Ný stöðuskýrsla velferðarvaktarinnar
Stýrihópur velferðavaktarinnar hefur lagt fram aðra stöðuskýrslu sína. Skýrslan er sett upp með sama hætti og fyrsta skýrsla stýrihópsins sem birt var í mars síðast liðnum. Skýrslan byggir meðal annars á skýrslum vinnuhópa velferðarvaktarinnar og eru þær skýrslur einnig aðgengilegar á vefslóð vaktarinnar. Tillögur stýrihópsins lúta einkum að endurbótum á miðlun upplýsinga til almennings og aðgerðum til að styrkja vinnumiðlun svo koma megi í veg fyrir langtímaatvinnuleysi, en júlí síðast liðnum voru langtímaatvinnulausir 47% allra á atvinnuleysiskrá og ungt fólk 16 til 24 ára var 19% þeirra sem eru á atvinnuleysisskrá. Einnig er lagt til að stjórnvöld gefi út með skýrum hætti hvort frekar verði komið til móts við fólk i greiðsluvanda vegna gengistryggðra íbúðalána og að stjórnvöld komi fram með úrræði fyrir fólk i greiðsluvanda vegna bílalána í erlendri mynt. Í öllu starfi stýrihópsins er áfram lögð áhersla á að barnafjölskyldur og að þeim sem veikast standa í samfélaginu verði veitt raunhæf aðstoð.