Áfram bensínstyrkur
Þetta kom fram hjá Jóni Kristjánssyni, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, við umræður utan dagskrár um stöðu og málefni öryrkja sem Helgi Hjörvar, Samfylkingu, hóf. Fram kom hjá ráðherra að hann kysi helst að breyta fyrirkomulagi bensínstyrksins þannig að best verði gert við þá öryrkja sem hafa mesta þörf fyrir styrkina. “Ef af slíkri breytingu verður þá verður hún gerð í nánu samráði við forystumenn öryrkja” sagði heilbrigðismálaráðherra. Af hálfu ráðherra kom m.a. fram í umræðuna að örorkulífeyrisþegum hafi fjölgað úr 12050 í 12627 miðað útgreiðslur TR á fyrstu níu mánuðum ársins. Fjölgunin nemur tæpum 4,8% sem svarar til þess að öryrkjum hafi fjölgað um 3 hvern virkan dag frá áramótum til 1. október. Meðaltalsfjölgun samkvæmt greiðslum Tryggingastofnunar borið saman við sama tíma í fyrra er 7,1%. Ellilífeyrisþegum fjölgaði á sama tímabili um 1,8%.