Hoppa yfir valmynd
7. maí 2012 Utanríkisráðuneytið

Fríverslunarsamningur EFTA-ríkjanna við Úkraínu tekur gildi 1.júní nk.

EFTA
EFTA


Fríverslunarsamningur milli EFTA-ríkjanna og Úkraínu var undirritaður 24. júní 2010 í Reykjavík, ásamt tvíhliða landbúnaðarsamningum milli landanna. Bæði EFTA-ríkin og Úkraína hafa nú lokið fullgildingu samninganna og mun fríverslunarsamningurinn ásamt landbúnaðarsamningunum ganga í gildi hinn 1. júní nk.

Fríverslunarsamningurinn er af svokallaðri annarri kynslóð fríverslunarsamninga og inniheldur, auk ákvæða um vöruviðskipti, ákvæði um þjónustuviðskipti, fjárfestingar, hugverkaréttindi, samkeppnismál, opinber innkaup, stofnanaákvæði og ákvæði um lausn ágreiningsmála.

Tollar á íslenskum sjávarafurðum falla niður við innflutning til Úkraínu frá gildistöku fríverslunarsamningsins, með örfáum undantekningum, þar sem tollar falla niður á 5–10 ára aðlögunartímabili. Sama á við um allar helstu iðnaðarvörur. Á grundvelli landbúnaðarsamningsins mun Úkraína m.a. fella niður tolla á lifandi hross og tollar á íslenskt lambakjöt munu falla niður í skrefum á fimm ára aðlögunartíma.

Á sviði þjónustuviðskipta skuldbindur Úkraína sig til þess að veita markaðsaðgang m.a. á sviði ýmiskonar sérfræðiþjónustu, t.d. lögfræðiþjónustu og verkfræðiþjónustu, á sviði ráðgjafaþjónustu, fjarskiptaþjónustu, fjármálaþjónustu og ferðaþjónustu.

Nánari upplýsingar um samninginn má nálgast á vef EFTA


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta