Hoppa yfir valmynd
8. janúar 2021 Mennta- og barnamálaráðuneytið

130 milljóna kr. fjárfesting í starfsþróun í menntakerfinu

Oddný Sturludóttir verkefnisstjóri og aðjunkt við Menntavísindasvið HÍ, Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Kolbrún Þ. Pálsdóttir forseti Menntasvísindasviðs HÍ. - mynd
Unnið er að skipulagi nýrra starfsþróunarnámskeiða fyrir kennara og annað fagfólk í menntakerfinu. Námskeiðin verða fyrir kennara í leik-, grunn- og framhaldsskólum og stjórnendur og annað fagfólk innan skólasamfélagsins. Þau verða í boði í fjarnámi og henta því þátttakendum um allt land. Námskeiðin verða gjaldfrjáls fyrir þátttakendur. Nú þegar standa yfir þrjú námskeið fyrir stærðfræðikennara með um 100 þátttakendum.

Menntavísindasviði Háskóla Íslands í samstarfi við Háskólann á Akureyri og Kennarasamband Íslands hefur verið falið að skipuleggja námskeið á eftirtöldum sviðum:
• Læsi og íslensku
• Náttúrufræði og raungreinum
• Stærðfræði
• Forysta skólastjórnenda
• Þverfaglegum námskeiðum sem tengjast m.a. endurgjöf og námsmati, vellíðan, skólamenningu og þátttöku í skóla- og frístundastarfi margbreytileikans.

Á námskeiðunum er byggt á niðurstöðum rannsókna um stöðu nemenda í íslensku menntakerfi. Þau byggja á hugmyndafræði lærdómssamfélagsins þar sem starfsþróun er samofin daglegu starfi kennara og þátttakendur læra markvisst hver af öðrum. Námskeiðin eru sett þannig upp að þau sé hægt að sækja og sinna með fullri vinnu.

„Námskeiðin eru mikilvægur liður í aðgerðum okkar til þess að auka sérhæfða þekkingu og hæfni meðal kennara og miðla skilvirkum aðferðum sem taka mið af fjölbreyttum nemendahópum. Í þessu tökum við mið af árangri annarra þjóða sem nýtt hafa áþekkar leiðir til þess að efla læsi, bæta orðaforða og hugtaka- og málskilning nemenda með markvissum hætti,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Kolbrún Þ. Pálsdóttir forseti Menntavísindasviðs Háskóla Íslands
segir þetta vera mikilvægt skref til að renna styrkari stoðum undir starfsþróun og gæði menntunar: „Það er mikið fagnaðarefni að stjórnvöld séu að fjárfesta í menntakerfinu með þessum hætti. Markmið verkefnisins er að ígrunda og þróa bestu starfshætti hverju sinni og styrkja þannig námssamfélög kennara um land allt. Leitað verður til sérfræðinga, framúrskarandi kennara og fræðafólks til að móta námsefnið sem mun byggja á nýjustu þekkingu og rannsóknum á sviði menntunar.“

Heildarframlag mennta- og menningarmálaráðuneytis til verkefnisins nemur 131 milljón kr. á tímabilinu 2020-2022. Fjöldi námskeiða er í þróunarferli í nánu samstarfi við skólasamfélagið. Námskeiðin og fyrirkomulag þeirra verða kynnt nánar á næstu vikum.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

4. Menntun fyrir öll

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta