Hoppa yfir valmynd
21. febrúar 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 55/2007

Fimmtudaginn, 21. febrúar 2008

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 9. nóvember 2007 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 20. ágúst 2007.

Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 24. ágúst 2007 um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði eftir að kærandi hafði óskað eftir endurútreikningi greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Í lok árs 2005, nánar tiltekið í október og nóvember, greiðir B fyrir yfirvinnu sem er unnin í ágúst/september en þeir hafa þann háttinn á að greiða fyrir yfirvinnu svo löngu eftir á.

Í reglum hjá Fæðingarorlofssjóði er mér hinsvegar sagt að þessari yfirvinnu verði annað hvort að sleppa í útreikningum á fæðingarorlofi eða taka hverja upphæð fyrir sig sem heilan mánuð, þ.e október X kr. og nóvember X kr. Þá mánuði vann ég hins vegar ekkert þar sem ég var i fæðingarorlofi (var samfleytt í 6 mánuði frá miðjum september 2005) og er meðfylgjandi staðfesting frá B um að þetta séu eftirá greidd laun fyrir fyrra tímabil. Farið er fram á að ofangreindar upphæðir verði teknar með í útreikningi vegna launa 2005 frá 01.01.2005-17.09.2005.

Ég fer fram á að tekið sé tillit til þeirra launa sem ég vinn mér inn á tímabilinu 01.01.2005-16.09.2005(dóttir mín fæddist 17.09.2005) og sú upphæð ekki lækkuð vegna óhentugs greiðslufyrirkomulags hjá launadeild B. Ef þessi yfirvinna verður ekki færð á fyrri tímabil heldur sleppt þá tel ég ekki að verið sé að greiða mér fyrir launaða vinnu á því tímabili sem ber að taka tillit til í útreikningum á fæðingarorlofi. Þó reglurnar ykkar segi að ekki megi færa yfir á aðra mánuði laun fyrir mánuð sem á undan kemur þá ætti fæðingarorlofsþega ekki að vera refsað fyrir undarlega starfshætti launagreiðanda enda hefur hann ekkert um það að segja ef launagreiðandi hefur lagalegan rétt til að hafa þann háttinn á að greiða yfirvinnu mun síðar en hún er unnin.“

 

Með bréfi, dagsettu 30. nóvember 2007, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.

 

Greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs er dagsett 13. desember 2007. Í greinargerðinni segir:

„Kærður er útreikningur Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Með umsókn, dags. 2. ágúst 2007 sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 6 mánuði, vegna væntanlegrar barnsfæðingar 1. október 2007.

Auk umsóknar kæranda barst vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, dags. 16. júlí 2007, tilkynning um fæðingarorlof, dags. 2. ágúst 2007. Fæðingarvottorð, dags. 4. október 2007. Launaseðlar frá D fyrir maí – júlí 2007 og launaseðlar frá B fyrir febrúar – desember 2005. Bréf frá B, dags. 17. ágúst 2007. Bréf frá kæranda, dags. 3. september 2007. Enn fremur lágu fyrir upplýsingar úr skrám ríkisskattstjóra og þjóðskrá Hagstofu Íslands.

Með bréfi Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs til kæranda, dags. 1. október 2007, var henni tilkynnt að umsókn hennar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hefði verið samþykkt frá 3. september 2007 og að mánaðarleg greiðsla næmi 80% af meðaltekjum hennar samkvæmt skrám skattyfirvalda tekjuárin 2005 og 2006.

Í 2. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000, sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, er kveðið á um að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og að miða skuli við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns eða þess árs er barn kemur inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur. Til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald. Enn fremur segir að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hafi starfað á innlendum vinnumarkaði. Aldrei skuli þó miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna. Þessu til fyllingar segir í 5. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 að meðaltal heildarlauna miðist við þann fjölda mánaða á umræddu viðmiðunartímabili sem foreldri hefur starfað á innlendum vinnumarkaði, sbr. 3. gr.

Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 segir að það að starfa á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV., V. og VI. kafla laga um fæðingar- og foreldraorlof feli í sér að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði eða að starfa við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að hlutaðeiganda sé gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi.

Í 3. mgr. 15. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000, sbr. 5. gr. laga nr. 90/2004, er kveðið á um að útreikningar á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skuli byggjast á upplýsingum sem Vinnumálastofnun aflar um tekjur foreldra úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Þar segir jafnframt að Vinnumálastofnun skuli leita staðfestingar hjá skattyfirvöldum á því að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda vegna tekjuára skv. 2. og 5. mgr. 13. gr. laganna.

Barn kæranda er fætt þann 21. september 2007 og skal því, samkvæmt framangreindum laga- og reglugerðarákvæðum, mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til kæranda reiknast sem 80% af meðaltali heildarlauna hennar árin 2005 og 2006.

Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra hefur kærandi talið tekjur sínar fram í samræmi við það sem fram kemur í staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra um tekjur hennar á árunum 2005 og 2006 og telur Fæðingarorlofssjóður að þar með liggi fyrir staðfesting á að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda. Í staðgreiðsluskránni kemur fram að kærandi hafi verið launalaus á innlendum vinnumarkaði í janúar 2005, í fæðingarorlofi frá október 2005 – mars 2006 en með lágar greiðslur í október – desember 2005 og í minna en 25% starfshlutfalli í apríl 2006 og ber því að undanskilja þá mánuði við útreikning á meðaltali heildarlauna. Aðra mánuði á árunum 2005 – 2006 var kærandi starfandi í a.m.k. 25% starfshlutfalli.

Með kæru kæranda óskar hún eftir að greiðslur sem hún fékk frá vinnuveitanda á sama tíma og hún var í 100% fæðingarorlofi í október – nóvember 2005 verði færðar á þá mánuði á árinu 2005 sem hafðir voru með við útreikning á meðaltali heildarlauna.

Með vísan til 3. mgr. 15. gr. ffl., sbr. 5. gr. laga nr. 90/2004 og athugasemda er fylgdu þeirri grein, en þar kemur fram að lagt sé til að heimild til handa foreldrum til að leggja fram gögn því til staðfestingar að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá séu rangar verði felld brott, telur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður í ljósi alls þess sem að framan hefur verið rakið að ekki sé heimild til að víkja frá skýru ákvæði laganna í tilviki kæranda og að áðurnefnt bréf Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs til kæranda, dags. 1. október 2007, beri með sér réttan útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 15. janúar 2008, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um endurútreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns eða því ári er barn kemur inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald, sbr. 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Í 3. málsl. 2. mgr. 13. gr. ffl. segir að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði sem foreldri hefur starfað á innlendum vinnumarkaði. Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 er kveðið á um að það að starfa á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV., V. og VIII. kafla laga um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum, feli í sér að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði.

Samkvæmt 3. mgr. 15. gr. ffl. sbr. 5. gr. laga nr. 90/2004 skal útreikningur á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi byggjast á upplýsingum sem Vinnumálastofnun aflar um tekjur foreldra úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Vinnumálastofnun skal leita staðfestingar hjá skattyfirvöldum á því að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda vegna tekjuára skv. 2. og 5. mgr. 13. gr. ffl.

Með lagabreytingu nr. 90/2004 á lögum um fæðingar- og foreldraorlof var fellt niður ákvæði um heimild foreldra skv. 3. mgr. 15. gr. til að leggja fram gögn því til staðfestingar að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá væru rangar, sbr. 5. gr. laga nr. 90/2004. Í athugasemdum um 5. gr. frumvarpsins segir að reynslan hafi sýnt að erfitt hafi verið að sannreyna gögn þau er foreldrar hafi skilað inn sem og að engin trygging hafi verið fyrir því að greitt sé tryggingagjald af gögnum sem ekki hafi verið skilað inn til skattyfirvalda.

Í 1. mgr. 15. gr. a. sbr. 6. gr. laga nr. 90/2004 segir að hafi breyting orðið á tekjuskattsálagningu foreldris vegna tekna sem greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði séu byggðar á sbr. 3. mgr. 15. gr. ffl. skuli Vinnumálastofnun leiðrétta greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði til samræmis við álagningu skattyfirvalda.

Kærandi ól barn 21. september 2007. Viðmiðunartímabil skv. 2. mgr. 13. gr. ffl. eru því tekjuárin 2005 og 2006.

Þegar litið er til ákvörðunar Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs var kærandi ekki á vinnumarkaði mánuðina janúar 2005 og tímabilið október 2005 til apríl 2006 og skal því ekki reikna með launum vegna starfa hennar á því tímabili við útreikning meðaltals heildartekna hennar.

Ágreiningur er um hvort við útreikning meðaltals heildarlauna kæranda skuli reikna með launum sem kærandi fékk greidd frá E þann 1. október og 1. nóvember 2005 og kærandi kveður hafa verið vegna vinnu í ágúst og september 2005. Að mati úrskurðarnefndarinnar staðfesta fyrirliggjandi launaseðlar að greiðslurnar eru vegna starfa kæranda í mánuðum sem falla innan viðmiðunartímabils sem miðað er við útreikning meðaltals heildartekna þ.e. í ágúst og september 2005. Launagreiðslurnar koma fram á staðgreiðsluyfirliti ársins 2005 og af þeim er greiddur tekjuskattur og tryggingagjald það ár. Með hliðsjón af því telur úrskurðarnefndin að tekið skuli tillit til þessara greiðslna við útreikning meðaltals heildarlauna kæranda og greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Eins og atvikum er háttað í þessu máli þykir framangreind breyting á 3. mgr. 15. gr. ffl. ekki leiða til annarrar niðurstöðu.

Með hliðsjón af framanrituðu er hinni kærðu ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um endurútreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði felld úr gildi. Við endurútreikning skal tekið tillit til launagreiðslna frá E þann 1. október og 1. nóvember 2005.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja A um endurútreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði er felld úr gildi. Við endurútreikning skal tekið tillit til launagreiðslna frá E þann 1. október og 1. nóvember 2005.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta