Hoppa yfir valmynd
25. ágúst 2022 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fundargerð fjármálastöðugleikaráðs 22. júní 2022

Fundur fjármálastöðugleikaráðs 22. júní 2022

Fundur haldinn í fjármála- og efnahagsráðuneyti.
Fundarmenn: Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika, Haukur C. Benediktsson, framkvæmdastjóri fjármálastöðugleika í Seðlabankanum, Rósa Björk Sveinsdóttir, sérfræðingur á skrifstofu bankastjóra í Seðlabankanum, Guðrún Þorleifsdóttir, skrifstofustjóri á skrifstofu fjármálamarkaðar í fjármála- og efnahagsráðuneyti, Saga Guðmundsdóttir, sérfræðingur á skrifstofu efnahagsmála í fjármála- og efnahagsráðuneyti og Tinna Finnbogadóttir, ritari fjármálastöðugleikaráðs.

Fundur hófst 11:10

1. Þróun áhættu í fjármálakerfinu og hagkerfinu
Seðlabankinn hélt kynningu á helstu áhættuþáttum í fjármálakerfinu og hagkerfinu. Hækkunum á fasteignamarkaði voru gerð skil og farið yfir mögulega þróun íbúðaverðs, m.a. með tilliti til fyrirsjáanlegra breytinga á framboði. Þá var rætt um lýðfræðilegar stærðir í þessu samhengi og fjölgun fólks á vinnumarkaði síðastliðið ár. Skuldsetning heimila, einkum vegna íbúðakaupa, var til umræðu og Seðlabankinn kynnti fyrir ráðinu nýlegar breytingar á reglum um lánþegaskilyrði. Eitt af markmiðum breytinganna er að stuðla að jafnræði óverðtryggðra og verðtryggðra lána m.t.t. reglnanna. Enn sem komið er hefur mikil hækkun fasteignaverðs ekki haft í för með sér skuldabólu en stefnt er að sérstakri gagnasöfnun til greiningar á því hvort hún kunni að vera að myndast hjá tekjulægri hópum.
Ferðaþjónustan hefur tekið við sér og í maí 2022 var fjöldi ferðamanna 90% af því sem hann var í sama mánuði árið 2022. Atvinnuleysi hefur minnkað hratt en lán til fyrirtækja hafa ekki vaxið mikið. Staða bankanna er nokkuð sterk. Lausafjárstaðan er svipuð og hún var í byrjun heimsfaraldurs kórónuveiru en eiginfjárhlutföll hafa lækkað nokkuð frá síðustu áramótum. Eiginfjárhlutföll og lausafjárhlutföll eru enn yfir mörkum Seðlabankans.
Nokkuð var rætt um þróun fjármálalegra skilyrða erlendis og möguleg áhrif þeirra hér á landi. Verðbólga fer vaxandi á alþjóðavísu, seðlabankar í Bandaríkjunum og á Bretlandi hafa hækkað vexti og vextir á skuldabréfum skuldsettra evruríkja hafa vaxið hratt. Skilyrði íslensku bankanna til endurfjármögnunar á erlendum fjármálamörkuðum hafa þrengst en ekki svo að talið sé að þeir muni lenda í erfiðleikum á gjalddögum næstu lána. Þrengri fjármögnunarskilyrði kunna að hafa áhrif á útlánagetu bankanna.
Umræða var um starfshóp menningar- og viðskiptaráðherra um gjaldtöku í bankakerfinu út frá neytendasjónarhorni. Var þar meðal annars rætt um mjög sterka eiginfjárstöðu bankanna, ávöxtun á eigið fé og eiginleikar eigin fjár og víkjandi lána bornir saman.
Seðlabankinn fór yfir þær breytingar sem hafa átt sér stað á fjármálainnviðum síðustu misseri og greindi frá vinnu í tengslum við innlenda, óháða smágreiðslulausn sem er að ljúka. Liggja nú fyrir tvær tillögur að smágreiðslulausnum. Mikilvægi þessara lausna felst í því að auka öryggi og draga úr kostnaði. Þá skiptir í þessu samhengi máli að skoða þátttöku Íslands í smágreiðslulausnum sem eru að ná útbreiðslu í Evrópu til þess að gæta að samkeppnishæfni og samræmingu við okkar helstu viðskiptalönd. Ráðið lagði áherslu á að vinnu við smágreiðslulausnina miði vel áfram enda er það mikilvægt fyrir þjóðaröryggi, skilvirkni, hagkvæmni í fjármálakerfinu og samkeppnishæfni.

2. Staða á vinnu við mat á árangri þjóðhagsvarúðartækja og við opinbera stefnu um fjármálastöðugleika
Seðlabankinn lagði fyrir fundinn minnisblað um mat á árangri af beitingu þjóðhagsvarúðartækja. Fyrir fundinum lágu einnig drög að opinberri stefnu um fjármálastöðugleika sem ráðuneytið hefur sent SÍ til skoðunar. Rætt var um framgang þeirrar vinnu sem lögð hefur verið í mat á árangri af beitingu þjóðhagsvarúðartækja og við mótun opinberrar stefnu um fjármálastöðugleika en sú vinna hefur nú staðið yfir í þó nokkurn tíma. Mikilvægt er að vanda vel til verka þar sem þessi vinna hjálpar við mat á því hvað er mikilvægt fyrir fjármálastöðugleika og hvernig tekist hefur til við að stuðla að honum. Samþykkt að vinna skjölin áfram og leggja heildstæð drög fyrir næsta fund.

3. Drög að fréttatilkynningu

Drög að fréttatilkynningu voru lögð fyrir fundinn og þau samþykkt með breytingum.
Fundi slitið 12:13


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta