Hoppa yfir valmynd
12. maí 2022 Innviðaráðuneytið

Mál nr. 23/2022 - Álit

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

í máli nr. 23/2022

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með álitsbeiðni, dags. 28. febrúar 2022, beindi Húsfélagið A, hér eftir nefnt álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B og C, hér eftir nefndar gagnaðilar.

Gagnaðilum var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994.

Auk álitsbeiðni var greinargerð gagnaðila, dags. 28. mars 2022, lögð fyrir nefndina.

Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 12. maí 2022.

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Um er að ræða fjöleignarhúsið D, alls 7 eignarhluta. Álitsbeiðandi er húsfélagið en gagnaðilar eru eigendur íbúðar á jarðhæð. Ágreiningur er um hvort fyrir liggi lögmæt ákvörðun um lokun á sorptunnuskýli.

Krafa álitsbeiðanda er:

Að viðurkennt verði að fyrir liggi lögmæt ákvörðun húsfundar um lokun á sorptunnuskýli fyrir framan húsið.

Í álitsbeiðni kemur fram að boðað hafi verið til húsfundar 15. september 2021 en gagnaðilar hafi ekki verið eigendur á þeim tíma. Samkvæmt fundarboði hafi verið á dagskrá umræða um lokun á sorptunnuskýli fyrir utan húsið. Fyrri eigendur íbúðar gagnaðila hafi hvorki mætt á fundinn né mótmælt fyrirhugaðri framkvæmd. Á fundinn hafi mætt meirihluta eigenda þar sem tekin hafi verið ákvörðun um að gustloka sorpskýli fyrir utan húsið með lerki. Það hafi verið samþykkt samhljóða á fundinum.

Gagnaðilar hafi fyrst fengið upplýsingar um fyrirhugaðar framkvæmdir með yfirlýsingu álitsbeiðanda sem þær hafi fengið fyrir undirritun kaupsamnings 22. september 2021. Ekki hafi borist upplýsingar um að þær hefðu sett sig upp á móti framkvæmdunum þá og hafi þær flutt í íbúð sína mánuði síðar.

Skömmu eftir að þær hafi gengið frá kaupunum hafi farið að berast athugasemdir frá þeim á facebook síðu álitsbeiðanda. Þær hafi krafist þess að hætt yrði við að gustloka sorptunnuskýlinu, sagt framkvæmdirnar ólöglegar og hótað málsókn yrði farið í þær án þeirra samþykkis þar sem lokunin hefði mikil áhrif á útsýni úr íbúð þeirra á jarðhæð. Þær hafi hvorki óskað eftir því að málið yrði tekið upp að nýju á fundi né gert tilraun til að leysa úr ágreiningi með samtali við aðra íbúa heldur hafi þær þegar leitað til Húseigendafélagsins.

Stjórn álitsbeiðanda hafi borist erindi Húseigendafélagsins, dags. 7. október 2021, þar sem segi að húsfundur hafi tekið ákvörðun um að loka sorptunnuskýlinu að fullu. Þær fullyrðingar eigi ekki við rök að styðjast. Hér sé um að ræða smávægilegar breytingar á sorptunnuskýlinu sem feli í sér öryggi fyrir börn, að draga úr sóðaskap og að þar snjói inn. Farið hafi verið fram á stöðvun framkvæmdarinnar með vísan til 40. gr. laga um fjöleignarhús.

Meðfylgjandi erindi gagnaðila til Húseigendafélagsins hafi verið tvær ljósmyndir teknar úr gluggum íbúðar þeirra sem snúi að sorptunnuskýlinu en í erindi félagsins hafi komið fram að lokunin kæmi til með að hafa mikil áhrif á útsýni íbúðar þeirra. Álitsbeiðandi mótmæli þessu. Sé horft til annarrar myndarinnar þá muni lokunin hafa í för með sér að gagnaðilar missi sýn á hluta af tré í gegnum bil sem nú sé á sorptunnuskýlinu. Þetta sama tré sé hægt að sjá úr glugga í næsta herbergi í íbúð gagnaðila. Sé horft til hinnar myndarinnar muni lokunin hafa í för með sér að gagnaðilar missi sýn á grasflöt við Norðlingabraut og hluta af trjám við Rauðavatn en þessi sýn birtist þeim einnig í gegnum bil á sorptunnuskýlinu.

Þrátt fyrir að ekki væri farið í að gustloka skýlinu myndi sú sýn sem að framan sé lýst hverfa þegar atvinnuhúsnæði rísi við Norðlingabraut eins og til standi að reisa á lóðinni samkvæmt deiliskipulagi.

Með vísan til framangreinds sé fráleitt að halda því að fram að gustlokunin hafi mikil áhrif á útsýnið líkt og gagnaðilar haldi fram. Því sé mótmælt að samþykki allra þurfi fyrir framkvæmdinni.

Ástæða þess að tekin hafi verið ákvörðun um lokunina sé sú að ár hvert þegar fari að vora þurfi íbúar að vera stöðugt á varðbergi vegna slysahættu. Reynslan hafi sýnt að börnum í hverfinu þyki spennandi að klifra upp á skýlið og leika sér ofan á því. Leiðin upp á skýlið sé mjög greið. Íbúar hafi þurft að aðstoða börn allt niður í fimm ára sem hafi komið sér í sjálfheldu með því að klifra þarna upp. Fallið ofan af skýlinu sé mjög hátt, eða 3 metrar og 4,4 metrar af einum veggnum. Með gustlokun séu eigendur að taka ábyrgð og gera það sem hægt sé til að draga úr slysahættu. Þá séu íbúar yfir vetrartímann í baráttu við að halda ruslatunnunum á sínum stað, eltast við rusl sem fjúki úr tunnunum í vindhviðum og moka snjó út úr skýlinu til að greiða leiðina fyrir sorphirðufólk svo að tunnurnar verði tæmdar. Þessu fylgi mikil sóðaskapur.

Gagnaðilar virðast ekki mótfallnar því að útsýni þeirra skerðist við byggingu atvinnuhúsnæðisins en sú afstaða þeirra til þeirrar byggingar beri með sér að lokun á skýlinu muni ekki hafa töluverð áhrif á þær.

Um sé að ræða breytingar sem falli undir 2. mgr. 30. gr. laga um fjöleignarhús og geti gagnaðilar ekki farið fram á stöðvun framkvæmdarinnar. Þær hafi ekki verið eigendur þegar ákvörðunin hafi verið tekin.

Í greinargerð gagnaðila segir að um leið og þær hafi séð að það ætti að loka sorpskýlinu á facebook síðu álitsbeiðanda hafi þær mótmælt því. Þær hafi síðan leitað til Húseigendafélagsins. Það hafi verið mat félagsins að gagnaðilar hefðu meira um framkvæmdirnar að segja en aðrir eigendur þar sem þær hafi meiri áhrif á íbúð þeirra heldur en aðrar íbúðir. Ekki sé gert ráð fyrir þessu fyrirkomulagi á samþykktum teikningum hússins. Þá hafi ekki verið gerðar teikningar af fyrirhugaðri breytingu, efnisval hafi ekki verið kannað til hlítar, áhrif ekki verið skoðuð og metin. Þá hafi aðrar lausnir ekki verið skoðaðar.

Á húsfundi 15. september hafi engar teikningar, efnisval, frumathuganir né mælingar, mat þriðja aðila á áhrifum lokunar út frá lyktarmengun, birtuskilyrðum í íbúðum á jarðhæð, hávaðamengun þegar vindur blæs og svo framvegis legið fyrir.

Herbergisgluggar gagnaðila snúi beint að ruslaskýlinu og hafi til dæmis loftunargat mikil áhrif á loftun, lykt, dagsbirtu inn í íbúð og víðsýni úr íbúð. Samþykki allra þurfi fyrir útlitsbreytingu á húsinu, teikna þurfi upp breytingarnar, fá þær samþykktar og leggja fyrir byggingarfulltrúa. Þá þurfi byggingarleyfi og leyfi frá arkitekt.

Gagnaðilar hafi ekki sett sig upp á móti byggingu sem gert sé ráð fyrir á deiliskipulagi, enda sé hún í nokkur hundrað metra fjarlægð frá herbergisglugga íbúðar þeirra. Þá skyggi hún ekki á útsýni á bílaplan, göngustíg eða veðurfar. Það sé stór munur á fyrirhuguðu iðnaðarhúsnæði á lóð sem liggi við göngustíg sem liggi eftir bílastæðum hússins og lokun í fimm metra fjarlægð frá herbergisglugga.

Þegar framkvæmdir sem þessar séu bornar til atkvæðagreiðslu þurfi að liggja fyrir ákveðnar upplýsingar til að fólk geti tekið upplýsta ákvörðun. Í fundarboði húsfundar sem haldinn hafi verið 15. september hafi sagt undir 4. lið: „Lokun ruslageymslu á nr. 5 og 7 fyrir veturinn“ en hvergi hafi verið minnst á að taka ætti ákvörðun og greiða atkvæði um lokun skýlisins og því ómögulegt fyrir eigendur að átta sig á því. Samkvæmt 62. gr. laga um fjöleignarhús þurfi allir félagsmenn að vera mættir á fund til að fundurinn geti ákveðið að greiða atkvæði um málefni, án þess að þeirra sé getið í fundarboði. Það hafi ekki verið raunin í þessu tilfelli. Stjórn álitsbeiðanda hafi ekki getað sýnt fram á að umræða hafi farið fram á aðalfundi eða húsfundi um þetta málefni og gagnaðilar hafi ekki fundið neitt ritað í fundargerðir undanfarinna ára. Samkvæmt heimildum íbúa hafi fundargerðin ekki verið lesin upp í lok fundar. Seint hafi gengið að fá hana birta en hún hafi verið birt á facebook síðu álitsbeiðanda 29. september. Þannig hafi verið erfitt fyrir fólk að koma með athugasemdir við fundargerðina og benda á rangfærslur. Að minnsta kosti einn eigandi hafi ekki verið hlynntur lokuninni.

Á húsfundi 15. desember 2021 hafi gagnaðilar gert tilraun til að koma á umræðu um lokunina og koma óánægju sinni og sínum skoðunum og athugasemdum á framfæri. Þær hafi þó ekki fengið málfrelsi á fundinum og verið þaggaðar niður.

Samkvæmt fyrrnefndu fundarboði hafi ekki staðið til að fara í atkvæðagreiðslu um framkvæmdina eða taka ákvarðanir, heldur hafi umræða átt að fara fram. Varast beri að túlka umræðu sem ákvörðunartöku en eðlilegt sé að umræða um framkvæmdina fari fram áður en farið sé í frekari upplýsingaöflun sem yrði svo lögð fyrir íbúa síðar. Þá séu ekki allir eigendur meðlimir á facebook síðu álitsbeiðanda og þeir hafi því ekki allir verið með þær litlu upplýsingar sem fyrir hafi legið fyrr en á fundinum sjálfum.

Við hönnun híbýla, þar á meðal ruslaskýla, sé farið eftir lögum og reglugerðum, auk þess sem ruslaskýlin séu tekin út af þar til gerðum eftirlitsaðilum sem sannreyni að þau uppfylli þær kröfur sem gerðar séu hverju sinni. Eitt af því sem tekið sé mið af sé slysahætta. Stjórn álitsbeiðanda hafi ekki tekist að sýna fram á að slys hafi hlotist af ruslaskýlinu. Hvorki hafi breytingar verið gerðar á skýlinu frá upphaflegum teikningum né hafi verið tekið fyrir á aðalfundum eða húsfundum undanfarin ár að því þurfi loka vegna slysahættu á börnum. Stjórninni hafi því ekki tekist með óyggjandi hætti að sýna fram á að börnum stafi hætta af skýlinu eins og það sé í dag. Einnig hafi ekki verið sýnt fram á með úttekt óháðs aðila eða öðrum gögnum að framkvæmdin minnki slysahættu. Þá velti gagnaðilar því upp hvort framkvæmdin geti aukið slysahættu eða búið til nýjar hættur fyrir börn. Ekki sé hægt að gera umhverfið slysalaust með öllu.

Vandamál hafi verið með sorpílát að húsi nr. 7 í talsverðan tíma. Aðalvandamálið sé að þau séu of fá og af þeim sökum verði þau yfirfull talsvert áður en losun eigi sér stað. Þetta geti leitt til þess að þegar hvessi mikið fjúki plast/pappi úr yfirfullum ílátum. Í húsi nr. 7 séu tólf íbúðir sem deili með sér eftirfarandi sorpílátum: 2 stykki 660 lítra ílát fyrir blandað heimilissorp, 1 stykki 660 lítra ílát fyrir pappír og pappa, 1 stykki 240 lítra ílát fyrir plast og 140 lítra ílát fyrir lífrænan úrgang. Í hvert skipti sem komi að losun séu plast- og pappaílát yfirfull svo að ekki sé hægt að loka þeim sem skyldi. Ágreiningur sé meðal eigenda um það hversu mörg sorpílát þurfi. Sumir telji að bæta þurfi við á meðan aðrir telja að nota eigi grenndargáma þegar plast- og pappaílát séu orðin full.

Gagnaðilar hafi farið fram á að sorpílátum verði fjölgað þar sem bætt verði við einni blárri tunnu og einu grænu keri til að byrja með til að meta hvort það dugi eða hvort sorpílát yfirfyllist og þeim þá fjölgað eftir þörf hverju sinni. Þá megi með auknum fjölda sorpíláta og með því að festa þau við vegg skýlisins eða skorða þau af með öðrum hætti koma í veg fyrir að rusl fjúkli og að sorpílát fari af stað í vindi sem ekki hafi þó verið sannað að hafi gerst.

Ein af ástæðum þess að loka eigi skýlinu sé sú að snjór safnist þar fyrir. Yfirstandandi vetur hafi verið snjóþungur og óvenjumikið um veðurviðvaranir. Miðað við það mætti ætla að óvenjumikið af snjó hefði verið í skýlinu. Gagnaðilar hafi þó ekki orðið varar við það. Vissulega komi snjór í skýlið en í vetur hafi aldrei orðið þannig snjóþungt að ekki hafi verið hægt að opna sorpílát eða komast að þeim. Nokkrum sinnum hafi þurft að skafa snjó út, auk þess sem það hafi þurft að moka snjó af göngustíg sem liggi að skýlinu. Gagnaðilar hafi aldrei orðið varar við að tunnur færðust til vegna veðurs. Varðandi athugasemdir um að tunnur fjúki í vondum veðrum hafi gagnaðilar þó bent á að unnt sé að kaupa svokallaða tunnukjamma sem séu festir á vegg sorpskýlis og sorpílát fest í þá.

Vegna fullyrðinga álitsbeiðanda um að börn hafi unnið skemmdir á ljósi í skýlinu þá sé engin leið að vita það með vissu en þær gætu allt eins hafa komið til af völdum sorphirðufólks eða annarra sem færi til sorpílát.

Með lokuninni verði útsýni úr svefnherbergisglugga gagnaðila verulega skert. Slitið sé á öll tengsl við náttúru og lóð, auk þess sem útsýni muni einskorðast við stigahús og ruslaskýli. Þetta muni minnka verulega víðsýni úr íbúðinni til norðurs og megi líkja þessu við það að búa innilokuð í búri. Taka beri fram að framkvæmdin hafi ekki þessi afgerandi áhrif á neina aðra íbúð í húsinu. Ruslaskýlið sé beint fyrir framan glugga svefnherbergis eða í fimm metra fjarlægð. Þótt útsýnið sé ekki óskert í dag þá muni miklu um þessa rifu á ruslaskýlinu upp á víðsýni úr glugganum að gera og magn dagsbirtu inn í herbergið. Sé horft til vinstri úr glugganum skyggi stigahús á útsýni úr herberginu. Þegar horft sé út um barnaherbergi sé útsýnið skert af stigahúsi sem sé beint fyrir framan gluggann en þegar horft sé til hægri út um gluggann sjáist í ruslaskýlið. Þaðan sé eina leiðin fyrir dagsbirtu inn í barnaherbergið. Með því að loka rifu á ruslaskýlinu minnki dagsbirtan í herberginu sem sé óásættanlegt.

Grunnmynd af húsinu sýni afstöðu íbúðar gagnaðila gagnvart stigahúsi og ruslaskýli. Þar megi sjá hversu innilokuð íbúðin sé vegna staðsetningar stigahúss öðrum megin og ruslaskýlis hinum megin. Einnig megi sjá þar að engin önnur íbúð verði fyrir eins miklum áhrifum vegna lokunarinnar.

Þótt einhverjum þyki lítið til útsýnisins koma þá skipti það gagnaðila verulegu máli. Með lokuninni verði öll ásýnd úr íbúðinni þröng og einkennist af ruslaskýli og stigahúsi. Það geti aldrei verið ásættanlegt að skerða útsýni og minnka dagsbirtu í einu rými af því að hún sé til staðar í öðru rými. Í byggingarreglugerð segi að hanna verði húsnæði þannig að dagsbirta sé næg í öllum rýmum en ekki bara sumum. Það séu ástæður fyrir því að skýlið hafi verið hannað með þessum hætti og ekki sé boðlegt í lýðræðislegu samfélagi að breyta þeirri hönnun án ítarlegrar skoðunar á áhrifum breytinga á alla aðila sem málið varði og út frá öllum sviðum.

Með lokuninni sé verið að gera útlitsbreytingu á húsinu og ásýnd þess breytist. Auk þess standi til að nota lerki til að loka bilinu milli steyptra veggja og þakskyggnis en það efni sé ekki að finna í húsinu, hafi hvergi verið notað við hönnun þess og hvergi nefnt í hönnunarlýsingu. Teikningar sem sýni breytingarnar hafi ekki verið gerðar. Þá nefna gagnaðilar ýmis atriði sem huga þurfi að við slíkar teikningar.

Spurningar vakni um gildi fengins umboðs í atkvæðagreiðslu á húsfundinum 15. september, sé þess ekki getið í fundargerð að greiða eigi atkvæði um viðkomandi mál. Á fundinum hafi verið umboð frá eigendum tveggja íbúða. Auk þess sé vitað til þess að fólk sem hafi verið á staðnum hafi ekki verið samþykkt framkvæmdum.

Þegar útliti og ásýnd húsa sé breytt, eins og fyrirhugað sé í tilfelli þessu, þurfi að liggja fyrir teikningar af breytingum, efnisval og kostnaður áður en umræða fari fram og ákvörðun sé tekin á húsfundi um að fara í framkvæmdir. Eigi að breyta útliti eða ásýnd þurfi samþykki allra. Allar upplýsingar þurfi að liggja fyrir um málið en ekki færsla á facebook sem segi um það bil til um hvernig hlutirnir skuli vera varðandi útlit. Á facebook færslum um málið megi sjá að til dæmis hafi ekki verið búið að ákveða hvaða litur ætti að vera á fyrirhugaðri lokun og fleira.

Þá séu athugasemdir gerðar við að til standi að íbúar sjái sjálfir um framkvæmdina en að ekki verði leitað til fagmanna.

Gagnaðilar hafi komist að því að það hafi ekki verið allir eigendur og fundarmenn sem hafi samþykkt lokun á ruslaskýlinu 15. september. Tilraun hafi verið gerð á húsfundi 15. desember til að leiðrétta þetta en engar athugasemdir hafi verið skráðar í fundargerð og fundarmaður hafi ekki fengið að tjá sig á lýðræðislegan hátt á fundinum.

Fyrstu gögn sem hægt sé að finna um að loka þurfi skýlinu séu í fundarboði fyrir húsfund 15. september 2021.

Í athugasemdum álitsbeiðanda segir að til húsfundarins, sem haldinn hafi verið 15. september, hafi verið boðað með löglegum hætti. Á fundinn hafi mætt 2/3 hlutar eigenda og allir greitt atkvæði með tillögu stjórnar um gustlokun sorptunnuskýlisins. Tiltekið leigufélag eigi fimm íbúðir en sendi ekki fulltrúa á húsfundi en styðji alltaf það mál sem fái meirihluta atkvæða.

Gagnaðilar hafi undirritað kaupsamning 22. september 2021 og hafi þá legið fyrir yfirlýsing húsfélags, dags. 21. september. Undir liðnum væntanlegar framkvæmdir segi: „Fara yfir ofna í öllum íbúðum. Rúðuskipti í stigagöngum. Lokun á ruslageymslum. Málun stigahús.“

Í athugasemdum gagnaðila segir að eftir að þær hafi skilað greinargerð sinni til kærunefndar hafi þeim borist yfirlýsing húsfélagsins, dags. 2. apríl 2022. Hún hafi verið gerð vegna sölu íbúðar í húsi nr. 5.

Samkvæmt lögum beri gjaldkera að segja frá öllum fyrirhuguðum og samþykktum framkvæmdum. Í fyrrnefndri yfirlýsingu sé gerð grein fyrir þessu og einu fyrirhuguðu framkvæmdirnar samkvæmt henni séu vegna tveggja hleðslustöðva. Út frá þessu álykti gagnaðilar að álitsbeiðandi hafi þegar fallið frá framkvæmdinni á ruslaskýli við hús nr. 7. Því komi verulega á óvart að álitsbeiðandi haldi málarekstri þessum áfram fyrir tilstilli fárra eigenda. 

III. Forsendur

Í 1. mgr. 30. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994, segir að sé um byggingu, endurbætur eða framkvæmdir að ræða sem ekki hafi verið gert ráð fyrir í upphafi og á samþykktri teikningu, þá verði ekki í hana ráðist nema allir eigendur samþykki, sé um að ræða verulega breytingu á sameign, þ.á m. útliti hússins, sbr. einnig 6. tölul. A-liðar 41. gr. Sé um að ræða framkvæmdir sem hafi breytingar á sameign, utan húss eða innan, í för með sér sem þó geti ekki talist verulegar, þá nægi að 2/3 hlutar eigenda, bæði miðað við fjölda og eignarhluta, séu því meðmæltir, sbr. 2. mgr. 30. gr., sbr. einnig 3. tölul. B-liðar 41. gr. laganna. Til smávægilegra breytinga og endurnýjana nægi þó alltaf samþykki einfalds meirihluta miðað við eignarhluta, sbr. 3. mgr. 30. gr., sbr. einnig D-lið 41. gr.

Í 3. mgr. 59. gr. segir að í fundarboði skuli greina fundartíma, fundarstað og dagskrá. Þá skuli geta þeirra mála sem ræða eigi og meginefni tillagna þeirra sem leggja eigi fyrir fundinn.

Í fundarboði húsfundar sem haldinn var 15. september 2021 var tilgreint í 4. lið undir mál á dagskrá „Lokun ruslageymslu á nr. 5 og 7 fyrir veturinn.“ Í fundargerð segir að fulltrúar 15 af 27 eignarhlutum væru mættir, þar af voru tvö umboð. Þar eru nefndar undir 4. lið þrjár hugmyndir sem komu til greina vegna lokunar á ruslageymslu og segir að þetta eigi að koma í veg fyrir að rusl fjúki um allt og að börn væru að klifra þarna upp á með tilheyrandi slysahættu. Fram kemur að verkið hafi verið samþykkt samhljóða, hússtjórn taki að sér að fara í þetta mál og í framhaldinu sameinist íbúar um vinnuna.

Kærunefnd telur að það hafi verið tilgreint með nægilega skýrum hætti í fundarboði húsfundar 15. september 2021 að til úrlausnar væri ákvörðun um lokun á ruslageymslunni, þ.e. að eigendur hafi mátt átta sig á því að til stæði að taka ákvörðun um „lokun ruslageymslu á nr. 5 og 7 fyrir veturinn“ og þar með að atkvæðagreiðsla færi fram um það. Þá getur nefndin ekki fallist á það með gagnaðilum að ákvörðunin verði talin ólögmæt á grundvelli fjöleignarhúsalaga vegna skorts á nánari upplýsingum um útfærslu framkvæmdarinnar á húsfundinum.

Fyrir framan húsið er sorptunnuskýli með þaki sem stendur á stálbitum þannig að opið er á milli þaksins og veggja skýlisins. Framangreind ákvörðun húsfundar snýst um að loka því bili með lerki. Gagnaðilar byggja á því að sú lokun komi til með að hafa veruleg áhrif á útsýni úr íbúð þeirra á jarðhæð. Ástæða þess að tekin var ákvörðun um að loka skýlinu felst í því að draga úr slysahættu barna sem og að koma í veg fyrir að rusl fjúki.

Kærunefnd getur ekki fallist á að það falli undir verulega breytingu á sameign að loka téðu bili á sorptunnuskýlinu þrátt fyrir að breyting verði á útsýni í gegnum skýlið úr íbúð gagnaðila á jarðhæð. Þar að auki telur nefndin að ákvæði laga um fjöleignarhús geri ekki ráð fyrir því að gagnaðilar geti átt sérstakan rétt til neitunar á framkvæmdinni vegna staðsetningar á íbúð þeirra framan við skýlið. Að framangreindu virtu er það niðurstaða kærunefndar að um sé að ræða ákvörðun sem fellur undir 2. mgr. 30. gr. laga um fjöleignarhús og að þar með liggi fyrir lögmæt ákvörðun álitsbeiðanda um téða framkvæmd. Vegna tilvísunar gagnaðila til byggingarreglugerðar í málatilbúnaði sínum skal tekið fram að kærunefnd tekur eingöngu afstöðu til ágreinings aðila á grundvelli ákvæða fjöleignarhúsalaga.

Þá gera gagnaðilar kröfu um í málatilbúnaði sínum fyrir kærunefnd að viðurkennt verði að fjölga beri sorptunnum í sorptunnuskýlinu.

Í 2. mgr. 8. gr. reglugerðar um kærunefnd húsamála, nr. 1355/2019, segir að áður en nefndin taki mál til úrlausnar þurfi það að jafnaði að hafa hlotið afgreiðslu innan húsfélags. Þá segir í 4. mgr. 59. gr. laga um fjöleignarhús að vilji eigandi fá mál tekið fyrir og til atkvæðagreiðslu á aðalfundi skuli hann greina stjórn frá því skriflega með þeim fyrirvara að unnt sé að geta þess í fundarboði.

Með hliðsjón af framangreindum ákvæðum telur kærunefnd að áður en lýstur ágreiningur um fjölda sorptunna kemur til úrlausnar fyrir kærunefnd skuli málið tekið til úrlausnar innan álitsbeiðanda. Kröfu gagnaðila hér um er því vísað frá að svo stöddu.

Álit nefndarinnar hindrar ekki aðila í að leggja ágreining sinn fyrir dómstóla með venjulegum hætti, sbr. 6. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús.

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að fallast beri á kröfu álitsbeiðanda.

 

Reykjavík, 12. maí 2022

 

 

Auður Björg Jónsdóttir

 

 

Valtýr Sigurðsson                                          Aldís Ingimarsdóttir

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta