Fundargerð stýrihóps um velferðarvakt frá 26. júní
Mætt: Lára Björnsdóttir (LB) formaður, Björn Ragnar Björnsson (BRB), tiln. af fjármálaráðuneyti, Eiríkur Jónsson (EJ), tiln. af Kennarasambandi Íslands, Garðar Hilmarsson (GH), tiln. af Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Guðrún Sigurjónsdóttir (GS) og Héðinn Unnsteinsson (HU), tiln. af heilbrigðisráðuneyti, Gunnar Rafn Sigurbjörnsson (GRS), tiln. af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Kristján Sturluson (KS), tiln. af Rauða krossi Íslands, Margrét Sæmundsdóttir (MS), tiln. af viðskiptaráðuneyti, Páll Ólafsson (PÓ), tiln. af Bandalagi háskólamanna, Stefán Stefánsson (StSt), tiln. af menntamálaráðuneyti, Stella K. Víðisdóttir (SKV), tiln. af Reykjavíkurborg, Vilborg Oddsdóttir (VO), tiln. af Biskupsstofu, og starfsmennirnir Þorbjörn Guðmundsson (ÞG), Ingibjörg Broddadóttir (IB) og Rán Ingvarsdóttir (RI).
1. Fundargerð 12. fundar stýrihópsins
Fundargerðin var samþykkt.
Vakin var sérstök athygli á 3. lið fundargerðarinnar og samþykkt að skýrslur vinnuhópanna yrðu héðan í frá kallaðar stöðuskýrslur.
2. Mótvægissjóður velferðarvaktarinnar
Reglur sjóðsins voru lagðar fram. Samþykkt að LB, StSt, KS ásamt IB og ÞG hafi umsjón með mótvægissjóðnum fyrir hönd stýrihópsins. Stýrihópurinn sjálfur mun þrátt fyrir það leggja fram tillögur til ráðherra um styrki í samræmi við reglur sjóðsins.
3. Fjármál heimilanna
BRB fjallaði um þær upplýsingar sem Seðlabankinn kynnti á opnum fundi 11. júní sl. Um er að ræða gríðarlega stórt gagnasafn sem Seðlabankinn hefur í fórum sínum. Fram kom í máli BRB að útilokað sé að sjóða þetta gagnasafn niður í einfaldar staðreyndir sem auðvelt sé að henda reiður á. Einnig fjallaði BRB lauslega um niðurstöður eigin athugana í fjármálaráðuneytinu. Kom meðal annars fram að:
- 27–30 þúsund fjölskyldur verði komnar með neikvætt eigið fé í íbúðarhúsnæði um næstu áramót (fleiri ef allar skuldir eru teknar með),
- að u.þ.b. 15% íbúðalána séu í erlendri mynt,
- sé heimilum skipt upp með tilliti til fjölskyldutekna á mánuði í 100 þúsund króna bil, þá sé meðalskuld á mann 5–6 m.kr. í öllum hópunum,
- eiginfjárstaða sé verulega mismunandi með tilliti til aldurs en meðalaldur þeirra sem mest skulda sé 33 ár, en 63 ár hjá þeim sem skulda minnst og 59 ár séu þeir sem ekkert skulda teknir út.
Samþykkt að fulltrúar í stýrihópnum fari nánar yfir þessi mál og útbúi tilteknar spurningar til Seðlabankans sem geta gefið svör um það hver sé staða heimilanna út frá ákveðnum fjölskyldugerðum, aldri og öðru sem fulltrúarnir telja að geti gefið mikilvægar upplýsingar um fjármálastöðu íslenskra heimila sem eiga í alvarlegum fjárhagserfiðleikum. Skoða sérstaklega ungar barnafjölskyldur sem hafa nýlega keypt sína fyrstu íbúð. Þar sé hugsanlega að myndast nýr fátækrahópur og þar koma langtímaáhrif kreppunnar í ljós. BRB leiði þessa vinnu en með honum í hópnum verða MS og ÞG.
Einnig samþykkt að leita upplýsinga frá Stefáni Ólafssyni um langtímaáhrif finnsku kreppunnar á þær fjölskyldur sem verst fóru út úr því ástandi.
4. Stöðugleikasáttmálinn
GRS fór yfir valda kafla í stöðugleikasáttmála Alþýðusambands Íslands, Bandalags háskólamanna, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, Kennarasambands Íslands, Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja, Samtaka atvinnulífsins, ríkisstjórnarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga, undirritaður 25. júní 2009. GRS vakti athygli á að nokkrir aðrir fulltrúar stýrihópsins hafi komið að undirbúningi samningsins, það séu EJ, ÞG og GH, en að baki sáttmálanum standi um það bil 150 þúsund launþegar.
Stýrihópurinn fagnar sáttmálanum, ekki síst þeirri áherslu sem lögð er á að styrkja stöðu heimilanna og verja undirstöður velferðarkerfisins.
5. Viðbragðsáætlun Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar
SKV kynnti viðbragðsáætlun sem Velferðarsvið Reykjavíkurborgar hefur samþykkt í barnavernd og til frekari stuðnings börnum í borginni.
6. Fundur um greiðsluvanda heimilanna
Lagt var til að stýrihópurinn haldi morgunverðafund (kl. 8.00/8.30 til kl 10.00) þar sem fjallað yrði um greiðsluvanda heimilanna með það að markmiði að fá eins skýra mynd og kostur er af því hvaða heimili eigi við mestan vanda að etja, hvaða úrræði þeim standi til boða og hvort þau virki. Samþykkt að vinnuhópurinn um greiðsluvanda heimilanna taki að sér að undirbúa morgunverðafundinn með aðstoð félags- og tryggingamálaráðuneytis, sem haldinn yrði seint í ágúst. Fengnir yrðu þrír til fjórir fyrirlesarar.
7. Önnur mál
- Samþykkt að fjalla sérstaklega um samskipti velferðarvaktarinnar við fjölmiðla og um umfjöllun þeirra um kreppuna á næsta fundi stýrihópsins.
- Samþykkt að stýrihópurinn fari, sem fyrst á næsta hausti, yfir aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar um velferð frá mars 2009 með tilliti til þess að aðstæður í samfélaginu kunna að hafa breyst.
Næsti fundur hópsins verður föstudaginn 14. ágúst 2009, kl. 13.15–15.15 í heilbrigðisráðuneyti.
Fundargerð ritaði Ingibjörg Broddadóttir.