Hoppa yfir valmynd
27. júní 1998 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 25/1998

Á L I T

K Æ R U N E F N D A R  F J Ö L E I G N A R H Ú S A M Á L A

 

Mál nr. 25/1998

 

Ákvörðunartaka,skipting kostnaðar: stigagangur.

 

I. Málsmeðferð kærunefndar.

Með bréfi, dags. 21. janúar 1998, en mótteknu 14. apríl s.á., beindu A og B, X nr. 66, hér eftir nefnd álitsbeiðendur, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við C, Y nr. 127, hér eftir nefndur gagnaðili.

Erindið var lagt fram á fundi nefndarinnar 24. apríl 1998. Samþykkt var að gefa gagnaðila kost á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum, í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.

Greinargerð gagnaðila, dags. 5. maí 1998, var lögð fram á fundi nefndarinnar 27. maí sl. og málið tekið til úrlausnar.

 

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni.

Um er að ræða fjölbýlishúsið X nr. 66. Í húsinu eru 4 eignarhlutar, þ.e. íbúð í kjallara, íbúð á 1. hæð sem er í eigu gagnaðila og íbúðir á 2. og 3. hæð sem eru í eigu álitsbeiðenda. Ágreiningur er um þátttöku í kostnaði vegna viðgerða og málun á stigagangi.

 

Krafa álitsbeiðenda er:

Að viðurkennt verði að gagnaðila beri að greiða kostnað vegna viðgerða og málunar á stigagangi.

 

Í álitsbeiðni kemur fram að mjög aðkallandi hafi verið orðið að gera við og mála stigagang hússins. Álitsbeiðendur hafi verið sammála um að fara út í framkvæmdir, en gagnaðili hafi verið því mótfallinn þar sem hann væri að selja íbúð sína í húsinu. Álitsbeiðendur hafi því ákveðið að láta framkvæma nauðsynlega viðgerð þrátt fyrir neitun gagnaðila. Að framkvæmd lokinni hafi gagnaðili neitað að greiða sinn hluta af kostnaðinum á þeim forsendum að til löglegs húsfundar hefði ekki verið boðað. Álitsbeiðendur vísa til 5. mgr. 40. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús máli sínu til stuðnings.

Í greinargerð gagnaðila er því haldið fram að aðeins einu sinni hafi verið haft samband við hann símleiðis og spurt hvort hann vildi fara út í óljósar framkvæmdir. Engin tilraun hafi verið gerð til þess að boða til húsfundar þar sem málin yrðu rædd og reynt yrði að fá tilboð í verkið. Svo virðist sem annar álitsbeiðenda hafi fengið son sinn til þess að mála stigaganginn. Í málinu liggi reikningur fyrir framkvæmdunum að fjárhæð kr. 26.894. Reikningnum fylgi hvorki tímaseðlar né önnur sundurliðun. Þá sé ekki tilgreint hve mikill hluti af heildarkostnaðinum þessi upphæð sé. Gagnaðili telur að vinnubrögð af þessu tagi séu með öllu óásættanleg.

 

III. Forsendur.

Sú meginregla gildir samkvæmt lögum um fjöleignarhús, að sameiginlegar ákvarðanir ber að taka á húsfundum, sbr. 4. mgr. 39. gr. laganna. Tilgangur þessa ákvæðis er að eigendum gefist kostur á að mæta og taka þátt í umræðum, ákvörðun og atkvæðagreiðslu.

Sé ákvörðun tekin án samráðs við alla eigendur eða án þess að öllum sé gefinn kostur á að vera með í ákvarðanatöku, getur sá aðili, sem ekki var með í ákvarðanatökunni, krafist þess að framkvæmd verði stöðvuð og neitað að greiða hlutdeild í kostnaði vegna hennar, sbr. 2. mgr. 40. gr. laganna. Í málinu er óumdeilt að í framkvæmdir var ráðist án þess að húsfundur væri haldinn. Þar af leiðandi gafst gagnaðila ekki færi á að gæta hagsmuna sinna við hana. Þar sem ranglega var staðið að ákvarðanatöku um framkvæmdirnar gagnvart gagnaðila að þessu leyti verður að telja að honum sé rétt að neita greiðslu kostnaðar við þær.

Kærunefnd telur ekki skilyrði til beitingar undantekningarákvæðis 5. mgr. 40. gr. laga nr. 26/1994, svo sem álitsbeiðendur byggja á.

 

IV. Niðurstöður.

Það er álit kærunefndar að ranglega hafi verið staðið að ákvarðanatöku varðandi framkvæmdirnar og gagnaðili geti því neitað að greiða sinn hlut framkvæmdanna.

 

 

Reykjavík 27. júní 1998.

 

 

Valtýr Sigurðsson

Guðmundur G. Þórarinsson

Karl Axelsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta