Öruggir sjúkraflutningar tryggðir áfram
Vegna ákvörðunar Rauða krossins á Íslandi (RKÍ) um að slíta samstarfi við ríkið um rekstur sjúkrabíla vill ráðuneytið taka fram að öryggi sjúkraflutninga verður áfram tryggt meðan unnið er að því að skipuleggja fyrirkomulag þessarar þjónustu til framtíðar.
Í yfirlýsingu Rauða krossins um málið, dags. 16. mars 2018, kemur réttilega fram að ágreiningur hefur verið milli RKÍ og ráðuneytisins um rekstur sjúkrabílanna og eignarhald á þeim. Ríkið hefur staðið straum af kaupum nýrra sjúkrabíla að stærstum hluta en eignarhaldið hefur verið Rauða krossins. Því hefur ráðuneytið viljað breyta en ekki hefur náðst saman hvað það varðar.
Þar sem ljóst hefur verði um skeið að ekki myndi nást samkomulag í þessu máli hefur ráðuneytið unnið að því að finna rekstri bílanna annan farveg. Unnið hefur verið eftir þeirri forsendu að reksturinn verði að öllu leyti á hendi opinberra aðila. Þannig megi best tryggja öryggi og gæði sjúkraflutninga í landinu og þróa þjónustuna til samræmis við kröfur samtímans.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir að þótt nú sé orðið ljóst að leiðir ríkisins og RKÍ muni skilja í þessu máli sé skýrt af beggja hálfu að vel verði vandað til skilnaðarins: „Rauði krossinn hefur fullvissað ráðuneytið um að hann muni annast rekstur sjúkrabílanna meðan þess er þörf, eða þar til ráðuneytið hefur fundið verkefninu farveg til framtíðar og ég veit að orðum Rauða krossins er óhætt að treysta. Ráðuneytið mun hraða sinni vinnu eins og kostur er til að ljúka þessu máli farsællega.“ Ráðherra leggur áherslu á að sjúkraflutningar eru mikilvægur hluti af öflugu heilbrigðiskerfi og því beri að fjalla um þá í því ljósi.