Hoppa yfir valmynd
26. nóvember 1998 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 60/1998

Á L I T

K Æ R U N E F N D A R  F J Ö L E I G N A R H Ú S A M Á L A

 

Mál nr. 60/1998

 

Skipting kostnaðar: Einangrun milli hæða.

 

I. Málsmeðferð kærunefndar.

Með bréfi, dags. 26. ágúst 1998, beindi A, X nr. 25, hér eftir nefndur álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B, X nr. 25, hér eftir nefndur gagnaðili.

Erindið var lagt fram á fundi nefndarinnar 28. október 1998. Áður hafði gagnaðila verið gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.

Greinargerð gagnaðila, dags. 7. september 1998, og athugasemdir álitsbeiðanda, ódags., en mótt. 14. september sl., voru lagðar fram á fundi kærunefndar 28. október sl. Á fundi nefndarinnar 26. nóvember sl. var málið tekið til úrlausnar.

 

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni.

Um er að ræða fjölbýlishúsið X nr. 25. Húsið skiptist í þrjá eignarhluta, þ.e. kjallara í eigu álitsbeiðanda (20%), 1. hæð í eigu gagnaðila (45%) og ris (35%).

 

Kröfu álitsbeiðanda verður að skilja þannig:

Að álitsbeiðandi geti krafist þess að hljóðeinangrað verði milli kjallara og 1. hæðar og kostnaður vegna þess skiptist að jöfnu milli aðila.

 

Í álitsbeiðni kemur fram að engin einangrun sé milli gólfklæðningar á 1. hæð og loftklæðningar í kjallara. Verulegur hljóðburður sé því á milli hæða og ennfremur tapist mikill hiti upp um loftið. Gagnaðili hafi neitað að taka þátt í kostnaði við að blása steinull í holrúmin á milli hæðanna. Steinull sé talin mjög góð hljóðeinangrun og um leið hitaeinangrun. Þá bendir álitsbeiðandi á að þar sem lofthæðin sé einungis 2,07 m leyfi hún ekki einangrun að neðanverðu.

Af hálfu gagnaðila er á það bent að húsið sé timburhús og sé tvöfalt þil á milli hæða. Ljóst sé að hljóðbært sé í timburhúsum og slíks beri að vænta þegar keypt sé eign í slíku húsi. Eðlilegt verði því að teljast að það marri aðeins og heyrist á milli hæða. Álitsbeiðandi hafi átt að gera sér grein fyrir því er hann keypti eign sína. Gagnaðili hafnar því alfarið að taka þátt í framkvæmdum sem hann telur óþarfar í slíku húsi.

 

III. Forsendur.

Samkvæmt 2. tl. 8. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús er allt burðarvirki húss sameign. Telja verður að gólf milli hæða sé hluti burðarvirkis húss og því sameign allra eigenda þess á sama hátt og t.d. neðsta plata á jarðfyllingu og þak. Kostnaður vegna einangrunar slíks gólfs verður að teljast sameiginlegur og ber að skipta honum í samræmi við hlutfallstölur eignarhluta, sbr. meginreglu A-liðar 45. gr. laga nr. 26/1994, enda getur slík framkvæmd hvorki fallið undir undantekningarákvæði B- né C-liðar 45. gr.

Ákvörðun um einangrun gólfs í húsinu er málefni húsfundar, sbr. 39. gr. laga nr. 26/1994. Með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum um ástand gólfsins getur nefndin ekki lagt mat á hvort álitsbeiðandi geti upp á sitt einsdæmi krafist úrbóta á einangrun milli kjallara og 1. hæðar. Um þetta álitsefni verður því ekki fjallað í máli þessu.

 

IV. Niðurstaða.

Það er álit kærunenfndar að kostnaður við einangrun milli kjallara og 1. hæðar að X nr. 25 skuli skipt í samræmi við hlutfallstölur eigenda verði lögmæt ákvörðun tekin um slíka framkvæmd.

 

 

Reykjavík, 26. nóvember 1998.

 

 

Ingibjörg Benediktsdóttir

Benedikt Bogason

Pálmi R. Pálmason

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta