Nr. 23/2021 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 22. janúar 2021 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 23/2021
í stjórnsýslumáli nr. KNU20110062
Kæra [...]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Þann 24. nóvember 2020 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 9. nóvember 2020, um að synja henni um ótímabundið dvalarleyfi.
Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að henni verði veitt ótímabundið dvalarleyfi.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi fékk fyrst útgefið dvalarleyfi hér á landi á grundvelli hjúskapar með íslenskum ríkisborgara þann 9. september 2016. Var það leyfi endurnýjað nokkrum sinnum, síðast með gildistíma til 13. júní 2020. Þann 5. maí 2020 sótti kærandi um ótímabundið dvalarleyfi. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 9. nóvember 2020, var umsókninni synjað. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála þann 24. nóvember 2020 en meðfylgjandi kæru voru greinargerð og fylgigögn.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Í hinni kærðu ákvörðun vísar Útlendingastofnun til ákvæðis 58. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt túlkun kærunefndar útlendingamála leiði af orðalagi a-liðar 1. mgr. 58. gr. að mat á því hvort umsækjandi uppfylli áfram skilyrði dvalarleyfis miðist við þann tíma sem umsókn sé lögð fram. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi lögskilnaður kæranda og þáverandi maka hennar verið skráður í þjóðskrá þann 23. janúar 2020 en stofnunin hefði móttekið umsókn kæranda um ótímabundið dvalarleyfi þann 5. maí 2020. Var það mat Útlendingastofnunar að kærandi uppfyllti ekki skilyrði a-liðar 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga og var umsókn hennar því synjað. Fram kom að kæranda hefði ekki verið gefinn kostur á að tjá sig um efni máls, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga um útlendinga, enda hefði slíkt verið augljóslega óþarft þar sem fyrir lægi skráning í þjóðskrá um lögskilnað hennar og fyrrverandi maka.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í greinargerð vísar kærandi til þess að hún hafi gengið í hjúskap í febrúar 2016 í [...] með fyrrverandi eiginmanni sínum, en hann hafi þá verið með lögheimili hér á landi. Hafi kærandi flutt hingað til lands skömmu síðar og hafi þau búið saman þar til kærandi leitaði skjóls í Kvennaathvarfinu vegna ofbeldis af hálfu maka síns. Hafi kærandi bókað tíma hjá embætti sýslumanns eftir samvistarslitin til að gera kröfu um skilnað og þann 24. október 2019 hafi hún fengið þær leiðbeiningar að hún fengi ekki skilnaðarleyfi fyrr en eignaskiptum aðila væri lokið. Þá hafi komið fram að eiginmaður hennar vildi ekki ganga frá skilnaði þeirra hér á landi þar sem ákvæði laga í [...] um eignaskipti væru honum hagstæðari. Hafi kærandi af þessum sökum leitað sátta en án árangurs. Hafi fyrrverandi maki hennar fengið dóm um skilnað frá dómstólum í [...] án hennar aðkomu og fengið skilnaðinn skráðan í þjóðskrá án hennar aðkomu. Sé mál hennar gagnvart fyrrverandi maka nú rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og bíði efnismeðferðar sem sé á dagskrá í janúar 2021.
Kærandi byggir á því að hún eigi rétt á ótímabundnu dvalarleyfi skv. 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga þar sem hún hafi uppfyllt öll skilyrði við umsókn. Þá hafi hún enn verið í hjónabandi og eignaskiptamáli hennar ólokið að íslenskum lögum og að auki hafi hún ekki haft vitneskju um að fyrrverandi maki hafi látið skrá erlendan dóm sem skilnaðarheimild aðila í Þjóðskrá Íslands. Jafnframt hafi hún við umsókn enn verið með skráð sama lögheimili og fyrrum maki auk þess sem fráleitt sé að miða lok hjúskapar við hinn erlenda dóm, þar sem veittur hafi verið skilnaður án hennar fulltingis. Auk þess séu fjölmargar rangfærslur um staðreyndir í hinni erlendu dómsúrlausn, s.s. um búsetu aðila og annað þannig að ekki sé byggjandi á henni um lögskipti aðila, skilnað, eignaskipti eða annað. Kærandi bendir á að hún hafi yfirgefið heimili aðila vegna hegðunar fyrrverandi maka. Þá geti hún ekki flutt aftur til upprunalands síns þar sem staða fráskilinna kvenna þar sé mjög erfið, þær eigi erfitt með að fá vinnu og sjá fyrir sér, það sé litið niður á þær og þær sæti fyrirlitningu og jafnvel ofbeldi. Kærandi sé í vinnu hjá [...], hafi fest rætur hér á landi og þekki marga sem hafi veitt henni aðstoð. Hún geti vel séð sér farboða og hyggist tryggja sér húsnæði til frambúðar þegar eignaskiptum er lokið.
Loks gerir kærandi kröfu um að henni verði veitt undanþága frá skilyrðum 1. mgr. 58. gr., sé hún ekki talin uppfylla þau, samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins með vísan til atvika málsins og þeirrar neyðaraðstöðu sem kærandi hafi verið í við sambandsslit og þeirra aðstæðna sem bíði hennar verði henni gert að snúa aftur til heimaríkis. Verði ekki fallist á erindið eins og því er lýst að framan, óskar kærandi eftir því að henni verði veitt dvalarleyfi á Íslandi vegna sérstakra aðstæðna.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Samkvæmt gögnum málsins var kærandi samfellt með gild dvalarleyfi frá 9. september 2016 til 13. júní 2020. Þá hefur kærandi haft til meðferðar umsókn sína um ótímabundið dvalarleyfi frá 5. maí 2020.
Samkvæmt 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi ótímabundið dvalarleyfi hafi hann dvalist hér á landi samfellt síðustu fjögur ár samkvæmt dvalarleyfi sem geti verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis. Um nánari skilyrði fyrir veitingu ótímabundins dvalarleyfis er m.a. mælt fyrir um í a – e-liðum 1. mgr. 58. gr. laganna. Af orðalagi ákvæðis 1. mgr. 58. gr. má ráða að útlendingur sem sækir um ótímabundið dvalarleyfi þurfi almennt að uppfylla skilyrði a – e-liða 1. mgr. til að fá útgefið leyfið. Samkvæmt a-lið ákvæðisins er skilyrði fyrir veitingu ótímabundins dvalarleyfis að útlendingur uppfylli áfram skilyrði dvalarleyfis þegar hann sækir um ótímabundið dvalarleyfi.
Í gögnum málsins er að finna afrit úr hjónaskilnaðarbók Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu þar sem fram kemur að þann 24. október 2019 hafi verið tekið til meðferðar fyrir mál kæranda þar sem hún krefst lögskilnaðar frá maka og að hjónin hafi slitið samvistum í lok júlí 2019. Samkvæmt upplýsingum úr Þjóðskrá Íslands skildu kærandi og fyrrverandi maki hennar að lögum þann 23. janúar 2020. Á vefsíðu þjóðskrár kemur fram að tilkynningar um skilnað að borði og sæng og lögskilnað berast frá sýslumönnum og dómstólum. Ef gengið er frá skilnaði að borði og sæng og lögskilnaði erlendis þarf að skila til stofnunarinnar frumriti af gögnum, þ.e. löggilda skjalaþýðingu, apostille vottun eða keðjustimplun auk fullnægjandi umboðs. Fyrirliggjandi í gögnum málsins er endurrit dóms frá dómstóli í [...], dags. 23. janúar 2020 sem vottaður var þann 6. febrúar s.á. Með dóminum var fallist á kröfu [...], fyrrverandi maka kæranda, um lögskilnað. Það er ekki á forræði kærunefndar útlendingamála að skera úr um gildi erlendra dómsskjala er varða lögskilnað og mat Þjóðskrá Íslands skjalið gilt og breytti skráningu kæranda og maka hennar til samræmis við það.
Án tillits til þessa er ljóst að kærandi hefur í rúmt ár ekki búið á sama heimili og fyrrverandi maki hennar. Samkvæmt 7. mgr. 70. gr. laga um útlendinga skulu makar hafa fasta búsetu á sama stað í samræmi við ákvæði laga um lögheimili og aðsetur en heimilt er að víkja frá umræddu ákvæði ef sérstakar tímabundnar ástæður eru fyrir hendi. Með vísan til þess að kærandi hefur sjálf sótt um lögskilnað er ljóst að ekki er um tímabundið ástand að ræða og uppfyllti kærandi því ekki skilyrði a-liðar 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga þegar hún sótti um ótímabundið dvalarleyfi og þá án tillits til þeirrar staðreyndar að þá lá fyrir dómur [...] dómstóls um skilnað hennar og fyrrverandi eiginmanns hennar.
Hvað varðar kröfu kæranda um beitingu 2. mgr. 58. gr. laga um útlendinga er þar ekki að finna undanþágu er tekur til aðstæðna kæranda heldur aðeins til tilvika sem réttlæta að vikið sé frá skilyrðum um framfærslu og um samfellda dvöl síðustu fjögur ár í nánar tilgreindum tilvikum. Á ákvæðið því bersýnilega ekki við í máli kæranda.
Mál kæranda fyrir kærunefndinni lýtur að umsókn um ótímabundið dvalarleyfi og verða skilyrði fyrir veitingu annars konar dvalarleyfis skv. ákvæðum laga um útlendinga því eðli máls samkvæmt ekki skoðuð frekar hjá kærunefnd.Með vísan til framangreinds er ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest.
Í samræmi við leiðbeiningar Útlendingastofnunar er kæranda leiðbeint um að sækja um nýtt dvalarleyfi innan 15 daga frá móttöku úrskurðarins. Samkvæmt þeim gögnum sem liggja fyrir hjá kærunefnd kann kærandi að uppfylla skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis samkvæmt 78. gr. laga um útlendinga og þá eftir atvikum í samræmi við b-lið 9. mgr. 70. gr. sömu laga. Með þessum leiðbeiningum hefur kærunefnd þó ekki tekið afstöðu til þess hvort skilyrðin eru uppfyllt. Sæki kærandi ekki um dvalarleyfi að nýju ber henni að yfirgefa landið innan 30 daga frá móttöku úrskurðarins. Athygli kæranda er vakin á því að ef hún yfirgefur ekki landið innan frestsins kann að vera heimilt að brottvísa henni, sbr. a-lið 1. mgr. og a-lið 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.
The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.
Tómas Hrafn Sveinsson
Gunnar Páll Baldvinsson Sandra Hlíf Ocares