Hoppa yfir valmynd
25. febrúar 2014 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Kæra vegna ákvörðunar tollstjóra að endurgreiða ekki virðisaukaskatt

[…]
[…]
[…]
[…]

Reykjavík 25. febrúar 2014
Tilv.: FJR13100089/16.2.2



Ráðuneytið vísar til kæru sem dagsett er 21. október 2013. Kærandi er [sveitarfélag].

Kærandi krefst þess að ráðuneytið felli úr gildi ákvörðun tollstjóra um að endurgreiða ekki virðisaukaskatt vegna kaupa Slökkviliðs [sveitarfélagsins] á ökutækjum og búnaði til brunavarna, brunamála eða mengunarvarna sbr. 9. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1998 af eftirfarandi reikningum:

Söluaðili

Reikningsnr.

Virðisaukaskattur

Dags

Skýring

RadíóRaf

12047

111.199

23.3.2012

Breyting á bíl

66°Norður

Srn153483

3.319

31.1.2012

Flíspeysa

Tinsmíði ehf.

1

1.020

2.2.2012

Leðurbelti

66°Norður

Srn155590

9.728

2.3.2012

Flíspeysa

66°Norður

Srn154748

11.019

20.2.2012

T bolir

Vinnuföt ehf.

73911

7.640

29.3.2012

Skyrtur

Vinnuföt ehf.

75288

4.432

16.5.2012

Skyrtur

Vinnuföt ehf.

76033

2.547

6.6.2012

Buxur

Tinsmíði ehf.

40

3.060

20.6.2012

Leðurbelti

Vinnuföt ehf.

76033

2.547

6.6.2012

Buxur

Vinnuföt ehf.

76965

27.525

29.6.2012

Sjúkraflutningagallar

Vinnuföt ehf.

78518

5.095

24.8.2012

Buxur

Eyfeld ehf.

1844

4.814

14.8.2012

Slökkviliðshúfa

Vinnuföt ehf.

79101

21.022

11.9.2012

Undirfatnaður

Vinnuföt ehf.

79645

9.170

26.9.2012

Skyrtur og buxur

 

 

224.137 samtals

 

 




Málavextir og málsástæður.
Í kæru rekur kærandi forsögu málsins en þann 13. desember 2012 sótti [sveitarfélagið] um endurgreiðslu virðisaukaskatts af innflutningi og kaupum á ökutækjum og búnaði til brunvarna, brunamála eða mengunarvarna á grundvelli 7. mgr. (sic) 42. gr. laga nr. 50/1998 um virðisaukaskatt. Tollstjóri afgreiddi erindið með endurgreiðslu að hluta en það sem eftir stóð nam 413.282 kr. Tollstjóri fór fram á frekari rökstuðning og tilvísun í þann tölulið 7. mgr. (sic) 42. gr. sem kærandi taldi endurgreiðslu eftirstöðvanna byggja á þann 6. júní 2013. Eftir að kærandi færði fram frekari rökstuðning fyrir erindi sínu tók embætti Tollstjóra ákvörðun um 44.685 kr. endurgreiðslu til viðbótar. Embættið hafnaði þó enn að endurgreiða virðisaukaskatt m.a. vegna kaupa á einkennisfatnaði, íþróttafatnaði, sjúkraflutningagöllum, undirfatnaði undir reykköfunargalla og léttum yfirhöfnum fyrir slökkviliðið.
Í kæru sinni til ráðuneytisins færir kærandi fram rök fyrir beiðni sinni um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna þeirra kaupa sem tollstjóri féllst ekki á.
Annars vegar er um að ræða búnað sem keyptur var og settur í Toyota Raf bifreið slökkviliðsins. Er bifreiðin notuð í útköll og var breytt þannig að hún gæti fengið forgang í umferð og sett í hana tetra talstöð, loftnet og tilheyrandi forgangsbúnaður. Kærandi styðst við 1. tl. 7. mgr. (sic) áðurnefndrar 42. gr. laga nr. 50/1998 þar sem segir að endurgreiða skuli virðisaukaskatt af kaupum á björgunarbifreiðum. Í stað þess að kaupa bifreið með þeim útbúnaði sem þarf fyrir slökkvilið var venjuleg bifreið keypt og nauðsynlegum búnaði síðan bætt við seinna. Kærandi telur að eðlilegt sé að virðisaukaskattur verði endurgreiddur þar sem um kaup var að ræða á nauðsynlegum breytingum til þess að nýta mætti bifreiðina til slökkvistarfa og mannflutninga. Verði ekki talið að 1. tl. 7. mgr. (sic) 42. gr. eigi við þá telur kærandi að endurgreiðslan geti réttlæst af 5. tl. eða 2. tl. sömu málsgreinar þar sem tilgreind er endurgreiðsla í fyrsta lagi vegna tækjabúnaðar sem notaður er vegna mengunaróhappa og fjarskiptabúnaðar fyrir slökkvilið og í öðru lagi vegna slökkvidæla, reykblásara, rafstöðva, slanga og annars tilheyrandi búnaðar. Telur kærandi að kaup og ísetning tetrafjarskiptabúnaðar geti fallið undir 5.tl. og kaup og ísetning á forgangsljósum geti fallið undir 2. tl.

Hins vegar er um að ræða ýmis konar fatnað sem [sveitarfélagið] útvegaði starfsmönnum slökkviliðs síns. Telur kærandi að virðisaukaskattur vegna kaupa á fatnaðinum skuli endurgreiddur og styðst við 4. tl. 7. mgr. (sic) 42. gr. laga nr. 50/1998 þar sem hann teljist ytri hlífðarfatnaður vegna slökkvistarfa og mengunaróhappa.

Afstaða tollstjóra.
Í umsögn sinni til ráðuneytisins sem er dagsett 25. nóvember 2013 rökstyður embætti tollstjóra höfnun sína á endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna áðurnefnds fatnaðar og breytingar bifreiðarinnar. Telur embættið að ísetning búnaðarins í bifreiðina geti ekki fallið undir 1. tl. 7. mgr. (sic) 42. gr. laga um virðisaukaskatt þar sem ákvæðið heimili aðeins endurgreiðslu af kaupum eða innflutningi af þar tilgreindum bifreiðum en ekki vegna breytinga eða viðhalds slíkra bifreiða.
Þá telur tollstjóri að varakröfur kæranda eigi heldur ekki við rök að styðjast. Endurgreiðsla vegna ísetningar tetrafjarskiptabúnaðar geti ekki byggst á 5. tl. 7. mgr. (sic) 42. gr. þar sem tilgreind er endurgreiðsla virðisaukaskatts af tækjabúnaði sem notaður er vegna mengunaróhappa og fjarskiptabúnaði fyrir slökkvilið. Heimildin taki aðeins til fjarskiptabúnaðarins sjálfs en ekki ísetningar hans. Ennfremur geti 2. tl. sömu málsgreinar ekki átt við um ísetningu forgangsljósanna. Tollstjóri hafnar einnig beiðni kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna kaupa ýmiss konar fatnaðar og telur þann fatnað sem um ræðir ekki falla undir 4. tl. 7. mgr. (sic) 42. gr. laga um virðisaukaskatt. Til þess að svo myndi vera þyrfti hugtakið ytri hlífðarfatnaður sem fram kemur í ákvæðinu að ná til umrædds fatnaðar. Tollstjóri telur að einungis geti verið um að ræða ytri hlífðarklæðnað sem notaður er við slökkviliðsstörf eða mengunaróhöpp. Hinn umdeildi fatnaður er undirföt , íþróttaföt og einkennisbúningar og telst því ekki uppfylla þessi skilyrði.

Forsendur
Í 42. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt koma fram heimildir til endurgreiðslu virðisaukaskatts í þeim tilvikum sem upp eru talin í ákvæðinu. Í 9. mgr. 42. gr. kemur fram að endurgreiða skuli virðisaukaskatt til sveitarfélaga og stofnana eða félaga sem alfarið eru í eigu þeirra og sinna lögbundnu hlutverki sveitarfélags á sviði brunavarna, brunamála eða mengunarvarna vegna innflutnings eða kaupa á þeim ökutækjum og tækjabúnaði sem talin eru upp í 1.-5. tl. ákvæðisins. Í kæru og umsögn tollstjóra er ranglega vísað til 7. mgr. 42. gr.
Endurgreiða skal virðisaukaskatt af innflutningi eða kaupum á eftirfarandi ökutækjum og tækjabúnaði:
skv. 1. tl. 9. mgr. 42. gr., dælubifreiðum, tækjabifreiðum, vatnsflutningabifreiðum, björgunarbifreiðum og stiga- og ranabifreiðum.
skv. 2. tl. 9. mgr. 42. gr., slökkvidælum, reykblásurum, rafstöðvum, slöngum, börkum, tækjum og öðrum tilheyrandi búnaði.
skv. 3. tl. 9. mgr. 42. gr., klippum, glennum, tjökkum, dælum og öðrum tilheyrandi björgunarbúnaði sem notaður er við björgun á fastklemmdu fólki úr mannvirkjum og farartækjum.
skv. 4. tl. 9. mgr. 42. gr., ytri hlífðarfatnaði vegna slökkvistarfa og mengunaróhappa sem og reykköfunartækjum og tækjabúnaði þeim tengdum.
skv. 5. tl. 9. mgr. 42. gr., tækjabúnaði sem notaður er vegna mengunaróhappa og fjarskiptabúnaði fyrir slökkvilið svo sem boðtækjum, talstöðvum og farsímum.

Niðurstaða

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, skal greiða virðisaukaskatt af viðskiptum innan lands á öllum stigum. Meginreglan er sú að greiða skal virðisaukaskatt af öllum vörum. Viðtekin venja er að undantekningarákvæði skattalaga skuli almennt túlkuð þröngri lögskýringu og a.m.k. ekki rýmri skýringu en felst í beinu orðalagi þeirra sbr. úrskurð yfirskattanefndar nr. 319/1997.
Kaup á ísetningu á ýmsum búnaði fyrir slökkvilið í Toyota Raf bifreið þess getur ekki flokkast sem kaup eða innflutningur á þeim bifreiðum sem taldar eru upp í 1. tl. 9. mgr. 42. gr. laga um virðisaukaskatt. Ákvæðið veitir ekki heimild til endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna breytinga sem gerðar eru á bifreiðum og er það óháð því hvort um bifreið sem talin er upp í ákvæðinu er að ræða eða annars konar bifreið.
Að sama skapi veitir 5. tl. 9. mgr. 42. gr. laganna ekki heimild til endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna þeirrar vinnu sem felst í því að koma tetrafjarskiptabúnaði fyrir í bifreið. Ákvæðið tekur einungis til kaupa á tækjabúnaðinum sjálfum sem nefndur er í ákvæðinu. Sá reikningur sem kærandi vísar til er vegna ísetningar búnaðarins en ekki vegna kaupa á búnaðinum sjálfum.
Loks fer kærandi fram á að virðisaukaskattur vegna ísetningar forgangsljósa skuli endurgreiddur á grundvelli 2. tl. 9. mgr. 42. gr. laganna. Sá búnaður sem talinn er upp í því ákvæði er slökkvidælur, reykblásarar, rafstöðvar, slöngur, barkar, tæki og annar tilheyrandi búnaður. Ákvæðið heimilar ekki endurgreiðslu vegna þeirrar vinnu sem felst í því að festa þessi tæki á bifreið. Ísetning forgangsljósanna verður því ekki felld undir ákvæðið.
Reikningur frá RadíóRaf er að mestu leyti vegna þjónustu við bifreið kæranda. Til þess að endurgreiða megi virðisaukaskatt vegna kaupa á búnaði þarf hann að vera nauðsynlegur til slökkvistarfa eins og fram kemur í umfjöllun í greinagerð með frumvarpi breytingarlaga nr. 69/2012. Meðal þeirra vara sem kærandi keypti af RadíóRaf voru festing fyrir gjallarhorn og sírenur, blá blikkljós og ljóskastarar til að auka öryggi í neyðarakstri. Ekki er útilokað að þessi tæki geti verið nauðsynleg til slökkvistarfa við ákveðnar aðstæður og falli því undir 2. tl. 9. mgr. 42. gr. laganna enda eru þau tæki sem falla undir ákvæðið ekki nánar tilgreind.
Kærandi krefst endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna kaupa á fatnaði á grundvelli ákvæðis 4. tl. 9. mgr. 42. gr. laga um virðisaukaskatt. Undir ákvæðið fellur einungis ytri hlífðarfatnaður sem nauðsynlegur er vegna starfa slökkviliðs eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 69/2012. Þau föt sem um ræðir eru í fyrsta lagi ýmis undirföt og bolir sem ekki er hægt að skilgreina sem ytri hlífðarföt. Í öðru lagi er um að ræða flíspeysur og buxur sem ekki geta talist ytri hlífðarföt. Í þriðja lagi eru reikningar vegna slökkviliðshúfa og leðurbeltis sem er hluti af einkennisbúningi og er ekki ytri hlífðarfatnaður og að lokum sjúkraflutningagalla sem ekki getur talist nauðsynlegur hlífðarfatnaður til slökkvistarfa.

Úrskurðarorð

Ákvörðun tollstjóra um að hafna endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna kaupa þeirra vara og þjónustu sem [sveitarfélagið] tilgreinir í áðurnefndum reikningum er staðfest að því frátöldu að kaup á festingu fyrir gjallarhorn og sírenur, bláum blikkljósum og ljóskösturum til að auka öryggi í neyðarakstri að fjárhæð án vsk. kr. 139.055 teljast falla undir ákvæði 2. tl. 9. mgr. 42. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 og skal því endurgreiða [sveitarfélaginu] vsk. að upphæð kr. 35.459.

 

Fyrir hönd ráðherra




Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta