Sjúkraflug: Tilboðum Mýflugs og Landsflugs tekið
Næstu fimm árin sjá Mýflug og Landsflug um sjúkraflug, en ákveðið var að taka tilboðum félaganna í flugið. Mýflug mun sjá um norðursvæðið og Landsflug Vestmannaeyjasvæðið og er samningstíminn frá 1. janúar 2006 og út árið 2010. Er gert ráð fyrir að framlengja megi samninginn um tvö ár. Af hálfu heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins og Tryggingastofnunar ríkisins verða samningar undirritaðir þegar félögin uppfylla ábyrgðarákvæði útboðs vegna rekstrarins.
Norðursvæðið var í útboðinu stækkað og tekur nú til Vestfjarða, Norðurlands og Austfjarða, þ.m.t. Hornafjarðar. Gerð var krafa um sérútbúna vél í sjúkraflugið og í fyrsta skipti mun nú sérútbúin sjúkraflugvél sinna verkefni sjúkraflugs á norðursvæði. Mýflug mun í þessu sambandi útvega sjúkraflugvél af gerðinni Beechcraft King Air 200C sem staðsett á Akureyri frá vorinu 2006, en notast við aðra vél þangað til.
Sjúkraflugvélin er tveggja hreyfla, búin hverfihreyflum og jafnþrýstibúnaði. Hún mun ávallt standa tilbúin til útkalls eins og sjúkrabifreið á Akureyrarflugvelli. Í flugvélinni verður sérhæfður búnaður til notkunar fyrir heilbrigðisstarfsfólk.
Miðstöð sjúkraflugsins verður áfram á Akureyri, en við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri (FSA) er starfandi flugsveit lækna sem fer í sjúkraflug þegar þörf er á. Jafnframt fara sjúkraflutningamenn frá Slökkviliði Akureyrar í hvert sjúkraflug eins og verið hefur.
Útkallstími sérútbúinnar sjúkraflugvélar verður 35 mínútur þegar um bráðatilvik er að ræða, en ríkari krafa var gerð um útkallstíma í útboðinu nú en áður. Viðbragðstími er skilgreindur sem tíminn frá því að staðfest beiðni um sjúkraflug berst þar til flugvél er tilbúin til flugtaks með allan nauðsynlegan búnað.
Sjúkrafluginu á Vestmannaeyjasvæðinu verður áfram þjónað frá Vestmannaeyjum. Samið verður við Landsflug, sem mun nota flugvél af gerðinni Dornier DO228 til flugsins og verður hún staðsett í Vestmannaeyjum.
Kostnaðurinn við sjúkraflugið á árinu sem er að líða verður um 165 milljónir króna. Samningarnir sem nú verða gerðir kosta um 139 milljónir króna og er þá miðað við um 370 sjúkraflug að jafnaði, en á liðnu ári voru sjúkraflugin 381, auk sjúkraflugs sem þyrlur Landhelgisgæslunnar sinntu.
Ríkiskaup sáu um að bjóða út sjúkraflugið fyrr á þessu ári fyrir hönd heilbrigðis-og tryggingamálaráðuneytisins og Tryggingastofnunar ríkisins.