Opið fyrir umsóknir um dvöl í Kjarvalsstofu í París
Opnað hefur verið fyrir umsóknir um dvöl i Kjarvalsstofu í París fyrir íslenska listamenn. Kjarvalsstofa er stúdíóíbúð og vinnustofa í miðborg Parísar sem listamenn geta sótt um að fá leigða. Rýmið er 40 fm og er íbúðin hluti af alþjóðlegu listamannamiðstöðinni Cité Internationale des Arts.
Kjarvalsstofa er í umsjá bæði menningar- og viðskiptaráðuneytisins og Reykjavíkurborgar og er hægt að sækja um dvöl í henni á Mínum síðum Reykjavíkurborgar.
Opið er fyrir umsóknir um dvöl í Kjarvalsstofu til og með 1. mars næstkomandi. Umsóknirnar eru fyrir tímabilið maí 2023 til apríl 2024 en íbúðin er leigð út tvo mánuði í senn að lágmarki. Einnig er hægt að leigja aðgang að öðrum rýmum í listamannamiðstöðinni, til að mynda æfingarýmum með flygli eða píanói, aðstöðu til tónleikahalds, leirbrennsluofni o.fl.
Íbúðin er staðsett í miðborg Parísar, skammt frá Notre Dame dómkirkjunni.
Hægt er að nálgast nánari upplýsingar um Kjarvalsstofu í París hér.