Hoppa yfir valmynd
21. febrúar 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 276/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 276/2017

Miðvikudaginn 21. febrúar 2018

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 20. júlí 2017, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 30. júní 2017 um stöðvun og endurkröfu heimilisuppbótar.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 17. október 2016, var kæranda tilkynnt um stöðvun og endurkröfu heimilisuppbótar frá 1. nóvember 2015. Sú ákvörðun var kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála með kæru, dags. 26. janúar 2017. Í ljósi upplýsinga sem fram komu í kæru ákvað Tryggingastofnun að endurskoða framangreinda ákvörðun og rannsaka málið nánar. Kæra var afturkölluð í kjölfarið. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 30. júní 2017, var kæranda tilkynnt um að fyrri ákvörðun stofnunarinnar stæði óbreytt.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 26. júlí 2017. Með bréfi, dags. 31. ágúst 2017, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 3. október 2017, krafðist Tryggingastofnun frávísunar málsins þar sem stofnunin taldi rétt að rannsaka málið frekar. Frávísunarkrafa Tryggingastofnunar var kynnt kæranda með bréfi, dags. 5. október 2017, og óskað var eftir afstöðu hennar til kröfunnar. Með bréfi kæranda, mótteknu 31. október 2017, var óskað eftir að úrskurðarnefndin myndi úrskurða í málinu. Með bréfi, dags. 14. nóvember 2017, óskaði úrskurðarnefnd eftir efnislegri greinargerð Tryggingastofnunar. Með bréfi, dags. 11. desember 2017, barst greinargerð Tryggingastofnunar og með bréfi, dagsettu sama dag, var hún send kæranda til kynningar. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi, dags. 22. desember 2017. Athugasemdir kæranda voru kynntar Tryggingastofnun með bréfi, dags. 2. janúar 2018. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að felld verði úr gildi ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um stöðvun og endurkröfu heimilisuppbótar frá 1. nóvember 2015 og að greiðslur hefjist aftur frá þeim tíma sem uppbótin var felld niður.

Í kæru segir að kærandi sé öryrki og búi ein. Hún hafi þegið heimilisuppbót sem skipti framfærslu hennar miklu máli. Í október 2016 hafi Tryggingastofnun stöðvað greiðslu heimilisuppbótar til hennar þar sem stofnunin hafi talið að […] hennar héldi með henni heimili. Með tveimur bréfum stofnunarinnar, dagsettum 1. mars 2017, hafi henni verið tilkynnt að ákvörðunin yrði endurskoðuð að fenginni staðfestingu húsfélags um að herbergi í sameign væri eign húsfélagsins og að […] hennar væri búsettur þar. Í hinu bréfi stofnunarinnar hafi komið fram að stofnuninni hafi borist ódagsett og óundirritað bréf húsfélagsins þar sem fram hafi komið að húsfélagið hafi gert upp herbergi sem áður hafi verið […) og leigt það syni hennar. Einnig hafi stofnunin vitnað til laga um fjöleignarhús nr. 26/1994 um ráðstöfun sameignar í slíkum húsum og hvernig slíkar ákvarðanir skuli meðhöndlaðar á fundum húsfélaga. Með vísan til þessara laga hafi henni verið gert að leggja fram staðfestingar á því að húsfélagið að B hafi farið að lögum varðandi umrætt herbergi.

Þá fjallar kærandi um lagaskilyrði greiðslna heimilisuppbótar. Kærandi telji sig uppfylla öll skilyrði til greiðslu heimilisuppbótar og að umbeðin staðfesting hafi verið lögð fram um búsetu […] hennar. Sú staðfesting sé ódagsett en beri það skýrt með sér að hafa verið móttekin af Tryggingastofnun. Ekki sé fallist á að sú staðfesting sé óundirrituð þar sem hún sé undirrituð fyrir hönd húsfélagsins og það sé ekki á forræði kæranda með hvaða hætti aðrir hagi undirritun sinni. Að mati kæranda sé það málinu óviðkomandi hvaða lög og reglur gildi um ráðstöfun sameigna í fjöleignarhúsum. Málið snúist aðeins um það hvort hún búi ein eða ekki. Það sé réttindum hennar til greiðslu heimilisuppbótar óviðkomandi með hvaða hætti ákvörðun húsfélagsins hafi verið tekin um að gera umrætt herbergi í sameign upp til útleigu.

Í lögum og reglum er varða lífeyri sé ekkert að finna um sönnunarbyrði lífeyrisþega á því hvort fjölskyldumeðlimir þeirra búi í löglegu húsnæði eða ekki. Hins vegar beri lífeyrisþega að gera grein fyrir því að hann búi einn þiggi hann heimilisuppbót og Tryggingastofnun hafi farið fram á það samkvæmt V. kafla laga nr. 100/2007. Þar sem Tryggingastofnun taldi áhöld um að hún byggi ein hafi kærandi leitað til forráðamanns húsfélagsins um staðfestingu, enda búi töluverður fjöldi fólks í húsinu.

Kærandi hafi farið þess á leit við Tryggingastofnun, með vísan til 3. mgr. 55. gr. laga nr. 100/2007, að henni verði greidd heimilisuppbót frá þeim tíma er greiðslur voru stöðvaðar og á meðan hún haldi enn ein heimili. Það sé von hennar að staðfesting húsfélagsins teljist næg sönnun þess að […] hennar sé ekki búsettur hjá henni. Með vísan til framangreinds telji kærandi ekki forsendur til að hún afli frekari upplýsinga um tilurð herbergis er […] hennar búi í og leigi af húsfélaginu.

Tryggingastofnun hafi hundsað allar útskýringar kæranda og virðist ganga út frá því að henni beri að sanna að löglega hafi verið staðið að útleigu húsfélagsins á herbergi til sonar hennar. Einnig að það sé á hennar ábyrgð hvernig staðfestingar forráðamanna húsfélagsins á leigusamningi séu og hvernig þeir hagi undirritunum sínum almennt og að það hafi áhrif á réttindi hennar hjá Tryggingastofnun. Um sé að ræða ómöguleika sem engin lagarök staðfesti að leggja eigi á lífeyrisþega.

Staðreynd málsins sé sú að kærandi eigi íbúð í félagi við […]sinn. Hann sé ekki búsettur í íbúðinni þótt aðkoma hans að kaupunum hafi verið kerfisleg hagræðing á sínum tíma. Sambúð þeirra gangi ekki og hafi hann fengið umrætt íbúðarherbergi leigt af húsfélaginu, þar sé hann búsettur og eigi þar sitt líf og taki engan þátt í heimilishaldi hennar að neinu leyti.

Farið sé fram á að ákvörðun Tryggingastofnunar um afnám og endurkröfu heimilisuppbótar verði felld úr gildi og setji þannig lífeyrisþegum ekki það fordæmi að þurfa að standa undir þeirri sönnunarbyrði er Tryggingastofnun vilji leggja á kæranda.

Í svari kæranda við frávísunarkröfu Tryggingastofnunar ríkisins segir að stofnunin hafi byggt frávísunarkröfu á því að gjaldkera húsfélagsins að B hafi verið sent bréf og teljist það því til ákvörðunar um að rannsaka málið nánar og gagnaöflunar. Í bréfi stofnunarinnar hafi gjaldkeranum verið kynnt ákvæði laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Einnig hafi verið farið fram á að hann sem gjaldkeri legði fram afrit af samþykkt húsfélagsins um breytingu á sameign, auk afrita af ársreikningum undanfarinna ára þar sem fram komi leigutekjur af umræddu herbergi. Þá hafi gjaldkeranum verið gert að upplýsa um hver formaður húsfélagsins væri. Að senda slíkt bréf og stofnunin gerði til gjaldkera húsfélagsins sé að mati kæranda alvarlega ámælisvert og brot á trúnaðarskyldu stofnunarinnar við hana.

Ítrekað sé það sem áður hafi komið fram að það komi hvorki henni né stofnuninni við hvort húsfélagið hafi farið að lögum við útleigu á herbergi í sameign. Hvergi sé að sjá að stjórnum húsfélaga beri að standa Tryggingastofnun skil á rekstri sínum.

Afstaða kæranda sé skýr að nefndin fjalli um kæruna og að Tryggingastofnun verði gefinn skammur tími til að skila greinargerð. Bent sé á að nær þrír mánuðir séu síðan kæra var lögð fram.

Í athugasemdum kæranda við greinargerð Tryggingastofnunar sé ítrekað það sem áður hafi komið fram. Vakin sé athygli á ónákvæmni í öllum dagsetningum Tryggingastofnunar sem og ýmsu öðru. Það sé óviðunandi að mati kæranda. Það kunni að virka smávægilegt en það sé það alls ekki þegar litið sé til þess að stofnunin taki ákvarðanir er byggja eigi á lögum og nákvæmni. Framangreint sé ekki til þess fallið að undirbyggja traust til stofnunarinnar um fagleg, lögleg og réttmæt vinnubrögð við að tryggja skjólstæðingum sínum þá þjónustu og réttindi er lög leyfa.

Mál þetta varði þrennt. Í fyrsta lagi hvaða skilyrði séu fyrir greiðslu heimilisuppbótar, hvar nálgast megi þær reglur og hvort þær séu skýrar, skiljanlegar, kunnar og öllum aðgengilegar en það sé grundvallaratriði. Þetta blasi við því að ómögulegt sé fyrir fólk að afla sér upplýsinga um hvaða lög og reglur gildi um ákveðin atriði, í þessu tilviki greiðslur heimilisuppbótar lífeyrisþega. Um heimilisuppbót sé fjallað í lögum nr. 99/2007 og reglugerð nr. 1052/2009 ásamt breytingum. Tryggingastofnun birti einnig skilyrði greiðslna heimilisuppbótar á heimasíðu sinni.

Í öðru lagi hvort kærandi uppfylli þau skilyrði er reglurnar setji. Kærandi búi ein og beri allan kostnað af sínu heimilishaldi. Tryggingastofnun hafi óskað upplýsinga um hvort svo væri og hún hafi veitt þær upplýsingar og allar skýringar. Því telji kærandi sig uppfylla þetta skilyrði. Um upplýsingaskyldu lífeyrisþega sé fjallað í 39. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar og telji kærandi sig hafa uppfyllt þá skyldu.

Í þriðja lagi hvar mörkin liggi varðandi staðfestingu á búsetu þeirra er Tryggingastofnun telji hugsanlegt að haldi heimili með lífeyrisþega. Eins og áður hafi komið fram hafi Tryggingastofnun óskað upplýsinga og staðfestingar á að hún búi ein og hún hafi lagt fram húsaleigusamning […] og yfirlýsingu húsfélagsins. Tryggingastofnun hafi talið yfirlýsinguna ófullnægjandi þar sem hún hafi verið með ólæsilegri undirskrift og ódagsett. Hvað fyrri þáttinn varði þá sé henni ómögulegt að hafa hönd í bagga með því hvernig fólk hagar undirskrift sinni en hefði kannski átt að athuga hvort rétt dagsetning væri til staðar. Með kæru hafi verið lögð fram ný yfirlýsing frá gjaldkera húsfélagsins. Kærandi telji sig hafa lagt fram öll gögn er staðfesti að […] hennar búi ekki hjá henni og að hún haldi ein heimili. Tryggingastofnun geri þá kröfu að ekki nægi að sýna fram á að […] hennar búi ekki hjá kæranda heldur beri henni að sýna fram á að eigandi þess herbergis sem hann leigi hafi staðið lögformlega að því að breyta herberginu í íbúðarherbergi og að tekjur af því hafi verið taldar fram. Að öðrum kosti teljist hún ekki uppfylla það skilyrði um heimilisuppbót að búa ein. Svo vísað sé til röksemda hennar hér að framan þá telji kærandi nauðsynlegt að reglur um slíkt verði settar með lögum og birtar meðal annars á heimasíðu stofnunarinnar. Verði fallist á að Tryggingastofnun geti krafið lífeyrisþega um slíka gagnaöflun sé það fordæmi með þeim hætti að auk þess að lífeyrisþegum beri að leggja fram staðfestingu á að sá sem talinn sé búa á heimili lífeyrisþega sé í samþykktri íbúð/herbergi auk þess þurfi hann að leggja fram afrit af skattframtali leigusala. Að mati kæranda og eflaust margra sé það hrein firra. Bent sé enn fremur á að í 40., 42. og 43. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar séu taldir upp þeir aðilar sem Tryggingastofnun sé heimilt að fá upplýsingar hjá um lífeyrisþega, með eða án hans samþykkis, og verði ekki annað séð en að þar sé um tæmandi talningu að ræða.

Að öðru leyti sé vísað til fyrri röksemda. Einnig sé þess óskað að nefndin taki málið til efnislegrar meðferðar sem fyrst en kæran sé dagsett 20. júní 2017 og vísað þar um til 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærð sé stöðvun og endurkrafa heimilisuppbótar. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 30. júní 2017, hafi kæranda verið tilkynnt að stöðvun og endurkrafa heimilisuppbótar frá og með 1. nóvember 2015 stæði óbreytt en áður hafði kæranda verið tilkynnt um stöðvunina og endurkröfuna með bréfi, dags. 17. október 2016.

Samkvæmt 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð sé heimilt að greiða einhleypingi, sem njóti óskertrar tekjutryggingar samkvæmt lögum um almannatryggingar og sé einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað, að auki heimilisuppbót. Eigi viðkomandi rétt á skertri tekjutryggingu samkvæmt lögum um almannatryggingar skuli lækka heimilisuppbótina eftir sömu reglum.

Nánar sé fjallað um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri í reglugerð nr. 1052/2009 ásamt reglugerðarbreytingum.

Forsaga málsins sé sú að Tryggingastofnun hafi stöðvað heimilisuppbót kæranda með bréfi, dags. 17. október 2016. Í bréfinu hafi komið fram að greiðslur yrðu stöðvaðar frá og með 1. nóvember 2015 og að kærandi yrði endurkrafinn um greiðslur frá þeim tíma. Í framhaldi af kæru hafi Tryggingastofnun ákveðið að endurskoða stöðvun greiðslna til kæranda. Kæranda hafi verið send tvö bréf þar sem óskað hafi verið eftir upplýsingum um herbergið sem […] kæranda sé sagður leigja af húsfélaginu í sama húsi og kærandi búi í, en fyrir hafi legið afrit af ódagsettum leigusamningi […] kæranda við húsfélagið að B.

Tryggingastofnun hafi borist ódagsett og óundirritað bréf (einungis ógreinileg skammstöfun) þar sem segi að húsfélagið að B hafi gert upp herbergi sem áður hafi verið […] og leigi það til […] kæranda. Þrátt fyrir beiðni um framlagningu á samþykki allra íbúa hússins fyrir því að breyta […] húsnæðisins í herbergi og leigja það til […] kæranda hafi slíkt samþykki ekki borist. Samkvæmt lögum um fjöleignarhús nr. 26/1994 beri slíkt samþykki að liggja fyrir við breytingar og ráðstöfun sameignar.

Heimilt sé að greiða heimilisuppbót til einhleyps lífeyrisþega sem búi einn og sé einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað samkvæmt 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Að jafnaði sé um fjárhagslegt hagræði að ræða ef tveir fullorðnir einstaklingar búi á sama heimili.

Samkvæmt upplýsingum úr Fasteignamati ríkisins séu kærandi og […] hennar skráðir sameigendur að íbúð með 50% eignarhluta hvor fyrir sig. Í þeirri íbúð kveðst kærandi búa ein. Þá eigi húsfélagið ekki eignarhluta í húsinu og ekki hafi verið lagt fram samþykki allra íbúa hússins fyrir því að […] í kjallara hússins hafi verið breytt í leiguherbergi fyrir […] kæranda sem húsfélagið hafi rétt á að leigja út. Tryggingastofnun geti ekki litið á ódagsettan leigusamning með ólæsilegri undirskrift og ódagsett bréf með ólæsilegum upphafsstöfum, sem sögð séu vera frá húsfélaginu, sem fullnægjandi gögn sem staðfesti búsetu […] kæranda annars staðar en í íbúð sem kærandi og […] hennar eigi saman.

Tryggingastofnun beri að sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun um bótarétt sé tekin, þar á meðal að öll nauðsynleg gögn og upplýsingar liggi fyrir, sbr. 38. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Með vísan til framangreinds og þess að þau gögn sem ítrekað hafi verið óskað eftir hafi ekki borist þá geti Tryggingastofnun ekki fallist á að kærandi fullnægi skilyrðum laga um greiðslu heimilisuppbótar. Því hafi kæranda verið tilkynnt í bréfi, dags. 30. júní 2017, að stöðvun og endurgreiðslukrafa heimilisuppbótar frá 1. nóvember 2015 standi óbreytt.

Með kæru hafi fylgt staðfesting frá C, f.h. húsfélagsins að B, um að […] kæranda leigði herbergi í kjallara hússins. Samkvæmt upplýsingum sem Tryggingastofnun hafi aflað frá C sjálfum sé hann gjaldkeri húsfélagsins, en þær upplýsingar hafði Tryggingastofnun ekki áður, og gögnin séu því ný í málinu sem ekki hafi legið fyrir þegar sú ákvörðun var tekin sem hér sé kærð. Tryggingastofnun hafi óskað eftir frávísun málsins til að fá nánari upplýsingar um leigu […] kæranda beint frá gjaldkeranum en ekki hafi verið fallist á frávísun málsins. Tekið skuli fram að gjaldkeranum hafi verið sent bréf, dags. 3. október 2017, þar sem óskað hafi verið eftir samþykktum húsfélagsins þar sem ákveðið hafi verið að breyta sameign hússins í íbúð og einnig afritum af ársreikningum húsfélagsins síðustu ár þar sem komi fram leigutekjur af umræddu herbergi. Umrædd gögn hafi ekki borist frekar en í fyrri skiptin sem óskað hafi verið eftir þeim.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 30. júní 2017, um að stöðva greiðslur heimilisuppbótar og endurkrefja kæranda um ofgreiðslu heimilisuppbótar.

Tryggingastofnun óskaði eftir því að kæru yrði vísað frá þar sem stofnunin taldi rétt að rannsaka málið betur. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur rétt að taka fram að ákvörðun stofnunarinnar um að rannsaka málið frekar að eigin frumkvæði leiðir ekki sjálfkrafa til þess úrskurðarnefnd vísi kærumálinu frá. Frávísunarkrafan var borin undir kæranda og hún óskaði eftir að úrskurðarnefndin myndi úrskurða í málinu. Í máli þessu liggur fyrir kæranleg ákvörðun, þ.e. ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 30. júní 2017. Réttur kæranda til að fá ákvörðunina endurskoðaða af úrskurðarnefnd velferðarmála er skýr, sbr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar og 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála. Þá hefur kærandi lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn sinna mála. Með hliðsjón af framangreindu féllst úrskurðarnefndin ekki á frávísunarkröfu Tryggingastofnunar ríkisins og tekur því málið til efnislegrar endurskoðunar.

Í 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, með síðari breytingu, segir að heimilt sé að greiða heimilisuppbót til einhleyps lífeyrisþega sem býr einn og sé einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað.

Reglugerð um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri nr. 1052/2009, með síðari breytingum, var sett með stoð í 5. mgr. 9. gr., sbr. 2. mgr. 14. gr. laga um félagslega aðstoð. Í 8. gr. reglugerðarinnar, eru skilyrði ákvæðisins nánar útfærð þar sem segir:

„Einstaklingar sem eru skráðir með sama lögheimili og eru eldri en 18 ára teljast að jafnaði hafa fjárhagslegt hagræði af sambýli eða samlögum hver við annan.“

Samkvæmt 14. gr. laga um félagslega aðstoð gilda lög um almannatryggingar um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við á.

Í 38. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar með síðari breytingu er fjallað um að Tryggingastofnun skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun um bótarétt er tekin, þar á meðal að öll nauðsynleg gögn og upplýsingar liggi fyrir. Um upplýsingaskyldu umsækjenda og greiðsluþega gagnvart Tryggingastofnun ríkisins er fjallað um í 39. gr. laga um almannatryggingar. Þar segir að umsækjanda eða greiðsluþega sé rétt og skylt að taka þátt í meðferð máls, meðal annars með því að veita upplýsingar sem nauðsynlegar séu svo að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt o. fl. í máli viðkomandi.

Til þess að eiga rétt á heimilisuppbót þurfa öll skilyrði 8. gr. laga um félagslega aðstoð að vera uppfyllt. Í máli þessu hefur kæranda verið synjað um áframhaldandi greiðslu heimilisuppbótar og er endurkrafin um heimilisuppbót á þeirri forsendu að […] hennar sé skráður til heimilis hjá henni. Þá liggur fyrir að […] kæranda á 50% eignarhlut í fasteign kæranda.

Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi greidda heimilisuppbót frá Tryggingastofnun ríkisins á þeim grundvelli að hún væri ein um heimilisrekstur að B, sem er skráð lögheimili hennar. Eftir að upplýsingar bárust um að […] hennar væri skráður á sama lögheimili og að hann ætti að auki 50% eignarhlut í umræddri fasteign taldi stofnunin að kærandi uppfyllti ekki skilyrði um að vera ein um heimilisrekstur. Úrskurðarnefndin fellst á að framangreindar upplýsingar hafi gefið stofnuninni tilefni til að kanna hvort […] hennar væri í raun búsettur á heimili kæranda og hvort hún nyti fjárhagslegs hagræðis af sambýli við hann, sbr. 8. gr. laga um félagslega aðstoð. Í máli þessu liggur fyrir ódagsettur húsaleigusamningur á milli […] kæranda og húsfélagsins að B um leigu á herbergi frá X 2014. Þá liggur fyrir ódagsett staðfesting frá húsfélaginu um að […] sem herbergi og það sé leigt […] kæranda. Að lokum liggur fyrir yfirlýsing frá húsfélaginu, dags. 20. júlí 2017, þar sem fram kemur meðal annars að fyrrgreind gögn séu sannleikanum samkvæmt og löglega undirrituð. Tryggingastofnun ríkisins telur að framangreind gögn séu ekki nægjanleg til þess að sýna fram á að […] kærandi búi annars staðar en í íbúð þeirra að B. Með bréfi til gjaldkera húsfélagsins, dags. 3. október 2017, óskaði Tryggingastofnun eftir afriti af samþykkt húsfélagsins þar sem ákveðið var að breyta sameign hússins í herbergi og afritum af ársreikningum húsfélagsins síðustu ár þar sem fram komi leigutekjur af herberginu sem […] kærenda var sagður leigja. Í bréfinu er vísað til þess að samkvæmt lögum nr. 26/1994 um fjöleignarhús þurfi allir eigendur að samþykkja breytingar, hagnýtingu og ráðstöfun á verulegum hlutum sameignar.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að þau gögn sem liggja fyrir í málinu séu nægjanleg til þess að sýna fram á að […] kæranda leigi herbergi af húsfélaginu. Þar sem ágreiningur málsins lýtur einungis að því hvort kærandi njóti fjárhagslegs hagræðis af sambýli við […] hefur það ekki þýðingu fyrir úrlausnarefnið að mati úrskurðarnefndar velferðarmála hvort sú útleiga sé í samræmi við lög um fjöleignarhús. Úrskurðarnefndin telur því að gagnaöflun Tryggingastofnunar ríkisins með fyrrgreindu bréfi, dags. 3. október 2017, hafi ekki verið nauðsynleg, sbr. 38. og 39. gr. laga um almannatryggingar. Þá gerir kærandi alvarlegar athugasemdir við að bréfið hafi verið sent beint til gjaldkera húsfélagsins frekar heldur en til hennar sjálfrar. Samkvæmt 4. mgr. 45. gr. laga um almannatryggingar er Tryggingastofnun heimilt að afla upplýsinga frá þriðja aðila sem ætla megi að geti veitt upplýsingar er máli skipta í því skyni að leiðrétta bótagreiðslur. Framangreind heimild kom inn í lög um almannatryggingar með breytingalögum nr. 8/2014. Í frumvarpi með lögunum er sérstaklega tilgreint að Tryggingastofnun sé heimilt að afla upplýsinga, meðal annars frá leigusala eða stjórn húsfélaga. Þrátt fyrir að Tryggingastofnun ríkisins hafi þannig verið heimilt að snúa sér beint til stjórnar húsfélagsins er það eins og áður segir mat úrskurðarnefndar að Tryggingastofnun hafi ekki verið nauðsynlegt að afla frekari gagna þaðan og hafi því ekki gætt meðalhófs í rannsókn sinni að þessu leyti.

Eins og áður hefur komið fram er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að fyrir liggi að […] kæranda leigi herbergi af húsfélaginu. Tryggingastofnun ríkisins hefur ekki tekið til skoðunar hvaða þýðingu þær upplýsingar hafa við mat á því hvort kærandi hafi fjárhagslegt hagræði af búsetu hans, sbr. 8. gr. laga um félagslega aðstoð. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur því rétt að vísa málinu aftur til stofnunarinnar til mats á því atriði og eftir atvikum frekari rannsóknar.

Með hliðsjón af framangreindu er hin kærða ákvörðun felld úr gildi og málinu vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að stöðva heimilisuppbót til A, og endurkrefja kæranda um ofgreiðslu heimilisuppbótar er felld úr gildi og málinu vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta