Hoppa yfir valmynd
21. febrúar 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 401/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 401/2017

Miðvikudaginn 21. febrúar 2018

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 27. október 2017, kærði B hdl., f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála annars vegar synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 13. október 2017 á umsókn hennar um uppbót/styrk vegna kaupa á bifreið og hins vegar ákvörðun stofnunarinnar frá 17. mars 2016 um að krefja hana um endurgreiðslu að hluta á uppbót vegna kaupa á bifreið í X 2013.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk greidda uppbót vegna kaupa á bifreið í X 2013 frá Tryggingastofnun ríkisins. Með bréfi stofnunarinnar, dags. 17. mars 2016, var kærandi krafin um endurgreiðslu uppbótarinnar að hluta á þeim forsendum að hún hafi selt bifreiðina í X 2014.

Kærandi sótti á nýjan leik um uppbót/styrk til kaupa á bifreið með umsókn, dags. 6. október 2017. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 13. október 2017, var umsókn kæranda um uppbót/styrk til bifreiðakaupa synjað. Í bréfinu kemur fram að þar sem kærandi hafi fengið styrk/uppbót til kaupa á bifreið í X 2013 sé ekki heimilt að úthluta uppbót/styrk aftur fyrr en í október 2018.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 30. október 2017. Með bréfi, dags. 31. október 2017, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 28. nóvember 2017, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún kynnt lögmanni kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 30. nóvember 2017. Með tölvupósti 14. desember 2017 óskaði úrskurðarnefnd eftir upplýsingum frá Samgöngustofu. Umbeðnar upplýsingar bárust frá Samgöngustofu með tölvupósti, dags. 15. desember 2017, og voru þær kynntar lögmanni kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 13. október 2017 verði felld úr gildi og stofnuninni gert að veita kæranda styrk vegna kaupa á bifreið. Enn fremur krefst kærandi þess að felld verði úr gildi ákvörðun stofnunarinnar frá 17. mars 2016 þess efnis að kærandi verði krafin um hlutfallslega endurgreiðslu fyrri uppbótar, samtals að fjárhæð 175.000 kr.

Í kæru segir að ástæða þess að kærandi, sem hafi fengið styrk árið 2013, þurfi að sækja um annan styrk innan fimm ára sé að bifreið hennar hafi verið stolið og þegar hún hafi fundist hafi hún verið ónýt.

Í ákvörðun Tryggingastofnunar sé því einmitt lýst að synjunin hafi grundvallast á því að ekki sé heimilt að veita annan styrk vegna kaupa á bifreið innan fimm ára nema bifreiðin hafi verið afskrifuð eða eyðilagst. Í þeim tilfellum þurfi að berast staðfesting frá tryggingafélagi um að viðkomandi hafi ekki fengið greitt úr tryggingum vegna tjónsins á bifreiðinni.

Slík staðfesting liggi fyrir og hafi fyrir löngu verið framvísað af kæranda. Einnig liggi fyrir gögn á borð við bréf C hdl., kaupsamning um bifreiðina og lögregluskýrslu, sem beri með sér að bifreið kæranda hafi verið rænt, hún hafi fundist ónýt og að kærandi hafi ekki fengið hana bætta á neinum vettvangi.

Í ljósi málsatvika allra sé kæranda fyrirmunað að skilja afstöðu Tryggingastofnunar í málinu.

Kærandi telji að lokum málsmeðferð og niðurstöðu Tryggingastofnunar vera gróft brot á meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé synjun á umsókn um uppbót/styrk til bifreiðakaupa, dags. 13. október 2017. Einnig sé kærð ákvörðun Tryggingastofnunar frá 17. mars 2016 um að endurkrefja kæranda um uppbót vegna bifreiðakaupa.

Samkvæmt 3. mgr. 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð sé heimilt að greiða elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega sé nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt sé að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar.

Með breytingalögum nr. 120/2009, sem hafi tekið gildi 1. janúar 2010, hafi eftirfarandi málslið verið bætt við 3. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð:

„Heimilt er að veita uppbót á fimm ára fresti vegna sama einstaklings.“

Reglugerð nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða sé sett með heimild í lögum um félagslega aðstoð. Í 3. gr. reglugerðarinnar sé fjallað um uppbætur vegna kaupa á bifreiðum. Þar komi fram bæði skilyrði fyrir greiðslu uppbótar og fjárhæð uppbótar. Þar komi meðal annars fram að uppbót sé einungis heimilt að veita á fimm ára fresti vegna sama einstaklings.

Í 7. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar segi síðan:

„Óheimilt er að selja bifreið fyrr en fimm árum eftir veitingu uppbótar nema að fengnu sérstöku leyfi Tryggingastofnunar ríkisins. Heimilt er að víkja frá áðurgreindum tímamörkum eyðileggist bifreið á tímabilinu eða vegna andláts bótaþega.“

Kærandi hafi sótt um uppbót/styrk til bifreiðakaupa 6. nóvember 2012. Umsóknin hafi verið samþykkt 22. sama mánaðar. Kærandi hafi fengið greidda uppbót í X 2013 þegar hún hafi verið búin að kaupa bifreið og skila Tryggingastofnun nauðsynlegum gögnum.

Kærandi hafi aftur sótt um uppbót/styrk vegna bifreiðakaupa 6. október 2017. Umsókn kæranda hafi verið synjað með bréfi stofnunarinnar, dags. 13. október 2017, þar sem umsóknin hafi verið ótímabær. Ekki hafi verið liðin fimm ár frá síðustu veitingu uppbótar.

Eins og áður hafi verið rakið þá sé Tryggingastofnun ekki heimilt að veita uppbót vegna bifreiðakaupa vegna sama einstaklings nema á fimm ára fresti. Rétt sé að vekja athygli á því að reglan sé afdráttarlaus og án undantekninga í 10. gr. laga um félagslega aðstoð.

Í 7. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 170/2009 komi fram þröng undantekningaheimild til þess að heimila sölu á bifreið áður en fimm ár séu liðin frá því að kæranda hafi verið veitt uppbót, en það sé vegna þess að bifreið hafi eyðilagst eða bótaþegi látist. Athygli kæranda hafi verið vakin á þessu í bréfum stofnunarinnar.

Í framkvæmd hafi Tryggingastofnun túlkað ákvæðið á þann hátt að hægt sé að veita umsækjanda nýja uppbót þó að ekki séu liðin fimm ár frá síðustu veitingu uppbótar ef bíllinn hafi eyðilagst í árekstri eða sambærilegu atviki og umsækjandi hafi ekki fengið neinar bætur frá tryggingum vegna tjónsins.

Það sé rétt að vekja athygli á því að þessi framkvæmd Tryggingastofnunar byggi á orðlagi 7. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar eingöngu og sambærilegu ákvæði í fyrri reglugerð. Framkvæmdin hafi verið svona frá því áður en að fimm ára reglan hafi verið lögfest með breytingalögum nr. 120/2009 og það megi færa fyrir því rök að hún standist ekki afdráttarlaust orðalag hinnar breyttu 10. gr. laga um félagslega aðstoð. Það er að með réttu ætti ekki að vera heimilt að veita nýja uppbót/styrk til bifreiðakaupa þó að bifreið hafi eyðilagst.

Tryggingastofnun hafi skoðað gögn málsins við meðferð þessa kærumáls.

Það sé mat Tryggingastofnunar að af gögnum málsins sé ekki hægt að sjá að bifreið kæranda hafi eyðilagst í árekstri eða sambærilegu atviki. Í umfjöllun kæranda sé gengið út frá því að bifreiðin hafi eyðilagst við stuld hennar þann X 2015.

Af þeim gögnum sem kærandi hafi lagt fram sé ekki hægt að sjá að bifreiðin hafi verið ónýt eftir stuldinn X 2015. Það komi ekki fram í lögregluskýrslu sem kærandi hafi lagt fram og kærandi hafi ekki lagt fram mat fagaðila á því að bifreiðin sé ónýt. Einungis liggi fyrir fullyrðing lögmanns sem hafi unnið fyrir kæranda og sé hún ekki sambærileg við mat fagaðila.

Samkvæmt þeim gögnum sem kærandi hafi lagt fram í málinu sé ljóst að kærandi hafi selt bifreiðina X 2015 til D ehf. Samkvæmt upplýsingum frá Samgöngustofu þá séu númer bifreiðarinnar í geymslu og þeim hafi ekki verið fargað.

Tryggingastofnun telji því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 7. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar.

Tryggingastofnun telji að sér hafi ekki verið heimilt að víkja frá þeirri meginreglu að einungis sé heimilt að veita uppbót á fimm ára fresti vegna sama einstaklings.

Að lokum sé rétt að taka fram að kærandi kæri einnig ákvörðun Tryggingastofnunar, um að endurkrefja kæranda um uppbótina, sem tekin hafi verið 17. mars 2016. Eins og sjá megi á bréfi Tryggingastofnunar þá sé ljóst að kærufrestur vegna þeirrar ákvörðunar sé fyrir löngu liðinn. Eðli málsins samkvæmt sé það þó þannig að sömu forsendur gildi um ákvörðun Tryggingastofnunar frá 17. mars 2016 og ákvörðun stofnunarinnar frá 13. október 2017. Að því gefnu að úrskurðarnefndin staðfesti ákvörðun Tryggingastofnunar frá 13. október 2017 þá fari stofnunin fram á að vísað verði frá þeim hluta kærunnar sem varði ákvörðunina frá 17. mars 2016. Fallist úrskurðarnefndin aftur á móti efnislega á málsástæður kæranda og breyti ákvörðun Tryggingastofnunar frá 13. október 2017 þá muni Tryggingastofnun einnig taka upp efnislega ákvörðun sína frá 17. mars 2016.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar annars vegar synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda frá 13. október 2017 um uppbót/styrk vegna kaupa á bifreið og hins vegar ákvörðun stofnunarinnar frá 17. mars 2016 um að krefja kæranda um endurgreiðslu uppbótar að hluta vegna kaupa á bifreið í X 2013.

Lagaheimild fyrir veitingu uppbótar/styrkja til kaupa á bifreið er að finna í 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í nefndri 10. gr. segir meðal annars svo:

Heimilt er að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega er nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt er að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Heimilt er að veita uppbót á fimm ára fresti vegna sama einstaklings. [...]

Heimilt er að greiða styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg er vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða vantar líkamshluta. Heimilt er að veita styrk á fimm ára fresti vegna sama einstaklings. Ráðherra setur reglugerð um greiðslur samkvæmt ákvæði þessu, m.a. um sex mánaða búsetuskilyrði.“

Með stoð í 3. málsl. 3. mgr. nefndrar 10. gr. hefur ráðherra sett reglugerð nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða.

Samkvæmt framangreindu lagaákvæði verður einstaklingi ekki veittur styrkur vegna bifreiðakaupa fyrr en að fimm árum liðnum frá síðustu greiðslu til hans. Ágreiningslaust er að kærandi fékk styrk til kaupa á bifreið í X 2013 og uppfyllir því ekki skilyrði laganna um fimm ára frest. Skal þá litið til þess hvort skilyrði séu til að víkja frá lögboðnum tímamörkum.

Í 5. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 170/2009 segir að óheimilt sé að selja bifreið fyrr en fimm árum eftir styrkveitingu nema að fengnu sérstöku leyfi Tryggingastofnunar ríkisins. Í 2. málsl. sömu málsgreinar segir að heimilt sé að víkja frá áðurgreindum tímamörkum eyðileggist bifreið á tímabilinu eða vegna andláts styrkþega.

Í máli þessu kemur til skoðunar hvort eldri bifreið kæranda hafi eyðilagst í skilningi 5. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 170/2009. Samkvæmt því sem fram kemur í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins hefur framangreint ákvæði 5. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar verið túlkað með þeim hætti að heimilt sé að veita nýjan styrk þrátt fyrir að ekki séu liðin fimm ár frá síðustu styrkveitingu hafi bifreið eyðilagst í árekstri, eða sambærilegu atviki, og ekki fengist bætur frá tryggingum vegna tjónsins. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur það ekki hafa úrslitaþýðingu hvort að bifreiðin hafi eyðilagst í árekstri eða sambærilegu tilviki, enda kveður reglugerðarákvæðið ekki á um það með hvaða hætti bifreið hefur eyðilagst. Að mati úrskurðarnefndar er ekki nægilegt bifreiðin hafi orðið fyrir tjóni til að teljast eyðilögð heldur þarf annað og meira að koma til.

Kærandi byggir á því að fyrir liggi staðfesting frá tryggingafélagi um að hún hafi ekki fengið greitt úr tryggingum vegna tjónsins á bifreiðinni auk þess sem önnur gögn beri með sér að bifreið kæranda hafi verið rænt, hún fundist ónýt og að kærandi hafi ekki fengið hana bætta á neinum vettvangi. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála hefur það ekki úrslitaþýðingu hvort tryggingafélag hafi staðfest að viðkomandi hafi ekki fengið greitt úr tryggingum vegna tjónsins á bifreiðinni, enda er slíkt ekki staðfesting á að bifreið hafi eyðilagst. Einnig telur úrskurðarnefndin að lögregluskýrsla um stuld á bifreiðinni beri ekki með sér að bifreiðin hafi eyðilagst. Þá hefur kærandi einnig lagt fram yfirlýsingu C hdl. um að bifreið kæranda hafi verið tekin ófrjálsri hendi og fundist ónýt. Að mati úrskurðarnefndar verður bifreið kæranda ekki metin eyðilögð á grundvelli yfirlýsingar lögmanns þar sem ekki er um fagaðila að ræða.

Í málinu liggur fyrir kaupsamningur á milli kæranda og D ehf., dags. X 2015. Fram kemur í ástandslýsingu seljanda að bifreiðin hafi lent í tjóni og sé töluvert skemmd. Í athugasemdum aðila segir að bifreiðin sé seld skemmd eftir tjón til niðurrifs eða viðgerðar. Strokað hefur verið yfir orðin „eða viðgerðar“. Að mati úrskurðarnefndar er „töluvert skemmd“ bifreið ekki það sama og eyðilögð bifreið og því bendir umræddur kaupsamningur ekki til þess að bifreiðin hafi verið eyðilögð við sölu.

Þá taldi úrskurðarnefnd velferðarmála rétt með hliðsjón af rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að upplýsa málið betur. Í þeim tilgangi var óskað eftir upplýsingum frá Samgöngustofu um hvort bifreið kæranda hafi verið skráð í umferð eftir söluna. Samkvæmt umferðarferli ökutækis bifreiðarinnar var hún afklippt vegna endurskoðunar í X 2017 en fram að því hafði hún verið skráð bæði í og úr umferð auk þess sem annar eigandi en D ehf. var síðast skráður fyrir bifreiðinni. Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að ekki liggi fyrir að bifreið kæranda hafi eyðilagst í skilningi 5. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar.

Að því er varðar kröfu kæranda um að felld verði úr gildi ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 17. mars 2016 er ljóst að þriggja mánaða kærufrestur var liðinn þegar kæra barst úrskurðarnefndinni, sbr. 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála. Í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir að hafi kæra borist að liðnum kærufresti skuli vísa henni frá nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Aftur á móti segir í 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæru skuli þó ekki sinnt ef meira en ár sé liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila. Í ljósi þess að meira en ár leið frá því ákvörðun var tilkynnt kæranda þar til hún var kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála er þeim hluta kærunnar vísað frá.

Með hliðsjón af öllu framangreindu er synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 13. október 2017 á umsókn kæranda um uppbót/styrk til bifreiðakaupa staðfest. Þeim hluta kærunnar er varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 17. mars 2016 er vísað frá.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 13. október 2017 á umsókn A, um uppbót/styrk til kaupa á bifreið er staðfest. Kæru vegna ákvörðunar Tryggingastofnunar ríkisins frá 17. mars 2016 er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta