Hoppa yfir valmynd
24. ágúst 2011 Heilbrigðisráðuneytið

Undirritun samstarfssamnings um forvarnarstarf

Undirritun samstarfssamnings um forvarnarstarf ágúst 2011
Velferðarráðherra, formaður samstarfsráðsins og fulltrúar NordAN

Samstarfsráð um forvarnir mun annast ýmis verkefni á sviði forvarna gegn áfengis- og vímuefnaneyslu samkvæmt samstarfssamningi sem undirritaður var í velferðarráðuneytinu í dag af hálfu Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra og Halldórs Árnasonar, formanns samstarfsráðsins.

Markmið samningsins er að draga úr neyslu áfengis og annarra vímuefna og þeim skaða sem neysla þeirra veldur. Liður í því er að koma í veg fyrir að ungt fólk hefji neyslu áfengis og annarra vímuefna.

Samstarfsráð um forvarnir er samstarfsvettvangur íslenskra bindindisfélaga og hefur allt frá árinu 2004 sinnt ýmsum forvarnarverkefnum samkvæmt samningum við þau ráðuneyti sem helst tengjast þessum málaflokki.

Við undirritun samningsins voru viðstaddir fulltrúar samtakanna NordAN sem er vettvangur tæplega eitt hundrað félagasamtaka á Norðurlöndunum og í Eystrasaltsríkjunum sem starfa að forvörnum og beita sér fyrir áfengis- og vímuvarnarstefnu sem hefur það markmið að draga úr neyslu áfengis og annarra fíkniefna.

Samningurinn sem undirritaður var í dag gildir til loka þessa árs. Hið opinbera leggur 7,5 milljónir króna til verkefnisins úr Forvarnarsjóði en á móti kemur jafnhátt framlag af hálfu samstarfsráðs um forvarnir í formi sjálfboðavinnu og framlaga frá öðrum aðilum.

Guðbjartur Hannesson sagði við undirritun samningsins í dag að í þessum málaflokki væru kraftar frjálsra félagasamtaka ómetanlegir. Slík samtök veittu hvatningu og aðhald og  skiptu sköpum við framkvæmd opinberra stefnumiða: „Það skiptir miklu um árangur að fá sem flesta að starfinu, þannig er auðveldast að koma skilaboðum út í samfélagið, vekja fólk til vitundar og hvetja til viðhorfsbreytinga og breytinga á lífsstíl.“ 

Samkvæmt samningnum mun samstarfsráð um forvarnir vinna að eftirtöldum verkefnum á samningstímanum:

  • Framgangi umferðaröryggisáætlunar og heilbrigðisáætlunar í áfengis- og vímuvörnum.
  • Styðja við verkefnið - viku 43 - í samstarfi við önnur frjáls félagasamtök í landinu.
  • Styðja við landsverkefnið - bara gras - meðal annars með öflugri fræðslu um skaðsemi kannabisneyslu til foreldra og annarra sem koma að uppfræðslu og félagsstarfi barna og ungmenna.
  • Standa fyrir forvarnarauglýsingum í tengslum við áhættuviðburði í samfélaginu, svo sem stórhátíðir og fjöldasamkomur.
  • Styðja norrænt samstarf á sviði áfengis- og vímuvarna með þátttöku í samstarfsverkefnum.
  • Standa fyrir málþingi haustið 2011 meðal frjálsra félagasamtaka í landinu sem vinna að áfengis- og vímuvörnum. Efni málþingsins er framtíðarskipulag forvarnarstarfs og samhæfing á því afli sem býr í félagasamtökum á vettvangi forvarnastarfs í landinu.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta