Hoppa yfir valmynd
21. febrúar 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 387/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 387/2017

Miðvikudaginn 21. febrúar 2018

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, 21. október 2017, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 18. október 2017 um lækkun örorkulífeyrisgreiðslna vegna tekna frá B.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk greiddan örorkulífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins á árinu 2017. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 18. október 2017, var kæranda tilkynnt um að á grundvelli nýrrar tekjuáætlunar frá kæranda ásamt upplýsingum frá C í B hafi bótaréttur hans verið endurreiknaður. Í bréfinu var að finna greiðsluáætlun ársins 2017 sem sýndi fyrirhugaðar lækkaðar greiðslur til kæranda.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 21. október 2017. Með bréfi, dags. 23. október 2017, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 28. nóvember 2017, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 29. nóvember 2017. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki formlegar kröfur í málinu en ráða má af kæru að óskað sé eftir að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um lækkun örorkulífeyrisgreiðslna vegna tekna frá B verði endurskoðuð.

Í kæru kemur fram að Tryggingastofnun ríkisins hafi ákveðið að tekjutengja lífeyrisgreiðslur kæranda frá B við bótaréttindi hans hér á landi samkvæmt úrskurði frá C. Kærandi telji þetta vera óheimilt þar sem um sé að ræða grunnlífeyri hans til framfærslu. Hann sé búsetuskertur hér á landi með 40-50% bótaréttindi og þurfi því að sækja það sem upp á vanti til B. Hann sé B ríkisborgari og hafi haft búsetu þar lengur en á Íslandi. Með þessu móti nái hann ekki lágmarks framfærslu og sitji því ekki við sama borð og þeir sem hafi fullan bótarétt hér á landi.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærandi hafi fengið örorkulífeyri hér á landi frá X 2016. Þá fái hann einnig örorkulífeyrisgreiðslur frá C í B. Greiðslurnar frá C séu sambærilegar greiðslum úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum hér á landi þar sem þær byggi á þátttöku á vinnumarkaði og iðgjaldagreiðslum. Kærandi sé með 43% búsetuhlutfall hér á landi og fái því örorkulífeyrisgreiðslur í samræmi við það hlutfall.

Samkvæmt 18. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007 miðist réttur til örorkulífeyris við þá sem hafi verið búsettir á Íslandi, séu á aldrinum 18 til 67 ára og hafi verið búsettir á Íslandi að minnsta kosti síðustu þrjú árin áður en umsókn sé lögð fram. Við ákvörðun búsetutíma greiðist örorkulífeyrir í samræmi við sömu reglur og gilda um ellilífeyri, sbr. 4. mgr. 18. gr. laganna. Við ákvörðun búsetutíma, sbr. 1. mgr. 17. gr. laganna, teljist fullur ellilífeyrir einstaklings sem hafi verið búsettur hér á landi að minnsta kosti 40 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Sé um skemmri búsetutíma að ræða þá greiðist ellilífeyrir/örorkulífeyrir í hlutfalli við búsetutíma.

Til tekna samkvæmt 2. mgr. 16. gr. almannatryggingalaga teljist tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Eftirlaun og lífeyrir séu þar á meðal, sbr. A-lið 7. gr. laganna. Í 3. mgr. 16. gr. almannatryggingalaga sé fjallað um tekjur sem ekki hafi áhrif á örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. laganna.

Samkvæmt 1. mgr. 22. gr. almannatryggingalaga skuli greiða þeim tekjutryggingu sem fái greiddan örorkulífeyri samkvæmt lögunum. Tekjur skerði tekjutryggingu örorkulífeyrisþega, sbr. 3. mgr. 22. gr. almannatryggingalaga. Einnig segi að hafi lífeyrisþegi tekjur samkvæmt 2. og 4. mgr. 16. gr. laganna skuli skerða tekjutryggingu um 38,35% þeirra tekna uns hún falli niður.

Samkvæmt 2. gr. reglugerðar nr. 598/2009 skuli tekjur sem aflað sé erlendis og ekki séu taldar fram hér á landi, sæta sömu meðferð gagnvart bótaútreikningi og væri þeirra aflað hér á landi. Um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta sé nánar fjallað í fyrrgreindri reglugerð.

Með reglugerð nr. 442/2012 um gildistöku reglugerða Evrópusambandsins um almannatryggingar hafi reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 frá 29. apríl 2004 öðlast gildi hér á landi. Í a) lið 5. gr. reglugerðarinnar segi:

„ef almannatryggingabætur og aðrar tekjur hafa tiltekin réttaráhrif samkvæmt löggjöf í lögbæru aðildarríki skulu viðeigandi ákvæði þeirrar löggjafar einnig gilda um jafngildar bætur sem fást samkvæmt löggjöf annars aðildarríkis eða um tekjur sem aflað er í öðru aðildarríki,“

Full réttindi til elli og/eða örorkulífeyris ávinnist með búsetu hér á landi í að minnsta kosti 40 almanaksár frá 16-67 ára aldurs. Sé um skemmri tíma að ræða reiknist réttur til elli- og/eða örorkulífeyris í hlutfalli við búsetutímann. Rétturinn sé óháður starfstíma eða atvinnutekjum. Við búsetu sé miðað við skráningu á lögheimili hjá Þjóðskrá Íslands. Kærandi hafi búið erlendis og sé samkvæmt því með hlutfallsgreiðslur frá Tryggingastofnun.

Líkt og hafi verið rakið hér að framan séu bætur frá Tryggingastofnun tekjutengdar sem hafi í för með sér að við útreikning á lífeyrisgreiðslum geti tekjur, erlendar sem innlendar, skert tekjutryggingu örorkulífeyrisþega. Lífeyrissjóðsgreiðslur kæranda samsvari greiðslum úr íslenskum lífeyrissjóðum en réttur til greiðslna þaðan sé byggður á skyldubundnum iðgjaldagreiðslum og fari útgreiðslur eftir því hversu há iðgjöld viðkomandi hafi greitt og hversu lengi viðkomandi hafi greitt inn í sjóðinn.

Út frá framangreindu líti Tryggingastofnun á umræddar greiðslur sem greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum og skuli þær sem slíkar sæta sömu meðferð og ef um íslenska lífeyrissjóð væri að ræða.

Heimilt sé að greiða lífeyrisþega sérstaka uppbót vegna framfærslu ef sýnt þyki að hann geti ekki framfleytt sér án þess, sbr. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 99/2007. Við mat á því hvort lífeyrisþegi geti framfleytt sér skuli miða við heildartekjur, sbr. 14. gr. reglugerðar nr. 1052/2009 um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri. Kærandi uppfylli ekki skilyrði um sérstaka uppbót vegna framfærslu en heildartekjur lífeyrisþega sem sé með heimilisuppbót þurfi að vera undir 225.070 kr. á mánuði, en tekjur kæranda séu töluvert hærri. Við útreikning hafi allar skattskyldar tekjur áhrif sem og greiðslur almannatrygginga.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 18. október 2017 um lækkun örorkulífeyrisgreiðslna vegna tekna frá B.

Í ákvörðun Tryggingastofnunar var kæranda tilkynnt um að bótaréttur hans á árinu 2017 hafi verið endurreiknaður á grundvelli upplýsinga frá C í B. Gerð var grein fyrir tekjum kæranda og þar kom fram að áætlað væri að kærandi hefði mánaðarlega X EUR í lífeyrissjóðstekjur og þar af 0 kr. í erlendan grunnlífeyri.

Í 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Um tekjutryggingu er fjallað í 22. gr. laganna. Í 2. málsl. 3. mgr. 22. gr. segir að hafi lífeyrisþegi tekjur samkvæmt 2. og 4. mgr. 16. gr. skuli skerða tekjutrygginguna um 38,35% þeirra tekna uns hún fellur niður. Í 2. mgr. 16. gr. laganna kemur fram að til tekna skuli telja tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Sé litið til þeirra laga kemur fram að til tekna skuli telja eftirlaun og lífeyri, sbr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laganna.

Þá hljóðar 4. mgr. 16. gr. laganna svo:

„Þegar um er að ræða ellilífeyri skv. 17. gr., tekjutryggingu skv. 22. gr. og ráðstöfunarfé skv. 48. og 56. gr. teljast ekki til tekna þrátt fyrir 2. mgr. bætur samkvæmt lögum þessum, lögum um slysatryggingar almannatrygginga og lögum um félagslega aðstoð, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, greiðslur úr séreignarlífeyrissparnaði og viðbótartryggingavernd samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Sama á við um sambærilegar bætur frá ríkjum sem Ísland hefur gert samninga við skv. 68. gr. “

Í 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð er fjallað heimilisuppbót. Samkvæmt 1. mgr. er heimilt að greiða heimilisuppbót til einhleyps lífeyrisþega sem býr einn og er einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað. Kveðið er á um það í 2. málsl. 3. mgr. ákvæðisins að uppbótin skuli lækka eftir sömu reglum og tekjutrygging samkvæmt lögum um almannatryggingar.

Af fyrrgreindum ákvæðum 16. og 22. gr. laga um almannatryggingar og 8. gr. laga um félagslega aðstoð má ráða að greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum geta skert tekjutryggingu og heimilisuppbót örorkulífeyrisþega. Aftur á móti skerða bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar ekki tekjutryggingu og heimilisuppbót og ekki heldur sambærilegar bætur frá ríkjum sem Ísland hefur gert samninga við samkvæmt 68. gr. laga um almannatrygginar, sbr. 4. mgr. 16. gr. sömu laga. Samkvæmt 1. mgr. 68. gr. laganna er ríkisstjórninni heimilt að semja við erlend ríki um gagnkvæm réttindi og skyldur samkvæmt lögunum og ráðherra að semja við erlendar tryggingastofnanir í samningsríkjum um nánari framkvæmd slíkra samninga. B er eitt af aðildarríkjum EES-samningsins og því skerða bætur frá B, sem eru sambærilegar bótum samkvæmt lögum um almannatryggingar, ekki tekjutrygginguna. Tryggingastofnun telur að tekjur kæranda frá C séu sambærilegar greiðslum úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum og hafi áhrif á rétt kæranda til tekjutryggingar og heimilisuppbótar.

Af lögum um almannatryggingar má ráða að nauðsynlegt er að greina þær tekjur sem bótaþegar afla og flokka þær, enda er að öðrum kosti ekki hægt að kveða á um hvaða skerðingaráhrif tekjurnar hafa samkvæmt lögum. Við mat á því hvort lífeyrisgreiðslur kæranda frá B séu sambærilegar bótum samkvæmt lögum um almannatryggingar, sbr. 4. mgr. 16. gr. laganna, lítur úrskurðarnefnd velferðarmála til þess að samkvæmt gögnum málsins og upplýsingum af vefsíðu C miðast réttur til hinna umræddu greiðslna frá B við áunnin lífeyrisstig sem reiknast meðal annars út frá tekjum bótaþega. Lífeyrissjóðirnir eru fjármagnaðir með iðgjaldagreiðslum og greiðendur ávinna sér þannig rétt til lífeyrisgreiðslna. Aftur á móti reiknast réttur til örorkulífeyrisgreiðslna í hlutfalli við búsetutíma samkvæmt 4. mgr. 18. gr. laganna, sbr. 1. mgr. 17. gr. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur því að greiðslur kæranda frá B hafi meiri líkindi við greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum heldur en örorkulífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar.

Úrskurðarnefnd velferðarmála horfir einnig til þess að samkvæmt 1. mgr. 53. gr. og 1. mgr. 54. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 um samræmingu almannatryggingakerfa, sem innleidd var í íslenskan rétt með reglugerð nr. 442/2012, er aðildarríki ekki heimilt að beita skerðingarákvæðum í sinni eigin löggjöf þegar um ræðir skörun hlutfallslegra bóta sömu tegundar. Evrópudómstóllinn hefur komist að þeirri niðurstöðu í forúrskurðum sínum að um bætur sömu tegundar sé að ræða þegar tilgangur þeirra, grundvöllur útreiknings og skilyrði bótanna sé sá sami, sbr. efnisgrein 24 í forúrskurði dómstólsins í máli nr. C-107/00. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að þar sem grundvöllur útreiknings greiðslna kæranda frá Þýskalandi og tekjutryggingar og heimilisuppbótar hér á landi er mjög ólíkur teljist bæturnar ekki vera sömu tegundar í skilningi EB reglugerðar nr. 883/2004.

Með hliðsjón af framangreindu og í ljósi þess að meginreglan er sú að skattskyldar tekjur skerða bætur frá Tryggingastofnun ríkisins, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar, er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að greiðslur kæranda frá C í B skuli skerða tekjutrygginguna og heimilisuppbótina með sama hætti og greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um lækkun á örorkulífeyrisgreiðslum til kæranda er staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um lækkun á örorkulífeyrisgreiðslum til A, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta