Hoppa yfir valmynd
3. september 2021 Innviðaráðuneytið

Grænbók um samgöngumál gefin út að loknu samráði

Grænbók um samgöngumál, þar sem greind er staða málaflokksins og lagður grundvöllur fyrir endurskoðaða stefnumótun í samgöngum til fimmtán ára, hefur nú verið birt ásamt fylgigögnum á vef ráðuneytisins. 

Grænbókin var opin til samráðs í samráðsgátt stjórnvalda frá 6. júlí til 10. ágúst sl. Alls bárust 15 umsagnir. Gerð er nánari grein fyrir umsögnunum og viðbrögðum við þeim í samantekt sem birt hefur verið í samráðsgátt stjórnvalda.

Grænbók um samgöngumál er hluti af stefnumótunarferli samgönguáætlunar og er unnin á grunni laga um samgönguáætlun, nr. 33/2008. Umfjöllun grænbókarinnar byggir m.a. á stöðumati framkvæmdaraðila, þ.e. stofnana ráðuneytisins og Isavia. Þá er í grænbókinni einnig byggt á nýjum greiningum, svo sem varðandi börn og samgöngur, jafnrétti í samgöngum, vöruflutninga, vinnusóknarsvæði, arðsemi umferðaröryggisaðgerða og aðlögun samgangna að loftslagsbreytingum.

Annar grundvöllur stöðumatsins er samtal við landsmenn og hagsmunaaðila. Átta opnir fundir voru haldnir í öllum  landshlutum í mars og apríl í samvinnu við landshlutasamtök sveitarfélaga. Helstu niðurstöður samtalsins voru teknar saman í sérstakri skýrslu, sem er eitt af fylgiskjölum grænbókarinnar. Jafnframt voru haldnir fundir með öðrum ráðuneytum og samstarfsaðilum, þar farið var yfir snertifleti samgönguáætlunar við aðrar áætlanir Stjórnarráðsins.

Um er að ræða fyrstu grænbókina sem tekin hefur verið saman um samgöngumál í samræmi við stefnumótunarferli Stjórnarráðsins og samhæfingu áætlana á sviði samgöngu-, fjarskipta-, sveitarstjórnar- og byggðamála. Markmið grænbókarinnar er að hvetja til umræðu um stöðumat, viðfangsefni og framtíðarsýn í samgöngumálum sem og um áherslur og valkosti. 

Næsta skref stefnumótunarvinnunnar er mótun stefnu sem inniheldur framtíðarsýn fyrir málaflokkinn og markmið sem marka leiðina ásamt áherslum (hvítbók).

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta