Hoppa yfir valmynd
8. júní 2015 Úrskurðir velferðarráðuneytisins 2011-2018, Heilbrigðisráðuneytið

Kæra vegna synjunar Embættis landlæknis um veitingu starfsleyfis sem hjúkrunarfræðingur

Úrskurður velferðarráðuneytisins nr. 005/2015

Föstudaginn 8. júní 2015 var í velferðarráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R

Með bréfi, dags. 7. nóvember 2014, kærði A (hér eftir nefnd kærandi), til velferðarráðuneytisins ákvörðun Embættis landlæknis, dags. 23. október 2014, um að synja kæranda um starfsleyfi sem hjúkrunarfræðingur.

I. Kröfur.

Kærandi gerir þær kröfur að ákvörðun Embættis landlæknis, dags. 23. október 2014, um að synja kæranda um starfsleyfi sem hjúkrunarfræðingur verði felld úr gildi og embættinu gert að gefa út starfsleyfi til handa kæranda.

II. Málsmeðferð ráðuneytisins.

Ráðuneytið óskaði með bréfi, dags. 7. nóvember 2014, eftir umsögn Embættis landlæknis og öllum gögnum varðandi málið. Umsögn embættisins ásamt gögnum barst velferðarráðuneytinu með bréfi, dags. 5. desember 2014, og var hún send kæranda með bréfi ráðuneytisins, dags. 9. desember 2014, þar sem henni var gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Þegar kæran var tekin til efnislegrar meðferðar kom í ljós að ekki höfðu borist athugasemdir frá kæranda og var umsögn landlæknis því send aftur með bréfi, dags. 13. febrúar 2015, og kæranda gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust ráðuneytinu með bréfi, dags. 20. febrúar 2015.

III. Málavextir.

Þann 5. desember 2012 sendi kærandi umsókn til Embættis landlæknis um starfsleyfi sem hjúkrunarfræðingur. Kærandi hafði áður sótt um starfsleyfi sem sjúkraliði og fengið útgefið starfsleyfi sem slík þann 11. desember 2009. Umsókn um hjúkrunarleyfi ásamt gögnum var send til umsagnar til hjúkrunarfræðideildar heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands með bréfi embættisins, dags. 30. maí 2013. Með bréfi, dags. 18. október 2013, sendi embættið kæranda bréf til að útskýra töf sem orðið hafði á afgreiðslu umsóknar hennar hjá embættinu. Umsögn hjúkrunarfræðideildar barst embættinu með bréfi, dags. 25. febrúar 2014. Var kæranda gefinn kostur á að koma að andmælum. Engin frekari gögn bárust embættinu og var umsókn kæranda synjað með bréfi embættisins, dags. 23. október 2014.

Þann 1. nóvember 2014 kærði kærandi ákvörðun embættisins, dags. 23. október 2014, til velferðarráðuneytisins.

IV. Málsástæður og lagarök kæranda.

Í kæru kemur fram að kærandi hafi sótt um starfsleyfi sem hjúkrunarfræðingur og umsókn ásamt öllum gögnum verið send til hjúkrunarfræðideildar heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands til umsagnar. Hafi niðurstaða umsagnarnefndar verið sú að kærandi uppfyllti þau skilyrði menntunar sem þurfi til að hljóta starfsleyfi sem hjúkrunarfræðingur hér á landi. Kærandi geti ekki lagt fram hjúkrunarleyfi frá því ríki er hún kemur frá, þ.e. Filippseyjum, skv. 1. mgr. 12. gr. reglugerðar um menntun, réttindi og skyldur hjúkrunarfræðinga og skilyrði til að hljóta starfsleyfi og sérfræðileyfi, nr. 512/2013.

Ástæða þess að kærandi hafi ekki lagt fram hjúkrunarleyfi frá Filippseyjum sé sú að til þess að öðlast leyfi þar þurfi hún að ljúka þriggja mánaða námi með prófi, en kærandi eigi ekki kost á því að fara til Filippseyja til að uppfylla kröfur þar í landi til að öðlast hjúkrunarleyfi.

Í bréfi sem kærandi sendi til Embættis landlæknis, dags. 15. október 2014, voru settar fram skýringar á því hvers vegna kærandi sótti ekki um starfsleyfi á Filippseyjum. Kærandi sé íslenskur ríkisborgari og eigi hér fjölskyldu.

Í athugasemdum kæranda, dags. 20. febrúar 2015, kemur fram að kærandi vonist til að lausn finnist á málinu. Kærandi geti ekki hafið MS-nám við Háskóla Íslands þar sem krafa sé meðal annars að hún hafi starfsleyfi sem hjúkrunarfræðingur hér á landi.

V. Málsástæður og lagarök Embættis landlæknis.

Í umsögn embættisins, dags. 5. desember 2014, er forsaga málsins rakin. Þá eru rakin skilyrði fyrir veitingu starfsleyfis skv. 6. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012, og reglugerð um menntun, réttindi og skyldur hjúkrunarfræðinga og skilyrði til að hljóta starfsleyfi og sérfræðileyfi, nr. 512/2013. Samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar megi veita þeim starfsleyfi sem lokið hafi BS-prófi í hjúkrunarfræði frá hjúkrunarfræðideild heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands eða heilbrigðisvísindasviði Háskólans á Akureyri. Þá sé heimilt að veita starfsleyfi þeim sem hafi lokið sambærilegu prófi í ríki utan EES og Sviss. Jafnframt vísi embættið til 12. gr. reglugerðar nr. 512/2013 um frekari skilyrði fyrir veitingu starfsleyfis.

Umsókn kæranda hafi verið send til umsagnar til hjúkrunarfræðideildar heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands og hafi í umsögn komið fram að með framlögðum gögnum hafi verið sýnt fram á að menntun kæranda uppfylli skilyrði reglugerðar nr. 512/2013 með áorðnum breytingum, en hins vegar hafi kærandi ekki lagt fram gögn er sýni að uppfyllt séu skilyrði reglugerðarinnar um starfsleyfi í heimalandi. Hafi niðurstaða hjúkrunarfræðideildar verið sú að umsækjandi uppfyllti ekki kröfur sem gerðar væru til að öðlast starfsleyfi sem hjúkrunarfræðingur á Íslandi.

Niðurstaða embættisins var því sú að ekki væri séð að heimilt væri að veita kæranda starfsleyfi sem hjúkrunarfræðingur þar sem skilyrði 3. og 12. gr. reglugerðar nr. 512/2013 væru ekki uppfyllt.

VI. Niðurstaða ráðuneytisins.

Kæran lýtur að synjun Embættis landlæknis um útgáfu á starfsleyfi sem hjúkrunarfræðingur til handa kæranda. Kærandi fer fram á að sér verði veitt starfsleyfi sem hjúkrunarfræðingur.

Í kæru og andmælabréfi kemur fram að kærandi hafi hug á að stunda MS-nám við Háskóla Íslands, en það strandi á starfsleyfi.

Forsaga málsins og málavextir eru þeir að þann 5. desember 2012 sendi kærandi umsókn til Embættis landlæknis um starfsleyfi sem hjúkrunarfræðingur, en kærandi hafði áður fengið útgefið starfsleyfi sem sjúkraliði þann 11. desember 2009. Umsókn um starfsleyfi sem hjúkrunarfræðingur  ásamt gögnum var send til umsagnar til hjúkrunarfræðideildar heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands. Niðurstaða umsagnarnefndar var sú að kærandi uppfyllti skilyrði menntunar til að hljóta starfsleyfi sem hjúkrunarfræðingur hér á landi, en kærandi hafði ekki lagt fram starfsleyfi frá því ríki er hún kemur frá, þ.e. Filippseyjum, en skv. 1. mgr. 12. gr. reglugerðar um menntun, réttindi og skyldur hjúkrunarfræðinga og skilyrði til að hljóta starfsleyfi og sérfræðileyfi, nr. 512/2013, er það skilyrði. Þá hafði kærandi ekki lagt fram gögn um að hún hefði starfað sem hjúkrunarfræðingur frá útskrift árið 1994, þ.e. síðastliðin tuttugu ár.

Ástæða þess að kærandi getur ekki lagt fram starfsleyfi frá Filippseyjum er að til að öðlast starfsleyfi sem hjúkrunarfræðingur þar, þurfi þriggja mánaða nám sem ljúki með prófi og eigi kærandi ekki kost á að fara til Filippseyja til að uppfylla kröfur þar í landi til að öðlast starfsleyfi sem hjúkrunarfræðingur. Skýringar kæranda á því hvers vegna ekki var sótt um starfsleyfi á Filippseyjum við útskrift árið 1994, eru meðal annars þær að það hafi farist fyrir af ýmsum persónulegum ástæðum, en þar hafi vegið þyngst […].

Þann 1. nóvember 2014 kærði kærandi ákvörðun embættisins um útgáfu starfsleyfis sem hjúkrunarfræðingur, dags. 23. október 2014, til velferðarráðuneytisins.

Í 3. gr. reglugerðar um menntun, réttindi og skyldur hjúkrunarfræðinga og skilyrði til að hljóta starfsleyfi og sérfræðileyfi, nr. 512/2013, með síðari breytingum, eru tilgreind eftirfarandi skilyrði fyrir veitingu starfsleyfis:

Leyfi skv. 2. gr. má veita þeim sem lokið hafa BS-prófi í hjúkrunarfræði frá hjúkrunarfræði­deild heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands eða heilbrigðisvísindasviði Háskólans á Akureyri.

Einnig má staðfesta starfsleyfi frá ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) og Sviss eða veita starfsleyfi á grundvelli menntunar frá fyrrgreindum ríkjum. Um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi hjúkrunarfræðings sem uppfyllir skilyrði tilskipunar 2005/36/EB, um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi, með síðari breytingum, fer samkvæmt reglugerð um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi heilbrigðisstarfsmanna frá öðrum EES-ríkjum, nr. 461/2011.Þá er heimilt að veita starfsleyfi þeim sem lokið hafa sambærilegu prófi frá menntastofnun í ríki utan EES eða Sviss sem viðurkennd er sem slík af heilbrigðisyfirvöldum hér á landi og heilbrigðisyfirvöldum þess ríkis þar sem námið var stundað.

Um frekari skilyrði fyrir veitingu starfsleyfis fer skv. 12. gr.

Í 1. mgr. 12. gr. reglugerðarinnar þar sem kveðið er á um frekari skilyrði fyrir veitingu starfsleyfis og sérfræðileyfis segir:

Umsækjandi um starfsleyfi sem hjúkrunarfræðingur skv. 2. gr. og sérfræðileyfi í hjúkrun skv. 5. gr. frá ríki utan EES og Sviss sem Ísland hefur ekki samið við um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi skal meðal annars leggja fram gögn um ríkisfang, innihald náms og námslengd, ásamt prófskírteini, starfsleyfi ef starfsgreinin er löggilt í því ríki sem umsækjandi kemur frá, fyrirhuguð störf hér á landi svo og önnur gögn og vottorð sem landlæknir telur nauðsynleg vegna útgáfu starfsleyfis.

Að mati ráðuneytisins uppfyllir kærandi skilyrði um menntun skv. 3. gr. og leggur þar til grundvallar umsögn hjúkrunarfræðideildar heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands. Aftur á móti uppfyllir kærandi ekki skilyrði 1. mgr. 12. gr., þar sem um er að ræða umsækjendur frá ríkjum utan EES og Sviss. Samkvæmt ákvæðinu skulu umsækjendur leggja fram starfsleyfi ef starfsgrein er löggilt í því ríki sem umsækjandi kemur frá. Kærandi hefur ekki lagt fram slíkt starfsleyfi.

Með vísan til framanritaðs er ljóst að kærandi uppfyllir ekki skilyrði reglugerðar nr. 512/2013 og er synjun landlæknis á útgáfu starfsleyfis sem hjúkrunarfræðingur til handa kæranda staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun landlæknis um synjun á útgáfu starfsleyfis sem hjúkrunarfræðingur til handa A, er staðfest.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta