Starfshópur um úrbætur á sviði skattskila af erlendri ferðaþjónustustarfsemi
Fjármála- og efnahagsráðherra hefur skipað starfshóp sem falið er að vinna tillögur að aðgerðum til úrbóta vegna ábendinga sem fram hafa komið um ójafna samkeppnisstöðu íslenskra ferðaþjónustuaðila gagnvart erlendum keppinautum, einkum á sviði hópferðastarfsemi. Umræðan snýr fyrst og fremst að skattskilum erlendu aðilanna, bæði varðandi skil á virðisaukaskatti af þeirri þjónustu sem þeir veita og er nýtt hér á landi, en einnig mögulegri tekjuskattskyldu þeirra hérlendis vegna þessarar starfsemi sem og staðgreiðsluskyldu vegna launþega á þeirra vegum. Þá hefur verið bent á að reglubundnar ferðir erlendra skemmtiferðaskipta milli hafna innanlands hafi skapað ójafna samkeppnisstöðu gagnvart veitingahúsum og gististöðum hér á landi.
Í ljósi þessarar umræðu hefur fjármála- og efnahagsráðherra ákveðið að skipa framangreindan starfshóp til að greina betur stöðu mála í erlendri ferðaþjónustustarfsemi hér á landi, jafnframt því að koma með tillögur til úrbóta. Undir hugtakið erlend ferðaþjónustustarfsemi fellur rekstur erlendra hópferðabifreiða og ferðaskrifstofa, auk ferðaleiðsagnar, en einnig rekstur erlendra skemmtiferðaskipa í innanlandssiglingum.
Í hópnum sitja:
- Hlynur Ingason, lögfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneyti sem verður formaður hópsins
- Elín Alma Arthursdóttir, sviðsstjóri fagsviðs hjá ríkisskattstjóra
- Guðný Bjarnarsdóttir, forstöðumaður hjá skattrannsóknarstjóra og
- Steinþór Þorsteinsson, sérfræðingur hjá tollstjóra
Starfshópnum er ætlað að skila ráðherra tillögum- og/eða reglugerðarbreytingum, eða breytingum á verklagi ásamt skýrslu um meginniðurstöður greiningarinnar fyrir miðjan júlí.