Hoppa yfir valmynd
15. febrúar 2016 Dómsmálaráðuneytið

Mál nr. 2/2014

Hinn 1. febrúar 2016 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 2/2014:

 

  Beiðni um endurupptöku

héraðsdómsmáls nr. E-1570/2013

Jörgen Már Guðnason

gegn

Olgu Genova

og kveðinn upp svohljóðandi

 

ÚRSKURÐUR:

 

I.          Beiðni um endurupptöku

Með erindi, dagsettu 24. mars 2014, fór Gunnhildur Pétursdóttir hdl. þess á leit fyrir hönd Olgu Genova, kt. 231286-3069,  að héraðsdómsmál nr. E-1570/2013 yrði endurupptekið. Útivist varð af hálfu endurupptökubeiðanda í málinu og var stefna í málinu árituð um aðfararhæfi í Héraðsdómi Reykjavíkur 11. júní 2013. Erindið var móttekið á skrifstofu endurupptökunefndar 27. mars 2014. Endurupptökubeiðanda var með bréfi, dagsettu 8. september 2014, gefinn kostur á að rökstyðja frekar hvernig skilyrðum laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála um endurupptöku máls væri fullnægt. Rökstuðningur endurupptökubeiðanda barst með bréfi, dagsettu 29. september 2014, og frekari gögn bárust 2. desember 2014. Hinn 7. apríl 2015 var því beint til endurupptökubeiðanda að leggja fram tiltekin viðbótargögn. Endurupptökubeiðandi óskaði eftir því 15. apríl 2015 að málið yrði sett í bið vegna gagnaöflunar. Endurupptökubeiðandi lagði síðan fram gögn 29. september 2015. Hinn 12. október 2015 óskaði endurupptökunefnd eftir umsögn gagnaðila. Sú beiðni var ítrekuð 16. nóvember 2015. Athugasemdir gagnaðila bárust 1. desember 2015 og voru þær kynntar endurupptökubeiðanda með bréfi, dagsettu 3. desember 2015.

 Með vísan til 34. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla, sbr. 2. gr. laga nr. 15/2013, fjallar endurupptökunefnd um endurupptökubeiðni þessa. Nefndina skipa í máli þessu Björn L. Bergsson, Elín Blöndal og Sigurður Tómas Magnússon.

 II.        Málsatvik

Með stefnu, dagsettri 9. apríl 2013, var þess krafist að endurupptökubeiðandi yrði dæmdur til að greiða gagnaðila, Jörgen Má Guðnasyni, kt. 301168-4899, skuld að fjárhæð 2.279.000 krónur ásamt dráttarvöxtum og málskostnaði. Í stefnu var skuldin sögð vera til komin vegna tveggja reikninga vegna vinnu stefnanda við parketlögn, gluggasmíði og fleira fyrir endurupptökubeiðanda. Krafan grundvallaðist á tveimur reikningum gagnaðila, báðum dagsettum 1. desember 2012, öðrum að fjárhæð 1.790.000 krónur og hinum að fjárhæð 489.000 krónur.Við þingfestingu málsins 16. apríl 2013 var ekki sótt þing af hálfu endurupptökubeiðanda. Stefnan var árituð um aðfararhæfi dómkrafna gagnaðila auk málskostnaðar 11. júní 2013. Gagnaðili sendi sýslumanninum í Reykjavík aðfararbeiðni vegna kröfunnar dagsetta 3. janúar 2014 og var endurupptökubeiðanda birt boðun 24. febrúar 2014 til fyrirtöku hjá sýslumanni 5. mars 2014.

III.       Grundvöllur beiðni

Endurupptökubeiðandi fer þess á leit að héraðsdómsmál nr. E-1570/2013 verði endurupptekið með vísan til 5. mgr. 137. gr., sbr. 167. gr. laga um meðferð einkamála. Hún telur að öll skilyrði stafliða a-c 1. mgr. 167. gr. laganna séu uppfyllt í málinu.

Hvað varðar a-lið 1. mgr. 167. gr. laganna byggir endurupptökubeiðandi á því að málsatvik eins og þeim var lýst í stefnu gagnaðila til Héraðsdóms Reykjavíkur séu fjarri hinu rétta og með öllu ósönnuð. Endurupptökubeiðanda verði ekki kennt um að vita ekki um reikninga sem henni hafi aldrei verið sendir, að hafa ekki móttekið innheimtubréf sem hafi verið send þangað sem endurupptökubeiðandi bjó ekki þrátt fyrir að gagnaðili hafi vitað betur og að hafa verið birt stefna á stað þar sem hún bjó ekki, heldur fyrir manni sem enginn kannist við og sé líkast til stefnuvottur. Allt þetta hafi verið á tungumáli sem endurupptökubeiðandi hafi ekki skilið.

Endurupptökubeiðandi tekur fram að þeir reikningar sem hafi verið grundvöllur hinnar árituðu stefnu og að fjárnámi séu tilhæfislausir með öllu. Undirbúningur málshöfðunar hafi átt sér stað á meðan endurupptökubeiðandi hafi verið í Rússlandi, dagana 14. janúar til 24. maí 2013 og hafi það verið með fullri vitneskju gagnaðila. Hvergi komi fram í gögnum málsins að samningur hafi verið gerður á milli aðila um að þau verk, sem talin séu upp í reikningunum, ekki liggi fyrir að þessi verk hafi verið unnin og hvað þá að fjárhæð þeirra hafi verið samþykktir af endurupptökubeiðanda. Gagnaðili hafi margoft lýst því yfir að hann ætlaði að gera allt sem í hans valdi stæði til að endurupptökubeiðandi missti fasteign hennar að Hrísateigi 1. Málshöfðunin hafi verið vandlega undirbúin af gagnaðila og markmiðið verið að leyna endurupptökubeiðanda öllum upplýsingum sem væru grundvöllur hinnar árituðu stefnu.

Þá sýni framlagning á frumriti þessara reikninga fyrir dómi að endurupptökubeiðandi hafi ekki fengið þá í hendur og hafi aldrei vitað um tilvist þeirra enda reikningarnir með öllu tilhæfislausir. Það að frumrit reikninganna liggi fyrir í umræddu héraðsdómsmáli sýni best hversu ákveðinn gagnaðili hafi ætlað að leyna þeim og málsókninni allri. Gagnaðili hafi vitað að endurupptökubeiðandi hafi verið í Rússlandi og sent endurupptökubeiðanda þessi bréf á lögheimili hennar þar sem gagnaðili hafi sjálfur tekið við þeim.

Jafnframt hafi stefnan ekki verið birt endurupptökubeiðanda löglegri birtingu heldur verið birt fyrir stefnuvotti svokallaðri „lögheimilisbirtingu“. Málsatvik hafi því ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið hafi verið til meðferðar hjá dómstólum enda hafi endurupptökubeiðandi ekki fengið upplýsingar um téða reikninga eða þær aðgerðir sem voru undirbúningur málsóknar. Endurupptökubeiðandi hafi því ekki á neinu stigi málsins fengið tækifæri til að greina frá réttum málsatvikum.

Hvað varðar b-lið 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála telur endurupptökubeiðandi að mjög sterkar líkur séu leiddar að því að þau gögn sem nú hafi verið lögð fram séu til þess fallin að breyta niðurstöðunni í öllum atriðum. Með öllu sé ósannað að gagnaðili hafi unnið þessi verk.  Gagnaðili hafi með skipulögðum hætti undirbúið aðgerðir til að sölsa undir sig fasteign endurupptökubeiðanda en hinir tilhæfulausu reikningar séu liður í því. Af gögnum málsins megi sjá að gagnaðili hafi nýtt sér fákunnáttu og tungumálaörðugleika endurupptökubeiðanda og að hún hafi verið háð gagnaðila til að skrifa undir ýmsa gerninga, til dæmis samning þar sem hún hafi gefið gagnaðila 50% í fasteign sinni.

Hvað varðar skilyrði c-liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála vísar endurupptökubeiðandi til þess að hún sé ein skráð eigandi fasteignarinnar og beri ábyrgð á öllum áhvílandi lánum og öðru sem tengist henni. Eina tekjulind endurupptökubeiðanda sé þessi fasteign sem hún hafi leigt út. Leigutekjurnar séu eina lífsviðurværi hennar og hafi meðal annars átt að standa undir afborgunum af lánum og öðrum kostnaði tengdum fasteigninni. Óumdeilt sé að stórfelldir hagsmunir endurupptökubeiðanda séu í húfi.

Að lokum hafi gagnaðili fengið leigjendur til að greiða sér leigu eða fyrirframgreiðslu. Jafnframt hafi hann hent leigjendum út, skipt um lás og leigt öðrum leigjendum sömu herbergin. Með þessu hafi gagnaðili skrúfað fyrir allt tekjustreymi til endurupptökubeiðanda og hafi krafist að eiga 50% í eigninni án þess að sýna fram á með hvaða hætti hann hafi öðlast þá hlutdeild.

Með bréfi endurupptökunefndar, dags. 8. september 2014, var endurupptökubeiðanda sérstaklega gefinn kostur á að rökstyðja frekar hvernig skilyrði stafliða a-c 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála væru uppfyllt í málinu, þá sérstaklega með hliðsjón af því að endurupptökubeiðandi hafi kært gagnaðila til lögreglu fyrir skjalafals.

Í rökstuðningi endurupptökubeiðanda, dags. 29. september 2014, er því haldið fram að þar sem endurupptökubeiðandi óski eftir endurupptöku útivistarmáls þurfi beiðnin aðeins að uppfylla  skilyrði 137. gr. laga um meðferð einkamála. Tilvísun í 5. mgr. 137. til 1. mgr. 167. gr. lúti aðeins að því að endurupptökunefnd skuli fjalla um endurupptöku útivistarmáls ef frestur samkvæmt 2. mgr. 137. gr. er liðinn en ekki til þess að þá eigi skilyrði stafliða a - c í 1. mgr. 167. gr. laganna að vera uppfyllt. Fyrrnefnda ákvæðið fjalli um endurupptöku útivistarmáls í héraði en hið síðarnefnda um endurupptöku óáfrýjaðs héraðsdóms. Á þessu tvennu sé regin munur en hér sé óskað endurupptöku útivistarmáls. Endurupptökubeiðandi telur að ekki sé hægt að gera sömu kröfur um endurupptöku útivistardóma og endurupptöku óáfrýjaða héraðsdóma vegna eðlis dómsniðurstöðunnar. Þegar um sé að ræða útivistarmál hafi aðili ekki komið að neinum vörnum á neinu stigi málsins, en þegar um sé að ræða óáfrýjaðan héraðsdóm hafi málið verið flutt á báða bóga.

Endurupptökubeiðandi byggir á því til vara að fullnægt sé öllum efnisatriðum 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála, en auk þess á það bent að Hæstiréttur hafi við túlkun ákvæðisins ekki farið strangt í sakirnar hvað þetta varði og horft til málsins í heild.

Endurupptökubeiðandi ítrekar að aðstaðan sé eðlisólík hvað varði annars vegar endurupptöku útivistardóms og hins vegar óáfrýjaðs héraðsdóms. Eðli málsins samkvæmt geti álitaefni varðandi stefnubirtingu til að mynda ekki skipt máli í dómsmáli sem tekið er til varna í og það flutt munnlega. Þessi mismunur hverfi ekki þótt annar aðili en héraðsdómur fjalli um endurupptöku útivistarmáls. Að mati endurupptökubeiðanda sé það eðlilegt að löggjafinn geri ekki sömu kröfur til endurupptöku útivistarmáls og til endurupptöku óáfrýjaðs héraðsdómsmáls.

Rökin fyrir því að strangari skilyrði séu sett fyrir endurupptöku máls á grundvelli héraðsdóms sem ekki hafi verið áfrýjað, sbr. 167. gr. laga um meðferð einkamála, en um endurupptöku útivistarmáls, séu þau að í fyrrnefndu málunum hafa verið hafðar uppi varnir, meðal annars með framlagningu greinargerðar og fram hafi farið munnlegur málflutningur um þrætuefnið með vitnaleiðslum ef því sé að skipta.

Endurupptökubeiðandi þurfi því aðeins að uppfylla eitt af skilyrðum 137. gr. laga um meðferð einkamálaí þessu máli. Ljóst sé að skilyrði stafliða a og b 2. mgr. 137. gr. laganna séu að minnsta kosti uppfyllt. Samkvæmt a-lið 2. mgr. 137. gr. laga um meðferð einkamála megi endurupptaka mál ef stefna hafi hvorki verið birt stefnda né öðrum sem mátti birta. Með vísan til málavaxta og gagna sé það skilyrði uppfyllt. Enn fremur segi í b-lið 2. mgr. 137. gr. laganna að endurupptaka megi mál ef átt hefði að vísa kröfum á hendur stefnda sjálfkrafa frá dómi eða einhverju eða öllu leyti. Á því sé byggt að þetta skilyrði sé jafnframt uppfyllt og að héraðsdómari hefði átt að vísa málinu frá „ex officio“ vegna annmarka við stefnubirtinguna sjálfa en jafnframt vegna þeirrar staðreyndar að frumrit reikninganna hafi legið fyrir í málinu.

Í málatilbúnaði endurupptökubeiðanda hafi verið vísað í kærur hennar á hendur gagnaðila. Þau gögn sýni og styðji að gagnaðili sé meira en líklegur til að hafa af ásettu ráði fengið umræddan útivistardóm á grundvelli sviksamlegrar háttsemi sinnar sem áður hafi verið gerð grein fyrir. Auk þess vísar endurupptökubeiðandi til þess að gagnaðili hafi höfðað tvö önnur mál á hendur henni er varði kröfu um gildi samnings. Fyrra málinu hafi verið vísað frá en hið síðara sé enn til meðferðar fyrir dómstólum. Ef þau mál séu borin saman við það mál sem nú er óskað endurupptöku á megi sjá að málin byggja á mismunandi grunni, annars vegar á kröfuréttarsambandi og hins vegar eignaréttarsambandi. Þannig geri gagnaðili málstað sinn svo tortryggilegan að fram sé komin nægjanleg ástæða til að virða þessa reikninga að vettugi. Þó ekki sé um sömu reikninga að ræða séu engu að síður tvær málflutningsyfirlýsingar í tveimur málum sem ganga hvor í sína áttina um algerlega sambærilega vinnu. Með vísan til þess leiki allt of mikill vafi á því að þau málsúrslit sem fengust með hinni árituðu stefnu í máli nr. E-1570/2013 séu sönn og rétt. Því beri að fallast á endurupptöku málsins til að hægt verði að leiða hið sanna í ljós.

Af hálfu endurupptökubeiðanda er því haldið fram að gagnaðili hafi fengið nafni sínu breytt og heiti nú Loki Hrafn Guðnason. Þess sér ekki stað í þjóðskrá en þar kemur fram að Jörgen Már Guðnason, kt. 301168-4899 sé með lögheimili í Bretlandi.

IV.       Athugasemdir gagnaðila

Gagnaðili kom á framfæri athugasemdum sínum með tölvubréfi, dagsettu 1. desember 2015. Þar kemur fram að gagnaðili hafi keypt umrædda fasteign með endurupptökubeiðanda og hafi hann lagt fram fé vegna þeirra kaupa. Endurupptökubeiðandi hafi verið skráð sem eigandi eignarinnar þar sem hann sé með lögheimili í öðru landi. Handhafabréfi til handa honum hafi verið þinglýst á fasteignina. Þá hafi gagnaðili séð um framkvæmdir á fasteigninni. Gagnaðili telur endurupptökubeiðanda „hreinlega að reyna að stela eigninni“ af sér.

V.        Niðurstaða

Af hálfu endurupptökunefndar er leyst úr máli þessu á grundvelli XXVI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, sbr. 5. mgr. 137. gr. sömu laga.

 Í 137. gr. laga um meðferð einkamála er fjallað um endurupptöku útivistarmáls í héraði. Í 1. mgr. 137. gr. eru sett mjög rúm skilyrði fyrir endurupptöku útivistarmáls ef stefndi óskar eftir endurupptöku málsins innan þriggja mánaða frá því máli lauk í héraði, enda berist beiðnin dómara innan mánaðar frá því stefnda urðu málsúrslit kunn. Í 2. mgr. 137. gr. eru sett heldur þrengri skilyrði fyrir endurupptöku útivistarmáls eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því máli lauk í héraði en þó innan árs frá því en eins og í 1. mgr. er það skilyrði sett að beiðnin berist dómara innan mánaðar frá því að stefnda urðu málsúrslit kunn. Endurupptökubeiðni á grundvelli 1. eða 2. mgr. 137. gr. er beint til dómara og tekur hann ákvörðun um hvort skilyrði um endurupptöku séu uppfyllt.

Eftir að frestur 2. mgr. 137. gr. er liðinn á stefndi þó kost á að óska eftir ákvörðun endurupptökunefndar um endurupptöku en um slíka heimild er sérstaklega kveðið á um í 5. mgr. 137. gr. sem hljóðar svo: „Þegar frestur skv. 2. mgr. er liðinn verður mál ekki tekið upp í héraði nema eftir ákvörðun endurupptökunefndar samkvæmt lögum um dómstóla, sbr. 1. mgr. 167. gr.“ Skilja verður ákvæðið svo að með orðalaginu „frestur skv. 2. mgr. er liðinn“ sé átt við að annað tveggja sé liðið meira en ár frá dómsuppsögu eða meira en mánuður sé liðinn frá því að stefnda urðu málsúrslit kunn.

Í 1. mgr. 167. gr. laganna segir að hafi héraðsdómur gengið í máli, sem ekki hafi verið áfrýjað, og áfrýjunarfrestur er liðinn, geti endurupptökunefnd samkvæmt lögum um dómstóla orðið við beiðni um að málið verði endurupptekið í héraði ef eftirfarandi skilyrðum er fullnægt:

a.     sterkar líkur eru leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar og aðilanum verður ekki kennt um það,

b.      sterkar líkur eru leiddar að því að ný gögn muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum,

c.      önnur atvik mæla með því að leyfið verði veitt, þar á meðal að stórfelldir hagsmunir aðilans séu í húfi.

 Af hálfu endurupptökubeiðanda er því haldið fram að hún hafi móttekið boðun sýslumannsins í Reykjavík um fjárnám 24. febrúar 2014. Þá liggur fyrir að í greinargerð sem lögmaður endurupptökubeiðanda lagði fram 4. mars 2014 í öðru dómsmáli sem gagnaðili höfðaði á hendur henni er vísað til umræddrar fjárnámsbeiðni og hún raunar lögð fram með greinargerðinni. Endurupptökubeiðnin, sem dagsett er 24. mars 2014, var móttekin á skrifstofu endurupptökunefndar 27. mars 2014 og var þá liðinn meira en mánuður frá því að endurupptökubeiðandi fékk í síðasta lagi vitneskju um hina árituðu stefnu á hendur henni. Ekki voru þá lengur skilyrði til að óska eftir endurupptöku hjá dómara skv. 2. mgr. 137. gr.

Dómstólunum hefur verið fengið það mikilsverða hlutverk að leysa úr ágreiningsmálum í samfélaginu og í réttarfarslögum er gengið út frá þeirri forsendu að dómar skuli vera endanlegir. Að baki búa þeir mikilvægu samfélagslegu hagsmunir að málsaðilar og aðrir geti treyst því að með dómi í máli hafi endir verið bundinn á þrætuna. Þessi grundvallarregla kemur hvað skýrast fram í 1. og 2. mgr. 116. gr. einkamálalaga þar sem kveðið er á um neikvæð réttaráhrif dóma, þ.e. endanlegs dóms Hæstaréttar eða óáfrýjaðs héraðsdóm. Frá þeirri meginreglu að dómur sé bindandi um úrlausn sakarefnis og að krafa sem hefur verið dæmd að efni til verði ekki borin aftur undir sama eða hliðsettan dómstól eru þó gerðar þröngar undantekningar í XXIII. kafla laga um meðferð einkamála hvað varðar endurupptöku útivistarmáls í héraði, í  XXVI. kafla hvað varðar endurupptöku óáfrýjaðs dóms og í XXVII. kafla hvað varðar endurupptöku máls sem hefur verið dæmt í Hæstarétti. Vegna framangreindra sjónarmiða er óhjákvæmilegt að túlka skilyrði laganna fyrir endurupptöku þröngt.

Til þess verður þó að líta að lög um meðferð einkamála gera talsverðan mun á skilyrðum fyrir endurupptöku útivistarmáls og endurupptöku dóma í málum sem sótt hafa verið og varin og byggist sá munir á því viðhorfi að mikilvægt sé að stefndi fái sanngjarnt tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri í dómsmáli.

Reglur einkamálalaga um stefnubirtingu hafa það hlutverk að stuðla að því að stefndi fái vitneskju um málshöfðun gegn honum. Í því skyni er meðal annars mælt svo fyrir um í 1. mgr. 86. gr. einkamálalaga að þeim sem hittist fyrir þegar birta á stefnu sé skylt að greina frá nafni sínu og öðrum atriðum sem lögmæti birtingar getur oltið á og í 2. mgr. greinarinnar er mælt svo fyrir um að sá sem annist birtingu skuli afhenda þeim sem er birt fyrir samrit stefnu og vekja athygli hans á því hver athöfn sé að fara fram. Ef birt er fyrir öðrum en stefnda skuli honum bent á skyldur sínar skv. 3. mgr. Í síðastnefnda ákvæðinu segir að ef stefna er birt fyrir öðrum en stefnda beri þeim manni að viðlagðri sekt að koma samriti stefnu í hendur stefnda, en sé þess ekki kostur þá í hendur þess sem má telja líklegastan til að koma samriti til skila í tæka tíð. Þessar reglur geta þó aldrei tryggt að stefndi fái vitneskju um málshöfðun á hendur honum fyrir þingfestingu máls og því eru heimildir til endurupptöku útivistarmála nokkuð rúmar, sérstaklega ef stefndi bregst við tímanlega eftir að honum verða málsúrslit kunn.

Vegna hinna rúmu heimilda til endurupptöku útivistarmála hefur bæði í löggjöf og réttarframkvæmd verið slakað nokkuð á þeim kröfum sem gerðar eru til stefnubirtinga. Þannig telst stefnubirting lögmæt, skv. a-lið 3. mgr. 85. gr. einkamálalaga, ef birt er á skráðu lögheimili stefnda fyrir þeim sem hittist þar fyrir ef ekki er kostur á að birta fyrir heimilismanni eða einhverjum sem dvelst þar. Af dómi Hæstaréttar frá 16. september 2013 í málinu nr. 487/2013 má draga þá ályktun að birting á skráðu lögheimili stefnda, eða í því tilviki fyrirsvarsmanns stefnda, fyrir hverjum sem hittist þar fyrir sé ávallt lögmæt jafnvel þótt ljóst virðist að hvorki hann né aðrir búi á lögheimilinu.

Í því máli sem óskað er endurupptöku á var stefna birt 12. apríl 2013, eða á síðasta mögulega birtingardegi stefnunnar, á skráðu lögheimili endurupptökubeiðanda að Hrísateigi 1 í Reykjavík en það heimilisfang var jafnframt gefið var upp í stefnunni sem heimili stefnanda. Samkvæmt stefnubirtingarvottorði var stefnan birt fyrir Gunnari Birkissyni sem sagður var „þar staddur“ en engin nánari deili sögð á honum önnur. Í 3. mgr. 87. gr. einkamálalaga kemur fram að efni birtingarvottorðs teljist rétt þar til það gagnstæða sannast. Með vísan til framangreinds verður að líta svo á að um lögmæta stefnubirtingu hafi verið að ræða.

Af hálfu endurupptökubeiðanda er því haldið fram að hún hafi dvalið í Rússlandi samfleytt frá 14. janúar til 24. maí 2014. Fyrir þessari fullyrðingu hefur endurupptökubeiðandi þó ekki fært nein sönnunargögn. Endurupptökubeiðandi hefur þó haldið því sama fram í lögregluskýrslum og í greinargerð til Héraðsdóms Reykjavíkur. Fyrir endurupptökunefnd hefur verið lagt fram vottorð starfsmanns Kvennaathvarfsins um að endurupptökubeiðandi hafi dvalið í Kvennaathvarfinu frá 4. til 14. janúar 2013 og aftur frá 24. maí til 25. júní 2014 eða rétt fyrir og rétt eftir það tímabil sem endurupptökubeiðandi kveðst hafa dvalið í Rússlandi. Með vísan til framangreinds og þar sem gagnaðili hefur ekki andmælt þeirri staðhæfingu endurupptökubeiðanda að hún hafi dvalið erlendis á framangreindu tímabili þykir óhætt að leggja hana til grundvallar. Stefna á hendur endurupptökubeiðanda var árituð um aðfararhæfi 11. júní 2013.

Í ljósi þess að einn af varastefnuvottum í Reykjavík, skipuðum af sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, ber nafnið Gunnar Birkisson og aðrir bera ekki það nafn samkvæmt þjóðskrá liggur fyrir að stefnuvottur birti stefnuna umrædd sinn fyrir öðrum stefnuvotti. Í ljósi þess að stefnan var birt á lögheimili stefndu, sem jafnframt var heimili stefnanda samkvæmt því sem fram kom í stefnu, bar þeim stefnuvotti sem birti stefnuna og þeim stefnuvotti sem birt var fyrir að gæta sérstaklega vel að skyldum sínum samkvæmt 86. gr. einkamálalaga varðandi stefnubirtinguna og þá sérstaklega vegna þess að stefnan var birt aðeins rúmum þremur sólarhringum fyrir þingfestingu málsins. Ekkert liggur hins vegar fyrir um í málinu hvort eða hvernig nefndur Gunnar hafi sinnt þeirri lagaskyldu sinni, skv. 3. mgr. 86. gr. einkamálalaga, að kom samriti stefnunnar til stefndu eða í hendur þess sem líklegastur var til að koma samriti stefnu til skila í tæka tíð.

Með vísan til alls framangreinds þykir mega leggja til grundvallar þá fullyrðingu endurupptökubeiðanda að hún hafi ekki fengið umrædda stefnu í hendur og ekki verið málsúrslit kunn fyrr en hún tók við boðun um fjárnám vegna áritaðrar stefnu á hendur henni 24. febrúar 2014, enda hefur það ekki verið véfengt af hálfu gagnaðila. Þá voru rúmir átta mánuðir liðnir frá því að stefna á hendur henni var árituð um aðfararhæfi. Endurupptökubeiðnin er dagsett 24. mars 2014 en móttekin á skrifstofu endurupptökunefndar 27. mars. 2014 en þá var liðinn sá mánaðarfrestur sem endurupptökubeiðandi hafði skv. 2. mgr. 137. gr. til að beina endurupptökubeiðni til dómara. Endurupptökubeiðandi átti því ekki annarra kosta völ en að beina beiðni sinni um endurupptöku til endurupptökunefndar eins og beiðni hennar raunar staðfestir.

Með vísan til framangreinds verður endurupptökubeiðnin því aðeins samþykkt að endurupptökubeiðandi hafi sýnt fram á að öll skilyrði a - c liða 1. mgr. 167. gr. einkamálalaga fyrir endurupptöku séu uppfyllt. Við mat á hvort þessi skilyrði teljist uppfyllt togast á þau andstæðu sjónarmið annars vegar að mikilvægt er að enda hverja þrætu og hins vegar að réttarkerfið og reglur um stefnubirtingu sé ekki misnotað til að knýja fram bersýnilega ranga niðurstöðu sem ekki verður endurskoðuð. Eðli málsins samkvæmt er jafnframt nokkur munur á þeim sjónarmiðum sem liggja til grundvallar mati á því hvort skilyrði fyrir endurupptöku útivistarmáls séu uppfyllt og mati á því hvort skilyrði fyrir endurupptöku óáfrýjaðs héraðsdóms og hæstaréttardóms séu uppfyllt. Jafnframt verður að leggja til grundvallar við mat á því hvort skilyrði 1. mgr. 167. gr. teljist uppfyllt að í svari gagnaðila til endurupptökunefndar er beiðni um endurupptöku málsins ekki mótmælt sérstaklega og því ekki andmælt að skilyrði fyrir endurupptöku séu fyrir hendi.

Skilyrði a-liðar 1. mgr. 167. gr. lýtur að því að endurupptökubeiðandi leiði sterkar líkur að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar og aðilanum verður ekki kennt um það.

Meðal gagna málsins eru fjölmörg skjöl um sambúð og lögskipti endurupptökubeiðanda og gagnaðila, þar á meðal lögregluskýrslur, úrskurður um nálgunarbann gagnaðila gagnvart endurupptökubeiðanda og sakfellingardómur á hendur gagnaðila vegna líkamsárása gegn endurupptökubeiðanda. Einnig hefur endurupptökubeiðandi lagt fram kæru sína til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, dagsetta 29. september 2015, sem meðal annars lýtur að meintri refsiverðri háttsemi gagnaðila í tengslum við útgáfu þeirra reikninga sem voru grundvöllur stefnukröfu í máli því sem óskað er endurupptöku á. Þá liggja fyrir tvær aðrar stefnur frá gagnaðila á hendur endurupptökubeiðanda en í þeim málum byggði gagnaðili á því að hann og endurupptökubeiðandi væru í raun sameigendur að fasteigninni Hrísateigi 1 og vísaði meðal annars til óþinglýsts samnings þar um. Öðru málinu var vísað frá dómi en ekki liggja fyrir upplýsingar um afdrif hins. Þá heldur gagnaðili fram svipuðum rökum í svari sínu til endurupptökunefndar og telur að endurupptökubeiðandi hafi reynt að stela af honum eigninni.

Í því máli sem krafist er endurupptöku á byggði gagnaðili á því að endurupptökubeiðandi skuldaði honum  2.279.000 krónur vegna vinnu hans við parketlögn, gluggasmíði og fleira og byggði kröfuna á tveimur reikningum án virðisaukaskatts nr. 1 og 2, báðum dagsettum 1.12. 2012. Í máli gagnaðila á hendur endurupptökubeiðanda sem hann þingfesti 26. júní 2014 lagði hann hins vegar fram 12 reikninga, nr. 1-12, dagsetta á tímabilinu 22.11.2011 til 15.4.2014 vegna ýmiss konar verklegra framkvæmda að Hrísateigi 1 í Reykjavík. Einn þessara reikninga er dagsettur 1.12.2012, eða sama dag og annar þeirra reikninga sem voru grundvöllur dómkröfu í máli því sem hér er krafist endurupptöku á. Á báðum reikningunum er að finna liðinn parketslípun og í öðru tilvikinu gerð krafa um 400.000 krónur en í hinu tilvikinu 490.000 krónur. Þá er þess að geta að í máli því sem krafist er endurupptöku á var engin grein gerð fyrir samningssambandi aðila, hvort endurupptökubeiðandi hafi óskað eftir vinnuframlagi gagnaðila eða hvort samið hafi verið um endurgjald. Með vísan til framlagðra gagna fyrir endurupptökunefnd og þá sérstaklega málatilbúnaðar gagnaðila í umræddum þremur dómsmálum svo og svars hans til endurupptökunefndar þykir endurupptökubeiðandi hafa leitt sterkar líkur að því að málsatvik hafi ekki verið réttilega í ljós leidd í máli því sem lauk með áritun stefnu um aðfararhæfi 11. júní 2013.

Vegna náinna tengsla málsaðila verður að leggja til grundvallar að gagnaðili hafi vitað að endurupptökubeiðandi var erlendis á þeim tíma sem innheimtubréf vegna kröfu hans voru send, stefna birt á sameiginlegu heimili þeirra og síðan þingfest. Virðist gagnaðili þannig hafa sætt lagi að knýja fram aðfararhæfa dómsúrlausn á hendur endurupptökubeiðanda að henni fjarstaddri.  Er óhjákvæmilegt að það hafi nokkur áhrif við mat á því hvort skilyrði a-liðar 1. mgr. 167. gr. einkamálalaga teljist uppfyllt.

Ekki þykir rétt að láta það hafa áhrif á mat á því hvort síðara skilyrði a-liðs sé uppfyllt að endurupptökubeiðandi leitaði ekki endurupptöku fyrr en liðinn var sá mánaðarfrestur sem tilgreindur er í 2. mgr. 137. gr. Líta verður til þess að 167. gr. hefur ekki að geyma neina tímafresti og sú heimild til endurupptöku sem leiðir af 5. mgr. 137. gr.  hefði enga sjálfstæða þýðingu ef meira en mánaðar töf á að krefjast endurupptöku yrði talin útiloka það að skilyrði a-liðar 1. mgr. 167. gr. teldist uppfyllt.

Með vísan til þess sem að framan greinir um dvöl endurupptökubeiðanda í Rússlandi frá 14. janúar til 24. maí 2013 og aðferðar við stefnubirtingu þykir endurupptökubeiðandi sömuleiðis hafa sýnt fram á að vanrækslu hennar hafi ekki verið um að kenna að málsúrslit hafi ekki verið réttilega í ljós leidd í málinu. Teljast skilyrði a-liðar 1. mgr. 167. gr. einkamálalaga fyrir endurupptöku því uppfyllt.

Skilyrði b-liðar 1. mgr. 167. gr. einkamálalaga felst í því að endurupptökubeiðandi þarf að leiða sterkar líkur að því að ný gögn muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum. Sem fyrr segir hefur endurupptökubeiðandi lagt fram fjölda gagna sem ekki lágu fyrir  í útivistarmáli því sem krafist er endurupptöku á. Þar á meðal eru tvær fyrrgreindar stefnur í öðrum málum sem gagnaðili hefur höfðað á hendur endurupptökubeiðanda en málatilbúnaður og framlögð sönnunargögn gagnaðila í þeim málum virðist engan veginn samrýmast málatilbúnaði hans í máli því sem krafist er endurupptöku á. Með vísan til þess sem rakið er að framan um skilyrði a-liðar 1. mgr. 167. gr. þykir endurupptökubeiðandi hafa leitt sterkar líkur að því að þessi nýju gögn muni verða til breyttrar niðurstöðu í verulegum atriðum. Telst því skilyrði b-liðar 1. mgr. 167. gr. fullnægt.

Skilyrði c-liðar 1. mgr. 167. gr. felst í því að endurupptökubeiðandi þarf að sýna fram á að önnur atvik mæli með því að leyfið verði veitt, þar á meðal að stórfelldir hagsmunir hans séu í húfi.

Samkvæmt skjölum sem endurupptökubeiðandi hefur sent endurupptökunefnd hefur gagnaðili framselt kröfu sína samkvæmt hinni árituðu stefnu til Guðbjargar Juttu Agnarsdóttur. Guðbjörg Jutta sendi sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu beiðni um nauðungarsölu, dagsetta 18. maí 2015, á fasteign endurupptökubeiðanda að Hrísateigi 1 í Reykjavík. Nauðungarsölubeiðnin er grundvölluð á fjárnámi sem gert var í eigninni 5. mars 2014 fyrir kröfu samkvæmt hinni árituðu stefnu í máli því sem krafist er endurupptöku á. Í nauðungarsölubeiðninni kemur fram að krafan hafi verið framseld gerðarbeiðanda 24. febrúar 2015. Fyrri sala fór fram 12. nóvember 2015 en síðari sala er fyrirhuguð í febrúar 2016. Af hálfu endurupptökubeiðanda er því haldið fram að fasteignin Hrísateigur 1 í Reykjavík sé eina eign hennar og einu tekjur hennar séu leigutekjur af fasteigninni. Með vísan til framangreinds þykir endurupptökubeiðandi hafa sýnt fram á það með ótvíræðum hætti að stórfelldir hagsmunir hennar séu í húfi að fá málið endurupptekið. Teljast skilyrði c-liðar 1. mgr. 167. gr. því uppfyllt.

Með vísan til þess að öllum skilyrðum 1. mgr. 167. gr. einkamála til endurupptöku héraðsdómsmáls nr. E-1570/2013, sem lauk með áritaðri stefnu í héraðsdómi Reykjavíkur 11. júní 2013, er uppfyllt samþykkir endurupptökunefnd beiðni Olgu Genova um endurupptöku málsins.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Beiðni Olgu Genova um endurupptöku héraðsdómsmáls nr. E-1570/2013, sem dæmt var í Héraðsdómi Reykjavíkur 11. júní 2013, er samþykkt.

 

 Björn L. Bergsson formaður

  

Elín Blöndal

  

Sigurður Tómas Magnússon

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta