Hoppa yfir valmynd
3. apríl 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 67/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 67/2023

Mánudaginn 3. apríl 2023

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með rafrænni kæru, móttekinni 2. febrúar 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 4. nóvember 2022 þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var synjað.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með rafrænni umsókn 21. október 2022. Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 4. nóvember 2022, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að endurhæfing væri ekki fullreynd.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 2. febrúar 2023. Með bréfi, dags. 7. febrúar 2023, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 21. febrúar 2023, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún kynnt kæranda með bréfi, dags. 22. febrúar 2023. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru greinir kærandi frá því að hún sé ekki sammála þeirri ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins að synja umsókn hennar um örorku á þeim grundvelli að endurhæfing sé ekki fullreynd.

Það hafi verið mjög erfitt fyrir kæranda að skrifa rökstuðning með kæru þar sem hún þurfi að segja svo mikið til að hægt sé að skilja og sjá nákvæmlega hennar hlið, þ.e. að hún sé mjög andlega veik.

Kærandi hafi verið í endurhæfingu hjá B á tímabilinu 15. nóvember 2020 til 1. júní 2022. Það hafi gengið ágætilega en mætingin hafi verið slæm inn á milli, enda sé hún mjög mikill kvíðasjúklingur. Vegna mætingar hafi liðið mjög langur tími þar til hún hafi fengið að fara í EMDR áfallastreitumeðferð hjá sálfræðingi. Sumarið 2022 hafi verið komið að endalokum hennar í endurhæfingu og hafi hún þá færst yfir til VIRK þar sem hún hafi fengið að vita að endurhæfingu hennar væri lokið og hún þyrfti að fara út á vinnumarkað. Það hafi verið markmiðið allan tímann. Ráðgjafinn hennar hafi samt sem áður spurt hana hvort hún teldi sig vera tilbúna á vinnumarkaðinn og kærandi hafi sagt að hún væri ekki ennþá tilbúin. Henni hafi þá verið tjáð að hún þyrfti að hafa samband við heimilislækni sinn. Kæranda hafi svo verið tilkynnt að endurhæfing teldist ekki fullreynd og hún færi þar af leiðandi ekki í sérhæft mat.

Kærandi hafi rætt ferlið, stöðu sína og næstu skref við sálfræðing sinn. Sálfræðingurinn hafi verið sammála henni um að hún væri langt frá því að vera tilbúin til að fara út á vinnumarkað og að tímabundin örorka væri það besta í stöðunni til þess að komast vonandi aftur á vinnumarkaðinn seinna.

Heimilislæknir og sálfræðingur kæranda viti nákvæmlega hvernig andlega líðan kæranda sé og að hún sé ekki tilbúin á vinnumarkað. Þær séu því sammála að tímabundin örorka sé það besta í stöðunni fyrir hana.

Kærandi sé búin að vera með mikinn kvíða fyrir þessu öllu saman og hafi fundist ótrúlegt að hún fengi ekki að fara í sérhæft mat. Kærandi skilji ekki hvers vegna það komi fram í lokaskýrslu VIRK að endurhæfing hennar sé ekki fullreynd, þrátt fyrir að hún hafi verið hjá VIRK í marga mánuði og reynt sitt besta. Kærandi og sálfræðingur hennar séu sammála um að hún komist ekki á vinnumarkað eins og staðan sé í dag. Hún viti ekki hvað hún eigi að segja svo að það sé tekið mark á henni. Hún eigi langa sögu um mikið af áföllum, andlegu og líkamlegu ofbeldi, svörtu þunglyndi, mjög slæmum kvíða og ítrekuðu áreiti á hverjum degi. Hún vakni grátandi og öskrandi af martröðum með þungan hausverk sem fylgi henni í gegnum daginn vegna álags og áfalla.

Kærandi sé mjög mikill kvíðasjúklingur, með rosalega slæmt þunglyndi og áfallastreituröskun. Fyrsta áfallið hafi komið þegar hún hafi verið […] eftir að það hafi verið brotið á henni. Hún sé með mjög óstöðugar tilfinningar sem hafi mikil áhrif á andlegu hliðina og daglegt líf hennar. Vegna alls sem hún hafi byrgt innra með sér, þoli hún lítið sem ekkert álag eða áreiti sem hafi orðið til þess að hún hafi látið Y frá sér árið X. Kærandi hafi þurft mikla hjálp og hafi alveg brunnið út árið X og ekki getað meira.

Kærandi hafi átt erfitt með að mæta í endurhæfingu í B, hitta þá fjölskyldu sem hún sé enn í sambandi við í dag og bestu vinkonur sínar. Hún sé sjúklingur sem sé andlega veik og eigi mjög erfitt með daglegt líf. Hana langi að komast á vinnumarkað einn daginn, klára menntaskóla og jafnvel fara í háskóla. Hjá kæranda séu flestir ef ekki allir dagar mjög erfiðir en hún voni að hún nái einn daginn að fara á vinnumarkað og líða betur. Því miður komist hún þó ekki til vinnu strax þar sem hún treysti sér ekki í það. Sálfræðingur og heimilislæknir kæranda séu sammála því og voni hún að hún geti fengið tímabundna örorku til að ná sér aftur á fætur.

Kærandi gæti skrifað mikið varðandi hvert áfall og andlega og líkamlega ofbeldið sem hún hafi þurft að þola af hálfu Z og sé til staðar enn í dag og hafi mikil áhrif á líf hennar. Enn fremur gæti hún skrifað mikið um eineltið, móðurhlutverkið sem hún hafi ekki getað sinnt vegna veikinda, dómsmálið til að fá Y aftur heim frá Z sem […], kynferðisbrotin sem hún hafi orðið fyrir […], sjálfsskaðann og tilfinningaójafnvægið. Ef hún myndi skrifa um það tæki það aldrei enda og erfitt sé að fara djúpt ofan í það aftur og aftur til þess að tekið sé mark á því að hún sé andlega veik.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærandi hafi sótt um örorkulífeyri og tengdar greiðslur með umsókn, dags. 21. október 2022, en hafi verið synjað með bréfi, dags. 4. nóvember 2022, með vísan til þess að ekki væri tímabært að taka afstöðu til örorku kæranda þar sem endurhæfing hefði ekki verið fullreynd.

Ágreiningur málsins lúti að því hvort kærandi eigi rétt á örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

Örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar þeim sem séu metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur samkvæmt sérstökum örorkustaðli.

Örorkustaðallinn sé byggður á læknisfræðilega viðurkenndum sjúkdómum eða fötlunum og sé að finna í fylgiskjali 1 með reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat, sbr. 2. gr. hennar.

Örorkumat sé unnið á grundvelli svara umsækjanda við stöðluðum spurningalista, læknisvottorðs og ef þurfa þyki læknisskoðunar hjá tryggingayfirlækni og öðrum gögnum sem tryggingayfirlæknir telji nauðsynlegt að afla, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 379/1999.

Samkvæmt 18. gr. almannatryggingarlaga sé heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi.

Kærandi hafi fyrst fengið endurhæfingartímabil samþykkt með bréfi, dags. 1. desember 2020, og í framhaldi af því þegið endurhæfingarlífeyri samfleytt frá 1. desember 2020 til 30. september 2022, eða í samtals 22 mánuði. Kærandi hafi því ekki lokið rétti sínum til endurhæfingarlífeyris samkvæmt 7. gr. þágildandi laga nr. 88/2007 um félagslega aðstoð og 4. gr. reglugerðar nr. 661/2020 um framkvæmd endurhæfingarlífeyris.

Í kjölfar þess að nýjasta samþykkt framlengingar endurhæfingartímabils kæranda, dags. 10. júní 2022, hafi runnið út 30. september 2022, hafi kærandi sótt um örorkulífeyri með umsókn, dags. 21. október 2022. Þeirri umsókn hafi verið synjað með bréfi, dags. 4. nóvember 2022, með vísan til þess að ekki væri tímabært að taka afstöðu til örorku kæranda þar sem endurhæfing hefði ekki verið fullreynd og að samkvæmt gögnum frá VIRK starfsendurhæfingarsjóði væri hugsanlegt að frekari endurhæfing gæti komið kæranda að gagni.

Við mat á umsóknum um örorkulífeyri styðjist tryggingalæknir við þau gögn sem liggi fyrir hverju sinni. Við örorkumat þann 4. nóvember 2022 hafi legið fyrir umsókn kæranda um örorkulífeyri, dags. 21. október 2022, læknisvottorð, dags. 15. september 2022, spurningalisti vegna færniskerðingar, dags. 16. september 2022, þjónustulokaskýrsla VIRK, dags. 31. ágúst 2022, og önnur eldri gögn vegna fyrri umsókna um endurhæfingar- og örorkulífeyri.

Í greinargerð Tryggingastofnunar er í kjölfarið gerð grein fyrir því sem fram kemur í læknisvottorði C, dags. 15. september 2022, svörum kæranda við spurningalista, mótteknum 16. september 2022, og þjónustulokaskýrslu VIRK starfsendurhæfingarsjóðs, dags. 31. ágúst 2022.

Skýrsla skoðunarlæknis liggi ekki fyrir í málinu en að mati Tryggingastofnunar hafi ekki verið tilefni til að senda kæranda til skoðunarlæknis.

Að mati Tryggingastofnunar komi ekki fram nýjar upplýsingar um færniskerðingu kæranda í athugasemdum hennar með kæru.

Tryggingastofnun leggi sjálfstætt mat á færniskerðingu umsækjenda á grundvelli framlagðra gagna þar sem meðal annars sé horft til sjúkdómsgreininga, heilsufarsögu og upplýsinga um meðferðir/endurhæfingu sem umsækjandi hafi undirgengist í kjölfar veikinda og/eða slysa. Við gerð örorkumats sé Tryggingastofnun því ekki bundin af ályktunum lækna eða annarra meðferðaraðila um meinta örorku eða óvinnufærni umsækjanda. Við það mat skipti þannig máli hvort gögnin komi frá hlutlausum aðila og enn fremur hvort þau séu vel rökstudd. Loks horfi Tryggingastofnun til þess hvort áverkar, fötlun eða sjúkdómar leiði almennt til þeirra einkenna sem lýst sé í gögnum málsins og hvort einkennin fái stoð í lýsingu atvika daglegs lífs.

Tryggingastofnun hafi á ný lagt mat á fyrirliggjandi gögn og virt þau í ljósi þess að ákvörðunin hafi verið kærð. Samkvæmt læknisvottorði, dags. 15. september 2022, og öðrum fyrirliggjandi gögnum sé líkamleg færniskerðing kæranda, svo sem hún sé metin af sérfræðingum Tryggingastofnunar, slík að ekki sé tímabært að taka afstöðu til örorku kæranda þar sem endurhæfing hennar hafi ekki verið fullreynd heldur sé ráðið af eðli veikinda kæranda að endurhæfing geti komið að gagni. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum sé því ekki útilokað að færni kæranda aukist með endurhæfingu, talið sé að enn sé hægt að vinna með heilsufarsvanda kæranda og því sé ekki tímabært að meta örorku kæranda. Við það mat sé horft til þess hvers eðlis heilsufarsvandi kæranda sé og þeirra endurhæfingarúrræða sem séu fyrirhuguð. Mati sínu til stuðnings vísi Tryggingastofnun til þess að í læknisvottorði, dags. 15. september 2022, segi að þrátt fyrir fíknivanda hafi kærandi verið edrú frá því í byrjun árs X. Þá vísi stofnunin einnig til þess að í þjónustulokaskýrslu VIRK sé bent á að úrræði innan heilbirgðiskerfisins gætu nýst kæranda þannig að hún geti snúið aftur í starfsendurhæfingu hjá VIRK. Enn fremur vísi Tryggingastofnun, máli sínu til stuðnings, til þess að kærandi hafi ekki fullnýtt rétt sinn til endurhæfingarlífeyris samkvæmt 7. gr. laga nr. 88/2007 um félagslega aðstoð og 4. gr. reglugerðar nr. 661/2020 um framkvæmd endurhæfingarlífeyris. Tryggingastofnun mæli því með því að kærandi láti áfram reyna á viðeigandi endurhæfingu og sæki um endurhæfingarlífeyri hjá Tryggingastofnun, sérstaklega í ljósi þess að kærandi hafi enn ekki fullnýtt rétt sinn til endurhæfingarlífeyris hjá stofnuninni samkvæmt 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð.

Það sé því niðurstaða sérhæfðs mats Tryggingastofnunar á möguleikum kæranda til endurhæfingar að endurhæfing sé ekki fullreynd þar sem talið sé að enn sé hægt að vinna með heilsufarsvanda kæranda. Kærandi uppfylli ekki það skilyrði 18. gr. laga um almannatryggingar um að viðeigandi endurhæfing skuli hafa verið fullreynd. Tryggingastofnun telji það því vera í fullu samræmi við öll gögn málsins að synja kæranda um örorkulífeyri að svo stöddu. Þar sé horft til þess hvers eðlis heilsufarsvandi kæranda sé og þeirra endurhæfingarúrræða sem séu fyrirhuguð. Í því sambandi vilji Tryggingastofnun einnig taka fram að mat á því hvort endurhæfing sé fullreynd miðist við læknisfræðilegar forsendur endurhæfingarinnar en ekki önnur atriði eins og til dæmis framfærslu umsækjanda, vilja hans til þess að sinna endurhæfingu, búsetu eða aðrar félagslegar aðstæður hans eða það hvort viðkomandi uppfylli ekki einhver önnur skilyrði endurhæfingarlífeyris hjá stofnuninni.

Einnig skuli áréttað að það sé ekki hlutverk Tryggingastofnunar að leggja til meðferðar- eða endurhæfingarúrræði heldur sé sú ábyrgð lögð á lækna umsækjenda, þ.e. að koma umsækjendum um endurhæfingarlífeyri og/eða örorkulífeyri í viðeigandi endurhæfingarúrræði sem taki mið af vanda einstaklingsins hverju sinni.

Stofnunin bendi á að 1. janúar 2023 hafi lög um breytingu á lögum nr. 99/2007 um félagslega aðstoð öðlast gildi þar sem kveðið sé á um breytingu á greiðslutímabili endurhæfingarlífeyris þess efnis að endurhæfingarlífeyrir geti nú verið greiddur í allt að fimm ár, að vissum skilyrðum uppfylltum, í stað þess þriggja ára hámarks sem áður hafi verið.

Tryggingastofnun fari fram á staðfestingu ákvörðunar sinnar frá 4. nóvember 2022 um að synja kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 4. nóvember 2022 þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort heimilt hafi verið að synja kæranda um örorkumat samkvæmt þágildandi 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar á þeim grundvelli að endurhæfing samkvæmt 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð hafi ekki verið fullreynd.

Samkvæmt þágildandi 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt þágildandi 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli.

Samkvæmt þágildandi 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. er heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í þágildandi 1. og 2. mgr. 7. gr. laganna segir:

„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

Heimilt er að framlengja greiðslutímabil skv. 1. mgr. um allt að 18 mánuði ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.“

Meðfylgjandi umsókn kæranda var læknisvottorð C, dags. 15. september 2022. Í vottorðinu kemur fram að sjúkdómsgreiningar kæranda séu:

„STREITURÖSKUN EFTIR ÁFALL

ÞUNGLYNDI

KVÍÐI

FÍKNIHEILKENNI AF VÖLDUM ANNARRA ÖRVANDI EFNA, Þ. Á M. KOFFÍNS

OFFITA, ÓTILGREIND“

Þá segir svo um heilsuvanda og færniskerðingu nú:

„X árs kona með áfallasögu, kynferðisbrot […] í tvígang. Eignast barn í X,einstæð móðir faðir Y ekki inn í myndinni. Y fæðist með […] sem var mikið áfall, þessu fylgdi sjúkrahúsdvöl og tíðar læknisferðir. Versnandi kvíði og þunglyndi í kjölfar fæðingar og áfall tengt heilsu Y. Hefur Y búið hjá Z […] sl ár vegna veikinda hennar. Hún er með sögu um fíknivandamál af völdum örvandi efna […] en var edrú í 2-3 í tengslum við meðgöngu og eftir fæðingu Y. Tengt versnandi andlegum vanlíðan eftir fæðingur Y lét hún Y í hendur Z . […]. Hún er nú að standa í forsjármáli við Z tengt Y sem reynir verulega á hana. […]

A hefur verið í endurhæfingu hjá B í 23 mánuði og í kjölfarið hjá VIRK. Hún var þar í viðtölum hjá geðlækni sem setti hana á lamictal vegna "rapid cycling " einenna , en setti þó ekki á hana bipolar greiningu , er það enn í skoðun. Hún svaraði vel lamictal meðferð en varð að hætta því þegar hún varð þunguð . Hún hefur sátt sálfræðimeðferð, námskeið og áfallameðferð en þrátt fyrir það þá færðist hún ekki nær vinnumarkaði. Er enn að eiga við hamlandi kvíða, þunglyndis og áfalleinkenni og skv. skýrslu sálfræðinga andlegar afleiðingar ofbeldis nánustu fjölskyldu, hafa atburðir haft víðtæk og djúpstæð áhrif á A.

A er að mínu mati óvinnufær og því sótt um örorku“

Lýsing læknisskoðunar er svohljóðandi í vottorðinu:

„Kemur snyrtilega fyrir, gefur góða sögu. Döpur að sjá en einnig ber á kvíða, rauntengd og ekki merki um geðrof, ekki metin í sjálfsvígshættu“

Í læknisvottorðinu kemur fram að kærandi sé óvinnufær.

Í þjónustulokaskýrslu VIRK, dags. 31. ágúst 2022, segir svo um þjónustulok:

„Einstaklingur er að ljúka 23 mánuðum í starfsendurhæfingu. Á tímabilinu var A í endurhæfingu hjá B. VIRK taldi þörf á að viðkomandi fengi áfallameðferð hjá B. Því miður þá var áfallameðferð verulega ábótavant og í byrjun sumars var ákveðið að A myndi ljúka endurhæfingu í B og færast yfir í endurhæfingu til VIRK. Áhersla var lögð á að ljúka áfallameðferð og að A fengi stuðningu frá atvinnulífstengli VIRK varðandi endurkomu á vinnumarkað. Í upphafi endurhæfingar hjá VIRK um sumarið var ljóst að A var ekki að stefna á vinnumarkað og töluverð uppvinnsla varðandi andleg veikindi var þörf. Mál A í starfsendurhæfingu hjá VIRK er því lokið og er henni vísað í heilbrigðiskerfið til að fá þá þjónustu sem hún þarf. Spurning hvort geðheilsuteymin eða Reykjalundir sé heppilegri kostur fyrir A. Þegar endurhæfingu í heilbrigðiskerfinu hefur verið lokið hjá A þá er um að gera að skoða hvort starfsendurhæfing henti henni.“

Í fyrirliggjandi spurningalista vegna færniskerðingar sem kærandi lagði fram með umsókn um örorkumat, dags. 21. október 2022, svaraði kærandi spurningum sem snúa að líkamlegri og andlegri færni sinni. Í lýsingu á heilsuvanda nefnir kærandi mikil andleg veikindi. Í svörum kæranda sem lúta að skerðingu á líkamlegri færni kemur fram að hún eigi erfitt með að sitja í stól í tvær klukkustundir eða lengur. Hún vísar til þess að hún fái mikla verki í mjóbakið sem leiði niður í læri og upp bakið. Það sé líklega vegna slæmrar grindargliðnunar síðan hún hafi verið ólétt af Y árið X sem hrjái hana enn. Verkirnir sem hún fái í bakið versni undir miklu álagi og stressi og geti orðið mjög slæmir. Hvað varðar andlega færni greinir kærandi frá því að hún sé búin að glíma lengi við mjög alvarlegt þunglyndi, kvíða og áfallastreituröskun. Hún sé einnig að glíma við mjög erfiðar tilfinningasveiflur og eigi eftir að fá greiningu hvort það sé geðhvarfasýki eða jaðarpersónuleikaröskun en það hafi mikil áhrif á daglegt líf hennar. Hún eigi mjög erfitt hvern dag vegna andlegra veikinda sinna sem hrjái hana mikið.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Samkvæmt þágildandi 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar er Tryggingastofnun heimilt að gera það að skilyrði að umsækjandi um örorku gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur. Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að ekki hafi verið tímabært að meta örorku þar sem endurhæfing hafi ekki verið fullreynd. Samkvæmt gögnum frá VIRK sé hugsanlegt að frekari endurhæfing gæti komið að gangi.

Fyrir liggur að kærandi býr við vandamál af andlegum toga og hefur fengið greiddan endurhæfingarlífeyri í 22 mánuði. Í læknisvottorði C, dags. 15. september 2022, kemur fram að kærandi sé óvinnufær. Í vottorðinu segir að kærandi hafi verið í viðtölum hjá geðlækni sem hafi sett hana á lyf vegna geðhvarfasýkiseinkenna. Geðlæknir kæranda hafi ekki greint hana með geðhvarfasýki en það sé í skoðun. Hún hafi svarað lyfjameðferð vel en hafi orðið að hætta meðferðinni vegna þungunar. Í þjónustulokaskýrslu VIRK, dags. 31. ágúst 2022, kemur fram að í upphafi endurhæfingar kæranda hjá VIRK hafi verið ljóst að hún hafi ekki verið að stefna á vinnumarkað og töluverð uppvinnsla andlegra veikinda væri þörf. Niðurstaða VIRK var sú að starfsendurhæfingu væri lokið en henni var vísað á heilbrigðiskerfið til þess að fá þá þjónustu sem hún þyrfti á að halda.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ljóst af framangreindu að starfsendurhæfing hjá VIRK sé óraunhæf en ekki verður dregin sú ályktun af þjónustulokaskýrslunni að ekki sé möguleiki á endurhæfingu á öðrum vettvangi. Þá telur úrskurðarnefndin að ekki verði ráðið af þeim upplýsingum sem fram komi í læknisvottorði C eða af eðli veikinda kæranda að endurhæfing geti ekki komið að gagni. Einnig liggur fyrir að kærandi hefur fengið greiddan endurhæfingarlífeyri í 22 mánuði frá Tryggingastofnun en heimilt var að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 36 mánuði þegar hin kærða ákvörðun var tekin samkvæmt þágildandi 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefnd velferðarmála rétt að láta reyna á endurhæfingu í tilviki kæranda áður en til örorkumats kemur.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 4. nóvember 2022, um að synja kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um örorkulífeyri og tengdar greiðslur, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta