Hoppa yfir valmynd
8. júní 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 507/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 507/2016

Fimmtudaginn 8. júní 2017

A
gegn
Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Guðrún Agnes Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Með kæru, dags. 29. desember 2016, A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 29. september 2016, um synjun á umsókn hennar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

I. Málavextir og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 17. ágúst 2016, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í sex mánuði vegna barnsfæðingar þann X 2016. Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 29. september 2016, var umsókn kæranda synjað þar sem hún uppfyllti ekki skilyrði 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof þess efnis að hafa verið í minnst 25% starfshlutfalli samkvæmt 1. mgr. 13. gr. a laganna síðustu sex mánuði fyrir fæðingardag barns þar sem engar tekjur væru skráðar á hana í apríl 2016 og starfshlutfall í maí 2016 næði ekki 25%. Kærandi lagði fram frekari gögn en með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 7. október 2016, var henni tilkynnt að þau breyttu ekki niðurstöðu málsins. Kærandi fór fram á rökstuðning fyrir synjun Fæðingarorlofssjóðs og var hann veittur með bréfi, dags. 14. október 2016.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 30. desember 2016. Með bréfi, dags. 2. janúar 2017, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð sjóðsins barst með bréfi, dags. 27. janúar 2017, og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 3. febrúar 2017, var greinargerðin send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 15. febrúar 2017, og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 20. febrúar 2017, voru þær sendar Fæðingarorlofssjóði til kynningar. Viðbótargreinargerð barst með bréfi, dags. 27. febrúar 2017, og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 2. mars 2017, var greinargerðin send kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 13. mars 2017, og voru þær sendar Fæðingarorlofssjóði til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 22. mars 2017. Athugasemdir bárust frá Fæðingarorlofssjóði með tölvupósti þann 24. mars 2017 og voru þær sendar kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Þá bárust frekari athugasemdir frá kæranda með bréfi, dags. 5. apríl 2017, og voru þær sendar Fæðingarorlofssjóði til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. apríl 2017. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi fer fram á að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að staðfest verði að hún hafi verið samfleytt á vinnumarkaði í sex mánuði fyrir fæðingardag barns og eigi því rétt á fæðingarorlofi samkvæmt lögum nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof. Kærandi tekur fram að hún hafi verið í ráðningarsambandi við fyrirtæki frá nóvember 2015 til 30. september 2016 en ágreiningur málsins snúist í meginatriðum um hvort hún hafi verið í launalausu leyfi frá febrúar 2016 og fram í miðjan maí sama ár. Kærandi telur að hún hafi lagt fram fullnægjandi sönnun þess efnis að hún hafi raunverulega verið í launalausu leyfi og uppfylli því framangreinda sex mánaða reglu.

Kærandi tekur fram að hún hafi unnið hjá sama fyrirtæki með hléum frá árinu 2007 en á þeim vinnustað tíðkist ekki að gera skriflega ráðningarsamninga við starfsfólk. Í desember 2015 hafi kærandi óskað eftir og fengið samþykkt launalaust leyfi frá störfum í febrúar, mars og apríl 2016. Ekki hafi verið gert skriflegt samkomulag um þá ráðstöfun vegna trausts á milli hennar og yfirmanns. Í maí 2016 hafi kærandi haft samband við Fæðingarorlofssjóð vegna umsóknar hennar um greiðslur úr sjóðnum og þá greint frá stöðu sinni. Kærandi hafi fengið leiðbeiningar þess efnis að hún þyrfti að fá skriflega staðfestingu á hvernig hennar málum væri háttað, þ.e. vegna munnlegs ráðningarsamnings og munnlegs samkomulags um launalaust leyfi frá vinnu og hún hafi farið nákvæmlega eftir þeim leiðbeiningum. Kærandi tekur fram að hún og yfirmaður hennar hafi ákveðið að dagsetja ráðningarsamninginn þann dag sem hún hafi skrifað undir samninginn í stað þess að dagsetja hann aftur í tímann, enda hefði annað verið óheiðarlegt og hið sama eigi við um launalausa leyfið. Kærandi hafi talið að þessi ráðstöfun væri í lagi, enda hafi starfsmaður Fæðingarorlofssjóðs gefið henni slíkar leiðbeiningar. Kærandi bendir á að munnlegir samningar séu jafngildir skriflegum samningum og því eigi ekki að skipta máli hvort ráðningarsamningurinn hafi verið munnlegur sem og staðfestingin á launalausa leyfinu. Þá tekur kærandi fram að hún hafi verið í launalausu leyfi til 20. maí 2016 og því byrjað í fullu starfi 21. maí. Hún hafi unnið 61 klukkustund í maímánuði en ekki fengið mikið útborgað þar sem launatímabilið sé frá 20.–21. hvers mánaðar.

Kærandi vísar til þess að hún hafi gert allt sem hún gat til að leggja fram sannanir um launalausa leyfið. Hún hafi ávallt verið hreinskilin í samskiptum við Fæðingarorlofssjóð og ekki gert neitt sem bendi til þess að ráðningarsamningurinn og staðfestingin á launalausa leyfinu hafi verið til málamynda. Kærandi hafi ítrekað reynt að fá skýr svör frá Fæðingarorlofssjóði um hvers vegna henni væri ekki trúað en án árangurs.

III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs er vísað til 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof þar sem kveðið sé á um að foreldri öðlist rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns. Í 2. mgr. 7. gr. laganna komi fram að starfsmaður samkvæmt lögunum sé hver sá sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði. Í 1. mgr. 13. gr. a laga nr. 95/2000 komi fram að þátttaka á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV. kafla feli í sér að starfa sem starfsmaður, sbr. 2. mgr. 7. gr., eða sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. 3. mgr. 7. gr. Fullt starf starfsmanns miðist við 172 vinnustundir á mánuði, en þó skuli jafnan tekið tillit til fjölda vinnustunda sem samkvæmt kjarasamningi teljist fullt starf. Í 2. mgr. sé síðan talið upp í fimm stafliðum hvað teljist jafnframt til þátttöku á vinnumarkaði.

Barn kæranda hafi fæðst þann X 2016. Ávinnslutímabil kæranda sem starfsmanns sé því frá X 2016 og fram að fæðingu barnsins. Til að öðlast rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði hafi kærandi þurft, samkvæmt framangreindu, að hafa verið í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli á tímabilinu, sbr. 2. mgr. 7. gr., 1. mgr. 13. gr. og 1. og 2. mgr. 13. gr. a laga nr. 95/2000. Samkvæmt skrám Ríkisskattstjóra hafi kærandi ekki verið með nein laun í apríl 2016 og lága greiðslu í maí 2016. Fyrir liggi að kærandi hafi ekki verið á innlendum vinnumarkaði á tímabilinu febrúar og fram til 14. maí 2016 en þá hafi hún hafið störf hjá B ehf. Samkvæmt framangreindu uppfylli kærandi því ekki meginreglu 1. mgr. 13. gr., sbr. 1. mgr. 13. gr. a laganna um að hafa verið samfellt í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli á innlendum vinnumarkaði tímabilið x. apríl til 13. maí 2016.

Þá komi til skoðunar hvort einhver stafliða 2. mgr. 13. gr. a laga nr. 95/2000 geti átt við í tilviki kæranda tímabilið x. apríl til 13. maí 2016. Samkvæmt a-lið 2. mgr. 13. gr. a teljist jafnframt til þátttöku á vinnumarkaði orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti. Í málinu sé deilt um hvort kærandi hafi verið í ólaunuðu leyfi frá B ehf. í skilningi ákvæðisins þann tíma sem hún hafi ekki verið á innlendum vinnumarkaði, þ.e. tímabilið frá febrúar til 13. maí 2016 þegar hún var búsett erlendis og þá sérstaklega tímabilið X. apríl til 13. maí 2016. Af a-lið 2. mgr. 13. gr. a laga nr. 95/2000 leiði að ólaunað leyfi í skilningi ákvæðisins verði að vera byggt á lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi. Samkvæmt gögnum málsins hafi kærandi hafið störf hjá B ehf. 21. nóvember 2015 og starfað hjá fyrirtækinu í tilfallandi hlutastarfi samhliða námi út janúar 2016. Þá hafi hún hafið störf að nýju hjá fyrirtækinu 13. maí 2016 og starfað hjá því út september 2016. Ekki verði séð að kærandi geti byggt rétt til ólaunaðs leyfis á tímabilinu febrúar til 13. maí 2016 á íslenskum lögum eða á kjarasamningi Eflingar við SA frá árinu 2015. Komi þá til skoðunar hvort kærandi geti byggt rétt til ólaunaðs leyfis á ráðningarsamningi við B ehf. Fyrir liggi að ekki hafi verið gerður skriflegur ráðningarsamningur á milli kæranda og fyrirtækisins fyrr en eftir á og í þeim samningi hafi ekki verið kveðið á um ólaunað leyfi. Fæðingarorlofssjóður bendir á að meginregla vinnuréttar sé sú að ráðningu skuli annað af tvennu staðfesta skriflega eða gera um hana ráðningarsamning. Sú regla byggi á ákvæðum kjarasamninga og ákvæðum tilskipunar 91/533/EBE sem innleidd hafi verið hér á landi með kjarasamningum. Sé ekki gerður skriflegur ráðningarsamningur kunni því að reyna á sönnun líkt og hátti til í máli kæranda. Hvorki hafi verið gerður skriflegur ráðningarsamningur né hafi legið fyrir skriflegt samkomulag um ólaunað leyfi fyrr en eftir á. Ekki verði annað ráðið af gögnum málsins en að kærandi hafi verið í tímabundnu tilfallandi hlutastarfi hjá B ehf. frá 25. nóvember 2015 og út janúar 2016 en hafi ekki verið ráðin í að minnsta kosti 25% starfshlutfall. Kærandi hafi síðan hafið störf 13. maí og starfað út september 2016. Gögn málsins styðji því ekki að kærandi hafi verið ráðin samfellt í að minnsta kosti 25% starfshlutfall frá 21. nóvember 2015 og út september 2016 en verið í ólaunuðu leyfi tímabilið febrúar til 13. maí 2016. Þannig verði ekki séð að kærandi uppfylli skilyrði a-liðar 2. mgr. 13. gr. a laga nr. 95/2000 tímabilið x. apríl til 13. maí 2016.

Í b-lið 2. mgr. 13. gr. a laganna komi fram að til þátttöku á innlendum vinnumarkaði teljist jafnframt sá tími sem foreldri fái greiddar atvinnuleysisbætur, sé á biðtíma eftir slíkum bótum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu samkvæmt gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt vottorði Vinnumálastofnunar, dags. 16. nóvember 2016, hafi kærandi ekki átt rétt til atvinnuleysisbóta tímabilið mars til maí 2016 þar sem hún hafi verið búsett erlendis vegna náms. Í vottorðinu segi jafnframt að Vinnumálastofnun geti ekki staðfest að kærandi hafi verið í launalausu leyfi á tímabilinu. Þannig verði ekki séð að kærandi uppfylli skilyrði b-liðar 2. mgr. 13. gr. a laga nr. 95/2000 tímabilið x. apríl til 13. maí 2016. Ekki verði séð að aðrir stafliðir 2. mgr. 13. gr. a laganna geti átt við í tilviki kæranda á fyrrnefndu tímabili. Samkvæmt framangreindu verði ekki séð að kærandi hafi verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns X 2016 tímabilið x. apríl til 13. maí 2016, sbr. 1. mgr. 13. gr. og 1. og 2. mgr. 13. gr. a laga nr. 95/2000. Því telji Fæðingarorlofssjóður að kærandi uppfylli ekki skilyrði til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði sem starfsmaður.

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja umsókn kæranda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns. Í 1. mgr. 13. gr. a laga nr. 95/2000 kemur fram að þátttaka á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV. kafla laganna feli í sér að starfa sem starfsmaður, sbr. 2. mgr. 7. gr., eða sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. 3. mgr. 7. gr. Í 2. mgr. 7. gr. laganna kemur fram að starfsmaður samkvæmt lögunum sé hver sá sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði. Fullt starf starfsmanns miðast við 172 vinnustundir á mánuði, en þó skal jafnan tekið tillit til fjölda vinnustunda sem samkvæmt kjarasamningi teljast fullt starf, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 13. gr. a laga nr. 95/2000. Þá kemur meðal annars fram í 2. mgr. 13. gr. a laganna að til þátttöku á innlendum vinnumarkaði teljist einnig orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti.

Barn kæranda fæddist X 2016. Sex mánaða ávinnslutímabil samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 er því frá X 2016 og fram að fæðingu barnsins. Til þess að eiga rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði þurfti kærandi því að hafa verið samfellt á innlendum vinnumarkaði á því tímabili í skilningi 1. mgr. 13. gr. a laganna. Ágreiningur málsins lýtur að tímabilinu x. apríl til 13. maí 2016. Kærandi byggir á því að hún hafi verið í launalausu leyfi meðal annars í apríl og maí 2016 eins og staðfest hafi verið af yfirmanni hennar. Í því tilviki sem hér um ræðir telur Fæðingarorlofssjóður að ólaunað leyfi kæranda verði ekki byggt á íslenskum lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi. Þá hafi ekki verið gerður skriflegur ráðningarsamningur á milli kæranda og vinnuveitanda hennar fyrr en eftir á og í þeim samningi hafi ekki verið kveðið á um ólaunað leyfi.

Í málinu liggur fyrir ráðningarsamningur á milli kæranda og B ehf., dags. 24. ágúst 2016, þar sem fram kemur að ráðningartími hennar væri frá 21. nóvember 2015 til 30. september 2016 og starfshlutfall að meðaltali 88%. Í ráðningarsamningnum er tekið fram að um uppsagnarfrest, orlof og veikindagreiðslur gildi sérákvæði, eða sé samkvæmt samkomulagi. Í ódagsettu bréfi frá yfirmanni kæranda, sem fylgdi umsókn um fæðingarorlof, kemur fram að hún hafi fengið launalaust leyfi í mars, apríl og hluta maímánaðar 2016. Kæranda hafi þannig verið veitt launalaust leyfi samkvæmt samkomulagi við yfirmann sinn á grundvelli framangreinds ráðningarsamnings. Í bréfi til Fæðingarorlofssjóðs frá yfirmanni kæranda, dags. 29. september 2016, kemur fram að ráðningarsamningurinn hafi verið gerður til að staðfesta munnlegan ráðningarsamning þeirra á milli og ítrekað að kæranda hafi verið veitt launalaust leyfi.

Samkvæmt gögnum málsins er nægjanlega staðfest að mati nefndarinnar að kærandi var í launalausu leyfi á því tímabili sem ágreiningur málsins lýtur að. Því til stuðnings er vísað til framangreinds ráðningarsamnings, yfirlýsinga yfirmanns kæranda sem og atvika allra sem þykja styðja frásögn kæranda. Með hliðsjón af gögnum málsins telur úrskurðarnefndin að líta skuli á leyfi kæranda frá starfi sem launalaust leyfi í skilningi a-liðar 2. mgr. 13. gr. a laga nr. 95/2000. Samkvæmt framangreindu telur úrskurðarnefndin að kærandi hafi öðlast rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og málinu vísað til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 29. september 2016, um synjun á umsókn A, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði er felld úr gildi og málinu vísað til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Guðrún A. Þorsteinsdóttir, formaður

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta