Hoppa yfir valmynd
15. september 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 193/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 193/2021

Miðvikudaginn 15. september 2021

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur.

Með kæru dags. 8. apríl 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 19. mars 2021 um útreikning á greiðslu ellilífeyris.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með bréfi 21. desember 2020 óskaði kærandi eftir að Tryggingastofnun ríkisins tæki ákvörðun um það hvort lífeyrisréttindi fyrir gildistöku laga nr. 129/1997 yrðu meðhöndluð sem greiðslur frá lífeyrissjóðum og myndu þar með skerða greiðslur á ellilífeyri kæranda eða hvort stofnunin liti á þessi réttindi sem séreign kæranda sem ekki kæmu til skerðingar á ellilífeyri. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 19. mars 2021, voru kæranda veittar upplýsingar um að stofnuninni bæri að líta til allra lífeyrissjóðsgreiðslna kæranda á árinu 2021 við útreikning á ellilífeyri til hans.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 8. apríl 2021. Með bréfi, dags. 15. apríl 2021, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 11. maí 2021, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 20. maí 2021. Með tölvubréfi, mótteknu 9. júní 2021, bárust athugasemdir frá kæranda og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 10. júní 2021. Frekari efnislegar athugasemdir bárust ekki.

 

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærandi kvarti yfir því að Tryggingastofnun ríkisins hafi fram til þessa neitað kæranda um stjórnvaldsákvörðun varðandi upphæð á greiðslu ellilífeyris til hans fyrr en hann hafi byrjað töku ellilífeyris. Kærandi hafi hafið töku ellilífeyris í janúar 2021. Þann 21. desember 2020 hafi hann sent Tryggingastofnun bréf þar sem hann hafi ekki talið að stofnuninni væri heimilt að skerða ellilífeyri sinn að hluta eða öllu leyti vegna greiðslna úr almenna lífeyrissjóðskerfinu. Honum hafi borist óundirritað svarbréf, dags. 19. mars 2021, frá Tryggingastofnun þar sem honum hafi verið tjáð að Tryggingastofnun taki greiðslur úr almenna lífeyrissjóðskerfinu til fullrar skerðingar við útreikning á ellilífeyri.

Kærandi taki fram að hann sé ekki löglærður og geti hvorki vísað í lög né reglugerðir varðandi málið. En þegar hann hafi byrjað að greiða í lífeyrissjóð árið 1970 hafi hann talið að um viðbótarlífeyrissparnað væri að ræða og að greiðslur úr lífeyrissjóði myndu ekki skerða greiðslu ellilífeyris, enda hafi greiðslur í lífeyrissjóð verið kynntar honum og öllum almenningi þannig á þeim tíma. Í 4. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða segi að lágmarks tryggingavernd greiðslna úr lífeyrissjóðnum skuli vera 56% af launum miðað við greiðslu í lífeyrissjóð í 40 ár. Í dag skerði úttekt á viðbótarlífeyrissparnaði ekki greiðslu á ellilífeyri.

Kærandi óski eftir því að úrskurðarnefndin taki afstöðu til eftirfarandi atriða. Í fyrsta lagi hvort Tryggingastofnun sé heimilt að skerða greiðslur ellilífeyris til hans vegna greiðslna sem hann fái úr almenna lífeyrissjóðskerfinu samkvæmt réttindum sem hann hafi þegar aflað sér þegar Tryggingastofnun hafi byrjað að skerða greiðslu ellilífeyris á móti greiðslu úr lífeyrissjóði. Í öðru lagi hvort Tryggingastofnun sé heimilt að skerða greiðslur ellilífeyris til hans vegna greiðslna til hans úr almenna lífeyrissjóðskerfinu vegna réttinda sem hann hafi áunnið sér við gildistöku laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. En fram að þeim tíma hafi ekki öllum verið skylt að greiða í lífeyrissjóð og nefnir kærandi sjálfstæða atvinnurekendur sem dæmi. Kærandi vísar í fylgigögn með kæru um áunnin réttindi sín hjá lífeyrissjóði. Þá vísar hann til þess að samkvæmt dómum sem hann hafi lesið varðandi vaxtakjör á lánum sé óheimilt að breyta vaxtakjörum eftir á og viðeigendi stofnanir hafi þurft að endurgreiða óheimilar innheimtur. Hann telji fólki mismunað eftir því hvernig það hafi hagað sínum sparnaði fram að gildistöku laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Hann eigi vin sem hafi verið í svipaðri stöðu og hann í gegnum lífið, hafi átt sitt eigið fyrirtæki, hafi byggt svipað hús og hann en hann hafi ekki byrjað að greiða í lífeyrissjóð fyrr en 1998. Hann hafi nýtt sitt fé til húsbygginga og hafi ekki tekið nein lán til þess. Í dag fái hann greiddan óskertan ellilífeyri. Kærandi hafi hins vegar verið fyrirhyggjusamur, hafi alltaf unnið mjög mikið, tekið líftryggingu, greitt í lífeyrissjóð en hafi þurft að taka lán til að byggja hús fyrir sig og fjölskyldu sína. Hann fái skerðingu á lífeyristekjur vegna réttinda sem hann hafi áunnið sér áður en allir hafi verið skyldaðir til að greiða í lífeyrissjóð samkvæmt lögum nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

Í viðbótarathugasemdum kæranda, dags. 9. júní 2021, tekur kærandi fram að þegar hann hafi byrjað að greiða í lífeyrissjóð árið 1970 hafi verið talað um að greiðslur í lífeyrissjóð væru viðbótarellilífeyrir sem fólk gæti byrjað að taka út við 65 ára aldur. Á þessum tíma hafi verið tiltölulega nýkomið á með kjarasamningum að almennir launþegar skyldu greiða í lífeyrissjóð. Kærandi telji nokkuð ljóst að lífeyrissjóðskerfið hefði aldrei orðið eins og það sé í dag ef fulltrúar launþega í kjarasamningum, þegar upphaflega hafi verið samið um greiðslur í lífeyrissjóð, hefði grunað að ríkisvaldið hygðist skerða ellilífeyri á móti greiðslum úr lífeyrissjóðum. Hann hafi verið 50% eigandi fyrirtækis frá 1983 til 1998 og lengst af hafi reksturinn verið skráður sem sameignarfélag en hefði hann grunað á þeim tíma að greiðslur úr lífeyrissjóði myndu skerða lífeyrinn hans, hefði hann hætt að greiða í lífeyrissjóð og ávaxtað greiðslurnar með öðrum hætti.

Kærandi fari fram á að úrskurðarnefndin úrskurði að Tryggingastofnun sé ekki heimilt að skerða ellilífeyri á móti greiðslum úr lífeyrissjóði þar sem það sé brot á eignarrétti hans sem njóti verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. viðauka Mannréttindasáttmála Evrópu. Einnig að Tryggingastofnun sé ekki heimilt að skerða ellilífeyri á móti greiðslum úr lífeyrissjóðum vegna réttinda sem hann hafi áunnið sér fyrir gildistöku laga nr. 129/1997. Slíkt feli í sér mismunun eftir því hvernig vinnu fólk hafi stundað frá því að heimilt hafi verið að greiða í lífeyrissjóð fram að gildistöku laga nr. 129/1997. Kærandi telji þessa mismunun geta brotið gegn 65. gr. stjórnarskrárinnar um að allir skuli vera jafnir fyrir lögum. Kærandi vísar einnig til þess að margir dómar hafi fallið um að lög eða reglur geti ekki virkað afturvirkt og vísar þar til vaxtakjara.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram kærð sé ákvörðun Tryggingastofnunar, dags. 19. mars 2021, um útreikning á greiðslu lífeyris.

Í 16. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007, með síðari breytingum, sé kveðið á um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta. Í 2. mgr. ákvæðisins sé vísað til laga um tekjuskatt nr. 90/2003 varðandi hvað skuli teljast til tekna. Til tekna samkvæmt III. kafla almannatryggingalaga teljist tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki teljist til tekna og frádráttarliða samkvæmt 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum.

Þá segi í 4. mgr. 16. gr. laganna að þegar um sé að ræða ellilífeyri samkvæmt 17. gr., tekjutryggingu samkvæmt 22. gr. og ráðstöfunarfé samkvæmt 48. og 56. gr. teljist ekki til tekna, þrátt fyrir 2. mgr., bætur samkvæmt lögum þeim, lögum um slysatryggingar almannatrygginga og lögum um félagslega aðstoð, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, greiðslur úr séreignarlífeyrissparnaði og viðbótartryggingavernd samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Sama eigi við um sambærilegar bætur frá ríkjum sem Ísland hafi gert samninga við samkvæmt 68. gr.

Kærandi hafi sótt um ellilífeyri með umsókn, dags. 17. desember 2020, og með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 8. janúar 2021, hafi verið samþykkt að greiða kæranda ellilífeyri frá 1. janúar 2021 með 12% hækkun vegna frestaðrar töku ellilífeyris. Í bréfinu sé tekið fram að gert sé ráð fyrir 5.310.204 kr. í lífeyrissjóðstekjur á árinu 2021, eins og kærandi hafi gert ráð fyrir í tekjuáætlun sinni.

Í 16. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007 sé fjallað um þær tekjur sem hafi áhrif á útreikning bóta Tryggingastofnunar. Þar segi að til tekna teljist allar tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, en í þeim kafla sé fjallað um greiðslur úr lífeyrissjóði. Hvorki í lögum um almannatryggingar né lögum um tekjuskatt sé gerður greinarmunur á því hvort greiðsla úr lífeyrissjóði sé vegna áunninna lífeyrisréttinda fyrir eða eftir gildistöku laga nr. 129/1997.

Tryggingastofnun beri því samkvæmt ofansögðu að líta til allra lífeyrissjóðsgreiðslna kæranda á árinu 2021, þ.e. 5.310.204 kr. eins og komi fram í tekjuáætlun kæranda, við útreikning á ellilífeyri til hans og hafi enga heimild til að líta til þess að hluti þeirra sé vegna áunninna lífeyrisréttinda fyrir gildistöku laga nr. 129/1997.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 19. mars 2021 þar sem kæranda voru veittar upplýsingar um að stofnuninni bæri að líta til allra lífeyrissjóðsgreiðslna kæranda á árinu 2021 við útreikning á ellilífeyri til hans. Ágreiningur málsins lýtur meðal annars að því hvort Tryggingastofnun sé heimilt að skerða ellilífeyrisgreiðslur kæranda vegna greiðslna úr almenna lífeyrissjóðskerfinu.

Í 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Í 2. mgr. 16. gr. laganna kemur fram að til tekna skuli telja tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt skal telja til tekna eftirlaun og lífeyri. Í 2. málsl. 1. mgr. 23. gr. laga um almannatryggingar segir að ellilífeyrir skuli lækka um 45% af tekjum lífeyrisþegans, sbr. 16. gr., uns lífeyririnn falli niður. Þá segir að ellilífeyrisþegi skuli hafa 300.000 kr. almennt frítekjumark við útreikning ellilífeyris og 1.200.000 kr. sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna. Ákvæði 4. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar er undantekning frá meginreglunni um að tekjur samkvæmt II. kafla laga um tekjuskatt skerði ellilífeyri. Ákvæðið hljóðar svo:

„Þegar um er að ræða ellilífeyri skv. 17. gr., tekjutryggingu skv. 22. gr. og ráðstöfunarfé skv. 48. gr. og 56. gr. teljast ekki til tekna þrátt fyrir 2. mgr. bætur samkvæmt lögum þessum, lögum um slysatryggingar almannatrygginga og lögum um félagslega aðstoð, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, greiðslur úr séreignarlífeyrissparnaði og viðbótartryggingavernd samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.[...]“

Af framangreindum ákvæðum má ráða að greiðslur úr lífeyrissjóðum umfram frítekjumark skerða ellilífeyri.

Kærandi gerir jafnframt athugasemdir við skerðingu Tryggingastofnunar á lífeyrisgreiðslum sem áunnar voru fyrir gildistöku laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Að mati kæranda eigi þær að vera metnar sem séreign og eigi þar af leiðandi ekki að koma til skerðingar lífeyrisgreiðslna frá Tryggingastofnun. Samkvæmt gögnum málsins á kærandi réttindi hjá tveimur lífeyrissjóðum og eru umrædd áunnin réttindi skráð sem ellilífeyrir hjá þeim lífeyrissjóðum. Að mati úrskurðarnefndar er ekki um að ræða séreignarlífeyrissparnað í skilningi 4. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar og því skerða greiðslurnar ellilífeyri með sama hætti og aðrar lífeyrissjóðsgreiðslur.

Kærandi byggir á því að jafnræðis sé ekki gætt, sbr. 65. gr. stjórnarskrárinnar, varðandi þau réttindi sem kærandi hafi áunnið sér fyrir gildistöku laga nr. 129/1997. Samkvæmt 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 skulu allir vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Úrskurðarnefnd telur ljóst að greiðslur úr lífeyrissjóðum umfram frítekjumark, óháð því hvenær réttindi voru áunnin, skerði ellilífeyri á grundvelli laga um almannatryggingar, sbr. lög um tekjuskatt. Skerðingin á við um alla í sömu stöðu, það er alla sem fá greiðslur úr lífeyrissjóðum umfram frítekjumark. Því er ekki fallist á þá málsástæðu kæranda að um brot á jafnræðisreglu sé að ræða.

Kærandi byggir enn fremur á því að skerðing Tryggingastofnunar á ellilífeyrisgreiðslum hans brjóti í bága við eignarrétt hans sem njóti verndar í 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. viðauka Mannréttindasáttmála Evrópu. Samkvæmt 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 er eignarétturinn friðhelgur. Þá segir að engan megi skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji en til þess þurfi meðal annars að koma lagafyrirmæli. Samkvæmt 1. gr. viðauka Mannréttindasáttmála Evrópu ber öllum mönnum og lögaðilum réttur til að njóta eigna sinna í friði. Engan skal svipta eign sinni nema hagur almennings bjóði og gætt sé ákvæða í lögum og almennra meginreglna þjóðaréttar. Úrskurðarnefndin telur ljóst að lífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun skerðist á grundvelli lagaheimildar í 16. gr. laga um almannatryggingar. Að mati úrskurðarnefndarinnar er tilgangur ellilífeyrisgreiðslna að tryggja ellilífeyrisþegum, sem hafa litlar eða engar tekjur, framfærslu. Úrskurðarnefndin fellst því ekki á að skerðingin brjóti í bága við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar eða 1. gr. viðauka Mannréttindasáttmála Evrópu.

Að framangreindu virtu telur úrskurðarnefnd velferðarmála ekki tilefni til að gera athugasemdir við útreikning á greiðslu ellilífeyris til kæranda. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um útreikning á greiðslu ellilífeyris til kæranda er því staðfest.  

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um útreikning á greiðslu ellilífeyris til , A, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta