Hoppa yfir valmynd
9. desember 2011 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Frumvarp til laga um breytingar á lögum um fjarskiptasjóð

Innanríkisráðherra hefur mælt fyrir frumvarpi til laga um breytingar á lögum um fjarskiptasjóð nr. 132/2005, sem er ætlað að framlengja gildistíma fjarskiptasjóðs um fimm ár, en samkvæmt núgildandi lögum munu lögin renna úr gildi um áramót.

Fjarskiptasjóður hefur verið starfræktur frá árinu 2005. Fjarskiptasjóður var stofnaður í kjölfarið á sölu á eignarhlut ríkissjóðs í Landssíma Íslands, en hluti af söluandvirðinu var látinn renna í sjóðinn til uppbyggingar á sviði fjarskiptamála. Meginhlutverk sjóðsins er að stuðla að uppbyggingu á sviði fjarskiptamála á grundvelli fjarskiptaáætlunar hverju sinni, með því að úthluta fjármagni til verkefna sem miða að uppbyggingu stofnkerfa fjarskipta, verkefna sem stuðla að öryggi og samkeppnishæfni þjóðfélagsins á sviði fjarskipta og annarra verkefna sem kveðið er á um í fjarskiptaáætlun, og ætla má að ekki verði ráðist í á markaðsforsendum. Það á fyrst og fremst við um uppbyggingu á strjálbýlli svæðum landsins, en að jafnaði er til staðar virk samkeppni á fjarskiptamarkaði á þéttbýlli svæðum.

Fjarskiptaáætlun 2005–2010 lagði grunninn að mikilvægum verkefnum varðandi uppbyggingu fjarskipta sem komið hefur landinu í fremstu röð ríkja á sviði fjarskipta og upplýsingatækni. Hafði áætlunin að geyma mörg og metnaðarfull markmið og verkefnaáætlun sem hafa sett mikinn svip á þróun og þjónustu á sviði fjarskipta í öllum landshlutum. Sérstök áhersla var lögð á það í fjarskiptaáætlun að bæta fjarskipti þar sem úrbóta var mest þörf, þar á meðal var kveðið á um að öryggi vegfarenda yrði bætt með aukinni farsímaþjónustu á þjóðvegum landsins og helstu ferðamannastöðum og tryggja að öllum landsmönnum stæði til boða að tengjast háhraðaneti og njóta hagkvæmrar og öruggrar fjarskiptaþjónustu óháð búsetu.

Til stendur að leggja fyrir Alþingi þingsályktunartillögu um nýja fjarskiptaáætlun sem ætlað er að gilda til næstu tólf ára. Ljóst er að ekki verður ráðist í jafn umfangsmikla uppbyggingu og gert var í tíð fjarskiptaáætlunar 2005-2010. Þrátt fyrir það er mikilvægt að tryggja áframhaldandi framþróun á sviði fjarskipta og styðja við uppbyggingu þar sem slíkt er ekki mögulegt á markaðslegum forsendum. Í nýrri fjarskiptaáætlun er kveðið á um markmið stjórnvalda sem stefna ber að til að leggja grunn að framþróun íslensks samfélags og skulu þau markmið stuðla að aðgengilegum og greiðum, hagkvæmum og skilvirkum, öruggum og umhverfisvænum fjarskiptum. Þá er lögð áhersla á það í nýrri fjarskiptaáætlun að ná samræmdri forgangsröðun og stefnumótun, og skal forgangsröðunin byggjast á mati á þörf fyrir úrbætur og uppbyggingu á landinu í heild, sem og í einstökum landshlutum. Meðal meginmarkmiða nýrrar fjarskiptaáætlunar eru áform um að stuðla að háhraðanetsuppbyggingu og stuðla að öryggi fjarskipta, m.a. með því að stuðla að áframhaldandi uppbyggingu á stofnneti sem ekki verður gert á markaðslegum forsendum svo það geti þjónað íbúum á landsbyggðinni á jafnréttisgrundvelli við þéttbýlli svæði. Uppbygging á sviði fjarskipta er lykilþáttur í að skapa forsendur fyrir framþróun og er ný fjarskiptaáætlun og framlengdur líftími fjarskiptasjóðs lykilforsenda fyrir áframhaldandi uppbyggingu.

Til að gera nánari grein fyrir nýmælum og breytingum sem felast í frumvarpinu er í fyrsta lagi, líkt og fram hefur komið, lagt til í frumvarpinu að lög um fjarskiptasjóð verði framlengd til næstu fimm ára. Markmið þeirrar breytingar eru bæði að tryggja að fjarskiptasjóður nái að fylgja eftir þeim verkefnum sem eru á lokastigum vegna fyrri fjarskiptaáætlunar, þ.e. háhraðanetsverkefni fjarskiptasjóðs. Auk þess er lagt til að fjarskiptasjóður starfi áfram til þess að fylgja eftir nýrri fjarskiptaáætlun 2011-2022 og stuðla þannig að áframhaldandi uppbyggingu.

Í öðru lagi, til þess að standa straum af kostnaði sjóðsins og uppbyggingu fjarskipta er lagt til það nýmæli að hann verði fjármagnaður af tekjum sem til eru komnar vegna úthlutana á tíðnum vegna fjarskipta, sem kveðið er á um í fjarskiptalögum nr. 81/2003. Fjarskiptatíðnir eru auðlindir undir stjórn íslenska ríkisins, en tíðnir eru takmörkuð auðlind og eru umtalsverð verðmæti falin í réttindum til notkunar þeirra. Miklu máli skiptir að við úthlutun þessara gæða sé farið eftir hlutlægum og gagnsæjum sjónarmiðum á grundvelli fyrir fram ákveðinna reglna þannig að sem best verði tryggt að markmiðum um sanngirni og jafnræði sé náð. Að sama skapi þarf úthlutun tíðna að þjóna almannahagsmunum með tilliti til útbreiðslu og aðgengis að fjarskiptaþjónustu um landið allt. Með því að kveða á um að gjöld sem fjarskiptafyrirtæki greiða fyrir afnot af tíðnum, renni til fjarskiptasjóðs er stoðum skotið undir enn frekari uppbyggingu á sviði fjarskipta, þar sem það reynist ekki mögulegt á markaðslegum forsendum,  notendum, fjarskiptafyrirtækjum og þjóðinni allri til hagsbóta. Óvíst er um það hversu há tíðnigjöld verða greidd á næstu árum, en ljóst að einungis verði um að ræða brot af þeirri upphæð sem var til ráðstöfunar fyrir framkvæmd síðustu áætlunar.

Í þriðja lagi eru auk ofangreinds lagðar til minniháttar breytingar á lögum um fjarskiptasjóð, lagt er til að stjórnarmönnum fjarskiptasjóðs verði fækkað úr fimm í þrjá, í samræmi við minnkað umfang starfsemi fjarskiptasjóðs. Þá er kveðið á um að ríkisendurskoðun skuli annast árlega endurskoðun reikninga sjóðsins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta