Félagslegt húsnæði sveitarfélaga
Samtals eru tæplega 1.800 einstaklingar og fjölskyldur á biðlista eftir félagslegu húsnæði hjá sjö stærstu sveitarfélögum landsins samkvæmt könnun velferðarráðuneytisins. Úthlutun þeirra á félagslegu húsnæði frá janúar til júní síðastliðnum svarar til þess að tæplega 8% hópsins hafi fengið úrlausn.
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, stóð fyrir könnun í sumar meðal stærstu sveitarfélaga landsins þar sem óskað var upplýsinga um stöðu biðlista eftir félagslegu húsnæði. Markmiðið var að fá mynd af stöðu þessara mála og þar með hvernig sveitarfélögin rækja hlutverk sitt samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga en þar segir í 45. gr.: „Sveitarstjórnir skulu, eftir því sem kostur er og þörf er á, tryggja framboð af leiguhúsnæði, félagslegu kaupleiguhúsnæði og/eða félagslegum eignaríbúðum handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna.“
Ekki var leitað til allra sveitarfélaga landsins heldur lagði ráðuneytið fyrst og fremst áherslu á að kanna stöðuna hjá þeim stærstu. Samkvæmt svörum sjö fjölmennustu sveitarfélaganna við spurningum ráðuneytisins voru samtals um 1.780 einstaklingar eða fjölskyldur í bið eftir félagslegu húsnæði í júní síðastliðnum. Á sama tíma voru þessi sömu sveitarfélög með samtals um 2.970 félagslegar íbúðir til útleigu. Ef skoðaður er fjöldi íbúða sem umrædd sveitarfélög úthlutuðu frá janúar til júní á þessu ári voru þær samtals 140 sem svarar tæplega 8% af þörfinni miðað við heildarfjölda á biðlista í júní.
Ráðherra segir upplýsingar sveitarfélaganna gefa til kynna að verulega skorti á að sveitarfélögin uppfylli skyldur sínar í húsnæðismálum gagnvart þeim íbúum sem vegna félagslegra aðstæðna eru ekki færir um að sjá sér sjálfir fyrir húsnæði. „Það þarf augljóslega að fara miklu betur í saumana á þessum málum og leita skýringa hjá sveitarfélögunum á því hvað veldur. Skortir fjármagn, lánsfé, lóðir, stefnu, vilja, eða eitthvað annað? Greining vandans er forsenda þess að hægt sé að finna viðeigandi lausnir.“
Í ljósi þess að svör sveitarfélaga við könnun ráðuneytisins voru í sumum tilvikum misvísandi eða ófullnægjandi og til að afla frekari upplýsinga til að greina vandann hefur ráðuneytið ákveðið bæta spurningum við árlega könnun Varasjóðs húsnæðismála á húsnæðismálum sveitarfélaga og afla þannig nákvæmari upplýsinga.