Ferðamálaráð leggur til 20 aðgerðir til eflingar ferðaþjónustu. Ráðherra hefur þegar ákveðið að efla markaðsstofur landshlutanna
Ferðamálaráð leggur til 20 aðgerðir í svari við erindi ferðamálaráðherra frá því í sumar, þar sem ráðherra óskaði eftir tillögum um viðbrögð við þremur áskorunum í íslenskri ferðaþjónustu.
Áskoranirnar eru: 1) möguleg misnotkun eða óeðlilegt samkeppnisforskot í heimagistingu; 2) möguleg ólögmæt starfsemi eða óeðlilegt samkeppnisforskot erlendra aðila; 3) áhrif þess á ferðaþjónustu á landsbyggðinni að verðlag á Íslandi hefur hækkað í erlendri mynt.
Tillögur ferðamálaráðs eru meðal annars:
- Sveitarfélögum verði leyft að ákveða sjálf leyfilegan dagafjölda heimagistingar innan 90 daga reglunnar (þ.e. að fækka dögunum ef þau vilja)
- Sveitarfélög verði hvött til að breyta lögreglusamþykktum til að hægt verði að beita viðurlögum gegn þeim sem bjóða gistingu í leyfisleysi
- Aðilum sem bjóða heimagistingu innan 90 daga reglunnar verði gert að skrá fyrirfram þá daga sem þeir hyggjast leigja eign sína út, til að auðvelda eftirlit með dagafjölda
- Gerð verði úttekt á samkeppnisstöðu innlendra og erlendra aðila í ferðaþjónustu
- Fylgt verði eftir kröfum um að erlendir aðilar í tímabundnum farþegaflutningum hér á landi haldi akstursdagbók og eftirlitsaðilar fái skýrari heimildir til að krefjast upplýsinga og beita viðurlögum
- Gerð verði greining á áhrifum verðhækkana á ferðaþjónustu á landsbyggðinni
- Markaðsstofur landshlutanna verði efldar
- Áfangastaðasjóður verði settur á laggirnar til að styðja vöruþróun og nýsköpun
- Eldsneytiskostnaður á flugvöllum verði jafnaður
- Vetrarþjónusta á vegum verði tryggð á vinsælum ferðamannavegum
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ferðamálaráðherra fagnar góðri vinnu af hálfu ferðamálaráðs:
„Mér fannst mikilvægt að nýta þá miklu reynslu og þekkingu sem er til staðar innan ferðamálaráðs. Ég gaf ráðinu nokkurn veginn frjálsar hendur en setti þó fremur stíf tímamörk og óskaði eftir að tillögurnar væru helst þannig að hægt væri að hrinda þeim fljótt í framkvæmd.
Ráðið vann mjög gott starf á stuttum tíma og á hrós skilið fyrir það. Margar tillögurnar fela í sér skýrar og vel afmarkaðar aðgerðir. Sumar eru aftur á móti um að ýmsir hlutir verði skoðaðir betur, sem endurspeglar að viðfangsefnið er flókið og töfralausnir vandfundnar.
Mér finnst tillögurnar á heildina litið skynsamlegar. Ég vænti þess að sá sem tekur við embætti ráðherra ferðamála að loknum kosningum skoði þær vandlega og taki afstöðu til þeirra, og einnig aðrir ráðherrar eftir atvikum, því hér er um að ræða vandaða vinnu sem verðskuldar að fá viðhlítandi umfjöllun.
Án þess að ég taki afstöðu hér og nú til allra tillagnanna finnst mér rétt að nefna fáein atriði:
- Það er að mínu mati skynsamlegt að efla markaðsstofur landshlutanna enda sinna þær afar mikilvægu starfi. Þessi stefna hefur raunar þegar verið mörkuð; ráðuneytið fól Ferðamálastofu síðsumars að hefja endurskoðun á samningum sínum við markaðsstofurnar með þetta að leiðarljósi, og þetta er sérstaklega nefnt til sögunnar í fjárlagafrumvarpinu. Samkvæmt því geri ég ráð fyrir að stuðningur við markaðsstofurnar verði um það bil þrefaldaður frá því sem verið hefur.
- Varðandi stofnun áfangastaðasjóðs er rétt að nefna að Framkvæmdasjóður ferðamannastaða hefur í kjölfar lagabreytinga síðastliðið vor umtalsvert meira svigrúm en áður til að uppfylla það markmið sitt að fjölga áfangastöðum ferðamanna.
- Þær greiningar og athuganir sem ferðamálaráð leggur til eru skynsamlegar að mínu mati og ég tel allar líkur á að svigrúm verði til að ráðast í þær.
Ég endurtek að lokum þakkir til ferðamálaráðs, og allra sem veittu ráðinu aðstoð, fyrir mjög gott starf og ítreka að tillögurnar sem hér liggja fyrir verðskulda vandlega athugun og eftirfylgni,“ segir Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ráðherra ferðamála.
Myndatexti:
Fremri röð frá vinstri: Sævar Skaptason, Unnur Valborg Hilmarsdóttir og Þórir Garðarsson. Aftari röð frá vinstri: María Reynisdóttir skrifstofu ferðamála, Jón Ásbergsson, Eva Björk Harðardóttir og Þórdís Kolbrún R Gylfadóttir
Um Ferðamálaráð:
Ferðamálaráð hefur m.a. það hlutverk samkvæmt lögum að vera ráðherra til ráðgjafar um áætlanir í ferðamálum, veita umsagnir um breytingar á lögum og reglum er varða ferðamál og annað sem ráðherra felur því eða ráðið telur ástæðu til að taka upp í þágu ferðaþjónustunnar.
Ráðið er þannig skipað:
Skipaðar af ráðherra án tilnefningar:
Unnur Valborg Hilmarsdóttir (formaður), oddviti Húnaþings vestra
Eva Björk Harðardóttir (varaformaður), oddviti Skaftárhrepps og hótelstjóri Hótels Laka
Tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga:
Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri Hveragerðisbæjar
Hjálmar Sveinsson, borgarfulltrúi og form. umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur
Tilnefnd af Ferðamálasamtökum Íslands:
Ásbjörn Björgvinsson, markaðsstjóri Lava eldfjallamiðstöðvar
Díana Mjöll Sveinsdóttir, frkvstj. Tanna Travel
Tilnefnd af Samtökum ferðaþjónustunnar:
Ingibjörg G. Guðjónsdóttir, stjórnarform. Íslenskra fjallaleiðsögumanna
Sævar Skaptason, frkvstj. Hey Iceland og stjórnarform. Íslenska ferðaklasans
Þórir Garðarsson, stjórnarform. Gray Line og varaform. Samtaka ferðaþjónustunnar
Tilnefndur af Íslandsstofu:
Jón Ásbergsson, frkvstj. Íslandsstofu