Hoppa yfir valmynd
27. mars 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 6/2008

Fimmtudaginn, 27. mars 2008

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 28. janúar 2008 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 22. janúar 2008.

Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 14. desember 2007 um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Er í MA námi við B-háskóla og var synjað um fæðingarstyrk sem námsmaður vegna of fárra eininga á haustönn 2006. Ég er ósátt við mat Fæðingarorlofssjóðs á náminu. Sjóðurinn metur hvora önn fyrir sig en ekki skólaárið í heild eins og skólinn gerir. Viðmið á mati skólans sjálfs á námsframvindu nemenda hlýtur að eiga að vera forsenda sjóðsins við mat hans á námsframvindu í hvert skipti. Mér finnst vinnubrögð Fæðingarorlofssjóðs skrítin enda virðist sem horft sé framhjá mati B-háskóla við vinnslu máls míns.

Ég fer frammá að kærunefnd endurskoði niðurstöðu Fæðingarorlofssjóðs m.t.t. málsatriða.

B-háskóli metur námsárið í heild sinni og samkvæmt staðfestingu (fylgir) frá yfirmanni deildar minnar er ég í yfir 80% námi yfir veturinn. Skólinn hefur nýverið tekið upp einingakerfi en skólarnir í D-landi eru nú að taka upp sama kerfi og er til staðar á flestum stöðum í Evrópu (BA/MA kerfið). Áður fylgdu þeir svokölluðu Lizentiatkerfi. Þrátt fyrir að búið sé að taka upp einingar fylgir skólinn minn gamla kerfinu sem felur í sér að í lok MA náms er tekið MA próf (etv ekki ósvipað stúdentsprófunum í MR og MA) og fara 10 ECTS í þau próf. Af þeirri ástæður er einingafjöldi á önn lægri en gert er ráð fyrir í íslenskum stöðlum sem er 30 ECTS eða 15 einingar per önn.

Mér finnst mjög undarlegt að ekki skuli tekið tillit til þess hvernig skólinn metur námið mitt við mat á veitingu fæðingarstyrks en einblína í staðinn á íslensk viðmið sem eiga engan veginn við í mínu tilfelli. Ég vísa hér í reglugerð um mat á námi til fæðingarstyrks:

„Í 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 segir að fullt nám í skilningi ffl. og reglugerðarinnar teljist 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Sama eigi við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Heimilt er að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 16. gr. eða undanþáguákvæði 17. gr. reglugerðar þessarar. Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í 75-100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur. Þá er heimilt að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn sem barn fæðist.“ Samkvæmt þessu hlýtur Fæðingarorlofssjóður að þurfa að taka tillit til hvað B-háskólinn miðar við í námsmati en ekki það sem gengur og gerist á Íslandi, hvort sem miðað er við hvora önn fyrir sig eða, eins og í mínu tilfelli, skólaárið í heild sinni.

Ég vil einnig taka fram að ég lagði mig sérstaklega fram við að taka aukið magn eininga á sumarönn eftir að ég uppgötvaði þungunina, til að gæta þess að heildarnámsárangur á skólaárinu væri yfir 75% svo ég yrði fær um að sjá mér og barni mínu farborða næstu mánuði. Mér er það óskiljanlegt að Fæðingarorlofssjóði sé óheimilt að meta nám á sama hátt og Lánasjóður íslenskra námsmanna, sem hlýtur að teljast reyndasta stofnun landsins í mati á námi. Þess má geta að Lánasjóður íslenskra námsmanna hefur þegar metið nám mitt sl. vetur (vetur og sumarönn) sem fullt nám og veitt mér 100% námslán fyrir báðar annirnar.

Jafnframt óska ég eftir rökstuðningi kærunefndar hvers vegna viðmiðunarreglur Fæðingarorlofssjóðs leyfa ekki færslu á einingum á milli anna eins og önnur mikilvæg stofnun námsmanna, LÍN hefur leyfi til að gera.

Eins væri gott að vita hvaða úrræði önnur standa íslenskum námsmönnum til boða sem fá synjun á framfærslu frá Fæðingarorlofssjóði og sitja uppi með enga innkomu og nýfætt barn á sínu framfæri.“

 

Með bréfi, dagsettu 4. febrúar 2008, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.

 

Greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs er dagsett 23. febrúar 2008. Í greinargerðinni segir:

Kærð er synjun á greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi.

Með umsókn, dags. 24. október 2007, sótti kærandi um greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri í fullu námi í 6 mánuði vegna væntanlegrar barnsfæðingar, 24. nóvember 2007.

Með umsókn kæranda fylgdi vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, ódagsett, bréf frá kæranda, dags. 19. október 2007, námsferilsyfirlit kæranda frá B-háskóla, dags. 23. ágúst 2007, undanþága frá kaupum á sjúkratryggingu, dags. 29. júní 2007, upplýsingar um Erasmus nám frá B-háskóla, ódagsett, skattyfirlit frá Sviss, dags. 6. febrúar 2007, námsleyfi frá B-háskóla, dags. 24. ágúst 2007.

Með bréfi Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs, dags. 19. nóvember 2007, var kæranda synjað um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi. Var í bréfinu tiltekið að kærandi teldist ekki hafa stundað fullt nám í a.m.k. 6 mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir áætlaðan fæðingardag barnsins.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 9. gr. laga nr. 90/2004, eiga foreldrar sem hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, rétt á fæðingarstyrk. Skilgreiningu á fullu námi er að finna í 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004. Þar kemur fram að fullt nám í skilningi laga um fæðingar- og foreldraorlof teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi eða á háskólastigi, í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Enn fremur kemur fram að heimilt sé að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 16. gr. eða undanþáguákvæði 17. gr. reglugerðarinnar.

Áætlaður fæðingardagur barns kæranda var 24. nóvember 2007 og verður því, við mat á því hvort kærandi hafi stundað fullt nám samfellt í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barnsins, að horfa til tímabilsins frá 24. nóvember 2006 fram að fæðingardegi barnsins.

Samkvæmt námsferlisyfirliti frá B-háskóla, dags. 23. ágúst 2007, kemur fram að námið sé 120 cp þar af eru 40 cp vegna lokaverkefnis. Hin 80 cp skiptast niður á þrjá annir eða 26,7 cp á önn. Kærandi hefur stundað nám við skólann á haustönn 2006 og vorönn 2007. Lauk kærandi 8 einingum (16 CP) á haustönn 2006. Á vorönn 2007 lauk kærandi 13,5 einingum (27 CP).

Í 2. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að leggja skuli fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í 75-100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur. Enn fremur að heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn er barn fæðist.

Samkvæmt framangreindu var kærandi með 60% námsframvindu á haustönn 2006 (16/26,7 cp). Á vorönn 2007 lauk kærandi 27 cp eða rúmlega fullri önn. Í lögum um fæðingar- og foreldraorlof og reglugerðum sem settar hafa verið með stoð í lögunum er ekki að finna neina undanþágu þegar foreldri hefur verið skráð í fullt nám en hefur síðan ekki staðist tilskilinn einingafjölda né heldur er að finna undanþágu um að hægt sé að leggja saman meðaltal tveggja anna við mat á fullu námi. Með hliðsjón af þessu og þeim gögnum sem fyrir liggja um námsframvindu kæranda lítur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður svo á að kærandi uppfylli ekki almenna skilyrðið um að hafa verið í fullu námi samfellt í a.m.k. 6 mánuði síðustu 12 mánuðina fyrir fæðingardag barns.

Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum, sbr. 1. mgr. 14. gr. rgl. nr. 1056/2004 eiga foreldrar sem eru utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi rétt á greiðslu fæðingarstyrks að því tilskyldu að foreldrið hafi átt lögheimili á Íslandi við fæðingu barns, ættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og síðustu 12 mánuði þar á undan. Kærandi átti lögheimili erlendis við fæðingu barnsins og verður því ekki annað séð en að hún eigi ekki rétt á greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri utan vinnumarkaðar.

Með vísan til framangreinds telur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður að umsókn kæranda um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi hafi réttilega verið synjað með bréfi, dags. 19. nóvember 2007.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 27. febrúar 2008, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 90/2004, eiga foreldrar í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða varanlegt fóstur rétt til fæðingarstyrks. Fullt nám í skilningi laganna er skilgreint í 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, sbr. 11. mgr. 19. gr. ffl.

Í 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 segir að fullt nám í skilningi ffl. og reglugerðarinnar teljist 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Sama eigi við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í 75-100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur. Þá er heimilt að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn er barn fæðist.

Samkvæmt gögnum málsins var áætlaður fæðingardagur barns kæranda 24. nóvember 2007 með hliðsjón af því er við það miðað að tólf mánaða viðmiðunartímabil skv. 1. mgr. 19. gr. ffl. sbr. og 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 sé frá 24. nóvember 2006 fram að fæðingu barns

Kærandi var við nám í B-háskóla. Á námsferilsyfirliti frá skólanum dagsettu 23. ágúst 2007 kemur fram að námið sé 120 cp þar af séu 40 cp vegna lokaverkefnis og 80 cp skiptist niður á þrjár annir eða 26,7 cp á önn. Fullt nám samkvæmt 1. mgr. 19. gr. ffl. telst því vera 20-26,7 cp á önn sbr. 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004. Kærandi lauk 16 cp á haustönn 2006 og 27 cp á vorönn 2007

Hún uppfyllir því ekki skilyrði um fullt nám í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, sbr. 1. mgr. 19. gr. ffl., sbr. og 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004. Engin ákvæði eru í ffl. eða reglugerð nr. 1056/2004 sem heimila undantekningu frá því skilyrði þannig að hægt sé að leggja saman einingar tveggja anna. Við fæðingu barns átti kærandi lögheimili erlendis og uppfyllir því ekki skilyrði þess að eiga rétt á greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri utan vinnumarkaðar sbr. 2. mgr. 18. gr. ffl.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni staðfest.

 

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja A um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta