Hoppa yfir valmynd
30. apríl 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 16/2020 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 16/2020

Fimmtudaginn 30. apríl 2020

A

gegn

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun

Ú R S K U R Ð U R 

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 10. janúar 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvarðanir Íbúðalánasjóðs, dags. 26. ágúst og 26. nóvember 2019, vegna greiðslu húsnæðisbóta.

Þann 1. janúar 2020 tók Húsnæðis- og mannvirkjastofnun við hlutverki, verkefnum og skyldum Íbúðalánasjóðs, sbr. lög nr. 137/2019 um Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur húsnæðisbóta 29. nóvember 2018 og var umsóknin samþykkt. Með bréfi Íbúðalánasjóðs, dags. 1. júlí 2019, var óskað eftir staðfestingu á því að leigusamningi kæranda hefði verið þinglýst og vísað til þess að það væri skilyrði fyrir greiðslu húsnæðisbóta. Með ákvörðun Íbúðalánasjóðs, dags. 26. ágúst 2019, var umsókn kæranda synjað þar sem leigusamningi hafði ekki verið þinglýst. Kærandi sótti á ný um greiðslur húsnæðisbóta með umsókn, dags. 13. nóvember 2019. Með ákvörðun Íbúðalánasjóðs, dags. 26. nóvember 2019, var kæranda tilkynnt að umsóknin hefði verið samþykkt og fékk hann greiddar húsnæðisbætur frá og með þeim mánuði.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 10. janúar 2020. Með erindi til kæranda, dags. 13. janúar 2020, var óskað eftir afriti af hinni kærðu ákvörðun. Sú beiðni var ítrekuð 23. janúar 2020. Gögn bárust frá kæranda 28. janúar 2020, þar á meðal ákvarðanir frá 26. ágúst og 26. nóvember 2019. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð stofnunarinnar barst úrskurðarnefndinni 12. febrúar 2020 og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 18. febrúar 2020. Athugasemdir bárust ekki. Með erindi úrskurðarnefndar, dags. 17. apríl 2020, var kæranda tilkynnt að kæra vegna ákvörðunar frá 26. ágúst 2020, hefði borist að liðnum kærufresti og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum, teldi hann að skilyrði sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gætu átt við í málinu. Skýringar bárust frá kæranda með tölvupósti 24. apríl 2020. Með erindi til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar 27. apríl 2020 óskaði úrskurðarnefndin eftir upplýsingum um birtingu bréfa Íbúðalánasjóðs frá 1. júlí og 26. ágúst 2019. Svar barst samdægurs.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann hafi verið með munnlegan samning um framlengingu á leigu frá 1. júlí 2019 en ekki fengið samning í hendurnar fyrr en 7. nóvember 2019. Kærandi hafi farið með samninginn í þinglýsingu 8. nóvember 2019 og í framhaldinu haft samband við Íbúðalánasjóð og sótt um húsnæðisbætur frá og með 1. júlí 2019. Því hafi verið hafnað og hann eingöngu fengið greitt fyrir nóvember 2019. Kærandi hafi hringt í Íbúðalánasjóð og óskað eftir upplýsingum en ekki fengið tilhlýðandi svör. Kærandi fari því fram á endurskoðun málsins og leiðréttingu í framhaldi af því. 

III.  Sjónarmið Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar

Í greinargerð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) er vísað til þess að ágreiningur málsins lúti að ákvörðun stofnunarinnar um að synja umsókn kæranda um húsnæðisbætur þann 26. ágúst 2019. Á þeim tíma hafi leigusamningur kæranda ekki lengur verið í gildi og því hafi hann ekki uppfyllt skilyrði d-liðar 2. mgr. 9. gr. laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur. Samkvæmt ákvæðinu sé það skilyrði fyrir greiðslu húsnæðisbóta að umsækjandi sé aðili að þinglýstum leigusamningi um íbúðarhúsnæði sem sé til að minnsta kosti þriggja mánaða.

HMS bendir á að samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um húsnæðisbætur sé heimilt að kæra ákvarðanir stofnunarinnar til úrskurðarnefndar velferðarmála innan þriggja mánaða frá því að aðila máls hafi verið tilkynnt um ákvörðun, sbr. 5. gr. laga nr. 85/2018 um úrskurðarnefnd velferðarmála. Um málsmeðferð hjá nefndinni gildi ákvæði laga um úrskurðarnefnd velferðarmála og stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga komi fram að kæra skuli borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls hafi verið tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun. Þá segi í 1. mgr. 28. gr. laganna að hafi kæra borist að liðnum kærufresti skuli vísa henni frá nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tölul. eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 2. tölul. ákvæðisins. Ákvörðun um að synja umsókn kæranda um húsnæðisbætur hafi verið tekin þann 26. ágúst 2019. Þá hafi kærandi þegar fengið frest frá 1. júlí 2019 til þess að bregðast við og þinglýsa leigusamningi að nýju en þrátt fyrir það hafi ekki borist nein viðbrögð af hálfu kæranda. Þann 26. ágúst 2019 hafi kæranda því verið tilkynnt um ákvörðun stofnunarinnar þess efnis að synja umsókn hans og samhliða hafi fylgt rökstuðningur synjunar ásamt leiðbeiningum um kæruheimild. Þrátt fyrir framangreindar leiðbeiningar í synjunarbréfi kæranda hafi ekki borist nein viðbrögð fyrr en hann hafi aftur lagt inn umsókn um húsnæðisbætur 13. nóvember 2019. Þá fyrst hafi kærandi gert munnlegar athugasemdir símleiðis við synjunina sem skráðar hafi verið við umsókn hans í tölvukerfi húsnæðisbóta. Í athugasemdunum komi einnig fram að kærandi ætli að senda inn skriflegt erindi vegna málsins en ekki hafi borist neinar frekari athugasemdir fyrr en hann hafi kært ákvörðun stofnunarinnar til úrskurðarnefndar velferðarmála þann 10. janúar 2020. Með vísan til þess að kærandi hafi ekki brugðist við innan kærufrestsins sem gefinn sé í 1. mgr. 6. gr. laga um húsnæðisbætur, sbr. 5. gr. laga um úrskurðarnefnd velferðarmála og 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga, geri HMS þá kröfu að málinu verði vísað frá á þeim grundvelli að kæran hafi borist að liðnum kærufresti. HMS telji að þær undantekningar sem komi fram í 1. og 2. tölul. 28. gr. stjórnsýslulaga eigi ekki við í máli þessu þar sem staðið hafi verið að málsmeðferð kæranda með réttum hætti og honum veittar viðeigandi leiðbeiningar, bæði í frestunarbréfi, dags. 1. júlí 2019, og synjunarbréfi, dags. 26. ágúst 2019, þar sem kæranda hafi meðal annars verið leiðbeint um kæruheimild. Þá sé það mat HMS að engar veigamiklar ástæður í máli kæranda mæli sérstaklega með því að beita eigi undantekningarheimild þessa ákvæðis, sem beri að skýra þröngt samkvæmt almennum lögskýringargögnum.

Verði kærunni ekki vísað frá samkvæmt þá sé byggt á eftirfarandi til stuðnings því að hin kærða ákvörðun HMS verði staðfest. Samkvæmt d-lið 2. mgr. 9. gr. laga um húsnæðisbætur sé það gert að skilyrði fyrir greiðslu húsnæðisbóta að umsækjandi sé aðili að þinglýstum leigusamningi um íbúðarhúsnæði sem sé til að minnsta kosti þriggja mánaða. Eins og áður hafi komið fram hafi kærandi verið aðili að tímabundnum leigusamningi sem hafi gilt til 30. júní 2019. Þar sem kærandi hafði hvorki framlengt samningnum né þinglýst honum fyrir þann tíma hafi afgreiðslu umsóknar hans verið frestað og síðan synjað þar sem hann hafi ekki brugðist við innan tilskilins frests. Þá hafi kærandi ekki gert neinar athugasemdir við synjunina fyrr en hann hafi lagt aftur inn umsókn um húsnæðisbætur 13. nóvember 2019. Eins og fyrr segi sé það gert að skilyrði fyrir greiðslu húsnæðisbóta að umsækjandi sé aðili að þinglýstum leigusamningi. Þrátt fyrir að kærandi hafi gert munnlegt samkomulag um framlengingu á leigusamningi við leigusala sinn geti kærandi ekki byggt á því í máli þessu þar sem eitt af skilyrðum fyrir greiðslum húsnæðisbóta sé að umsækjandi sé aðili að þinglýstum leigusamningi svo að hann geti átt rétt til húsnæðisbóta. HMS bendi á að kærandi hafi á fyrri stigum málsins þegar gert nýjan leigusamning við leigusala sinn eftir að hafa fengið tilkynningu frá stofnuninni um að þinglýsti leigusamningur hans væri að renna út, dags. 13. desember 2018, og síðan frestun vegna þess, dags. 10. janúar 2019. Kærandi hafi brugðist við þessari frestun innan tilskilins frests með því að þinglýsa nýjum leigusamningi og í framhaldi af því hafi hann fengið greiddar húsnæðisbætur. Í ljósi framangreinds megi ætla að kærandi hafi verið fullmeðvitaður um tímalengd leigusamningsins og að það væri skilyrði fyrir greiðslu húsnæðisbóta að samningurinn væri þinglýstur.

Í kærunni komi fram að þegar kærandi hafi lagt aftur inn umsókn, dags. 13. nóvember 2019, hafi hann samhliða sótt um húsnæðisbætur frá og með 1. júlí 2019. HMS telji rétt að benda á að engar skráðar upplýsingar séu til um það hjá stofnuninni að kærandi hafi óskað eftir leiðréttingu á húsnæðisbótum. Í athugasemdum við umsókn kæranda komi fram að hann hafi ætlað að senda inn erindi vegna málsins en stofnuninni hafi þó aldrei borist neinar frekari athugasemdir vegna málsins. Í þessu samhengi þyki rétt að nefna að það verklag sé viðhaft hjá HMS að allar athugasemdir, hvort heldur munnlegar eða skriflegar, séu skráðar við umsókn hlutaðeigandi aðila. Varðandi leiðréttingu húsnæðisbóta sé HMS einungis heimilt að leiðrétta bætur hafi umsækjandi ekki fengið húsnæðisbætur greiddar sem hann hafi átt rétt á, sbr. 3. mgr. 26. gr. laga um húsnæðisbætur. Leiðrétting húsnæðisbóta í þessu tilliti miðist við að umsækjandi hafi uppfyllt skilyrði laga um húsnæðisbætur en þrátt fyrir það ekki fengið húsnæðisbætur greiddar einhverra hluta vegna. Að mati HMS eigi framangreint leiðréttingarákvæði hins vegar ekki við í máli kæranda þar sem hann hafi ekki uppfyllt skilyrði d-liðar 2. mgr. 9. gr. laga um húsnæðisbætur fyrir það tímabil sem hann segist hafa óskað eftir leiðréttingu fyrir, þ.e. júlí til október 2019. HMS sé með öllu óheimilt að greiða húsnæðisbætur lengra aftur í tímann en frá umsóknarmánuði, sbr. 2. mgr. 21. gr. laga um húsnæðisbætur. Samkvæmt ákvæðinu sé stofnuninni einungis heimilt að greiða kæranda húsnæðisbætur frá umsóknarmánuði og því hafi kærandi eingöngu fengið greitt fyrir nóvember 2019 en ekki lengra aftur þrátt fyrir að leigusamningur hafi kveðið á um annað. HMS bendi á að það falli í hlut kæranda að sækja um húsnæðisbætur á réttum tíma og bregðast við innan tilskilins frests þegar stofnunin óski eftir nauðsynlegum upplýsingum og gögnum til þess að geta lagt mat á umsókn. Bregðist kærandi hvorki við innan tilskilins frests né óski eftir viðbótarfresti verði kærandi að bera hallann af því að hafa ekki sinnt upplýsingaskyldu gagnvart stofnuninni. HMS geri þá kröfu aðallega að málinu verði vísað frá nefndinni en til vara að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Kærðar eru ákvarðanir Íbúðalánasjóðs, nú Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, dags. 26. ágúst og 26. nóvember 2019. Verður fyrst vikið að ákvörðun frá 26. ágúst 2019 en með þeirri ákvörðun var kæranda synjað um greiðslur húsnæðisbóta þar sem leigusamningi hafði ekki verið þinglýst.

Samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála skal stjórnsýslukæra berast úrskurðarnefnd velferðarmála skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun, nema á annan veg sé mælt í lögum sem hin kærða ákvörðun byggist á. Hin kærða ákvörðun var tilkynnt kæranda með bréfi Íbúðalánasjóðs, dags. 26. ágúst 2019, en ákvörðunin var kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála 10. janúar 2020. Kærufrestur samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/2015 var því liðinn þegar kæra barst nefndinni.

Í 5. mgr. 7. gr. laga nr. 85/2015 er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:

„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:

1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða

2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“

Með vísan til þessa er nauðsynlegt að taka til skoðunar hvort fyrir hendi séu atriði sem hafa þýðingu við mat á því hvort afsakanlegt verði talið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti eða hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, en ákvæðið mælir fyrir um skyldubundið mat stjórnvalds á því hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka stjórnsýslukæru til efnislegrar meðferðar, þrátt fyrir að lögbundinn kærufrestur sé liðinn.

Í skýringum kæranda til úrskurðarnefndarinnar kemur fram að tölvupóstur Íbúðalánasjóðs um að nýtt skjal biði hans á „Mínum síðum“ hafi farið í ruslhólf tölvupósts hans. Í svari Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar við fyrirspurn úrskurðarnefndar frá 27. apríl 2020 kemur meðal annars fram að kærandi hafi verið upplýstur um það í rafræna umsóknarferlinu að öll samskipti myndu fara fram með rafrænum hætti í gegnum „Mínar síður“ á heimasíðu stofnunarinnar. 

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála eru þær ástæður sem kærandi hefur tilgreint vegna kærufrestsins ekki þess eðlis að afsakanlegt verði talið að kæra hafi borist að liðnum kærufresti. Þá verður heldur ekki séð að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Með hliðsjón af framangreindu er þeim hluta kærunnar er lýtur að ákvörðun Íbúðalánasjóðs, dags. 26. ágúst 2019, vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Verður þá vikið að ákvörðun frá 26. nóvember 2019 þar sem samþykkt var að greiða kæranda húsnæðisbætur frá og með þeim mánuði. Af kæru má ráða að kærandi sé ósáttur við að hafa ekki fengið greitt frá 1. júlí 2019 þar sem hann hafi lagt fram þinglýstan leigusamning sem gilt hafi frá og með þeim degi

Í 2. mgr. 21. gr. laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur kemur fram að húsnæðisbætur komi til greiðslu í fyrsta skipti fyrsta dag næsta almanaksmánaðar eftir að réttur til bóta hafi verið staðreyndur. Húsnæðisbætur skuli þó reiknast frá og með þeim almanaksmánuði þegar framkvæmdaraðili móttekur umsókn um húsnæðisbætur vegna leigutíma þess almanaksmánaðar eða hluta úr þeim mánuði, hafi leigutími hafist síðar en fyrsta dag almanaksmánaðar. Óheimilt sé að greiða húsnæðisbætur lengra aftur í tímann. Þrátt fyrir 1. og 2. málsl. verða húsnæðisbætur aðeins greiddar vegna almanaksmánaðar eða hluta úr almanaksmánuði þegar leigutími er hafinn og koma til greiðslu fyrsta dag næsta almanaksmánaðar á eftir. Samkvæmt d-lið 2. mgr. 9. gr. laga nr. 75/2016 skulu húsnæðisbætur einungis veittar sé umsækjandi aðili að þinglýstum leigusamningi um íbúðarhúsnæði sem sé til að minnsta kosti þriggja mánaða.

Kærandi lagði inn umsókn um húsnæðisbætur 13. nóvember 2019 og fékk greiddar húsnæðisbætur frá og með þeim mánuði. Með umsókn sinni lagði kærandi fram húsaleigusamning fyrir tímabilið 1. júlí 2019 til 28. febrúar 2020, en samningnum hafði verið þinglýst 11. nóvember 2019. Samkvæmt skýru ákvæði 2. mgr. 21. gr. laga nr. 75/2016 er óheimilt að greiða húsnæðisbætur lengra aftur í tímann en frá umsóknarmánuði, auk þess sem skilyrði er að umsækjandi sé aðili að þinglýstum leigusamningi um íbúðarhúsnæði. Að því virtu er ákvörðun um að greiða kæranda húsnæðisbætur frá og með nóvember 2019 staðfest.  

Hvað varðar tilvísun kæranda til þess að hann hafi haft samband við Íbúðalánasjóð í kjölfar ákvörðunar frá 26. nóvember 2019 og óskað eftir húsnæðisbótum frá og með 1. júlí 2019 tekur úrskurðarnefndin fram að gögn málsins bera það ekki með sér. Úrskurðarnefndin bendir á að kærandi getur lagt inn beiðni til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um endurupptöku ákvörðunar frá 26. ágúst 2019 á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í 1. mgr. ákvæðisins kemur fram að aðili máls eigi rétt á því að fá mál sitt tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun í því hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða ef íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin. Af ákvæði þessu leiðir að aðili máls getur átt lögvarinn rétt til að mál hans verði tekið til meðferðar á ný ef framangreind skilyrði eru fyrir hendi.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, vegna ákvörðunar Íbúðalánasjóðs, nú Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, dags. 26. ágúst 2019, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála. Ákvörðun Íbúðalánasjóðs, dags. 26. nóvember 2019, um greiðslu húsnæðisbóta er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta