Hoppa yfir valmynd
25. ágúst 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 225/2022-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 225/2022

Fimmtudaginn 25. ágúst 2022

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 28. apríl 2022, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 28. mars 2022, um að fella niður rétt hennar til atvinnuleysisbóta í þrjá mánuði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 6. júlí 2020 og var umsóknin samþykkt 2. september 2020. Þann 28. janúar 2022 var ferilskrá kæranda send til B vegna starfs hjá fyrirtækinu. Þann 4. mars 2022 bárust Vinnumálastofnun upplýsingar frá fyrirtækinu um að kærandi hefði hafnað starfinu. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 14. mars 2022, var óskað eftir skriflegri afstöðu kæranda vegna höfnunar á atvinnutilboði hjá umræddu fyrirtæki. Skýringar bárust frá kæranda þann 21. mars 2022. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 28. mars 2022, var kæranda tilkynnt að skýringar hennar hefðu ekki verið metnar gildar og að bótaréttur hennar væri felldur niður í þrjá mánuði á grundvelli 57. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Frekari skýringar bárust frá kæranda þann 30. mars 2022. Í kjölfar endurupptöku Vinnumálastofnunar á máli kæranda í samræmi við 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 var fyrri ákvörðun stofnunarinnar staðfest þann 6. apríl 2022.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 28. apríl 2022. Með bréfi, dags. 29. apríl 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 20. júní 2022 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 22. júní 2022. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hún kæri ákvörðun Vinnumálastofnunar þar sem hún telji það ekki réttmætt að bætur til hennar hafi verið stöðvaðar af svo smávægilegri ástæðu. Henni hafi ekki verið boðið að mæta í atvinnuviðtal heldur hafi hún fengið tölvupóst frá atvinnurekanda þar sem fram hafi komið að verið væri að leita að starfsfólki. Hún hafi starfað hjá umræddum atvinnurekanda áður en hann hafi sagt að hún hafi hafnað starfi hjá honum. Kærandi hafi hins vegar látið atvinnurekanda vita að hún væri að glíma við heilsufarsvandamál en hafi aldrei fengið svör við því. Kærandi voni að sér verði sýndur skilningur. Hún tali ekki íslensku og eigi ungt barn sem hún geti ekki framfleytt án tekna.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysistrygginga með umsókn í júlí 2020. Með vísan til 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hafi kæranda verið gert að sæta tveggja mánaða biðtíma eftir greiðslum atvinnuleysisbóta. Þann 28. janúar 2022 hafi ferilskrá kæranda verið send á atvinnurekanda, B. Yfirskrift starfsins hafi verið fiskvinnsla. Atvinnurekandi hafi svarað tillögu að starfsmanni þann 4. mars 2022 þar sem fram hafi komið að kærandi hefði hafnað starfinu. Samkvæmt athugasemd atvinnurekanda hafi kærandi ekki getað komið í vinnu þar sem hún væri slæm í baki. Með erindi, dags. 14. mars 2022, hafi verið óskað eftir skriflegri afstöðu kæranda til ástæðna höfnunar á starfi hjá umræddu fyrirtæki. Í erindi til kæranda hafi verið vakin athygli á hugsanlegum viðurlögum. Skýringar hafi borist frá kæranda þann 21. mars 2022. Í skýringum kæranda greini hún frá því að hún hafi ekki hafnað starfinu. Enginn frá fyrirtækinu hafi haft samband við hana til að bjóða henni í atvinnuviðtal en hún hafi starfað þar áður en hún hafi farið á atvinnuleysisbætur. Það hafi að öllum líkindum ekki verið haft samband við hana.

Með erindi, dags. 28. mars 2022, hafi kæranda verið tilkynnt að skýringar hennar á höfnun atvinnutilboðs hafi ekki verið metnar gildar og að bótaréttur hennar hafi verið felldur niður í þrjá mánuði þar sem um væri að ræða niðurfellingu bótaréttar öðru sinni á sama bótatímabili. Hún hafi jafnframt verið upplýst um að við ákvörðun um viðurlög samkvæmt 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar skuli meta hvort ákvörðun hins tryggða um að hafna starfi hafi verið réttlætanleg, svo sem vegna skertrar vinnufærni samkvæmt vottorði sérfræðilæknis.

Kærandi hafi komið á þjónustuskrifstofu stofnunarinnar þann 30. mars 2022 þar sem hún hafi verið ósátt við biðtíma. Hún hafi sagst ekki hafa hafnað umræddu starfi heldur hafi hún verið óvinnufær tímabundið og verið að bíða eftir leyfi frá lækni til að fara aftur út á vinnumarkaðinn. Frekari skýringar ásamt skjámynd af tölvupóstsamskiptum á milli kæranda og atvinnurekanda hafi borist frá kæranda sama dag. Af samskiptunum megi sjá að atvinnurekandi upplýsi kæranda um að umsókn hennar hafi verið móttekin af fyrirtækinu og að verið sé að leita eftir starfsfólki í fiskvinnslu. Kærandi hafi þó sagst ekki hafa hafnað starfinu en hún hafi upplýst fyrirtækið um að hún vildi gjarnan koma til vinnu. Hún væri að bíða eftir aðgerð en ef að bati yrði skjótur myndi hún hafa samband eins fljótt og auðið væri. Hún hafi þó ekki verið kölluð í formlegt viðtal.

Þann 6. apríl 2022 hafi Vinnumálastofnun fjallað um mál kæranda að nýju með tilliti til nýrra gagna. Það hafi verið mat stofnunarinnar að staðfesta bæri fyrri ákvörðun stofnunarinnar, dags. 28. mars 2022, enda hafi sú ákvörðun haft að geyma efnislega rétta niðurstöðu, þrátt fyrir að ný gögn hefðu borist.

Í skýringum kæranda til úrskurðarnefndar velferðarmála hafi kærandi greint frá því að hún hafi ekki hafnað starfinu. Hún hafi ekki verið boðuð í viðtal heldur hafi hún einungis fengið tilkynningu um að fyrirtækið væri að leita eftir starfsfólki. Hún hafi áður starfað hjá fyrirtækinu og atvinnurekandi hafi ranglega sagt að hún hefði hafnað umræddu starfi. Hún hafi eingöngu svarað þeim að hún glímdi þá stundina við heilsufarsvandamál en hún hafi ekki fengið svör við því. Með kæru til úrskurðarnefndarinnar hafi einnig fylgt læknisvottorð, dags. 28. apríl 2022, þar sem vottist að kærandi sé með brjósklos og slæma verki í baki. Henni sé vísað í sjúkraþjálfun og geti ekki unnið þunga vinnu.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Mál þetta lúti að ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslu atvinnuleysistrygginga til kæranda vegna höfnunar á starfi. Afstaða kæranda hafi legið fyrir en skýringar hennar hafi ekki verið metnar gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar.

Markmið laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem tryggðir séu og misst hafi fyrra starf sitt tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir séu að leita sér að nýju starfi. Með þessu sé verið að tryggja stöðu og öryggi fólks í atvinnuleysi. Því sé gert ráð fyrir að þeir sem teljist tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins séu í virkri atvinnuleit þann tíma og séu jafnframt reiðubúnir að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum sem þeim standi til boða. Atvinnuleysistryggingar veiti þannig þeim sem tryggðir séu fjárhagslegt úrræði í tímabundnu atvinnuleysi sínu. Ríkar kröfur beri að gera til þeirra sem hafni starfi á innlendum vinnumarkaði um að þeir hafi til þess gildar ástæður samkvæmt lögunum, enda eigi almennt ekki að þiggja atvinnuleysisbætur í stað þess að gegna launuðu starfi.

Eitt af skilyrðum þess að umsækjandi um atvinnuleysisbætur eigi rétt til greiðslna atvinnuleysistrygginga sé að vera í virkri atvinnuleit, sbr. a. lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í 14. gr. laganna sé nánar kveðið á um hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Þar sé útlistað að umsækjandi þurfi meðal annars að vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, vera reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi, án sérstaks fyrirvara, og hafa til þess vilja og getu. Að öðrum kosti verði ekki litið á hlutaðeigandi í virkri atvinnuleit. 

Í 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um viðurlög vegna höfnunar á starfi eða atvinnuviðtali. Ákvæðið sé svohljóðandi: 

,,Sá sem hafnar starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 5. mgr. Hið sama á við um þann sem hafnar því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst með sannanlegum hætti eða sinnir ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar.“

Þá segi orðrétt í 4. mgr. sömu greinar:

,,Vinnumálastofnun skal meta við ákvörðun um viðurlög skv. 1. mgr. hvort ákvörðun hins tryggða um að hafna starfi hafi verið réttlætanleg vegna aldurs hans, félagslegra aðstæðna sem tengjast skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima. Enn fremur er Vinnumálastofnun heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar hann hafnar starfi fjarri heimili sínu sem og til ráðningar hans í ótímabundið starf innan tiltekins tíma. Þá er heimilt að taka tillit til aðstæðna þess sem getur ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni samkvæmt vottorði sérfræðilæknis. Getur þá komið til viðurlaga skv. 59. gr. hafi hinn tryggði leynt upplýsingum um skerta vinnufærni.“

Vinnumálastofnun sé gert að meta skýringar atvinnuleitenda vegna höfnunar á atvinnutilboði með hliðsjón af þeirri ríku skyldu sem hvíli á umsækjendum um atvinnuleysisbætur til að vera reiðubúnir að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, án sérstaks fyrirvara, og hafa til þess vilja og getu. Með umsókn um atvinnuleysistryggingar sé atvinnuleitendum gert að upplýsa um allt það sem kunni að hafa áhrif á rétt þeirra samkvæmt lögunum.

Kærandi hafi gefið skýringar á höfnun á starfi til Vinnumálastofnunar. Í skýringum sem hafi borist með kæru til úrskurðarnefndarinnar greini kærandi frá því að hún hafi ekki hafnað starfinu. Hún hafi ekki verið boðuð í viðtal heldur hafi hún einungis fengið tilkynningu um að fyrirtækið væri að leita eftir starfsfólki. Með kæru hafi jafnframt fylgt læknisvottorð vegna veikinda hennar. Upplýsingar um veikindi samkvæmt vottorði hafi fyrst borist til Vinnumálastofnunar í kjölfar kæru til úrskurðarnefndarinnar þann 28. apríl 2022.

Líkt og áður hafi verið rakið hvíli rík skylda á atvinnuleitendum til að taka því starfi sem þeim bjóðist, enda eigi almennt ekki að þiggja atvinnuleysisbætur í stað þess að gegna launuðu starfi. Þá sé atvinnuleitendum skylt að taka þeim störfum sem kunni að bjóðast, án sérstaks fyrirvara. Samkvæmt umsókn um greiðslu atvinnuleysistrygginga hafi kærandi óskað eftir 100% starfi og ekki gefið aðrar upplýsingar til Vinnumálastofnunar en að hún væri almennt vinnufær.

Að mati Vinnumálastofnunar megi leggja afstöðu kæranda og framferði að jöfnu við það að kærandi hefði hafnað starfi. Í ljósi framangreins séu skýringar kæranda ekki þess eðlis að þær réttlæti höfnun á atvinnutilboði. Hvað varði skýringar kæranda er lúti að veikindum hennar þá samræmist slíkar skýringar ekki skilyrðum 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um virka atvinnuleit atvinnuleitanda og varði það sömu viðurlögum samkvæmt 59. gr. laganna ef atvinnuleitandi veiti ekki upplýsingar um skerta vinnufærni. Út frá fyrirliggjandi gögnum verði ekki fallist á að kærandi hafi verið reiðubúin að taka því starfi sem hafi boðist, án sérstaks fyrirvara.

Það sé því niðurstaða Vinnumálastofnunar að kæranda beri að sæta viðurlögum í formi þriggja mánaða biðtíma á grundvelli 57. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í þrjá mánuði á grundvelli 1. mgr. 57. gr., sbr. 1. mgr. 61. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Ákvæði 1. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 er svohljóðandi:

„Sá sem hafnar starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 5. mgr. Hið sama á við um þann sem hafnar því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst með sannanlegum hætti eða sinnir ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar.“

Þá segir svo í 4. mgr. 57. gr. laganna:

„Vinnumálastofnun skal meta við ákvörðun um viðurlög skv. 1. mgr. hvort ákvörðun hins tryggða um að hafna starfi hafi verið réttlætanleg vegna aldurs hans, félagslegra aðstæðna sem tengjast skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima. Enn fremur er Vinnumálastofnun heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar hann hafnar starfi fjarri heimili sínu sem og til ráðningar hans í ótímabundið starf innan tiltekins tíma. Þá er heimilt að taka tillit til aðstæðna þess sem getur ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni samkvæmt vottorði sérfræðilæknis. Getur þá komið til viðurlaga skv. 59. gr. hafi hinn tryggði leynt upplýsingum um skerta vinnufærni.“

Fyrir liggur að ferilskrá kæranda var send til B þann 28. janúar 2022. Fyrirtækið tilkynnti Vinnumálastofnun þann 4. mars 2022 að kærandi hefði hafnað starfi vegna þess að hún væri slæm í baki. Kærandi hefur vísað til þess að hún hafi ekki hafnað atvinnutilboði þar sem henni hafi ekki verið boðið starf. Atvinnurekandi hafi einungis haft samband og tilkynnt henni að fyrirtækið væri að leita eftir starfsfólki. Þá hefur kærandi greint frá því að hafa sent atvinnurekanda tölvupóst og upplýst hann um heilsufarsvandamál sín en að hún hafi aldrei fengið svör við því.

Samkvæmt gögnum málsins hafði B samband við kæranda í tölvupósti þann 23. febrúar 2022 og upplýsti hana um að þeir hefðu fengið nafn hennar frá Vinnumálastofnun og að fyrirtækið væri í leit að starfsmanni í fiskvinnslu. Í svari kæranda til atvinnurekanda kom fram að hún væri að glíma við bakmeiðsli en að hún myndi hafa samband aftur ef endurhæfing gengi vel. Að mati úrskurðarnefndarinnar voru viðbrögð kæranda þess eðlis að þau jafngildi höfnun á starfi. Kemur þá til skoðunar hvort ákvörðun kæranda um að hafna starfinu hafi verið réttlætanleg í skilningi 4. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006.

Þann 28. apríl 2022 skilaði kærandi inn læknisvottorði til Vinnumálastofnunar, dagsettu sama dag. Ljóst er að framangreint læknisvottorð lá ekki fyrir þegar Vinnumálastofnun tók hina kærðu ákvörðun. Með vísan til þess er það mat úrskurðarnefndarinnar að tilefni sé fyrir Vinnumálastofnun að leggja mat á hvort ákvörðun kæranda um að hafna starfinu hafi verið réttlætanleg vegna skertrar vinnufærni. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og lagt fyrir Vinnumálastofnun að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

  


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 28. mars 2022, um að fella niður rétt A til atvinnuleysisbóta í þrjá mánuði, er felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar stofnunarinnar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta