Hoppa yfir valmynd
30. ágúst 2024

Ísland tekur öðru sinni sæti í stjórn FAO

Guðmundur Árnason, sendiherra og skipaður fastafulltrúi Íslands í Róm, afhenti Dr. Qu Dongyu, aðalritara Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) trúnaðarbréf þann 9. ágúst sl.

Ísland tók sæti í stjórn FAO (FAO Council) þann 1. júlí sl. og er það í annað sinn sem fastafulltrúi Íslands á sæti í stjórninni, en síðast var það á árunum 2000-2003. Samkvæmt áætlun hefði Ísland átt að taka sæti í stjórninni árið 2029 en leitað var eftir því að Ísland tæki þar sæti til næstu tveggja ára sem samkvæmt viðtekinni áætlun hefðu tilheyrt Rússlandi. Í stjórn sitja 49 ríki af 194 aðildarríkjum stofnunarinnar.

Í viðræðum við Dr. Qu Dongyu gerði nýr fastafulltrúi m.a. grein fyrir því að FAO hefði almennt haft nokkra sérstöðu meðal stofnana SÞ, og raunar fjölþjóðlegra stofnana sem Ísland á aðild að, sökum þess hve sjávarútvegur, nýting auðlinda sjávar og málefni hafsins vörðuðu íslenska hagsmuni miklu og væru Íslendingum hugstæð. Áherslur á þau málefni myndu verða ráðandi í málflutningi og störfum Íslands á vettvangi FAO meðan stjórnarsetan varir og til framtíðar, auk málefna sem falla að stefnumiðum alþjóðlegrar þróunarsamvinnu Íslands 2024-2028. Að öðru leyti vildi Ísland leggja áherslu á að gætt yrði að mikilvægi fiskveiða og sjálfbærri nýtingu auðlinda sjávar í starfsemi FAO. Var fæðuöryggi og svokallað Bláfæðubandalag (e. Aquatic Blue Food Coalition) nefnt í því sambandi en fyrrum fastafulltrúar Íslands voru leiðandi í því að koma því á laggirnar, hafa gegnt þar formennsku og gera enn.

Fundurinn fór fram með hefðbundnu sniði. Nýr fastafulltrúi Íslands var boðinn velkominn og forstjóri ræddi starfsemi FAO og mikilvægi hennar á tímum óstöðugleika og sviftinga í alþjóðastjórnmálum. Kjörorð gildandi starfsáætlunar FAO eru Betri framleiðsla, betri næring, betra umhverfi, betra líf.  Fór Dr. Qu Dongyu vinsamlegum orðum um þátt Íslendinga í starfi FAO og vísaði þar m.a. til starfa Árna Mathiesens við stofnunina.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta