Tífalda þyrfti framlög til menntunar flóttabarna
Börn flótta- og farandfólks gætu fyllt hálfa milljón skólastofa, segir í nýrri skýrslu frá Mennta- og menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO). Þar segir að álagið á menntakerfi ríkjanna sem hýsir flóttafólk sé gífurlegt en börnum flóttafólks á skólaaldri hefur fjölgað um 26% frá aldamótum. Um 89% þessara nemenda búa með foreldrum sínum í fátækum ríkjum sem áður áttu fullt í fangi með að ráða við nemendafjöldann.
Í árlegri skýrslu sinni – 2019 Global Education Montoring Report – er dregin upp dökk mynd af menntamálum flóttabarna og dregið í efa að menntakerfin í viðtökuríkjunum geti tryggt börnunum gæðamenntun. Jafnframt er minnt á skyldur alþjóðasamfélagsins að styðja við bakið á menntun barna á flótta.
Í skýrslunni sem nefnist „Migration, Displacement and Education – Building Bridges, Non Walls“ er farið lofsorði um viðleitni margra þjóða til að tryggja rétt flóttabarna til menntunar en jafnframt bent á alvarlega misbresti. Fram kemur í skýrslunni að hrósa beri stjórnvöldum í Tyrklandi, Jórdaníu og Líbanon, þar sem þriðjungur flóttamanna í heiminum hefur fengið skjól, fyrir að aðgreina á engan hátt sýrlenska nemendur frá öðrum börnum. Hins vegar er varað við fjárskorti til menntamála og skorti á nægilega menntuðum kennurum sem þekkja til sérstakra þarfa flóttabarna. Í Tyrklandi þyrfti að fjölga kennurum um 80 þúsund, í Þýskalandi um 42 þúsund og 7 þúsund í Úganda.
Í Úganda, þar sem stjórnvöldum eru oft hrósað fyrir flóttamannastefnu sína, hefur hver kennari í flóttamannasamfélögum 113 börn að jafnaði í bekk.
Skýrslan sýnir að langtíma áætlanagerð í menntamálum er mikil áskorun, innanlands en sérstaklega þó í alþjóðlegu samhengi, þar sem brýn þörf sé á að brúa bilið milli mannúðar- og þróunaraðstoðar. „Til þess að mæta helstu grunnþörfum barna í kreppuaðstæðum þyrfti að tífalda framlög til menntunar flóttabarna,“ er niðurstaða skýrsluhöfunda.