Hoppa yfir valmynd
7. mars 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 54/2007

Föstudaginn, 7. mars 2008

A

gegn

Umhverfisstofnun

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 12. nóvember 2007 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 7. nóvember 2007.

Kærð var ákvörðun Umhverfisstofnunar sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 17. október 2007 um að kæranda væri heimilt að taka launalaust leyfi á þeim tíma er hann fengi greiðslu fæðingarstyrks sem námsmaður.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Ég á rétt á fæðingarstyrk skv. ákvörðun fæðingarorlofssjóðs, en Umhverfisstofnun (sem er vinnuveitandi minn) að höfðu samráði við starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytisins telur að ég eigi ekki rétt á fæðingarorlofi, heldur bara launalausu leyfi. Það gerir það að verkum að sá tími reiknast ekki sem starfstími skv. 14. gr. laga um fæðingar og foreldraorlof. Ég tel hinsvegar lögin kveði skýrt um að ég eigi rétt á fæðingarorlofi og þar með þau réttindi sem 14. gr., 29 gr. og 30 gr. laganna kveða á um.

Málsatvik:

Þann 19. febrúar sl. byrjaði ég í 100% starfi hjá Umhverfisstofnun. Aðfaranótt 20. febrúar fæddist sonur minn B. Laugardaginn 24. febrúar útskrifaðist ég frá D-háskóla.

Ég sótti um fæðingarstyrk sem námsmaður og hefur sú umsókn verið afgreidd. Þegar ég hafði samband við vinnuveitanda minn þá var mér tjáð að ég ætti ekki rétt á fæðingarorlofi, heldur bara launalausu leyfi til að nýta fæðingarstyrkinn.

Rökstuðningur:

Það hefur alltaf verið ljóst að ég á ekki rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði sbr. l. mgr. 13. gr. laga um fæðingar og foreldralaga eins fram kemur í bréfi starfsmannastjóra Umhverfisstofnunar. Einnig er ljóst að ég á rétt á fæðingarstyrk skv. ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs. Af einhverjum ástæðum telur vinnuveitandi minn að ég eigi ekki rétt á fæðingarorlofi þar sem ég á ekki rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði sbr. l. mgr. 13. gr. laganna. Í fyrstu málsgrein 1. gr. laganna segir „Lög þessi taka til réttinda foreldra á innlendum vinnumarkaði til fæðingar- og foreldraorlofs. Þau eiga við um foreldra sem eru starfsmenn eða sjálfstætt starfandi.“ Þessi grein tel ég að gildi um alla foreldra á vinnumarkaði óháð því hvenær fólk verður foreldrar og örugglega um fólk sem verður foreldrar þegar það er á vinnumarkaði sem á við um mig.

Í 7. gr. laganna segir að fæðingarorlof skv. lögum þessum er leyfi frá launuðum störfum sem stofnast til m.a. við fæðingu. Í 8. gr. laganna segir enn fremur að foreldrar sbr. 1. mgr. 1. gr. eiga sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs í allt að þrjá mánuði og sá réttur stofnast við fæðingu barns. 10. mgr. 13. gr. laganna segir: „Foreldri á innlendum vinnumarkaði sem á rétt til fæðingarorlofs skv. 8. gr. en uppfyllir ekki skilyrði 1. mgr. á rétt á fæðingarstyrk skv. 18. gr„ sbr. þó 9. mgr. 19. gr.“

Af öllu ofangreindu ætti að vera ljóst að ég á rétt á fæðingarorlofi og það ætti þar með að teljast sem starfstími sbr. 2. mgr. 14 gr. laganna og ég nýt verndar skv. 29 gr. og 30 gr. Við þennan rökstuðning má bæta við hvernig starfsfólk Fæðingarorlofssjóðs lítur á málið og einnig hvað vinnuveitandi samþykkti við umsókn um fæðingarstyrk.

Frá starfsfólki Fæðingarorlofssjóðs fékk ég greiðsluáætlun þar sem skrifað er „Greiðsluyfirlitið hér fyrir neðan sýnir tilhögun fæðingarorlofs ásamt upphæðum greiðslna.“ (ath. feitletrun er bætt við) og þetta má skilja á þann veg að starfsfólk Fæðingarorlofssjóðs telur að ég sé í fæðingarorlofi þegar fæ fæðingarstyrkinn greiddan. Einnig má geta þess að í umsókn minni um fæðingarstyrk bar mér að skila inn eyðublaði sem bar yfirskriftina „Tilkynning um fæðingarorlof“, sem vinnuveitandi sá enga annmarka á að skrifa undir. Á því eyðublaði var tímabil fæðingarorlofsins skráð og hvergi minnst á launalaust leyfi nema þegar það er kallað fæðingarorlof. Hvergi í lögunum hef ég séð talað um launalaust leyfi nema þá í gr. 7 um skilgreininguna á fæðingar- og foreldraorlofi. Ef kærunefndin kemst að þeirri niðurstöðu að ég eigi ekki rétt á fæðingarorlofi þá gilda ekki ákvæði 9. gr. „Tilkynningu um fæðingarorlof“, 10. gr. „Tilhögun fæðingarorlofs“, 29. gr. „Réttur til starfs“ og 30. gr. „Vernd gegn uppsögn“. Það þýðir að foreldrar í sömu sporum og ég, þurfa ekki að tilkynna vinnuveitanda sínum með neinum fyrirvara að það ætlar fara í launalaust leyfi til að nýta fæðingarstyrkinn og á móti kemur, getur vinnuveitandinn sagt foreldrum upp eða neitað þeim um launalaust leyfi. Ef þeim væri neitað um launalaust leyfi þá væri eina úrræðið til þess að eiga samvistir með barninu sínu (sbr. markmið laganna), er að segja upp.“

 

Með bréfi, dagsettu 14.nóvember 2007, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Umhverfisstofnunar.

 

Greinargerð Umhverfisstofnunar er dagsett 20. desember 2007. Í greinargerðinni segir:

„Með vísan til erindis yðar frá 28. nóvember s.l. er hér gerð grein fyrir afstöðu Umhverfisstofnunar varðandi barnseignarleyfi A.

Þegar barn A fæddist hafði hann ekki starfað nema í einn dag hjá Umhverfisstofnun. Fyrir þann tíma hafði hann ekki verið á innlendum vinnumarkaði síðustu sex mánuði áður en barnið fæddist. Um tilhögun uppsöfnunar og verndun réttinda í fæðingarorlofi fer samkvæmt gr. 13 í kjarasamningi fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og E en það félag hefur samningsumboð f.h. A. Þar er kveðið á um réttarstöðu starfsmanna í fæðingarorlofi. Í nefndri grein kemur fram að um uppsöfnun og verndun réttinda í fæðingarorlofi fari skv. 14. gr. laga nr. 95/2000 og að greinin taki til „...foreldris sem er í a.m.k. 25% starfi og starfað hefur í samfellt 6 mánuði fyrir fæðingu barns síns hjá hlutaðeigandi launagreiðanda.“ (gr. 13.1.1). Í 8. gr. laga nr. 95/2000 er kveðið á um að foreldrar eigi „...sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs í allt að þrjá mánuði hvort um sig, vegna fæðingar [ og að auki] sameiginlegan rétt á þremur mánuðum til viðbótar”. Með vísun til framangreinds er það mat Umhverfisstofnunar að A á rétt á fæðingarorlofi í þrjá mánuði en ekki á uppsöfnun og verndun réttinda í orlofinu. Honum verður þó veitt launalaust leyfi enda á hann, í samræmi við 8. gr. laga nr. 95/2000, rétt á að njóta samvista við barn sitt að lágmarki í þrjá mánuði.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 14. janúar 2008, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

 

Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi dagsettu 21. janúar 2008, en þar segir meðal annars:

„Ég skil svar Umhverfisstofnunar þannig að ég eigi rétt á fæðingarorlofi skv. 8. gr. fæðingar- og foreldraorlofslaganna (ffl.) Ég hefði því haldið að ég ætti rétt á öllum þeim réttindum sem kveðið er um að foreldrar í fæðingarorlofi eigi skv. lögunum sbr. gr. 14., og 29. og 30. í ffl. Umhverfisstofnun virðist hinsvegar telja vegna þess að ekki er sérstaklega fjallað um foreldra í mínum sporum í kjarasamningi E við Ríkissjóð að ég eigi ekki rétt á réttindum sem kveðið er á í grein 14., 29. og 30. í ffl.

Eins og ég hef rökstutt í kæru minni tel ég það ljóst að ég eigi rétt á fæðingarorlofi skv. 8. gr. ffl. og einnig á ég rétt á fæðingarstyrk sem námsmaður að ljúka námi skv. ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs. Ég tel því ljóst að ég fell undir IV um fæðingarorlof og kafla VI um foreldra utan vinnumarkaðar og í námi. Enda er 10. mgr. 13. gr. ffl. gerð einmitt fyrir foreldra í mínum aðstæðum sem falla undir báða kaflana.

Í kafla IV eru tiltekin réttindi þeirra sem eru í fæðingarorlofi og ég tel þau eiga við um mig ef ég á rétt á fæðingarorlofi. Þar með gildir 14. gr. ffl. um mig og fæðingarorlofið telst sem starfstími og einnig sameiginlegt ákvæði í kafla VIII. Ég er ekki lögfróður en ég hefði haldið að E gæti ekki samið frá mér þau réttindi sem ffl. gefa mér og eins og mér sýnist að meiningin sé hjá Umhverfisstofnun. Það er hinsvegar alveg ljóst að gr. 13 í kjarasamningnum á ekki við um mig, en þar segir í fyrstu málsgrein.

„Kafli þessi tekur til foreldris sem er í a.m.k. 25% starfi og starfað hefur í samfellt 6 mánuði fyrir fæðingu barns síns hjá hlutaðeigandi launagreiðanda og er með gilda ráðningu við upphaf orlofsins.“

Í málsgrein 13.2.1. í kjarasamningnum stendur en fremur:

Um uppsöfnun og vernd réttinda í fæðingarorlofi fer skv. 14. gr. laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, þó með þeirri viðbót sem talin er upp hér á eftir.“

Hér er verið að árétta að 14. gr. laga gildir varðandi uppsöfnun og vernd réttinda en mér þykir ljóst að grein 13. í kjarasamningnum fjallar um viðbótar réttindi handa þeim foreldrum sem uppfylla skilyrði fyrstu málsgreinar 13 greinar. Í greininni er ekki tæmandi listi yfir þau réttindi sem foreldrar í fæðingarorlofi hafa skv. ffl., sbr. gr. 30 í ffl.

Ef hinsvegar það er réttmæt túlkun taka skuli ákvæði í kjarasamningnum fram yfir lögin þá er hægt að rökstyðja að ríkisstarfsmenn sem vinna samkvæmt kjarasamningi við BHM (sem E er aðili að) hafi ekki vernd gegn uppsögn í fæðingarorlofi þar sem ekkert minnst gr. 30. í ffl. um vernd gegn uppsögnum í 13. gr. kjarasamningsins.“

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Umhverfisstofnunar um að þann tíma sem kærandi yrði í launalausu leyfi og fengi greiðslu fæðingarstyrks sem námsmaður nyti hann ekki uppsöfnunar og verndar réttinda.

Kærandi telur sig eiga rétt á því að sá tími sem hann verður í leyfi frá störfum hjá Umhverfisstofnun og fær greiddan fæðingarstyrk reiknist sem starfstími í skilningi 2. mgr. 14. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof með síðari breytingum (ffl.) með tilheyrandi ávinnslu og vernd réttinda og að hann njóti jafnframt verndar samkvæmt ákvæðum 29. og 30. gr. ffl.

Samkvæmt gögnum málsins hóf kærandi störf hjá Umhverfisstofnun þann 19. febrúar 2007. Samkvæmt tilkynningu dagsettri 5. október 2007 tilkynnti kærandi vinnuveitanda sínum um fyrirhugaða töku fæðingarorlofs mánuðina apríl til júní 2008 vegna barns sem fætt er 20. febrúar 2007. Tilkynningin var undirrituð og samþykkt sama dag af vinnuveitanda. Samkvæmt greiðsluáætlun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs dagsettri 12. október 2007 var kæranda tilkynnt um afgreiðslu umsóknar hans um fæðingarstyrk og um tilhögun og upphæðir greiðslna tímabilið apríl til júní 2008.

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. ffl. er fæðingar- og foreldraorlof leyfi frá launuðum störfum sem stofnast við fæðingu, frumættleiðingu barns yngra en átta ára eða töku barns yngra en átta ára í varanlegt fóstur. Samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 8. gr. ffl. eiga foreldrar sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs í allt að þrjá mánuði hvort um sig vegna fæðingar, frumættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur.

Samkvæmt 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks reiknast fæðingarorlof til starfstíma við mat á starfstengdum réttindum, svo sem rétti til orlofstöku og lengingar orlofs samkvæmt kjarasamningum, starfsaldurshækkana, veikindaréttar, uppsagnarfrests og réttar til atvinnuleysisbóta.

Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. ffl. er það hlutverk úrskurðarnefndarinnar að kveða upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laganna. Ekki verður séð af gögnum málsins að ágreiningur sé með aðilum um rétt og vernd sem ákvæði 29. gr. og 30. gr. ffl. veita.

Kærandi var kominn í starf á vinnumarkaði við fæðingu barns þann 20. febrúar 2007. Þann dag stofnaðist réttur hans til fæðingarorlofs samkvæmt 8. gr. ffl. Óumdeilt er að hann á rétt á greiðslu fæðingarstyrks sem námsmaður þann tíma sem hann verður í þriggja mánaða fæðingarorlofi. Að mati úrskurðarnefndarinnar skal sá tími sem hann er í samþykktu fæðingarorlofi reiknast til starfstíma hans í skilningi 2. mgr. 14. gr. ffl. þótt hann uppfylli ekki skilyrði fyrir greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.  

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Leyfi A frá launuðum störfum mánuðina apríl til og með júní 2008 hjá Umhverfisstofnun skal reiknast sem starfstími í skilningi 2. mgr. 14. gr. ffl.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta