Samstarf um Bláma endurnýjað
Umhverfis-, orku og loftslagsráðuneytið, Landsvirkjun, Orkubú Vestfjarða og Vestfjarðastofa hafa endurnýjað samstarf sitt um Bláma til ársins 2026, en samstarfsverkefnið sem verið hefur í gangi frá 2021 styður við orkuskipti og verðmætasköpun á Vestfjörðum og landinu öllu.
Blámi hefur á síðustu þremur árum haft frumkvæði að og stutt við fjölmörg orkuskiptaverkefni í þéttu samstarfi við fyrirtæki með sérstaka áherslu á sjávartengda starfsemi. Blámi hefur unnið náið með stærstu fiskeldisfyrirtækjum á Íslandi, sveitarfélögum, bátasmiðjum, tæknifyrirtækjum og menntastofnunum og hóf nýverið samstarf við innviðafélag Vestfjarða um að styðja við frekari innviðauppbyggingu í fjórðungnum.
Þorsteinn Másson hefur verið framkvæmdastjóri Bláma frá upphafi en auk hans hafa Tinna Rún Snorradóttir og Anna María Daníelsdóttir starfað hjá Bláma ásamt sumarstarfsmönnum. Starfsemi Bláma verður í framhaldi endurnýjunar samstarfsins efld með nýrri starfsstöð á sunnanverðum Vestfjörðum.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra:
„Við höfum lagt áherslu á að styðja við Vestfirði á undanförnum misserum og þátttaka ráðuneytisins í Bláma gefur okkur tækifæri til að virkja það hugvit, auðlindir og þekkingu sem fyrir hendi er svo árangur náist í orkuskiptum og orkutengdri nýsköpun. Sameiginlegt átak og stuðningur öflugra aðila skiptir sköpum svo vel takist til og það er ánægjulegt að ráðuneytið geti verið slíkur bakhjarl.“
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar:
„Markvist og vel skilgreint samstarf er lykillinn að árangri í orkuskiptum og orkutengdri nýsköpun. Með áframhaldandi stuðningi við Bláma væntum við þess að hægt verði að hrinda í framkvæmd enn fleiri raunhæfum verkefnum sem styðja við loftslagsmarkmið Íslands og aukna sjálfbæra verðmætasköpun á Vestfjörðum og um allt land.“
Sigríður Ó. Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu:
„Blámi hefur verið áhersluverkefni Sóknaráætlunar Vestfjarða síðustu ár og hefur reynst afar árangursríkt verkefni fyrir heildarhagsmuni Vestfjarða. Samstarf starfsmanna Vestfjarðastofu og Bláma hefur skilað fjölda árangursríkra umsókna fyrirtækja og stofnana á svæðinu í fjölmarga sjóði og þannig átt hlut í að auka fjármagn til nýsköpunarverkefna á Vestfjörðum. “
Elías Jónatansson, orkubússtjóri Orkubús Vestfjarða:
„Samstarf Bláma og Orkubúsins hefur skilað árangri sem er jafnvel umfram væntingar. Styrkleiki Bláma felst í að leiða saman hagsmunaaðila í orkuskiptum og nýsköpun á Vestfjörðum með því að setja fókusinn á hvernig megi koma hugmyndum í verk innan tiltekins tímaramma og hvaða áhrif slík verkefni geti haft fyrir samfélagið á Vestfjörðum. Við hlökkum til áframhaldandi samstarfs.“