foreldri öðlist rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns. Til að finna vinnuframlag sjálfstætt starfandi foreldris skuli miða við skil á tryggingagjaldi af reiknuðu endurgjaldi fyrir sama tímabil. Þegar foreldri hefji töku fæðingarorlofs fyrir fæðingardag barns, sbr. 4. mgr. 17. gr., skuli þó miða við þann dag er foreldrið hefji fæðingarorlofið að því er það foreldri varði.

Í 2. mgr. 7. gr. laga nr. 95/2000 komi fram að starfsmaður samkvæmt lögunum sé hver sá sem vinni launuð störf í annarra þjónustu í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði. Í 3. mgr. 7. gr. laganna komi fram að sjálfstætt starfandi einstaklingur sé sá sem starfi við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að honum sé gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi. Í 1. mgr. 13. gr. a laga nr. 95/2000 komi fram að fullt starf starfsmanns miðist við 172 vinnustundir á mánuði, en þó skuli jafnan tekið tillit til fjölda vinnustunda sem samkvæmt kjarasamningi teljist fullt starf. Fullt starf sjálfstætt starfandi einstaklings miðist við að viðkomandi hafi greitt mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi er nemi að lágmarki viðmiðunarfjárhæð Ríkisskattstjóra í viðkomandi starfsgrein. Í 2. mgr. sé síðan talið upp í eftirfarandi fimm stafliðum hvað teljist jafnframt til þátttöku á vinnumarkaði:

a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,

b. sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur, er á biðtíma eftir slíkum bótum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu samkvæmt gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar,

c. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til sjúkratryggingastofnunarinnar samkvæmt lögum um sjúkratryggingar og lögum um slysatryggingar almannatrygginga, eða fær greiðslur úr sjúkrasjóði stéttarfélags enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,

d. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa,

e. sá tími er foreldri fær tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna eða hefði átt rétt á slíkum greiðslum hefði foreldri sótt um þær til Tryggingastofnunar ríkisins.

Í 4. mgr. 17. gr. laga nr. 95/2000 komi fram að sé þungaðri konu nauðsynlegt af heilsufarsástæðum að mati sérfræðilæknis að leggja niður launuð störf eða hætta þátttöku á vinnumarkaði samkvæmt b-lið 2. mgr. 13. gr. a meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns skuli hún eiga rétt á greiðslum í fæðingarorlofi þann tíma en þó aldrei lengur en tvo mánuði. Beri fæðingu að fyrir áætlaðan fæðingardag barns falli heimild til lengingar samkvæmt ákvæðinu niður frá þeim tíma. Áætlaður fæðingardagur barns kæranda hafi verið X 2017 en barnið hafi fæðst X sama ár. Kærandi hafi sótt um lengra fæðingarorlof í tvo mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns samkvæmt 4. mgr. 17. gr. laganna og uppfyllt læknisfræðileg skilyrði ákvæðisins. Ávinnslutímabil kæranda samkvæmt 3. málsl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 sé í samræmi við það frá X til X 2016. Í kæru gæti misskilnings um þetta atriði en þar sé talið að ávinnslutímabil hennar sé frá X 2016 og fram að fæðingardegi barnsins.

Þá komi til skoðunar hvort kærandi teljist vera starfsmaður samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laga nr. 95/2000 eða sjálfstætt starfandi einstaklingur samkvæmt 3. mgr. 7. gr. á ávinnslutímabili 1. mgr. 13. gr. laganna. Samkvæmt hlutafélagaskrá sé faðir kæranda skráður 100% eigandi og framkvæmdarstjóri B ehf. Hann og kærandi skipi stjórn félagsins og fari með prókúru þess. Samkvæmt upplýsingum frá Ríkisskattstjóra virðist ekki vera mikil starfsemi í félaginu almennt og þá hafi félagið ekki greitt nein laun árin 2016 og 2017 nema til kæranda mánuðina janúar, júní og september 2016. Þannig verði ekki annað séð en að félagið hafi snúist um starf kæranda. Fæðingarorlofssjóður bendir á að í ráðningarsamningi kæranda við B ehf. komi fram að hún sé [...] á B sem sé jafnframt skráður sem hennar vinnustaður. B hafi hins vegar hætt starfsemi og nafni B verið breytt í C sem sé í eigu annarra einstaklinga. Samkvæmt tölvupósti föður kæranda sé hann og hafi alltaf verið eini eigandi félagsins en samkvæmt útprentunum af vefsíðunum D og E frá árinu 2014 komi hins vegar fram að kærandi sé eigandi B og hafi rekið B í X ár. Þannig verði ekki annað ráðið af gögnum málsins en B hafi snúist um starf kæranda sem hafi jafnframt átt og rekið B. Að mati Fæðingarorlofssjóðs sé því óhjákvæmilegt annað en að líta svo á að kærandi hafi starfað við eigin rekstur sem sjálfstætt starfandi einstaklingur samkvæmt 3. mgr. 7. gr. laganna.

Á ávinnslutímabili kæranda frá X til X 2016 hafi hún samkvæmt staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra einungis fengið greiðslur frá B ehf. í júní og september 2016. Hún hafi svo fengið greitt frá F í nóvember 2016 fyrir tímabilið 19. september til 12. nóvember og eftir standi því tímabilið X. til X. maí, júlí og ágúst 2016. Þá komi til skoðunar hvort kærandi hafi verið þátttakandi á vinnumarkaði í skilningi 2. mgr. 13. gr. a laga nr. 95/2000 á framangreindu tímabili. Samkvæmt a-lið 2. mgr. 13. gr. a teljist jafnframt til þátttöku á vinnumarkaði orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti. Þar sem kærandi hafi verið sjálfstætt starfandi einstaklingur samkvæmt 3. mgr. 7. gr. laganna geti hún ekki uppfyllt skilyrði ákvæðisins um að hafa verið í ólaunuðu leyfi á tímabilinu, sbr. úrskurð úrskurðarnefndar velferðarmála nr. 447/2016. Ekki verði séð að aðrir stafliðir 2. mgr. 13. gr. a laganna geti átt við í tilviki kæranda. Fæðingarorlofssjóður tekur fram að verði það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að kærandi teljist vera starfsmaður en ekki sjálfstætt starfandi einstaklingur þá hafi réttindi hennar til greiðslna ekki verið metin með tilliti til þess. Með vísan til alls framangreinds telji Fæðingarorlofssjóður að kærandi uppfylli ekki skilyrði til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði en hún eigi þess í stað rétt á fæðingarstyrk.

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja umsókn kæranda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns. Þegar foreldri hefur töku fæðingarorlofs fyrir fæðingardag barns, sbr. 2. mgr. 8. gr., 11. gr. og 4. mgr. 17. gr., skal þó miða við þann dag er foreldrið hefur fæðingarorlof að því er það foreldri varðar. Í 1. mgr. 13. gr. a laga nr. 95/2000 kemur fram að þátttaka á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV. kafla laganna feli í sér að starfa sem starfsmaður, sbr. 2. mgr. 7. gr., eða sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. 3. mgr. 7. gr. Í 2. mgr. 7. gr. laganna kemur fram að starfsmaður samkvæmt lögunum sé hver sá sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði. Í 3. mgr. 7. gr. laganna kemur fram að sjálfstætt starfandi einstaklingur sé sá sem starfi við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að honum er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi. Fullt starf starfsmanns miðast við 172 vinnustundir á mánuði, en þó skal jafnan tekið tillit til fjölda vinnustunda sem samkvæmt kjarasamningi teljast fullt starf, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 13. gr. a laga nr. 95/2000. Fullt starf sjálfstætt starfandi einstaklings miðast við að viðkomandi hafi greitt mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi er nemur að lágmarki viðmiðunarfjárhæð Ríkisskattstjóra í viðkomandi starfsgrein, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 13. gr. a laga nr. 95/2000.

Þá kemur fram í 2. mgr. 13. gr. a laganna að til þátttöku á innlendum vinnumarkaði teljist enn fremur:

a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,

b. sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur, er á biðtíma eftir slíkum bótum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu samkvæmt gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar,

c. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til sjúkratryggingastofnunarinnar samkvæmt lögum um sjúkratryggingar og lögum um slysatryggingar almannatrygginga, eða fær greiðslur úr sjúkrasjóði stéttarfélags enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,

d. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa,

e. sá tími er foreldri fær tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna eða hefði átt rétt á slíkum greiðslum hefði foreldri sótt um þær til Tryggingastofnunar ríkisins.

Barn kæranda fæddist X 2017. Kærandi sótti um lengingu fæðingarorlofs vegna veikinda á meðgöngu á grundvelli 4. mgr. 17. gr. laga nr. 95/2000 og uppfyllti læknisfræðileg skilyrði ákvæðisins. Samkvæmt gögnum málsins þáði kærandi greiðslur úr sjúkrasjóði stéttarfélags vegna veikinda á meðgöngu frá og með X til X 2016. Samkvæmt framangreindu er sex mánaða ávinnslutímabil 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 því frá X til X 2016.

Af hálfu Fæðingarorlofssjóð í greinargerð til úrskurðarnefndarinnar kemur fram að kærandi hafi verið sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. 3. mgr. 7. gr. laga nr. 95/2000, á framangreindu ávinnslutímabili þar sem hún hafi átt og rekið sína eigin [..]. Því til stuðnings vísar sjóðurinn til þess að kærandi hafi skipað stjórn B ehf. sem varamaður og farið með prókúru félagsins. Undir rekstri málsins hjá úrskurðarnefndinni vísaði sjóðurinn einnig til tveggja vefsíðna frá árinu 2014 þar sem fram komi að kærandi sé eigandi B og hafi rekið hana í X ár. Þess ber að geta að kærandi hafði ekki færi á því að bregðast við þessu áður en hin kærða ákvörðun var tekin. Af hálfu kæranda hefur komið fram að hún hafi ekki verið eigandi félagsins og því verið starfsmaður í skilningi 2. mgr. 7. gr. laganna. Þá hafi hún verið í launalausu leyfi það tímabil sem hún hafi verið tekjulaus.

Í gögnum málsins liggur fyrir ráðningarsamningur kæranda við B ehf., dags. 1. mars 2015, þar sem fram kemur að hún sé ráðin í fullt starf svo og launaseðlar vegna þeirrar vinnu í júní og september 2016. Samkvæmt Hlutafélagaskrá er faðir kæranda skráður 100% eigandi félagsins og framkvæmdastjóri þess. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála bar Fæðingarorlofssjóði á grundvelli framangreindra opinberra gagna að líta svo á að kærandi væri starfsmaður í skilningi 2. mgr. 7. gr. laga nr. 95/2000 og meta réttindi hennar til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði með tilliti til þess. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og lagt fyrir Fæðingarorlofssjóð að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 13. janúar 2017, um synjun á umsókn A, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði er felld úr gildi og málinu vísað til sjóðsins til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta