Hoppa yfir valmynd
6. febrúar 2025 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 94/2025 Úrskurður

Hinn 6. febrúar 2025 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 94/2025

í stjórnsýslumáli nr. KNU24090177

 

Kæra [...]

á ákvörðun Útlendingastofnunar

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 26. september 2024 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari Rúmeníu ( hér eftir kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 24. september 2024, um brottvísun og endurkomubann til Íslands í þrjú ár.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi. Til vara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að málinu verði vísað til nýrrar meðferðar hjá stofnuninni. Til þrautavara krefst kærandi þess að endurkomubann hans verði ákveðið tvö ár, og til þrautaþrautavara krefst kærandi þess að honum verði veittur rýmri frestur til þess að yfirgefa landið. Í öllum tilfellum krefst kærandi þess að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað á meðan málið er til meðferðar hjá kærunefnd útlendingamála.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, ákvæði laga um landamæri nr. 136/2022, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, EES-samningurinn, sbr. lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2004/38 um rétt borgara Sambandsins og aðstandenda þeirra til frjálsrar farar og dvalar á yfirráðasvæði aðildarríkjanna, auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Hinn 31. mars 2021 skráði kærandi dvöl sína hér á landi en hann var skráður úr landi 1. júní 2021. Kærandi hefur ekki skráð dvöl sína að nýju, sbr. 89. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hefur kærandi hlotið þrjá refsidóma hér á landi vegna brota gegn almennum hegningarlögum nr. 19/1940, umferðarlögum nr. 77/2019, og lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974.

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur nr. S-4811/2023, dags. 17. maí 2024, var kærandi dæmdur til 90 daga fangelsisvistar, skilorðsbundið til tveggja ára, auk þess sem honum var gert að greiða 3.380.000 kr. sekt til ríkissjóðs. Í dóminum var kærandi fundinn sekur um sex þjófnaðarbrot, sbr. 244. gr. almennra hegningarlaga, á tímabilinu 6. mars 2021 til 10. júní 2023, samtals að verðmæti 609.830 kr. Með sama dómi var kærandi sakfelldur fyrir 15 umferðarlagabrot á tímabilinu 8. janúar 2023 til 29. júní 2023. Öll umferðarlagabrot kæranda lutu að akstri án ökuréttinda, en þar af vörðuðu sex ákæruliðanna fíkniefnaakstur, þar af einn fíkniefna- og ölvunarakstur auk þess sem kærandi var sakfelldur fyrir vörslu fíkniefna samhliða einu umferðarlagabrota sinna, sbr. 1., sbr. 2. mgr. 50. gr. og 1. mgr. 58. gr., sbr. 1. sbr. 2. mgr. 59. gr., og 2. sbr. 4. mgr. 37. gr., sbr. og 1. mgr. 57. gr. umferðarlaga, og 2. sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni.

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur nr. S-2721/2024, dags. 11. september 2024, var kærandi dæmdur til fimm mánaða fangelsisvistar, en fullnustu refsingarinnar yrði frestað í tvö ár héldi hann skilorð. Með dóminum var kærandi sakfelldur fyrir 14 þjófnaðarbrot, sbr. 244. gr. almennra hegningarlaga, á tímabilinu 15. mars 2023 til 6. mars 2024, samtals að verðmæti 1.491.372 kr. Með sama dómi var kærandi dæmdur fyrir fjársvik, sbr. 248. gr. almennra hegningarlaga, með því að hafa hagnýtt sér greiðslukort annars manns í blekkingarskyni og án heimildar í þrjú skipti, og svikið þannig fé af réttmætum eiganda kortsins, að verðmæti 93.788 kr. að samtölu. Með sama dómi var kærandi sakfelldur fyrir fíkniefnaakstur án ökuréttinda í þrjú skipti á tímabilinu 31. júlí 2023 til 10. maí 2024, sbr. 1., sbr. 2. mgr. 50. gr., sbr. 1. mgr. 58. gr. umferðarlaga.

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur nr. S-6467/2024, dags. 18. janúar 2024, var kærandi dæmdur fyrir sex þjófnaðarbrot, sbr. 244. gr. almennra hegningarlaga, á tímabilinu 24. maí 2024 til 23. ágúst 2024, samtals að verðmæti 287.077 kr. Með sama dómi var kærandi dæmdur fyrir sex umferðarlagabrot á tímabilinu 18. júní 2024 til 9. september 2024. Brotin sex lutu öll að akstri án ökuréttinda en þar af voru þrjú skipti vegna fíkniefnaaksturs, þar af einn fíkniefna- og ölvunarakstur, og verulegan hraðakstur, sbr. 3. mgr. 37. gr., sbr. 1., sbr. 2. mgr. 49. gr. og 1., sbr. 2. mgr. 50. gr. og 1. mgr. 58. gr. umferðarlaga. Framangreindum dómum til viðbótar gerði kærandi lögreglustjórasátt 8. janúar 2023 vegna hraðaksturs og fíkniefnaaksturs án ökuréttinda, ásamt broti gegn lögum um ávana- og fíkniefni, en með sáttinni var kæranda gert að sæta 395.000 kr. sekt.

Með bréfi Útlendingastofnunar, dags. 10. júlí 2024, var kæranda tilkynnt að til skoðunar væri að brottvísa honum og ákvarða endurkomubann með vísan til allsherjarreglu, almannaöryggis eða almannaheilbrigðis, sbr. 1. og 2. mgr. 95. gr. laga um útlendinga. Í bréfinu vísaði Útlendingastofnun til áðurnefnds dóms Héraðsdóms Reykjavíkur nr. S-4811/2023 en einnig til opinna mála sem væru til meðferðar hjá lögreglu vegna ítrekaðra brota kæranda gegn almennum hegningarlögum og umferðarlögum. Með bréfinu var kæranda veittur þriggja daga frestur til þess að leggja fram greinargerð vegna málsins. Bréfið var birt fyrir kæranda 24. júlí 2024, og lagði hann fram röksemdir sínar með tölvubréfi, dags. 26. júlí 2024. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 24. september 2024, var kæranda vísað brott frá Íslandi á grundvelli 1., sbr. 2. mgr. 95. gr. laga um útlendinga og honum ákvarðað endurkomubann til landsins í þrjú ár. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda 24. september 2024, með aðstoð túlks. Með tölvubréfi, dags. 26. september 2024, var ákvörðunin kærð til kærunefndar útlendingamála. Með rafrænni gagnasendingu, dags. 11. október 2024, lagði kærandi fram greinargerð vegna málsins, og með rafrænni gagnasendingu, dags. 27. nóvember 2024, lagði kærandi fram viðbótargreinargerð ásamt frekari fylgigögnum. Með tölvubréfi, dags. 3. janúar 2025, lagði kærunefnd fyrir kæranda að færa fram frekari skýringar og fylgigögn til stuðnings tiltekinna fullyrðinga í greinargerð. Svör kæranda bárust með tölvubréfi, dags. 8. janúar 2024.

Samhliða kæru óskaði kærandi eftir frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar á meðan málið væri til meðferðar hjá kærunefnd, sbr. 2. mgr. 29. gr. laga um útlendinga. Með bréfi kærunefndar, dags. 20. nóvember 2024, féllst nefndin á þá beiðni.

III.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð vísar kærandi til atvika málsins en kærandi kveðst hafa átt í ástarsambandi við rúmenskan ríkisborgara, um 16 ára skeið, sem búsett sé hér á landi ásamt tveimur dætrum hennar. Kærandi kveðst vera í sambúð með konunni og að hann hafi gengið stúlkunum í föðurstað og sinnt uppeldi þeirra líkt og hann væri sjálfur faðir þeirra. Þrátt fyrir framangreint liggi sú umönnun ekki fyrir í opinberum skrám en hafi mikla þýðingu fyrir kæranda, stúlkurnar og móður þeirra. Kærandi vísar til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur nr. S-4811/2023, og kveðst afplána þá refsingu sem Héraðsdómur mat hæfilega með dóminum. Með ákvörðun Útlendingastofnunar standi sambúðarmaki kæranda og dætur hennar þó frammi fyrir því að stjúpföður og sambýlismanni verði vikið af landi brott og jafnframt bannað að heimsækja þær, sem hefði óbærilegar afleiðingar fyrir fjölskylduna.

Um aðalkröfu sína vísar kærandi til þess að ákvörðunin sé í ósamræmi við réttmætisreglu stjórnsýsluréttarins vegna brota sinna, skilyrða til dvalar, og ólokinna mála hjá lögreglu. Kærandi telur ekki unnt að fallast á að skráning mála hjá lögreglu leiði til brottvísunar og kveðst saklaus af ásökunum lögreglu uns sekt er sönnuð fyrir dómi, sbr. 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar. Samkvæmt framangreindu telur kærandi að beiting sjónarmiðanna sé ómálefnaleg og af þeim sökum sé óheimilt að líta til þeirra að nokkru leyti. Þar að auki telur kærandi að röksemdir um að skilyrði til dvalar geti ekki haft þýðingu við mat á því hvort að dvöl einstaklings á landinu stríði gegn allsherjarreglu, almannaöryggi eða almannaheilbrigði. Að mati kæranda hafi Útlendingastofnun því ekki verið heimilt að byggja á því.

Þá byggir kærandi á því að hann hafi ekki notið raunhæfs andmælaréttar við meðferð málsins og vísar í því samhengi til álits Umboðsmanns Alþingis í máli nr. 5261/2008. Í því máli hafði einstaklingi í afplánun verið birt bréf þar sem fram kom að fyrirhugað væri að vísa honum úr landi og ákvarða endurkomubann, og var honum veittur þriggja daga frestur til þess að leggja fram greinargerð og kvaðst hann ekki hafa skilið efni bréfsins. Í málinu taldi Umboðsmaður að aðili málsins hafi ekki notið raunhæfs andmælaréttar. Kærandi telur að það sama eigi við um sitt mál þar sem málið varði verulega matskennda efnisþætti og hagsmuni sem njóti verndar stjórnarskrár. Þá kveður kærandi að hann hafi ekki skilið efni bréfsins en að upplýsingar um túlkun tilkynningarinnar hafi skort. Þá hafi kæranda aðeins verið veittur þriggja daga frestur til andmæla en ekki verði séð að nauðsyn hafi borið til að veita svo skamman frest enda sé hin kærða ákvörðun dagsett tveimur mánuðum eftir birtingu tilkynningarinnar.

Kærandi telur að málið sé ótilhlýðilega rannsakað af hálfu Útlendingastofnunar, með hliðsjón af 2. mgr. 97. gr. laga um útlendinga. Að mati kæranda hafi stofnunin ekki rannsakað aðstæður hans með nægjanlegum hætti með tilliti til atriða sem fram komi í lagaákvæðinu. Enn fremur telur kærandi ekki nægjanlegt að gera honum að leggja fram gögn sem varði málið heldur verði stofnunin að kanna þessi atriði að eigin frumkvæði fyrir töku íþyngjandi ákvörðunar, að minnsta kosti með því að spyrja aðila málsins. Kærandi bendir á að rannsókn Útlendingastofnunar hafi takmarkast við lögheimilisskráningu og aldur hans en kærandi telur að fjölskylduaðstæður eigi að vega þyngst, en þar sem kæranda hafi ekki verið veittur raunhæfur andmælaréttur hafi Útlendingastofnun ekki getað tekið tillit til þessa atriðis. Enn fremur telur kærandi það ekki standast jafnræðisreglu að honum sé brottvísað vegna brota sem hann telji lítilfjörleg og lýsir sem smáþjófnaði og umferðarlagabrotum. Kærandi telur að ef umferðarlagabrot myndu ævinlega leiða til brottvísunar mætti ætla að mannfjöldi á Íslandi drægist verulega saman.

Kærandi telur að ekki hafi verið sýnt fram á nauðsyn brottvísunar auk þess sem ákvörðunin sé ekki í samræmi við meðalhófssjónarmið. Kærandi telur það ekki hafa nokkra þýðingu að litið sé til skráninga í kerfum lögreglu við úrlausn málsins. Hann bendir á að skilyrði brottvísunar EES-borgara sé að framferði hans feli í sér raunverulega, yfirvofandi og nægilega alvarlega ógn gagnvart grundvallarhagsmunum samfélagsins. Fyrri refsilagabrot nægi ekki ein og sér heldur þurfi framferði hans að vera með þeim hætti að alvarleg ógn væri yfirstandandi á þeim tíma sem ákvörðun um brottvísun sé tekin. Kærandi vísar til 27. gr. tilskipunar nr. 2004/38 sem mæli fyrir um að ráðstafanir með skírskotun til allsherjarreglu eða almannaöryggis, skuli vera í samræmi við meðalhófsregluna. Um það vísar kærandi m.a. til dóms Evrópudómstólsins í máli nr. C-145/09 Tsakouridis frá 23. nóvember 2010, um að vega þurfi hagsmuni aðildarríkja af brottvísunum gagnvart neikvæðum afleiðingum sem það hefði fyrir ríkisborgara sambandsins. Þá vísar kærandi einnig til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Boultif gegn Sviss (nr. 54273/00) frá 2. nóvember 2001. Kærandi telur að vera hans á landinu þurfi að fela í sér alvarlega ógn svo unnt sé að réttlæta brottvísun með vísan til hagsmuna hans og fjölskyldu hans að öðru leyti. Slíkar aðstæður séu ekki fyrir hendi og brot kæranda varði smáþjófnað og umferðarlagabrot, og hafi refsing hans í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur nr. S-4811/2023 verið skilorðsbundin að fullu. Með vísan til refsingarinnar verði að álykta að dómurinn hafi ekki talið brot hans alvarleg og ekki af þeim alvarleika að kærandi skyldi verða ófrjáls maður sökum almannahagsmuna.

Kærandi hafi lagt sig fram við að bæta ráð sitt, þvert á ummæli Útlendingastofnunar, og fyrri afbrot hafi komið til vegna erfiðleika við halda sér allsgáðum. Kærandi kveðst á hinn bóginn hafa haldið sig frá áfengis- og fíkniefnaneyslu um nokkurt skeið og njóti aðstoðar fagaðila. Hann vonast til þess að hann geti orðið stjúpdætrum sínum góð fyrirmynd og nýtur þjóðfélagsþegn hér á landi. Þá vísar kærandi til þátttöku í atvinnulífi og kveðst hann hafa hafið störf nýlega hjá bifreiðaverkstæði og taki þátt í stjórn rekstursins. Samkvæmt framansögðu sé brottvísun kæranda í hróplegu ósamræmi við meðalhófsregluna og muni valda óafturkræfum slitum á fjölskyldu, sem eygi von um góða framtíð hér á landi. Kærandi telur að slíkir annmarkar séu á meðferð málsins að óhjákvæmilegt sé að fella hana úr gildi. Um varakröfu og þrautavarakröfu vísar kærandi til fyrri umfjöllunar, auk mikilvægra hagsmuna um velferð og uppvöxt stjúpdætra sinna. Varðandi þrautaþrautavarakröfu vísar kærandi til þess að honum skuli veittur frestur til þess að kveðja sína nánustu, segja upp vinnu, ganga frá húsnæði, og gera aðrar ráðstafanir vegna brottvísunar. Kærandi bendir á 3. mgr. 30. gr. tilskipunar nr. 2004/38 sem mæli fyrir um almennan eins mánaðar frest til þess að yfirgefa land sem brottvísað er frá.

Í viðbótargreinargerð, dags. 27. nóvember 2024, vísar kærandi til fylgigagna, m.a. ljósmyndar sem kærandi telur að sýni fram á áverka stjúpdóttur sinnar, en kærandi kveðst hafa haft milligöngu um að hún njóti nauðsynlegrar læknisaðstoðar. Þá vísar kærandi til tölvubréfa frá skólayfirvöldum sem kærandi telur sýna fram á milligöngu hans í samskiptum við menntastofnanir vegna stjúpdætra hans. Þá lagði kærandi einnig fram tilkynningu til fyrirtækjaskrár, dags. 10. október 2024, þar sem fram komi að kærandi sé varamaður í stjórn einkahlutafélags.

IV.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í samræmi við 7. gr. EES-samningsins, sbr. lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, hefur tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2004/38 um rétt borgara Sambandsins og aðstandenda þeirra til frjálsar farar og dvalar á yfirráðasvæði aðildarríkjanna verið tekin upp í íslenskan rétt, sbr. m.a. XI. kafla laga um útlendinga sem felur í sér sérreglur um útlendinga sem falla undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.

Í 95. gr. laga um útlendinga er fjallað um brottvísun EES- eða EFTA-borgara eða aðstandanda hans. Samkvæmt 1. mgr. greinarinnar er heimilt að vísa EES- eða EFTA-borgara eða aðstandanda hans úr landi ef það er nauðsynlegt með skírskotun til allsherjarreglu, almannaöryggis eða almannaheilbrigðis. Í 2. mgr. 95. gr. laga um útlendinga segir að brottvísun samkvæmt 1. mgr. 95. gr. sé heimil ef framferði viðkomandi feli í sér raunverulega, yfirvofandi og nægilega alvarlega ógn gagnvart grundvallarhagsmunum samfélagsins. Ákvörðun um brottvísun skuli ekki eingöngu byggjast á almennum forvarnaforsendum. Ef viðkomandi hafi verið dæmdur til refsingar eða sérstakar ráðstafanir ákvarðaðar, sé brottvísun af þessari ástæðu því aðeins heimil, að um sé að ræða háttsemi sem geti gefið til kynna að viðkomandi muni fremja refsivert brot á ný. Fyrri refsilagabrot nægi ekki ein og sér til þess að brottvísun sé beitt.

Líkt og fram kemur í málavaxtalýsingu skráði kærandi dvöl sína hér á landi 31. mars 2021 en lögheimili hans var flutt úr landi að nýju 1. júní 2021. Samkvæmt fyrirliggjandi sakavottorði og refsidómum hófst brotaferill kæranda hér á landi nokkrum vikum áður en hann skráði dvöl sína, eða 6. mars 2021. Kærandi hefur alls verið fundinn sekur um 51 refsivert afbrot með dómi en síðasta afbrot kæranda sem hann hefur verið sakfelldur fyrir var framið 9. september 2024. Kærandi hefur þrívegis verið dæmdur til refsingar, fyrst með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur nr. S-4811/2023, dags. 17. maí 2023, þar sem hann var dæmdur til 90 daga refsingar, skilorðsbundið til tveggja ára auk þess sem honum var gert að greiða sekt að verðmæti 3.380.000 kr. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur nr. S-2721/2024, dags. 11. september 2024, var kærandi dæmdur til fimm mánaða fangelsisrefsingar, en fullnustu refsingarinnar var frestað í 2 ár héldi hann skilorð, en með dóminum var kæranda gerður hegningarauki að hluta. Þriðji refsidómur kæranda, nr. S-6467/2024, var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur 18. nóvember 2024 og þá var kærandi dæmdur til 9 mánaða óskilorðsbundinnar fangelsisrefsingar en með dóminum hafði kærandi rofið skilorð að hluta og var honum gerður hegningarauki að hluta. Samkvæmt dómum og sakavottorði hefur kærandi verið fundinn sekur um 26 þjófnaðarbrot, sbr. 244. gr. almennra hegningarlaga, en samtala andvirðis brotanna er 2.388.279 kr. Auk þess var kærandi fundinn sekur um fjársvik í einum ákærulið, með því að hafa nýtt sér greiðslukort annars manns í blekkingarskyni og án heimildar, og þannig svikið 93.788 kr. af brotaþola. Kærandi hefur verið sakfelldur 24 sinnum fyrir umferðarlagabrot fyrir dómi en öll brotin lutu að akstri án ökuréttinda. Þar af varða 12 brotanna fíkniefnaakstur en í tvö skipti var einnig um að ræða ölvunarakstur, og í einu tilfelli brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Til viðbótar við framangreinda refsidóma gerði kærandi lögreglustjórasátt 8. janúar 2023 vegna hraðaksturs og fíkniefnaaksturs án ökuréttinda, auk brots gegn lögum um ávana- og fíkniefni en með sáttinni gekkst kærandi við greiðslu sektar að fjárhæð 395.000 kr.

Fyrir liggur að annar og þriðji refsidómur kæranda, þ.e. nr. S-2721/2024 og nr. S-6467/2024, voru kveðnir upp eftir að kæranda var birt tilkynning um hugsanlega brottvísun og endurkomubann 24. júlí 2024. Þá var seinni dómurinn kveðinn upp eftir töku og birtingu hinnar kærðu ákvörðunar. Dómarnir tveir fjalla þó eingöngu um afbrot sem kærandi framdi fyrir töku hinnar kærðu ákvörðunar. Þó eru brot samkvæmt ákæruliðum 9-12 í dómi nr. S-6467/2024 framin eftir birtingu tilkynningar um hugsanlega brottvísun. Þau brot sem kærandi var sakfelldur fyrir með þessum tveimur dómum eiga sér þó skírskotun í tilkynningu um hugsanlega brottvísun og hina kærðu ákvörðun, með hliðsjón af ítrekuðum afskiptum lögreglu og kæranda, og þeim brotum sem lögregla hafði til meðferðar, sbr. bréf lögreglunnar til Útlendingastofnunar, dags. 9. júlí 2024. Með hliðsjón af framangreindu er rétt og eðlilegt að Útlendingastofnun líti til slíkra upplýsinga við meðferð mála enda eru upplýsingar um ítrekuð afskipti til þess fallnar að sýna fram á hegðunarmynstur brotamanna. Samkvæmt bréfi Fangelsismálastofnunar ríkisins, dags. 24. janúar 2025, var kærandi úrskurðaður í gæsluvarðhald frá 24. september 2024 til 21. nóvember 2024 en þann dag hóf hann afplánun á níu mánaða fangelsisrefsingu en lokadagur afplánunar er fyrirhugaður 20. júní 2025.

Við mat á því hvort framferði kæranda sé þess eðlis að skilyrði 1. mgr. 95. gr. laga um útlendinga sé uppfyllt, sbr. 27. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2004/38, verður einkum að líta til þess að kærandi var þrívegis dæmdur til fangelsisrefsingar fyrir ítrekuð brot yfir langvarandi tímabil. Af brotaferli kæranda verður jafnframt ráðið að tíðni brotanna hafi aukist eftir því sem leið á og verðmæti einstakra þjófnaðarbrota farið hækkandi einnig. Þar að auki hefur kærandi verið sakfelldur, og gert lögreglusátt, vegna ítrekaðs aksturs án ökuréttinda, undir áhrifum áfengis og ávana- og fíkniefna. Akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna eru almannahættubrot sem eru einstaklega hættuleg. Sérstök hætta stafar af slíkum brotum, sem eru ítrekuð og yfir langt tímabil, enda felst í háttseminni mikið skeytingarleysi og hætta gegn lífi og velferð annarra vegfarenda. Þá verður jafnframt lagt til grundvallar að ekki hafi orðið hlé á brotahegðun kæranda fyrr en hann var hnepptur í gæsluvarðhald. Með vísan til framangreinds gefur háttsemi kæranda til kynna að hann muni fremja refsiverð afbrot á ný, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 95. gr. laga um útlendinga.

Í málatilbúnaði sínum vísar kærandi m.a. til þess að afbrot hans séu lítilfjörleg og bendir á að ef umferðarlagabrot myndu ævinlega leiða til brottvísunar mætti ætla að mannfjöldi á Íslandi drægist verulega saman. Einstök brot gegn almennum hegningarlögum og umferðarlagabrotum fela ekki sjálfkrafa í sér alvarlega ógn gagnvart grundvallarhagsmunum samfélagsins. Þvert á móti þarf mat stjórnvalda á 1. og 2. mgr. 95. gr. laga um útlendinga að endurspegla háttsemi og brotahegðun málsaðila í víðara samhengi. Með vísan til tíðni afbrota kæranda, langs brotaferils, og aukins alvarleika þerra er það niðurstaða kærunefndar að skilyrðum fyrir brottvísun samkvæmt 1. mgr. 95. gr. laga um útlendinga sé fullnægt. Þegar litið er til eðlis brota kæranda, sem varða ítrekuð þjófnaðarbrot, fjársvik, ítrekaðan akstur undir áhrifum fíkniefna og áfengis, án ökuréttinda, felur framferði kæranda í sér raunverulega og yfirvofandi ógn gagnvart grundvallarhagsmunum samfélagsins í skilningi 2. mgr. 95. gr. sömu laga. Lítur kærunefnd einnig til þess að brotaferill kæranda hófst áður en hann skráði dvöl sína hér á landi.

Samkvæmt Þjóðskrá Íslands skráði kærandi dvöl sína hér á landi 31. mars 2021 og hefði í fyrsta lagi getað notið ótímabundins dvalarréttar, sbr. 87. gr. laga um útlendinga, 31. mars 2026. Þá liggur einnig fyrir að lögheimili hans var skráð úr landi 1. júní 2021. Því nýtur kærandi ekki verndarsjónarmiða sem lögfest eru í a- og b-lið 1. mgr. 97. gr. laga um útlendinga. Í 2. mgr. 97. gr. laga um útlendinga koma fram takmarkanir á heimild til brottvísunar samkvæmt 95. gr. laganna. Í ákvæðinu segir að brottvísun skuli ekki ákveða ef það með hliðsjón af málsatvikum og tengslum EES- eða EFTA-borgara eða aðstandanda hans við landið myndi fela í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart viðkomandi eða nánustu aðstandendum hans. Við matið skuli m.a. taka mið af lengd dvalar á landinu, aldri, heilsufari, félagslegri og menningarlegri aðlögun, fjölskyldu og fjárhagsaðstæðum og tengslum viðkomandi við heimaland sitt, sbr. 2. mgr. 97. gr. laga um útlendinga.

Í málatilbúnaði sínum fyrir kærunefnd bar kærandi fyrir sig að málið hefði verið ótilhlýðilega rannsakað, einkum er varðar aðstæður kæranda gagnvart 2. mgr. 97. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt hinni kærðu ákvörðun og öðrum gögnum málsins liggur fyrir að Útlendingastofnun rannsakaði brotaferil kæranda, upplýsingar frá lögreglu, ásamt öðrum upplýsingum sem skráðar eru opinberlega, svo sem um lögheimili kæranda og staðgreiðslu skatta. Þá lagði stofnunin fyrir kæranda að leggja fram greinargerð gegn því sem fram kom í tilkynningu um hugsanlega brottvísun og kærandi mætti með réttu telja máli sínu til hagsbóta. Í tölvubréfi til stofnunarinnar greindi kærandi frá því að eiga konu og dóttur hér á landi sem og að hann stundaði vinnu sem bifvélavirki hjá nafngreindu fyrirtæki. Á kærustigi hefur kærandi m.a. vísað til sambúðarmaka síns og stjúpdóttur, og kveðst kærandi koma fram gagnvart skólastjórnendum fyrir hönd stjúpdóttur sinnar sökum tungumálaörðugleika sambúðarmaka hans. Þá kveður kærandi stjúpdóttur sína hafa áverka á fótum sem krefjist mikilvægrar læknisþjónustu, sem hann hafi milligöngu um. Þar að auki hafi kærandi verið skráður sem varamaður í stjórn félags, sem samkvæmt fyrirtækjaskrá er skráð utan um rekstur bifvélaverkstæðis. Þá áréttaði kærandi málsástæður er lutu að fjölskyldutengslum og öðrum tengslum við landið með tölvubréfi, dags. 8. janúar 2025.

Við mat á ósanngjarnri ráðstöfun gagnvart málsaðila eða nánustu aðstandendum í skilningi 2. mgr. 97. gr. laga um útlendinga verður að hafa ákvæði 71. gr. stjórnarskrár og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um friðhelgi einkalífs og fjölskyldu til hliðsjónar. Í dómaframkvæmd hefur Mannréttindadómstóll Evrópu vísað til þeirrar viðurkenndu meginreglu þjóðaréttar að ríki hafi, með fyrirvara um alþjóðlegar skuldbindingar sínar, rétt til að stjórna aðgengi erlendra ríkisborgara að landsvæði sínu og dvöl þeirra þar. Þá hefur dómstóllinn lagt til grundvallar að aðildarríki mannréttindasáttmálans hafi vald til þess að brottvísa útlendingi sem hefur hlotið dóma fyrir refsiverð afbrot enda sé það nauðsynlegt með tilliti til allsherjarreglu, svo sem í máli Üner gegn Hollandi (46410/99) frá 18. október 2006. Þó verði að horfa til þess hvort ákvörðunin skerði rétt viðkomandi til friðhelgi einkalífs og fjölskyldu samkvæmt 8. gr. mannréttindasáttmálans. Þegar útlendingur á hagsmuna að gæta í skilningi 8. gr. verður ákvörðun um brottvísun að vera í samræmi við það sem lög mæla fyrir um, stefna að lögmætu markmiði, og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi, sbr. 2. mgr. 8. gr. sáttmálans. Þau sjónarmið sem mannréttindadómstóllinn hefur lagt til grundvallar í málum af þessum toga eru t.a.m. eðli þess brots sem viðkomandi hefur gerst sekur um, lengd dvalar viðkomandi í því ríki sem tekur ákvörðun um brottvísun og félags-, menningar-, og fjölskyldutengsl viðkomandi við dvalarríki og heimaríki, sbr. t.d. mál Balogun gegn Bretlandi (nr. 60286/09) frá 4. október 2013 og Ndidi gegn Bretlandi (nr. 41215/15) frá 14. september 2017. Dómstóllinn hefur almennt veitt ríkjum talsvert svigrúm til mats þegar kemur að brottvísun aðila vegna alvarlegra brota með vísan til almannaöryggis þótt aðili hafi fjölskyldutengsl, sbr. t.d. mál Üner gegn Hollandi.

Samkvæmt framangreindu hafa fjölskyldutengsl kæranda þýðingu við mat á því hvort brottvísun sé heimil í ljósi 2. mgr. 97. gr. laga um útlendinga. Líkt og þegar hefur komið fram er kærandi ekki skráður í Þjóðskrá Íslands og koma því hvorki fram upplýsingar um skráða sambúð hans né lögheimilisskráningu með stjúpdætrum. Að sögn kæranda hefur hann verið í ástarsambandi með sambúðarmaka sínum í 16 ár, en sambúðarmaki hans á tvær dætur, sem nú eru á á 16. og 17. aldursári. Kærandi kveðst hafa gengið þeim í föðurstað og sinnt uppeldi þeirra líkt og hann væri faðir þeirra sjálfur.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum eru sambúðarmaki kæranda og dætur hennar rúmenskir ríkisborgarar og verður lagt til grundvallar að þau hafi kynnst í sameiginlegu heimaríki þeirra. Ekki liggur annað fyrir en að kærandi hafi búið í heimaríki fram til ársins 2021, þegar hann fluttist til Íslands, þá á 38. aldursári. Samkvæmt upplýsingum úr staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra var kærandi skráður í staðgreiðslu hjá tilteknu fyrirtæki í apríl og maí 2021, hjá öðru fyrirtæki í apríl og maí 2023, og hjá þriðja fyrirtækinu í maí 2024. Á kærustigi lagði kærandi jafnframt fram yfirlýsingu þess efnis að hann væri varastjórnarmaður í einkahlutafélagi sem skráð hafi verið hjá fyrirtækjaskrá 18. júlí 2024. Við meðferð málsins hjá kærunefnd sendi nefndin kæranda tölvubréf, dags. 3. janúar 2024, og óskað eftir afriti af ráðningarsamningi við fyrirtækið ásamt nýlegum launaseðlum. Með tölvubréfi, dags. 8. janúar 2024, vísaði kærandi til tilkynningar um breytingu á stjórn, þar sem fram kæmi að hann væri varamaður í stjórn félagsins, en kvaðst ekki hafa tekist að afla umbeðinna gagna um ráðningarsamband og launagreiðslur. Samkvæmt framansögðu hefur kærandi ekki dvalið lengi á Íslandi og hófst brotaferill hans áður en hann skráði dvöl sína hér á landi. Þá hefur hluti dvalar kæranda farið fram í fangelsum ríkisins vegna gæsluvarðhalds og síðar afplánunar sem dregur úr fjölskyldutengslum hans hér á landi. Enn fremur er brotaferill kæranda til marks um lítinn ásetning til félags- og menningarlegrar aðlögunar að íslensku samfélagi. Þá lítur kærunefnd einnig til þess að réttur til frjálsrar farar og dvalar, samkvæmt tilskipun nr. 2004/38 grundvallast á þeirri hugmynd Evrópuréttarins sem nefnd hefur verið fjórfrelsið. Forsendur fjórfrelsisins hafa miðast við sjónarmið um efnahagslega virkni. Ákvæði XI. kafla laga um útlendinga endurspegla þetta m.a. með þeim hætti að réttur til dvalar byggist á atvinnuþátttöku, veitingu þjónustu, eða innritun í viðurkennda námsstofnun en í öllu falli þurfi rétthafi að geta framfært sjálfum sér og aðstandendum sínum. Samkvæmt því sem þegar hefur verið rakið er atvinnuþátttaka kæranda til marks um lítil tengsl við landið. Þvert á móti bendir brotaferill kæranda til þess að hann hafi reynt að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða með ítrekuðum auðgunarbrotum, einkum og sér í lagi þjófnaðarbrotum.

Samkvæmt framangreindu er það niðurstaða kærunefndar að tengsl kæranda séu ekki slík að í þeim felist ósanngjörn ráðstöfun gagnvart kæranda eða nánustu aðstandendum hans í skilningi 2. mgr. 97. gr. laga um útlendinga. Í því samhengi lítur nefndin einnig til þess að í ákvæði 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu felst ekki skilyrðislaus réttur til fjölskyldulífs á Íslandi, heldur er stjórnvöldum heimilt að mæla fyrir um takmarkanir á réttinum, sbr. áðurnefndan dóm Üner gegn Hollandi. Þá liggur einnig fyrir að sambúðarmaki kæranda og börn hennar eru ríkisborgarar Rúmeníu, og ekkert í gögnum málsins bendir til þess að þau geti ekki sameinast að nýju í sameiginlegu heimaríki þeirra fjögurra. Vegna athugasemda um heilsufar stjúpdóttur sinnar er einnig bent á að hún á rétt á heilbrigðisþjónustu hér á landi, sbr. lög um sjúkratryggingar nr. 112/2008, og er vera kæranda á landinu ekki forsenda þess að hún fái þá þjónustu sem hún á rétt á. Þá hafa athugasemdir kæranda um bætt ráð afar takmarkað vægi enda leysir neysla áfengis og fíkniefna kæranda ekki undan ábyrgð gjörða sinna. Verulegu meðalhófi hafi verið beitt við ákvörðun refsinga og refsikenndra viðurlaga í hans málum, svo sem með sviptingu ökuréttinda, sektargreiðslum og skilorðsbundnum dómum í fyrstu. Beiting úrræðanna hafi ekki haft tilætluð áhrif og varð ekki hlé á brotaferli kæranda fyrr en við inngrip refsivörslukerfisins, þ.e. þegar hann var hnepptur í gæsluvarðhald. Þá framdi kærandi fjögur brota sinna eftir að honum var birt tilkynning um hugsanlega brottvísun og endurkomubann.

Að framangreindu virtu stendur 2. mgr. 97. gr. laga um útlendinga ekki í vegi fyrir brottvísun kæranda frá landinu. Verður ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun því staðfest.

Samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga um útlendinga felur brottvísun samkvæmt 1. mgr. 95. gr. í sér bann við komu til landsins síðar. Í sama ákvæði er kveðið á um að endurkomubann geti verið varanlegt eða tímabundið en þó ekki styttra en tvö ár. Við mat á því skuli sérstaklega litið til atriða sem talin eru upp í 1. og 2. mgr. 95. gr. laga um útlendinga. Með hinni kærðu ákvörðun var kæranda bönnuð endurkoma til Íslands í þrjú ár. Að málsatvikum virtum og með hliðsjón af tíðni og auknum alvarleika brota kæranda verður endurkomubann hans staðfest. Athygli er vakin á því að samkvæmt 2. mgr. 96. gr. laga um útlendinga er heimilt að fella endurkomubann úr gildi ef nýjar aðstæður mæla með því og rökstutt er að orðið hafi verulegar breytingar á þeim aðstæðum sem réttlættu ákvörðun um endurkomubann. Þá er athygli kæranda jafnframt vakin á því að tímabilið sem kæranda er bönnuð endurkoma til landsins hefst við framkvæmd brottvísunar.

Til þrautaþrautavara krafðist kærandi þess að honum yrði veittur frestur til þess að yfirgefa landið með það fyrir augum að ganga frá ýmsum atriðum og gera ráðstafanir, og vísar kærandi til 3. mgr. 30. gr. tilskipunar nr. 2004/38 í þeim efnum. Með hliðsjón af 1. málsl. 7. mgr. 104. gr. laga um útlendinga annast lögregla og Útlendingastofnun framkvæmd ákvarðana um brottvísun. Kæranda er því bent á að hafa samband við viðeigandi stofnanir og leitast eftir samráði við þær varðandi undirbúning framkvæmdar á brottvísun hans.

Athugasemdir við málsmeðferð Útlendingastofnunar

Í röksemdum sínum á kærustigi gerði kærandi athugasemdir við andmælafrest og túlkun við birtingu tilkynningar um hugsanlega brottvísun 24. júlí 2024. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum var kæranda veittur þriggja daga frestur til þess að leggja fram andmæli, og lagði hann fram andmæli með tölvubréfi, dags. 26. júlí 2024, en endanleg ákvörðun í málinu var tekin um tveimur mánuðum seinna, 24. september 2024. Ljóst er að málsmeðferð mála er lúta að brottvísun og endurkomubanni ber að hraða eftir föngum, með hliðsjón af málshraðareglu stjórnsýsluréttar, sbr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Á kærustigi naut kærandi aðstoðar lögmanns og höfðu þau undir höndum öll fyrirliggjandi gögn málsins. Lögmaður kæranda lagði fram ítarlega greinargerð, viðbótargreinargerð og fylgigögn máli hans til stuðnings. Þá var réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar frestað við meðferð málsins á kærustigi, sbr. bréf nefndarinnar, dags. 20. nóvember 2024. Að framangreindu virtu er það niðurstaða kærunefndar að bætt hafi verið úr þessum annmarka við meðferð málsins á kærustigi. Vegna tímans sem leið frá birtingu tilkynningar um hugsanlega brottvísun og til töku hinnar kærðu ákvörðunar beinir kærunefnd því þó til Útlendingastofnunar að taka mið af því hversu áríðandi mál eru þegar veittir eru frestir til andmæla.

Í málatilbúnaði sínum vísaði kærandi einnig til þess að túlkun hafi verið ófullnægjandi við birtingu tilkynningar um hugsanlega brottvísun og endurkomubann. Var það meðal atriða sem kærunefnd leit til þegar nefndin ákvað að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar og heimila honum dvöl á landinu þar til úrskurður yrði kveðinn upp í málinu, sbr. 2. mgr. 29. gr. laga um útlendinga. Að teknu tilliti til framangreinds er ljóst að um annmarka er að ræða, en með hliðsjón af málsmeðferð kæranda og réttargæslu á kærustigi er það niðurstaða kærunefndar að annmarkinn sé ekki slíkur að ógilda beri hina kærðu ákvörðun. Þrátt fyrir það beinir kærunefnd því til Útlendingastofnunar að gæta að framangreindu við meðferð mála sinna og óska eftir nýrri birtingu af hálfu lögreglu, sé vafi fyrir hendi.

Í greinargerð er gerð athugasemd við að Útlendingastofnun hafi ekki tekið afstöðu til fjölskyldutengsla kæranda við mat á því hvort brottvísun teldist ósanngjörn ráðstöfun skv. 2. mgr. 97. gr. laga um útlendinga. Kærunefnd tekur undir með kæranda að umfjöllun Útlendingastofnunar um tengsl kæranda hafi ekki verið í samræmi við 22. gr. stjórnsýslulaga. Kærunefnd hefur bætt úr þeim annmarka og er því ekki ástæða til þess að fella ákvörðunina úr gildi af þeim sökum. Að öðru leyti gerir kærunefnd ekki athugasemdir við málsmeðferð og ákvörðun Útlendingastofnunar.

Samantekt

Að öllu framangreindu virtu verður ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun og endurkomubann kæranda staðfest.

Athygli kæranda er vakin á því að samkvæmt 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.


 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

 

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

 

 

Valgerður María Sigurðardóttir                                                                                Vera Dögg Guðmundsdóttir

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta