Fréttaannáll háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins 2023
Árið 2023 var viðburðaríkt hjá háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu sem frá stofnun hefur unnið með það að leiðarljósi að hugvitið verði stærsta útflutningsgrein landsins. Hlutverk ráðuneytisins er að leysa úr læðingi þá krafta sem myndast við samþættingu háskóla, vísinda, rannsókna, iðnaðar, upplýsingasamfélags, hugverka, fjarskipta, netöryggis og nýsköpunar. Þannig skapast grundvöllur fyrir markvissari stefnumótun og stjórnsýslu á þessum sviðum, með aukinn vöxt, verðmætasköpun og velsæld að markmiði.
Háskólamál voru ofarlega á baugi. Í janúar var yfir milljarði króna úthlutað til aukins samstarfs háskóla með það að markmiði að auka námsgæði og samkeppnishæfni skólanna. Verkefnið er þegar fjármagnað af safnlið háskólastigsins, en með því að ráðstafa framlögum af safnliðnum á þennan hátt er fjármögnun á háskólastigi gerð gagnsærri en áður. Sambærilegri fjárhæð verður úthlutað til fleiri samstarfsverkefna snemma árið 2024.
Í apríl var tilkynnt að fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára feli í sér 6 milljarða króna aukningu til háskólastigsins til ársins 2028 í samanburði við fyrri áætlanir. Með þessari nýju sókn fyrir háskólastigið verður m.a. hugað að verkefnum á borð við fjölgun nemenda í heilbrigðis- og STEM greinum, öflugra fjarnám og jafnari tækifærum til náms auk fjölgun kennara í þágu menntunar og farsældar barna. Árangurstengd fjármögnun háskóla var síðan kynnt á haustmánuðum. Um er að ræða gagngera kerfisbreytingu á fjármögnun háskólanna en árangurstengd fjármögnun leysir af eldra reiknilíkan háskóla sem staðið hefur nær óbreytt í aldarfjórðung. Nýtt fjármögnunarlíkan verður að fullu innleitt árið 2025.
Ráðherra ávarpaði Iðnþing í mars og vakti þar athygli á því að á Íslandi vantar níu þúsund sérfræðinga á næstu fimm árum ef vaxtaspár hugverkaiðnaðarins eiga að ná fram að ganga. Sviðsljósinu var sérstaklega beint að því að Ísland er eftirbátur annarra OECD ríkja þegar kemur að fjölga ungs fólks sem lokið hefur háskólanámi. Hér á landi skýrist munurinn eingöngu á lágu hlutfalli ungra karlmanna sem hafa lokið háskólanámi. Í ljósi þessa voru strákar hvattir til að bíða ekki með háskólanám með átakinu Heimurinn stækkar í háskóla þar sem fjölbreyttur hópur ungs fólks var hvatt til að sækja um og hefja háskólanám haustið 2023. Hlutfall karlkyns umsækjenda í Háskóla Íslands jókst um 13% milli ára í kjölfarið.
Aukið samstarf og mögulegar sameiningar háskóla voru einnig áberandi á árinu. Þannig voru viljayfirlýsingar undirritaðar um mögulega sameiningu Háskólans a Hólum og Háskóla Íslands annars vegar og Háskólans á Akureyri og Háskólans á Bifröst hins vegar. Fýsileikagreining vegna þess síðarnefnda lá fyrir í árslok þar sem fram kemur að sameinaðir styrkleikar skólanna styrki háskólamenntun á Íslandi. Við sameiningu yrði til nýr skóli með höfuðstöðvar á Akureyri en starfsstöðvar í Borgarnesi og í Reykjavík.
Nýsköpun í heilbrigðisþjónustu og efling þess með fjölgun nemenda í heilbrigðisvísindum var einnig áberandi á árinu sem leið. Í júní undirrituðu Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, samning um styrk til uppbyggingar færni- og hermikennslu í heilbrigðisvísindum við HÍ, HA og HR í samstarfi við Landspítalann og Sjúkrahúsið á Akureyri. Þá var formleg skóflustunga tekin vegna nýs húss Heilbrigðisvísindasviðs HÍ á lóð Landspítalans í Vatnsmýri. Húsið mun gjörbylta aðstöðu til kennslu og rannsókna í heilbrigðisvísindum, en í því munu nær allar deildir sviðsins sameinast í nýrri rannsókna- og kennslubyggingu.
Styrkjum úr Fléttunni var úthlutað í annað sinn í október og hlutu tólf íslensk nýsköpunarfyrirtæki styrki til innleiðingar nýsköpunar í heilbrigðisþjónustu. Þá var gert samkomulag um 500 m.kr. styrk til Háskóla Íslands til sóknar í heilbrigðisvísindum, félagsráðgjöf og STEM-greinum, þ.e. vísinda- og tæknigreinum, verkfræði og stærðfræði.
Nýtt og skilvirkara kerfi um atvinnuréttindi alþjóðlega sérfræðinga frá löndum utan EES var kynnt í mars. Þetta felur m.a. í sér stóraukin réttindi erlendra háskólanema hér á landi, nokkuð sem ráðuneytið hefur lagt ríka áherslu á frá stofnun þess í febrúar 2022. Meðal helstu breytinga sem fylgja nýju kerfi er að erlendir nemendur við íslenska háskóla fá þriggja ára dvalarleyfi að námi loknu. Hingað til hefur rammi þessa hóps til að leita að atvinnu á grundvelli sérfræðiþekkingar sinnar aðeins verið sex mánuðir eftir námslok.
Stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélags á Íslandi til ársins 2025 voru kynntar í mars. Þessum aðgerðum er ætlað að nýta samþætta krafta hugmynda og hreyfiafls í málaflokkum háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins til að skapa tækifæri til nýrra starfa og tækifæra, auka vöxt og verðmætasköpun íslensks atvinnulífs og bæta lífsgæði þjóðarinnar til lengri tíma. Þingsályktunartillaga þessa efnis var samþykkt á Alþingi í árslok 2023.
Það fór vart fram hjá neinum að mikill viðbúnaður var vegna leiðtogafundar Evrópuráðsins sem fram fór í Reykjavík í maí. Búist var við auknum netárásum í sambandi við viðburðinn og gengu þær spár eftir. Almenningur var því hvattur til að vera á varðbergi gagnvart netárásum og lesa tölvupósta og skilaboð með gagnrýnum augum. Víðtækar öryggisráðstafanir voru gerðar til að koma í veg fyrir eða draga úr afleiðingum mögulegra netárása vegna leiðtogafundarins. Varnir voru góðar og árangurinn sá að ekki hlaust mikill skaði vegna þeirra árása sem gerðar voru á tímabilinu.
Áætluð sameining Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins og Kríu, sprota- og nýsköpunarsjóðs, var kynnt í Samráðsgátt í nóvember. Markmiðið með sameiningunni er að búa til öflugan fjárfestingarsjóð sem leggur áherslu á stuðning við sprota á fyrstu stigum sem og fjárfestingar í sjóðasjóðum. Þannig getur sjóðurinn verið sveigjanlegur eftir breytingum á markaði og tryggt að stuðningsumhverfi nýsköpunar sé með besta móti á Íslandi. Frumvarp þessa efnis fer fyrir Alþingi árið 2024.