Hoppa yfir valmynd
28. febrúar 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 43/2007

Fimmtudaginn, 28. febrúar 2008

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 28. september 2007 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra frá Lex ehf, lögmannsstofu, f.h. A, dagsett 27. september 2007.

Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 24. ágúst 2007 um að synja kæranda um lengingu á greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Kærð er sú ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs frá 24. ágúst 2007 að synja umbjóðanda mínum A, um lengingu á greiðslu fæðingarorlofs.

Þann 14. júní 2007 sótti umbjóðandi minn A, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt lögum nr. 95/2000 sbr. lög nr. 90/2004. Jafnframt sótti hún um lengingu á greiðslu fæðingarorlofs af öryggis- og heilbrigðisástæðum frá 31. ágúst 2007. Með bréfi frá 24. ágúst 2007 synjaði Fæðingarorlofssjóður umbjóðanda mínum um lengingu á greiðslu fæðingarorlofssjóðs.

Umbjóðandi minn er sjálfstætt starfandi húsasmiður og vinnur því áhættusamt starf. Eðli starfsins samkvæmt felst það í vinnu á verkpöllum við nýbyggingu og endurgerð húsa, oft í mikilli hæð. Jafnframt felst í því að oft og iðulega þarf umbjóðandi minn að lyfta þungum byrðum sem haft getur hættu í för með sér sem og að umgangast óvarið rafmagn í nýbyggingum. Þá er starfsumhverfi í nýbyggingum þannig að alvanalegt er að á gólfum sé ýmis konar byggingarefni, efnisafgangar, verkfæri o.fl. sem valdið geta sérstakri hættu á að fólk hrasi eða detti. Starf umbjóðanda míns felst í raun í að vinna við aðstæður sem almennt teljast til hættulegra vinnuaðstæðna og á umbjóðandi minn ekki möguleika á að sinna starfi sínu við aðrar aðstæður.

Í 1. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof er kveðið á um að lögin eigi við um foreldra sem eru starfsmenn eða sjálfstætt starfandi. Í ákvæði 1. mgr. 11. gr. laganna er kveðið á um að gera skuli nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja öryggi þungaðra kvenna ef það er í hættu. Jafnframt er kveðið á um að ef því verði ekki við komið af tæknilegum eða öðrum gildum ástæðum skuli vinnuveitandi fela konunni önnur verkefni en að öðrum kosti veita henni leyfi frá störfum í svo langan tíma sem nauðsynlegt er til að vernda öryggi hennar og heilbrigði. Samkvæmt 3. mgr. 11. gr. á kona rétt á greiðslu fæðingarorlofs ef veita þarf henni leyfi frá störfum þar sem öryggi hennar á vinnustað verði ekki tryggt með öðrum hætti.

Umbjóðanda mínum var synjað um lengingu á greiðslu fæðingarorlofs með þeim rökstuðningi eingöngu að í lögum nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlofs, væri ekki að finna ákvæði sem heimilar lengingu á greiðslu fæðingarorlofs vegna öryggis og heilbrigðis á vinnustöðum á meðgöngu fyrir sjálfstætt starfandi starfsmann, sbr. 1. mgr. 11. gr. laganna og 2. gr. reglugerðar nr. 931/2000 um ráðstafanir til þess að auka öryggi og heilbrigði á vinnustöðum fyrir konur sem eru þungaðar, hafa nýlega alið barn eða hafa barn á brjósti.

Umbjóðandi minn telur óheimilt að synja henni um lengingu á greiðslum úr fæðingarorlofssjóði á þeim grunni að hún sé sjálfstætt starfandi. í því felist brot á jafnræðisreglu og ennfremur hafi slík takmörkun á gildissviði reglugerðar nr. 931/2000 ekki lagastoð.

Telur umbjóðandi minn að ákvæði 11. gr. laga nr. 95/2000 verði að skýra og beita í samræmi við tilgang ákvæðisins þ.e. að veita þunguðum konum vernd gegn því að þurfa að stunda störf þar sem öryggi þeirra og heilbrigði er hætta búin. Engu skipti að hvað það varðar hvort viðkomandi er sjálfstætt starfandi eða launþegi. Þar af leiði að sú túlkun Fæðingarorlofssjóðs að sjálfstætt starfandi konur eigi ekki rétt á sömu vernd að þessu leyti og starfsmenn sem ekki eru sjálfstætt starfandi brýtur í bága við jafnræðisreglu og felur í sér óheimilaðan mismunun. Sömu rök leiða til þess að reglugerð nr. 931/2000 skortir lagastoð að því leyti að takmarka greiðslur við starfsmenn sem ekki eru sjálfstætt starfandi.

Af framangreindu telur umbjóðandi minn ljóst vera að hún eigi rétt á greiðslum í fæðingarorlofi frá 31. ágúst sl. þar sem hún þurfti að taka sér leyfi frá störfum til að tryggja öryggi sitt og heilbrigði.

Meðfylgjandi eru gögn málsins. Sé frekari upplýsinga eða gagna þörf er þess óskað að beiðni um slíkt verði beint til undirritaðrar.“

 

Með bréfi, dagsettu 1. október 2007, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.

 

Greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs er dagsett 18. október 2007. Í greinargerðinni segir:

„Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs að hafna kæranda um lengingu á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði vegna öryggis og heilbrigðis á vinnustöðum.

Með umsókn, dags. 14. júní 2007, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 3 mánuði, vegna væntanlegrar barnsfæðingar 31. október 2007.

Auk umsóknar kæranda barst vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, dags. 24. júlí 2007. Þrjár tilkynningar um fæðingarorlof, allar dags. 14. júní 2007, launaseðlar fyrir apríl og maí 2007 frá B. og D. Tryggingagjaldsvottorð, dags. 14. júní 2007 og tilkynning um afskráningu af launagreiðendaskrá, dags. 14. júní 2007. Læknisvottorð v/lengingar fæðingarorlofs v/sjúkdóms móður, dags. 13. júní 2007, sem litið var á sem umsókn um lengingu vegna öryggis og heilbrigðis á vinnustöðum. Enn fremur lágu fyrir upplýsingar úr skrám ríkisskattstjóra.

Þann 21. júní var kæranda sent bréf og hún beðin um ítarlega greinargerð frá vinnuveitanda um ástæður þess að starfsmaður verði að leggja niður störf til að tryggja öryggi á meðgöngu. Símtal barst frá kæranda þar sem hún gerði grein fyrir því að hún hygðist áfram vinna vinnu sína sem launamaður en umsókn um lengingu vegna öryggis og heilbrigðis á vinnustöðum væri vegna vinnu hennar sem sjálfstætt starfandi húsasmiður.

Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs til kæranda, dags. 24. ágúst 2007, var henni tilkynnt að umsókn hennar um lengingu á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði vegna öryggis og heilbrigðis á vinnustöðum hefði verið synjað þar sem lengingin ætti ekki við sjálfstætt starfandi heldur starfsmenn.

Rétt þykir samhengisins vegna að rekja tilurð 11. gr. fæðingar- og foreldraorlofslaga nr. 95/2000 (ffl.) sem og að skýra ákvæðið. Einnig verður gerð grein fyrir þeim reglugerðaákvæðum sem um þetta gilda. Áherslubreytingar í texta hér á eftir svo sem feitletranir og skáletranir eru gerðar af undirrituðum og ætlaðar í þeim tilgangi einum að leggja áherslu á, í löngum texta, að ákvæðið um öryggislengingu eigi við um starfsmenn en ekki sjálfstætt starfandi.

Í 1. mgr. 11. gr. ffl. kemur fram að ef öryggi og heilbrigði þungaðrar konu, konu sem hefur nýlega alið barn eða konu sem er með barn á brjósti er í hættu samkvæmt sérstöku mati skal vinnuveitandi gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja öryggi konunnar með því að breyta tímabundið vinnuskilyrðum og/eða vinnutíma hennar. Ef því verður ekki við komið af tæknilegum eða öðrum gildum ástæðum skal vinnuveitandi fela konunni önnur verkefni en að öðrum kosti veita henni leyfi frá störfum í svo langan tíma sem nauðsynlegt er til að vernda öryggi hennar og heilbrigði. Jafnframt segir í ákvæðinu að um framkvæmd þess skuli farið eftir nánari reglum sem félagsmálaráðherra setur.

Framangreindar reglur hafa verið settar með stoð í 11. gr. ffl., 73. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og með hliðsjón af tilskipun nr. 92/85/EBE í viðbæti við XVIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sem reglugerð nr. 931/2000, um ráðstafanir til þess að auka öryggi og heilbrigði á vinnustöðum fyrir konur sem eru þungaðar, hafa nýlega alið barn eða hafa barn á brjósti. Gerð verður nánari grein fyrir reglugerðinni hér á eftir.

Um 1. mgr. 11. gr. ffl. segir svo í athugasemdum við frumvarp það er varð að lögum um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000, en með ákvæðinu var verið að lögfesta ákveðin réttindi samkvæmt. tilskipun nr. 92/85/EBE:

Í ákvæðinu er lagt til að lögfest verði ákveðin réttindi samkvæmt tilskipun nr. 92/85/EBE um lögleiðingu ráðstafana til að auka öryggi og heilbrigði á vinnustöðum fyrir starfsmenn sem eru þungaðir, hafa nýlega alið börn eða hafa börn á brjósti. Þessar reglur koma nú fram í reglugerð nr. 679/1998, um ráðstafanir til þess að auka öryggi og heilbrigði á vinnustöðum fyrir starfsmenn sem eru þungaðir, hafa nýlega alið barn eða hafa barn á brjósti. Sú reglugerð er sett með stoð í 73. gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980, og með hliðsjón af framangreindri tilskipun. Gert er ráð fyrir að nánari útfærsla á efni tilskipunarinnar standi áfram í framangreindri reglugerð. Er þar meðal annars kveðið á um sérstakt mat á eðli hugsanlegrar hættu fyrir starfsmenn og um aðgerðir í kjölfar þess. Er með þessu átt við störf sem á grundvelli matsins eru talin leiða til þess að öryggi og heilbrigði þungaðrar konu, konu sem nýlega hefur alið barn eða hefur barn á brjósti er í hættu. Í reglugerðinni er fjallað nánar um hvernig standa skuli að ákvörðun um hvort nægilegt sé að breyta vinnuskilyrðum og/eða vinnutíma eða hvort frekari aðgerða þurfi við. Er meðal annars kveðið á um heimild vinnuveitanda til að leita umsagnar Vinnueftirlits ríkisins áður en ákvörðun er tekin um breytta vinnutilhögun starfsmanns eða leyfi. Þá er Tryggingastofnun ríkisins og/eða hlutaðeigandi starfsmanni heimilt að óska eftir því við Vinnueftirlit ríkisins að það endurskoði ákvörðun vinnuveitanda.

Í 2. mgr. 11. gr. ffl. kemur fram að þær breytingar, sem teljast nauðsynlegar á vinnuskilyrðum og/eða vinnutíma konu, sbr. 1. mgr., skulu ekki hafa áhrif á launakjör hennar til lækkunar eða önnur starfstengd réttindi.

Um 2. mgr. 11. gr. ffl. segir svo í athugasemdum með lagafrumvarpinu:

Í 2. mgr. er kveðið á um að þær breytingar á vinnuskilyrðum konu, sbr. 1. mgr., sem teljast nauðsynlegar skuli ekki hafa áhrif á launakjör hennar til lækkunar eða önnur starfstengd réttindi. Ákvæðið er efnislega samhljóða niðurlagi 6. gr. gildandi laga um fæðingarorlof. Það ákvæði tekur þó aðeins til þungaðra kvenna en hér er lagt til í samræmi við ákvæði tilskipunar nr. 92/85/EBE að sömu réttindi gildi fyrir konur sem hafa nýlega alið barn eða hafa barn á brjósti.

Í 3. mgr. 11. gr. ffl. segir að ef veita þurfi þungaðri konu leyfi frá störfum samkvæmt ákvæðinu eigi hún rétt á greiðslum, sbr. 13. gr.

Um 3. mgr. 11. gr. ffl. segir svo í athugasemdum með lagafrumvarpinu:

Í 3. mgr. er lagt til að þunguð kona eigi rétt á greiðslum líkt og hún væri í fæðingarorlofi þyki nauðsynlegt að veita henni leyfi frá störfum svo sem mælt er fyrir um í 1. mgr. Hér er um að ræða verulega réttarbót frá þeim reglum sem nú gilda um greiðslur til þungaðra kvenna sem verða að fara í leyfi frá störfum verði ekki komið við breytingum á starfsháttum eða tilfærslum í starfi. Samkvæmt þeim reglum sem nú gilda, sbr. 3. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 679/1998, getur barnshafandi kona sem verður að fara í leyfi af öryggisástæðum sótt um greiðslur skv. 15. og gr. 16. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar. Samkvæmt þeim ákvæðum á barnshafandi kona rétt á fæðingarstyrk og fæðingardagpeningum í hámark 60 daga ef henni er nauðsynlegt að leggja niður störf meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingar tíma barns. Til viðbótar er heimilt samkvæmt þessum reglum að hefja greiðslu fæðingarstyrks og fæðingardagpeninga einum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag sem staðfestur skal með læknisvottorði.

Heimildin til greiðslu skv. 3. mgr. er takmörkuð við þungaðar konur. Ástæðan er sú að kona sem hefur nýlega alið barn eða er með barn á brjósti á sjálfstæðan rétt samkvæmt frumvarpi þessu til þriggja mánaða fæðingarorlofs með greiðslum auk sameiginlegs réttar til þriggja mánaða til viðbótar með föður barnsins og nýtur þá greiðslna skv. 13. gr. Þó er vakin athygli á að jafnan er heimilt að veita konu sem er með barn á brjósti leyfi frá störfum, skv. 1. mgr., í svo langan tíma sem nauðsynlegt er til að vernda öryggi hennar og heilbrigði verði ekki við komið að breyta tímabundið vinnuskilyrðum og/eða vinnutíma hennar. Vari leyfið lengur en sá tími sem konan á rétt til og ætlar að taka í fæðingarorlof gerir frumvarpið ekki ráð fyrir sérstökum greiðslum á þeim grundvelli.

Af framangreindum ákvæðum 11. gr. ffl. og athugasemdum með lagafrumvarpinu verður vart annað ráðið en átt sé við starfsmenn en ekki sjálfstætt starfandi. Ákvæðinu hefur ekki verið breytt síðan það var lögfest með lögum 95/2000. Kristallast þetta í eftirfarandi reglugerðum sem settar hafa verið með stoð í lögum um fæðingar- og foreldraorlof.

Í 8. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er fjallað um rétt þungaðra kvenna til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði vegna öryggis og heilbrigðis á vinnustöðum. Þar er m.a. fjallað um hvað starfsmaður þurfi að leggja fram vegna leyfisins svo og heimild Vinnumálastofnunar til að óska aðstoðar Vinnueftirlits ríkisins við að endurskoða ákvörðun vinnuveitanda um leyfisveitingu, sbr. 5. gr. reglugerðabreytingar nr. 75/2007.

Líkt og komið hefur fram hér að framan hefur félagsmálaráðherra gefið út sérstaka reglugerð vegna öryggis- og heilbrigðis á vinnustöðum, sbr. reglugerð nr. 931/2000. Í 2. gr. reglugerðarinnar er að finna skilgreiningar á hugtökunum „þunguð kona“, „kona sem hefur nýlega alið barn“ og „kona sem hefur barn á brjósti“. Í ákvæðinu segir orðrétt:

Þegar hugtökin „þunguð kona“, „kona sem hefur nýlega alið barn“ og „kona sem hefur barn á brjósti“ eru notuð í reglugerð þessari er átt við starfsmenn sem hafa greint vinnuveitanda sínum frá því ásigkomulagi sínu.

Í tilskipun ráðsins nr. 92/85/EBE frá 19. október 1992, um lögleiðingu ráðstafana til að auka öryggi og heilbrigði á vinnustöðum fyrir starfsmenn sem eru þungaðir, hafa nýlega alið börn eða hafa börn á brjósti (tíunda sértilskipun í skilningi 1. mgr. 16. gr. tilskipunar 89/391/EBE), sem ákvæði 11. gr. ffl. er byggt á kemur bersýnilega fram að tilskipunin eigi við um starfsmenn en ekki sjálfstætt starfandi. Má þess m.a. sjá fjölmörg merki í almennum athugasemdum Ráðs Evrópubandalaganna í inngangi að tilskipuninni. Í tilskipuninni sjálfri eru einnig fjölmörg ákvæði sem styðja það að tilgangurinn með henni hafi verið sá að tryggja rétt starfsmanna í aðildarríkjunum en ekki sjálfstætt starfandi. Segir m.a. í 1. tl. 1. gr.

Markmið með þessari tilskipun, sem er tíunda sértilskipun í skilningi 1. mgr. 16. gr. tilskipunar 89/391/EBE, er að gera ráðstafanir til að bæta á vinnustöðum öryggi og heilbrigði starfsmanna sem eru þungaðir, hafa nýlega alið börn eða hafa börn á brjósti.

Í 2. gr. tilskipunarinnar er að finna skilgreiningar þar sem vart verður annað séð en verið sé að fjalla um starfsmenn sem hafa vinnuveitendur og getur þ.a.l. ekki átt við um sjálfstætt starfandi. Í ákvæðinu segir m.a.:

Í tilskipun þessari er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

a) þungaður starfsmaður: þungaður starfsmaður sem greinir vinnuveitanda sínum frá ásigkomulagi sínu í samræmi við innlenda löggjöf og/eða venjur;

b) starfsmaður sem hefur nýlega alið barn: starfsmaður sem hefur nýlega alið barn í skilningi innlendrar löggjafar og/eða venja og greinir vinnuveitanda sínum frá ásigkomulagi sínu í samræmi við þessa löggjöf og/eða venjur;

c) starfsmaður sem hefur barn á brjósti: starfsmaður sem hefur barn á brjósti í skilningi innlendrar löggjafar og/eða venja og greinir vinnuveitanda sínum frá ásigkomulagi sínu í samræmi við þessa löggjöf og/eða venjur.

Af öllu ofangreindu leiðir að tilgangurinn með tilskipun 92/85/EBE var að tryggja öryggi og heilbrigði á vinnustöðum fyrir starfsmenn en ekki sjálfstætt starfandi. Hefur sá réttur verið lögfestur með 11. gr. ffl. svo og í reglugerð nr. 1056/2004 og í sérstakri reglugerð nr. 931/2000, um ráðstafanir til þess að auka öryggi og heilbrigði á vinnustöðum fyrir konur sem eru þungaðar, hafa nýlega alið barn eða hafa barn á brjósti. Þegar af þeirri ástæðu gat kærandi ekki átt rétt á lengingu fæðingarorlofs vegna öryggis- og heilbrigðis á vinnustöðum fyrir starf sitt sem sjálfstætt starfandi.

Með vísan til alls framangreinds telur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður að áðurnefnd bréf til kæranda, dags. 24. ágúst 2007, beri með sér rétta ákvörðun.“

 

Greinargerðin var send lögmanni kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 1. nóvember 2007, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

 

Frekari athugasemdir bárust frá lögmanni kæranda með bréfi dagsettu 14. nóvember 2007, þar segir:

„Umbjóðandi minn telur að þau rök sem Fæðingarorlofssjóður teflir fram í greinargerð sinni styðji ekki á nokkurn hátt að heimilt hafi verið að mismuna umbjóðanda mínum á þeim grunni að hún sé sjálfstætt starfandi. Í tilefni af geinargerðinni vill kærandi íteka að ákvæði 11. gr. laga nr. 95/2000 verði að skýra og beita í samræmi við orðalag og tilgang ákvæðisins þ.e. að veita þunguðum konum vernd gegn því að þurfa að stunda störf þar sem öryggi þeirra og heilbrigði er hætta búin. Engu skipti hvað það varðar hvort viðkomandi er sjálfstætt starfandi eða launþegi. Hefur slík mismunun ekki stoð í ákvæðum laganna. Er sú aðstaða umbjóðanda míns ítrekuð að túlkun fæðingarorlofssjóðs á þann veg að sjálfstætt starfandi konur eigi ekki rétt á sömu vernd að þessu leyti og starfsmenn sem ekki eru sjálfstætt starfandi, brjóti í bága við jafnræðisreglu og feli í sér óheimila mismunun. Sérstaklega skal ítrekað að sömu rök leiða til þess að reglugerð nr. 931/2000 skorti lagastoð að því leyti sem hún kann að takmarka greiðslur við starfsmenn sem ekki eru sjálfstætt starfandi.“

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um lengingu greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði á grundvelli 11. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) vegna starfa hennar sem sjálfstætt starfandi einstaklingur.

Í 1. mgr. 11. gr. ffl. segir að ef öryggi og heilbrigði þungaðrar konu, konu sem hefur nýlega alið barn eða konu sem er með barn á brjósti sé í hættu samkvæmt sérstöku mati skuli vinnuveitandi gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja öryggi konunnar með því að breyta tímabundið vinnuskilyrðum og/eða vinnutíma hennar. Verði því ekki við komið af tæknilegum eða öðrum gildum ástæðum skuli vinnuveitandi fela konunni önnur verkefni en að öðrum kosti veita henni leyfi frá störfum í svo langan tíma sem nauðsynlegt er til að vernda öryggi hennar og heilbrigði. Jafnframt segir í 1. mgr. 11. gr. að um framkvæmd ákvæðisins skuli fara eftir nánari reglum sem félagsmálaráðherra setji. Slíkar reglur hafa verið settar með stoð í 11. gr. ffl., 73. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og með hliðsjón af tilskipun nr. 92/85/EBE í viðbæti við XVIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið sem reglugerð nr. 931/2000 um ráðstafanir til þess að auka öryggi og heilbrigði á vinnustöðum fyrir konur sem eru þungaðar, hafa nýlega alið barn eða haft barn á brjósti. Um gildissvið reglugerðarinnar og markmið segir í 1. gr. hennar að hún taki til kvenna sem eru starfsmenn og eru þungaðar, hafa nýlega alið barn eða hafa barn á brjósti og er markmið hennar að bæta öryggi og heilbrigði þeirra á vinnustöðum en ákvæði sama efnis var áður í eldri reglugerð nr. 679/1998 um sama efni. Samkvæmt 3. mgr. 11. gr. ffl. á þunguð kona rétt á greiðslum ef veita þarf henni leyfi frá störfum samkvæmt ákvæðinu, sbr. einnig 3. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 931/2000.

Í athugasemdum með 11. gr. ffl. segir meðal annars: „Í ákvæðinu er lagt til að lögfest verði ákveðin réttindi samkvæmt tilskipun nr. 92/85/EBE um lögleiðingu ráðstafana til að auka öryggi og heilbrigði á vinnustöðum fyrir starfsmenn sem eru þungaðir, hafa nýlega alið barn eða hafa barn á brjósti. Þessar reglur koma nú fram í reglugerð nr. 679/1998, um ráðstafanir til þess að auka öryggi og heilbrigði á vinnustöðum fyrir starfsmenn sem eru þungaðir, hafa nýlega alið barn eða hafa barn á brjósti.“ Í athugasemdunum er gert ráð fyrir að nánari útfærsla á efni tilskipunarinnar standi áfram í reglugerðinni nr. 679/1998.

Í 2. gr. tilskipunar 92/85/EBE er hugtakið „þungaður starfsmaður“ í tilskipuninni skýrt sem þungaður starfsmaður sem greinir vinnuveitanda sínum frá ásigkomulagi sínu í samræmi við innlenda löggjöf og/eða venjur. Samkvæmt því tekur tilskipunin til launþega en ekki sjálfstætt starfandi einstaklinga og leggur skyldur á vinnuveitendur þeirra. Í 2. mgr. 7. gr. ffl. segir: „Starfsmaður er í lögum þessum hver sá sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði. Þó á hugtakið starfsmaður í VII. kafla við um alla sem vinna launuð störf í annarra þjónustu.“

Þegar litið er til gildissviðs reglugerðar 92/85/EBE, innleiðingar reglugerðarinnar í íslenskan rétt, orðalags ákvæðis 11. gr. ffl. og skilgreiningu orðsins starfsmaður í 2. mgr. 7. gr. laganna telur úrskurðarnefndin að sjálfstætt starfandi einstaklingur eigi ekki rétt til lengingar greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði á grundvelli 11. gr. ffl. Tilgangur 11. gr. ffl. samkvæmt athugasemdum í greinargerð er að lögfesta ákveðin réttindi samkvæmt tilskipun nr. 92/85/EBE. Að mati nefndarinnar er ákvæði 11. gr. og gildissvið þess í samræmi við þá tilskipun og sama gildir um þær reglugerðir sem settar hafa verið vegna innleiðingar þeirrar tilskipunar. Þótt 11. gr. ffl. eigi eingöngu við um starfsmenn sem eru launþegar en ekki um sjálfstætt starfandi einstaklinga verður það ekki talið vera brot á jafnræðisreglu, þar sem markmið lagagreinarinnar er að innleiða tilskipun 92/85/EBE og efni þess í samræmi við það.

Með hliðsjón af framanrituðu er hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja A um lengingu greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta