Tilraunaverkefni um innleiðingu jafnlaunastaðals lokið og viðurkenningar veittar
Í dag lauk á jafnréttisþingi tilraunaverkefni um innleiðingu jafnlaunastaðals sem staðið hefur frá árinu 2013. Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra veitti þátttakendum viðurkenningar en markmið verkefnisins var að prófa jafnlaunastaðalinn ÍST 85:2012 og átta sig á umfangi innleiðingar hans, ávinningi og áskorunum.
Bjarni sagði í ávarpi sínu að tilraunaverkefnið hefði verið óvissuferð og allir þátttakendur hafi innleitt jafnlaunakerfi í fyrsta skipti. Ánægjulegt hafi verið að sjá að stjórnendur á vinnustöðum sem þátt tóku settu verkefnið í forgang, mættu kröfum staðalsins og uppfylltu þau skilyrði sem sett eru fyrir vottun jafnlaunakerfa. Sú góða reynsla sem orðið hefði til í verkefninu nýttist nú í vinnu við almenna innleiðingu jafnlaunastaðalsins.
Ráðherra benti á að ríkisstjórnin hefði nýlega samþykkt tillögur um aðgerðir til að styðja enn frekar við innleiðingu jafnlaunastaðalsins þannig að tryggja megi að fyrirtæki og stofnanir geti unnið að innleiðingu hans og öðlast jafnlaunavottun innan þeirra tímamarka sem lög um jafnlaunavottun gera ráð fyrir.
Þátttakendur fengu viðurkenningar
Fjármála- og efnahagsráðherraveitti þeim aðilum sem tóku þátt í tilraunaverkefninu viðurkenningu og þakkaði þeim fyrir að varða veginn í þessu mikilvægi verkefni. Sagðist ráðherra vona að það verði til þess að það takist að útrýma kynbundnum launamun á Íslandi.
Eftirfarandi fyrirtæki og stofnanir fengu viðurkenningu:
Vátryggingarfélag Íslands – VÍS
Össur
Hafnarfjarðarbær
Tollstjóri
Landmælingar Íslands
Velferðarráðuneytið
Um tilraunaverkefnið
Tilraunaverkefni um innleiðingu jafnlaunastaðalsins ÍST 85:2012 var ýtt formlega úr vör á jafnréttisþingi 1. nóvember 2013. Verkefnið var unnið á vegum aðgerðahóps stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti kynjanna. Sérfræðingar á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins stýrðu tilraunaverkefninu og efndu til samstarfsvettvangs þeirra stofnana, fyrirtækja og sveitarfélaga er þátt tóku. Markmið verkefnisins var að prófa staðalinn ÍST 85:2012 og átta sig á umfangi innleiðingar hans, ávinningi og áskorunum.
Við upphaf verkefnisins lýstu 11 ríkisstofnanir, tvö sveitarfélög og átta einkafyrirtæki yfir áhuga á þátttöku. Alls tóku á einhverjum tímapunkti þátt í verkefninu 14 ríkisstofnanir, þrjú sveitarfélög, 14 einkafyrirtæki og þrenn félagasamtök.
Hópurinn hittist reglulega undir handleiðslu sérfræðinga fjármála- og efnahagsráðuneytisins og fóru þeir einnig í heimsóknir til þátttakenda. Sérfræðingar ráðuneytisins heimsóttu alla þátttakendur, lögðu fram gátlista og fóru yfir tillögu að verklagi. Þeir komu einnig og kynntu staðalinn fyrir ýmsum aðilum, svo sem starfsmönnum sveitarfélaga, fyrirtækja og stofnana. Hugmyndin með vinnuteymunum var að þátttakendur gætu sótt í reynslubrunn hvers annars og borið saman bækur sínar.