Nr. 111/2018 - Álit
ÁLIT
KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA
í máli nr. 111/2018
Stofnun húsfélags.
I. Málsmeðferð kærunefndar
Með bréfi, dags. 23. október 2018, beindi Húsfélagið A 128, hér eftir nefnt álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við Húsfélagið A 140, hér eftir nefnt gagnaðili.
Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994. Greinargerð gagnaðila barst ekki þrátt fyrir ítrekun kærunefndar þar um.
Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 30. janúar 2019.
II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni
Um er að ræða fjöleignarhúsið A 128-150 í B. Ágreiningur er um stofnun húsfélags um ytra byrði hússins.
Kærunefnd telur kröfu álitsbeiðanda vera:
Að viðurkennt verði að stofnað skuli sameiginlegt húsfélag allra húsfélagsdeilda um ytra byrði hússins.
Í álitsbeiðni kemur fram að í eignaskiptasamningi fyrir hús nr. 128 komi fram: „Húshlutinn A 128, mhl 01, er sambyggður húshlutunum 130-150, mhl 02-12 og telst A 128-150 vera eitt hús.“
Á aðalfundi 16. maí 2018 hafi stjórn álitsbeiðanda verið falið að leita leiða til að fá úr því skorið eða álit á því hvort það ætti að vera starfrækt sameiginlegt húsfélag fyrir allt húsið. Hjá álitsbeiðanda standi vilji til þess að boða alla eigendur hússins á fund og væri aðalefni þess fundar hugsanleg stofnun húsfélags um ytra byrði hússins. Mismikil ánægja sé um þetta fundarefni meðal eigenda húsfélagsdeilda. Í því samhengi sé mikilvægt að fá rökstutt álit nefndarinnar á því hvort ekki eigi að vera starfrækt sérstakt húsfélag um ytra byrði alls hússins. Það sé að minnsta kosti alveg ljóst að varhugavert væri að stofna til sameiginlegs húsfélags án þess að hafa afgerandi álit á þessu máli. Viðhaldi allra húsfélagsdeildanna hafi ekki verið sinnt undanfarna áratugi með mjög mismunandi hætti. Þannig séu nú sumir stigagangar klæddir að utan með mismunandi klæðningum, á meðan aðrir séu pússaðir.
Fram komi í eignaskiptasamningi hússins að viðkomandi húsalengja teljist vera eitt hús. Í dag sé rekið lóðarfélag um lóðina sem allar húsfélagsdeildirnar standi á.
III. Forsendur
Álitsbeiðandi byggir á því að húsið A 128-150 sé eitt hús og hefur gagnaðili ekki mótmælt þeirri staðhæfingu. Verður því við það miðað við úrlausn málsins að um eitt hús sé að ræða, sem er enda í samræmi við eignaskiptayfirlýsingu, dómafordæmi, sbr. dómur Hæstaréttar í máli nr. 101/2010 er varðaði A 176-198 og D 43-47, og álit kærunefndar, til dæmis í máli nr. 18/1999, er varðaði A 8-34. Í húsinu eru samtals 12 stigahús og því jafnmargar húsfélagsdeildir. Álitsbeiðandi óskar viðurkenningar á því að heimilt sé að stofna húsfélag fyrir allt húsið um ytra byrði þess.
Um húsfélög er fjallað í IV. kafla laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994. Í 1. mgr. 56. gr. laganna segir að það séu til húsfélög í öllum fjöleignarhúsum í krafti ákvæða laganna, sbr. 3. mgr. 10. gr., og þurfi ekki að stofna þau sérstaklega og formlega. Í 2. mgr. sömu greinar segir að allir eigendur hússins séu félagsmenn í húsfélagi viðkomandi fjöleignarhúss. Kærunefnd bendir því á að ekki þarf að stofna sérstaklega húsfélag fyrir húsið í heild um málefni sameignarinnar þar sem það er sjálfkrafa til í krafti ákvæða laganna. Í þessu tilliti skiptir engu máli þótt starfræktar séu húsfélagdeildir fyrir hvert stigahús en undir þær falla almennt þau málefni sem falla undir sameign sumra en ekki sameign allra.
IV. Niðurstaða
Það er álit kærunefndar að lögum samkvæmt sé til húsfélag A 128-150.
Reykjavík, 30. janúar 2019
Auður Björg Jónsdóttir
Valtýr Sigurðsson Eyþór Rafn Þórhallsson