Hoppa yfir valmynd
28. ágúst 2019 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 404/2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 28. ágúst 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 404/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19070029

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 12. júlí 2019 kærði […], fd. […] , ríkisborgari Erítreu (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 8. júlí 2019, um að synja beiðni kæranda um endurupptöku á ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 10. apríl 2019.

Þess er krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka málið til meðferðar á ný.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 20. febrúar 2019. Útlendingastofnun ákvað þann 10. apríl 2019 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að honum skyldi vísað frá landinu. Ákvörðunin var tilkynnt kæranda þann 16. apríl 2019 en ekki kærð til kærunefndar útlendingamála. Þann 11. júní 2019 barst Útlendingastofnun beiðni um endurupptöku máls kæranda hjá stofnuninni. Með ákvörðun, dags. 8. júlí 2019, var beiðni kæranda um endurupptöku málsins hafnað. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 12. júlí 2019 og barst kærunefnd greinargerð kæranda þann 15. júlí 2019.

III.          Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi óskað eftir endurupptöku á umsókn sinni um alþjóðlega vernd þann 11. júní 2019. Niðurstaða Útlendingastofnunar var að ákvörðun í máli kæranda hefði hvorki byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum né atvikum sem breyst hefðu verulega frá því að ákvörðun var tekin þannig að tilefni væri til að endurupptaka mál hans, sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

IV.          Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að Útlendingastofnun hafi synjað að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar hér á landi og að hann skuli endursendur til Möltu á grundvelli a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kæranda hafi verið birt ákvörðun þess efnis þann 16. apríl 2019. Við birtingu hafi kærandi tekið sér 15 daga til að ákveða hvort hann myndi kæra ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála. Kærandi hafi sett sig í samband við talsmann sinn innan þess frests og beðið um að ákvörðunin yrði kærð fyrir hans hönd. Talsmanni hafi hins vegar láðst að kæra ákvörðun Útlendingastofnunar innan þess tíma. Kærandi hafi þá, n.t.t. þann 11. júní, óskað eftir því að Útlendingastofnun tæki mál hans til meðferðar á ný svo að mistök talsmanns yrðu ekki til þess að réttindi hans myndu skerðast.

Krafa kæranda um að taka skuli mál hans upp að nýju er reist á 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Byggir kærandi beiðni sína á því að um sé að ræða íþyngjandi ákvörðun sem skerði réttindi hans um að fá efnislegt svar við umsókn sinni um alþjóðlega vernd á Íslandi á tveimur stjórnsýslustigum.

Þá vísar kærandi til þess að í ákvörðun Útlendingastofnunar, um að synja umsókn hans um alþjóðlega vernd um efnislega meðferð hér á landi, komi fram að hann hafi ekki fyllilega sannað hver hann sé. Kærandi hafi því með beiðni sinni um endurupptöku lagt fram persónuskilríki sitt frá heimalandi sem og afrit af ákvörðun maltnesku flóttamannanefndarinnar þar sem m.a. komi fram að ætlast sé til þess að kærandi leiti skjóls í þriðja landi sem talið sé öruggt land og flytjist þangað. Kærandi vísar enn fremur til þess að hvergi í áðurnefndri ákvörðun maltnesku flóttamannanefndarinnar sé fjallað um rétt kæranda til atvinnu, húsnæðis eða félagslegrar aðstoðar eða aðlögun hans að maltnesku samfélagi, heldur aðeins gefið til kynna að kærandi þurfi að finna leið til að fara frá landinu og leita skjóls í öðru öruggu ríki en ella bíða þess að verða endursendur til heimaríkis.

V.           Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr., eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 24. gr.

Með beiðni um endurupptöku hjá Útlendingastofnun lagði kærandi fram gögn sem ekki lágu fyrir þegar stofnunin tók ákvörðun í máli hans. Um er að ræða persónuskilríki frá heimaríki kæranda, afrit af ákvörðun maltnesku flóttamannanefndarinnar, dags. 28. desember 2013, og sakarvottorð frá maltnesku lögreglunni, dags. 6. febrúar 2019.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var m.a. lagt til grundvallar að kærandi hefði, undir því nafni sem hann kvaðst heita við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun, hlotið málsmeðferð á Möltu vegna umsóknar um alþjóðlega vernd þar í landi og hlotið þar viðbótarvernd. Gögn sem kærandi hefur lagt fram benda ekki til annars en að kærandi sé sá einstaklingur sem hefur hlotið viðbótarvernd á Möltu. Því verður ekki talið að framlögð skilríki geti haft slíka þýðingu við úrlausn málsins að fallist verði á að fyrir ákvörðun Útlendingastofnunar hafi verið byggð á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða atvik hafi breyst verulega frá því ákvörðun var tekin.

Þá lagði kærandi, eins og áður segir, fram ákvörðun maltnesku flóttamannanefndarinnar, dags. 28. desember 2013, en þar koma m.a. fram tilmæli varðandi viðbótarvernd kæranda. Eins og að framan greinir var byggt á þeirri forsendu í ákvörðun Útlendingastofnunar að kærandi hafi hlotið viðbótarvernd á Möltu. Þá kemur ekki fram í nefndu skjali að kærandi eigi að leita skjóls í þriðja ríki, eins og talsmaður kæranda gefur til kynna. Verður því hvorki talið að ákvörðun Útlendingastofnunar hafi, vegna þeirra gagna, verið byggð á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik né að atvik hafi breyst verulega frá því að ákvörðunin var tekin, sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá fær kærunefnd ekki séð hvaða þýðingu sakarvottorð frá maltneskum yfirvöldum getur haft í málinu.

Krafa kæranda um að málið verið endurupptekið og að umsókn hans um alþjóðlega vernd hér á landi skuli tekið til meðferðar á ný er jafnframt byggð á því að vegna mistaka talsmanns hafi kærandi ekki getað nýtt sér kærurétt sinn þrátt fyrir skýran vilja þar um. Ótvírætt er að kærandi, sem nýtur aðstoðar löglærðs talsmanns, hefur ekki lagt fram kæru á ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 10. apríl 2019, heldur eingöngu kæru vegna synjunar á beiðni um endurupptöku, dags. 8. júlí 2019. Kemur því ekki til skoðunar í málinu hvort vísa eigi frá kæru vegna ákvörðunar Útlendingastofnunar um að synja umsókn kæranda um alþjóðlega vernd um efnismeðferð, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Að öðru leyti verður ekki talið að vanræksla talsmanns kæranda sé þess eðlis að kærandi eigi rétt á endurupptöku málsins á þeim grundvelli, sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærufrestur sé fimm dagar. Samkvæmt 7. gr. laga um útlendinga er kærufrestur almennt 15 dagar og ljóst að undanþága ákvæðisins sem mælir fyrir um styttri frest á ekki við. Kærunefnd gerir athugasemd við þessar röngu leiðbeiningar Útlendingastofnunar til kæranda.

Að öllu framangreindu virtu verður staðfest sú ákvörðun Útlendingastofnunar að synja beiðni kæranda um endurupptöku máls hans.

 

 

 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

 

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

 

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

 

Anna Tryggvadóttir                                                                                        Þorbjörg Inga Jónsdóttir

                                                                                             

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta