Hoppa yfir valmynd
28. mars 2023 Utanríkisráðuneytið

Menntunarátak í Níger til að draga úr fólksfjölgun og barnahjónaböndum

Stúlka í Níger. Ljósmynd: Barnaheill - mynd

Hvergi í heiminum er fæðingartíðni hærri en í Afríkuríkinu Níger. Þar stendur nú yfir átak til að auka möguleika stúlkna til menntunar í þeim tilgangi að hægja á fólksfjölgun í landinu. Atvinnuleysi meðal ungs fólks fer síhækkandi og hvergi í heiminum eru barnahjónabönd fleiri, 76 prósent stúlkna giftar fyrir átján ára aldur og 28 prósent fyrir fimmtán ára aldur.

„Fjölskyldur í Níger eiga að meðaltali sjö börn. Mikil mannfjöldaaukning hefur átt sér stað undanfarna áratugi, frá 3,5 milljónum árið 1960 til um 25 milljóna í dag. Miðgildi aldurs í landinu er nú 14,5 ár og tveir af hverjum fimm Nígerbúum eða 40,8% lifa undir fátæktarmörkum. Flestir þeirra eða 95% búa á dreifbýlum svæðum þar sem fátæktartíðnin er mun hærri, sérstaklega á Dosso, Zinder og Maradi svæðunum,“ segir í frétt Barnaheilla – Save the Children á Íslandi.

Samtökin vinna með yfirvöldum í Níger að því að mennta stúlkur um fjölskylduskipulagningu og reka svokallaða eiginmannaskóla. Þar fá stúlkur meðal annars fræðslu um getnaðarvarnir og tíðarhringinn, að því er segir í fréttinni.

„Ráðamenn höfðu lagt fram áætlanir um að ná notkun á nútímalegum getnaðarvörnum upp í 50% fyrir árið 2020 en tölfræðin sýnir hins vegar að markmiðið var ef til vill of metnaðarfullt og hefur ekki náðst, þrátt fyrir að hægt sé að sjá breytingu í hegðun á sumum svæðum. Ef mannfjöldaaukning helst eins og hún er, má búast við að 600.000 ný börn hefji skólagöngu á hverju ári, sem þýðir að opna þyrfti 12.000 nýja skóla árlega. Frekar hefur dregið úr fjölda skóla en 890 skólum var lokað af öryggisástæðum í Níger í ágúst 2022. Samkvæmt skýrslu frá UNICEF leiddi þetta til þess að 78.000 börn gátu ekki lengur sótt skóla, þar af 38.000 stúlkur. Í nýlegri skýrslu Barnaheilla – Save the Children kemur fram að Níger er eitt af þeim löndum þar sem mikil hætta er á að menntakerfið hrynji.“

Nánar á vef Barnaheilla

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

4. Menntun fyrir öll
5. Jafnrétti kynjanna

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta